24.3.06...og meira um músík...
Ég er að hlusta á verkið Rendering eftir Luciano Berio (1925-2003). Verkið er að mestum part samið af F. Schubert (1797-1828) en Franz karlinn átti það til að hætta í hálfkláruðum verkum. Þannig að Berio tók sig til og fyllti upp í eyðurnar, á sinn eigin hátt. Sennilega hefur hann eitthvað skáldað á Schubertísku, en allavega er þarna Schubertmúsík og svo Beriomúsík. Ágætis blanda.
Þetta minnti mig á annað tónskáld, Karl Aage Rasmussen, fyrrverandi tónsmíðakennari minn...með meiru. Hann hefur einnig fengist við að fylla upp í holurnar hjá Franz. Nema að Karl Aage (Klaage) fyllir upp í að hætti Franz. T.d. hefur Klaage fyllt upp í ókláraða óperu Schuberts, Sakontola. Einnig hefur hann tekið sinfóníu, sem sumir kenna við Schubert, og tekið þær holufyllingar sem einhver klaufi hafði sett í og fyllt upp í með einhverju meira vitrænna. Ágætis handavinna það.
En það var nú ekki meiningin að blogga um þetta. Meiningin var að vitna í Klaage.
S.s. ég var að hlusta á þetta Berio-Schubert verk (er reyndar að hlusta á Berio-Brahms verk núna) og datt í hug að kíkja á hvað Klaage hafði að segja um Berio karlinn, í bók sinni "Kan man høre tiden", sem ég mæli eindregið með sem og bókinni "Har verden en klang". Þetta eru góðir lystaukar áður en maður sperrir eyrun í átt að tónlist þeirra garpa sem Klaage skrifar um. Klaage hafði ekkert svo mikið nýtt að færa mér varðandi Berio, en aftur á móti er tilvitnun í hann aftan á bókinni. "Vi hører ikke et kvæk, vi hører kun en frø". Á íslensku gæti þetta hljómað á þessa leið: "Við heyrum ekki jarmið, við heyrum kindina".
Þetta finnst mér heilmikil speki.

Engin ummæli: