31.3.06

Einstök æfingahelgi í Árósum
Á eftir koma 11 meðlimir kórsins Stöku hingað til Árósa og snemma í fyrramálið bætast nokkrir við hópinn. Allt þetta fólk ætlar að eyða helginni í að syngja á kóræfingum. Í kvöld verður stutt æfing, á morgun verður LÖNG æfing og á sunnudaginn syngjum við í einni messu og litla tónleika. Allt þetta fer fram í Helligåndskirken.
Hlakka mikið til að syngja góða músík með þeim. Reyndar mun ég gera meira af að veifa höndunum en að syngja, ekki vegna þess að ég er spastískur einstaklingur með athyglisbrest, heldur vegna þess að ég er kórstjórinn þeirra.
Þessir tónleikar á sunnudeginum eru debut-tónleikar fyrir mig sem kórstjóri. Spennandi að sjá/heyra hvernig það mun ganga.

25.3.06

Laugardagur til martraðar
Ég er líkur karli föður mínum að því leyti að ég kann alls ekki vel við verslunarstórhýsi, svona eins og Kringlan og Smáralind oþh.
Í næsta nágrenni við mig er eitt svona ferlíki sem kallast Bruuhns Galleri. Á mánudögum fyrir kl.12 er ansi gott að fara inn í Bruuhns Galleri ef það er kalt og mann vantar eitthvað úr búð. Þá getur maður rölt um í ró og næði og skoðað það sem hugurinn girnist. En á laugardögum þá breytist staðurinn í helvíti á jörðu. Allt er morandi í krökkum, sem eru orðin stjörf af þreytu eða æsingi, og pirruðum foreldrum þessara barna. Og það er eins og fólk læri aldrei af reynslunni því þessi bygging er alltaf troðfull á laugardögum.
Afhverju finnur fólk ekki upp á því að gera eitthvað annað með börnunum sínum á laugardögum þegar allir eiga frí. Afhverju fara þau ekki í labbitúr með ormana, eða í bíó, eða í fótbolta, eða á bar þar sem krakkinn getur fengið kók á meðan þeir fullorðnu drekka bjór...tja kannski ekki svo uppbyggilegt.
Ég var í þessum hryllingi áðan, því ég þurfti að kaupa blóm handa ömmu hennar Stinu (við förum í afmæli til hennar í kvöld) og ég lofaði mér að ég ætla aldrei að stíga fæti inn í svona hús á laugardegi með börnin mín, þeas. ef ég eignast nú einhver.

En yfir í annað.

Ég var eitthvað að netlast um þetta verk sem ég á að skrifa fyrir kórinn sem ég syng í, Århus Universitetskoret. Þið kannski munið að ég deildi með ykkur erfiðleikunum að skrifa yfir ákveðin orð, en samt ætlaði ég að nota þetta ljóð. Ég er búinn að skipta um skoðun. Nú er annað ljóð komið á vinnuborðið, þó eftir sama höfund, og í þetta skiptið hefur ljóðið töluverðan erótískan undirtón, allavega í minni túlkun. En í þetta skiptið ætla ég láta vera með að birta ljóðið, allavega ekki fyrr en ég er búinn með verkið.

24.3.06...og meira um músík...
Ég er að hlusta á verkið Rendering eftir Luciano Berio (1925-2003). Verkið er að mestum part samið af F. Schubert (1797-1828) en Franz karlinn átti það til að hætta í hálfkláruðum verkum. Þannig að Berio tók sig til og fyllti upp í eyðurnar, á sinn eigin hátt. Sennilega hefur hann eitthvað skáldað á Schubertísku, en allavega er þarna Schubertmúsík og svo Beriomúsík. Ágætis blanda.
Þetta minnti mig á annað tónskáld, Karl Aage Rasmussen, fyrrverandi tónsmíðakennari minn...með meiru. Hann hefur einnig fengist við að fylla upp í holurnar hjá Franz. Nema að Karl Aage (Klaage) fyllir upp í að hætti Franz. T.d. hefur Klaage fyllt upp í ókláraða óperu Schuberts, Sakontola. Einnig hefur hann tekið sinfóníu, sem sumir kenna við Schubert, og tekið þær holufyllingar sem einhver klaufi hafði sett í og fyllt upp í með einhverju meira vitrænna. Ágætis handavinna það.
En það var nú ekki meiningin að blogga um þetta. Meiningin var að vitna í Klaage.
S.s. ég var að hlusta á þetta Berio-Schubert verk (er reyndar að hlusta á Berio-Brahms verk núna) og datt í hug að kíkja á hvað Klaage hafði að segja um Berio karlinn, í bók sinni "Kan man høre tiden", sem ég mæli eindregið með sem og bókinni "Har verden en klang". Þetta eru góðir lystaukar áður en maður sperrir eyrun í átt að tónlist þeirra garpa sem Klaage skrifar um. Klaage hafði ekkert svo mikið nýtt að færa mér varðandi Berio, en aftur á móti er tilvitnun í hann aftan á bókinni. "Vi hører ikke et kvæk, vi hører kun en frø". Á íslensku gæti þetta hljómað á þessa leið: "Við heyrum ekki jarmið, við heyrum kindina".
Þetta finnst mér heilmikil speki.

22.3.06


Apavellir
Sökum þess að ég er orðinn stoltur eigandi iPod þá hef ég verið að endunýja kynni mín við ýmsa músík úr safninu mínu sem ég annaðhvort hef ekki heyrt lengi eða aldrei heyrt í heyrnatólum. Þám. er platan "Monkey Fields" með hljómsveitinni Mezzoforte. Og ætla ég að velta aðeins vöngum yfir þeirri plötu.
Árið 1996 var ég nýfluttur til Reykjavíkur frá Neskaupstað. Ég bjó einn í íbúð sem foreldrar mínir áttu, við Háaleitistbrau 26. Ágætis tími. Eitthvert kvöldið fór ég með Skaftahlíðardrengjunum (Hugi, Addi, Fjalar, Bjarni Agga o.fl.) á tónleika í Borgarbíó. Þetta voru útgáfutónleikar með Mezzoforte, en þeir voru nýbúnir að taka upp plötuna "Monkey Fields".
Ég þekkti nú svona sæmilega til Mezzoforte. Á diskinn "Daybreak" og eru nokkrar perlur þar, t.d. titillagið. Það sem heillaði mig mest við bandið var stórgóður hljómborðsleikur Eyþórs Gunnarssonar. Annars er þetta frábærlega vel spilandi band í heildina.
Músík Mezzoforte hafði verið, fram að þessu, bræðings músík (fusion), og þá bræðingur af jazz, blús og popp tónlist. Slík músík getur verið ágæt, en getur líka verið óttalega litlaus. Það hefur Mezzoforte oft tekist, að mínu mati. Vel flutt músík sem rennur ljúflega niður án þess þó að maður hrífist með. Einhver kallaði tónlistina þeirra "skjáauglýsingamúsík". Ég get vel tekið undir það, þrátt fyrir að lagasmíðarnar hafa verið góðar og flutningur "tipp topp".
En s.s. við fórum á þessa útgáfutónleika, og ég held að ég hafi aldrei haft eins mikinn hálsríg eftir tónleika eins og þessa. Mezzoforte grúvaði geðveigt. Þeir höfðu fengið Óskar Guðjónsson til liðs við sig. Ungur saxófónleikari, fullur af orku og fönkheitum. Það var eins og ungi drengurinn hefði tekið þetta vel spilandi band og rasskellt þá með blautu handklæði og sagt þeim að spila almennilega músík.
Platan einkennist af fönki, brætt saman við spuna jazzins og hráleika rokksins. Þessi blanda getur ekki annað en hrist upp í fólki sem hefur einhvern snefil af rytma í kroppnum. Inn á milli voru týpísk Mezzofortelög (t.d. lögin "Wee Ahh", "Drive" og "Blow") en það var bara önnur stemmning yfir þessari plötu, en þeim gömlu.
Nú hef ég ekki heyrst þeirra nýjustu plötu, "Forward Motion" (2004), bara heyrt aðeins brot af henni, og er ég hræddur um að þeir hafi yfigefið þennan ferska stíl sem þeir höfðu á Apavöllum.

Ályktun: ekki festa sig í einhverju. Gamlar fréttir, en góðar. Þannig að ég segi eins og ég hef áður sagt, burstum stundum tennurnar afturábak.

20.3.06


sjö ellefu
Þar sem ég bý er urmull af góðum matvörubúðum. Gourmet matvörubúðum. Ég hef netlað um það áður, en þar sem að ég er hobbiti þá finnst mér aldrei leiðinlegt að tala um mat, eða borða hann.
Emmerys hefur t.d. upp á frábært maltrúgbrauð að bjóða og góðar kaffibaunir sem þau brenna sjálf. Einnig eru vínin hjá þeim góð og bara allt í búðinni er gott, nema verðlagið. Það er aldrei gott, bara hátt.
Schweizerbageriet státar yfir góðu brauði, eins og góð bakarí gera. Þau fengu 1. verðlaun í keppninni "Besta sérbrauð í Danmörku". Einnig er þjónustan hjá þeim góð.
Byens Ost er afar góð ostabúð. En eins og í Emmerys er verðið himinhátt.
Svo hef ég Føtex sem er góð matvöruverslun.
Slátrarinn á horninu stendur sig líka sæmilega, þrátt fyrir að hafa fengið nokkra fýlukallastimpil í kladdann.
En nú kemur ástæðan fyrir þessu netli.
7-eleven, ameríska sjoppukeðjan alræmda, er einnig í næsta nágrenni (ská á móti kirkjunni minni). Þessari búllu, af öllum bakaríum sem ég hef að velja úr, tekst að búa til frábær croissant. Og stundum eru þau á tilboði, 2 fyrir 10 kr. Hættulegt og ljúft.
Ég tileinka þetta netl 2 croissant, úr umræddri sjoppu. Þau urðu munni og magasýrum mínum að bráð. Herlegheitunum skolaði ég niður með cafe au lait, frá ástinni minni, Miss Silvia...Miss Silvia Rancilio.

19.3.06

Vorið góða
Í dag er "fyrsti í vori". Undanfarið hefur verið svívirðilega kalt. Ég var áðan í sjónum og hann var fagurgrænn sökum lífsins sem sólin kveikir í vatninu. Maður gat setið á bryggjunni og farið í sólbað. "Meget hyggeligt".
Ég fagnaði vorkomunni með því að fá mér ís með dýfu (soft-ice med chokolade overtræk).

17.3.06


Stefáns Bøfhus
Stundum þegar ég er einn heima þá finnst mér afar gott að leika að ég sé kokkur á Jensens Bøfhus. Ég set á mig svuntuna sem mamma gerði handa mér fyrir nokkrum árum (hún er köflótt og er stillanleg) og steiki mér steik. Þetta byrjar nú allt með því að ég tölti mér yfir til slátrarans góða. Tja...góður er hann nú kannski ekki. Matvælaeftirlitið gaf honum einu sinni "ekki alveg broskall" og í næsta skipti þeir komu þá gáfu þeir honum "fýlukall". En hvað um það...
Ég s.s. tölti mér yfir til slátrarans og kaupi mér steik. Svo fer ég í Føtex, sem er gengt slátraranum og kaupi mér ofnkartöflur. Þær getur maður bara sett beint í ofninn, án þess að þurfa að þrífa og skera. Auðvelt.
Svo kaupi ég einnig Jensen Bøfhus sósu. Maður getur valið um nokkrar tegundir sósna (já Daníel, ég stend með þér í þessu) og yfirleitt verður viský eða piparsósan fyrir valinu. Það er svo sniðugt með þessa sósur að maður hellir innihaldi flöskunnar í pott, og fyllir svo flöskuna aftur af rjóma og blandar við sósuþykknið, helst 38% rjóma segir á flöskunni, og blúbbs! þú ert kominn með ljúffenga sósu.
Svo fer ég heim, baka kartöflurnar í ofninum, hita sósuna, steiki kjötið, og blúbbs! (já aftur) ég er kominn á steikhús Stefáns. Jens er farinn í frí og ég redda þessu sjálfur.
Nú gætu sumir spurt, afhverju ferðu ekki bara á Jensens Bøfhus? Sjáðu nú til, Jensens Bøfhus er eins og McDonalds. Fullt af fólki (yfirleitt með slatta af krakkaskröttum með sér) og maður fær ekkert spes þjónustu, né kjöt. En sósurnar þeirra eru góðar!

Jæja, þá ættu kartöflurnar rétt að vera tilbúnar, þannig að tími er kominn á að steikja kjötið.
Verði mér að góðu.

16.3.06

Orð og hljómar
Ég er einn af þeim sem aldrei man texta að dægurlögum. Ekki einu sinni þeim lögum sem ég hef heyrt ótrúlega oft. Það er eins og að heilinn í mér sorteri orðin frá og taki bara hitt inn. En aftur á móti tek ég eftir ýmsum "núönsum" í laginu (ef þeir eru til staðar) og skemmtilegum hljómagangi oþh.
Nema hvað að eftir að ég eignaðist iPoddarann (svo ég steli nú nýyrði frá Hildigunni) þá hlusta ég meira á tónlist í heyrnatólum (headphones). Það gerir það að verk(j)um að texti laganna sígur frekar inn í hausinn á mér en áður. Þannig að nú er eins og ýmis lög fái annað gildi fyrir mér. Að sjálfsögðu gera þau það, þetta er eins og að fatta að brauð hefur áferð sem og bragð.
Um daginn varð ég gripinn af þessum línum úr laginu "Vent på mig" með "Det brune punktum" úr myndinni "En kort, en lang":

Når alting sejler
Så er det flot at ha' et sejl
Når alting fejler
Så er det godt at ha' en fejl
Når alting stejler
Så er det bedst at ha' en hest
Kom lad os sammen ride
Til livets store fest.
...............
Når verden smelter
Så er det godt at ha' en kop
Når sjaelen laenges
Er det i top at ha' en krop...

Leyfir ykkur um að stauta ykkur fram úr þessu.

9.3.06

Sítrónur og lax

Úr ljóðasafninu "Sproget æder os" eftir Jens Carl Sanderhoff:

2 Rille
Når jeg dør, vil jeg miste musikken,
jeg vil miste og miste, mest af alt musikken,
men også maden, smagen og duften af ananas,
og jeg vil miste berøringen af citroner og laks,
synet vil jeg miste, blikkets løsslupne raids henover
dødstille vande vil jeg miste, og min selvopfattelse,
der er mig så kær, skal jeg miste,
og dig - dig skal jeg miste, mindst een gang
for meget.
Så skal jeg miste, må der være en grund,
og den kan passende være, at jeg engang har brugt det hele,
slidt hver eneste usandsynlige vej, og hørt de toner
af hvilken al verdens musik er vundet, at jeg har læst de bøger
og fundet enhver sætning, der er bundet til dét,
jeg skal sige til dig om sprogets musik.
Dine pauser.
Dine øjne.
Dét blik,
der fængsler mig ved livet.
--------------------------------------------------

Þetta er ljóðið sem ég er að semja við þessa dagana. Þetta útskýrir aðeins þetta með sítrónurnar og laxinn.

Síðasta vika einkenndist af flakki. Ég fór frá Århus til Grenå og til baka, fór til Kaupmannahafnar, og keyrði þar í fyrsta skipti alveg heilan helling, ég fór til baka til Århus og svo aftur til Grenå og svo aftur til Århus. Þá var kominn mánudagsmorgun. Á þriðjudeginum setti ég mig upp í rútu og keyrði til Kaupmannahafnar og kom svo heim daginn eftir. Úff!