25.3.06

Laugardagur til martraðar
Ég er líkur karli föður mínum að því leyti að ég kann alls ekki vel við verslunarstórhýsi, svona eins og Kringlan og Smáralind oþh.
Í næsta nágrenni við mig er eitt svona ferlíki sem kallast Bruuhns Galleri. Á mánudögum fyrir kl.12 er ansi gott að fara inn í Bruuhns Galleri ef það er kalt og mann vantar eitthvað úr búð. Þá getur maður rölt um í ró og næði og skoðað það sem hugurinn girnist. En á laugardögum þá breytist staðurinn í helvíti á jörðu. Allt er morandi í krökkum, sem eru orðin stjörf af þreytu eða æsingi, og pirruðum foreldrum þessara barna. Og það er eins og fólk læri aldrei af reynslunni því þessi bygging er alltaf troðfull á laugardögum.
Afhverju finnur fólk ekki upp á því að gera eitthvað annað með börnunum sínum á laugardögum þegar allir eiga frí. Afhverju fara þau ekki í labbitúr með ormana, eða í bíó, eða í fótbolta, eða á bar þar sem krakkinn getur fengið kók á meðan þeir fullorðnu drekka bjór...tja kannski ekki svo uppbyggilegt.
Ég var í þessum hryllingi áðan, því ég þurfti að kaupa blóm handa ömmu hennar Stinu (við förum í afmæli til hennar í kvöld) og ég lofaði mér að ég ætla aldrei að stíga fæti inn í svona hús á laugardegi með börnin mín, þeas. ef ég eignast nú einhver.

En yfir í annað.

Ég var eitthvað að netlast um þetta verk sem ég á að skrifa fyrir kórinn sem ég syng í, Århus Universitetskoret. Þið kannski munið að ég deildi með ykkur erfiðleikunum að skrifa yfir ákveðin orð, en samt ætlaði ég að nota þetta ljóð. Ég er búinn að skipta um skoðun. Nú er annað ljóð komið á vinnuborðið, þó eftir sama höfund, og í þetta skiptið hefur ljóðið töluverðan erótískan undirtón, allavega í minni túlkun. En í þetta skiptið ætla ég láta vera með að birta ljóðið, allavega ekki fyrr en ég er búinn með verkið.

Engin ummæli: