3.4.06

Low Batteri
Í dag er mánudagur. Batteríin eru lág. Fallið úr sæluvímunni er hátt.
Æfingarhelgin var frábær. Ég held ég hafi aldrei skemmti mér eins vel.
Á föstudaginn komu flestir úr kórnum til Árósa. Eftir að þau voru búin að koma sér fyrir í lélegum húsakynnum Færeyingafélagsins, og smá pítsuát, héldum við litla æfingu. Huggulegheitin ein. Svo fórum við á barinn.
Á laugardagsmorgninum kom restin af kórnum. Svo var æft í Helligåndskirken allan daginn. Mikið rosalega er gaman að stjórna svona góðum kór í svona góðum hljómburði! Hreinn unaður.
Eftir langa æfingu fórum við svo út að borða á Sct. Olufs. Maturinn þar klikkar ekki og við fengum sér herbergi útaf fyrir okkur. Eftir að við vorum búin að borða fórum við "heim" í Færeyingahúsið. Þeir eru með bar á neðri hæðinni, sem var opinn, og áttum við að syngja fyrir gestina. Nema það voru ekki neinir gestir þegar við komum, þannig að ég settist bara við píanóið og við fórum að syngja hina ýmsu slagara. Klukkan var c.a. 23. Ég hætti að spila kl.01. Var þá búinn að fá mikið af rokkviskíi (Jack Daniels) og farið að blæða úr fingrunum á mér. Ég ákvað þó að vera skynsamur og fara heim og fá mér smá svefn.
Ég vaknaði kl.7, og eftir 2 Panodil og langt bað, var ég klár í slaginn.
Við sungum í messu kl.10.30 í Helligåndskirken, sumir úr kórnum bara búnir að sofa í nokkra tíma (já sumir héldu áfram...ungt og efnilegt þetta fólk!). Við sungum Maríumúsík þar sem þetta var boðunardagur Maríu. Við sungum "Haustvísur Máríu" e. Atla Heimi Sveinsson og "Ég vil lofa eina þá" e. Báru Grímsdóttur. Ætli það hafi ekki bara verið einhverjir "rytmískir fordómar", en þeir eru á bak og burt. En hækkunin er nú samt alltaf svolítið hlægileg. EN! Algjörlega nauðsynleg, því annars væri þetta svolítið þreytt í öllum þessum versum.
Þetta gekk allt saman vel og fólk var ánægt.
Kl.14 héldum við svo tónleika. Ég auglýsti tónleikana með aðstoð tölvupósta og sms-a. Það bar svo mikinn árangur að það mættu 4! En þeir voru 4 glaðir sem fóru úr kirkjunni eftir c.a. klukkutíma langa tónleika. Mér fannst gaman að debútera sem kórstjóri. Eiginlega barasta alveg hrikalega gaman. Held ég sé orðinn húkt á þessu.
Ég sagði bless við kórinn minn kl.17.30 og fór svo á kórtónleika með GAIA. Kórhóra gæti maður sagt.

Mikið hlakka ég til kóræfingarinnar á morgun.

Engin ummæli: