22.3.06


Apavellir
Sökum þess að ég er orðinn stoltur eigandi iPod þá hef ég verið að endunýja kynni mín við ýmsa músík úr safninu mínu sem ég annaðhvort hef ekki heyrt lengi eða aldrei heyrt í heyrnatólum. Þám. er platan "Monkey Fields" með hljómsveitinni Mezzoforte. Og ætla ég að velta aðeins vöngum yfir þeirri plötu.
Árið 1996 var ég nýfluttur til Reykjavíkur frá Neskaupstað. Ég bjó einn í íbúð sem foreldrar mínir áttu, við Háaleitistbrau 26. Ágætis tími. Eitthvert kvöldið fór ég með Skaftahlíðardrengjunum (Hugi, Addi, Fjalar, Bjarni Agga o.fl.) á tónleika í Borgarbíó. Þetta voru útgáfutónleikar með Mezzoforte, en þeir voru nýbúnir að taka upp plötuna "Monkey Fields".
Ég þekkti nú svona sæmilega til Mezzoforte. Á diskinn "Daybreak" og eru nokkrar perlur þar, t.d. titillagið. Það sem heillaði mig mest við bandið var stórgóður hljómborðsleikur Eyþórs Gunnarssonar. Annars er þetta frábærlega vel spilandi band í heildina.
Músík Mezzoforte hafði verið, fram að þessu, bræðings músík (fusion), og þá bræðingur af jazz, blús og popp tónlist. Slík músík getur verið ágæt, en getur líka verið óttalega litlaus. Það hefur Mezzoforte oft tekist, að mínu mati. Vel flutt músík sem rennur ljúflega niður án þess þó að maður hrífist með. Einhver kallaði tónlistina þeirra "skjáauglýsingamúsík". Ég get vel tekið undir það, þrátt fyrir að lagasmíðarnar hafa verið góðar og flutningur "tipp topp".
En s.s. við fórum á þessa útgáfutónleika, og ég held að ég hafi aldrei haft eins mikinn hálsríg eftir tónleika eins og þessa. Mezzoforte grúvaði geðveigt. Þeir höfðu fengið Óskar Guðjónsson til liðs við sig. Ungur saxófónleikari, fullur af orku og fönkheitum. Það var eins og ungi drengurinn hefði tekið þetta vel spilandi band og rasskellt þá með blautu handklæði og sagt þeim að spila almennilega músík.
Platan einkennist af fönki, brætt saman við spuna jazzins og hráleika rokksins. Þessi blanda getur ekki annað en hrist upp í fólki sem hefur einhvern snefil af rytma í kroppnum. Inn á milli voru týpísk Mezzofortelög (t.d. lögin "Wee Ahh", "Drive" og "Blow") en það var bara önnur stemmning yfir þessari plötu, en þeim gömlu.
Nú hef ég ekki heyrst þeirra nýjustu plötu, "Forward Motion" (2004), bara heyrt aðeins brot af henni, og er ég hræddur um að þeir hafi yfigefið þennan ferska stíl sem þeir höfðu á Apavöllum.

Ályktun: ekki festa sig í einhverju. Gamlar fréttir, en góðar. Þannig að ég segi eins og ég hef áður sagt, burstum stundum tennurnar afturábak.

Engin ummæli: