28.2.06

Undirmeðvitund?
Skrýtið hvernig hlutirnir geta verið.
Nú geng ég um með kórverk í maganum. Já, enn eitt kórverkið. Það mætti halda að maður semji ekkert annað. En þegar kórinn sem maður hefur sungið í 4 ár (Århus Universitetskor) biður mann um að semja verk fyrir sig, þá getur maður ekki neitað.
Fyrsta verk er að finna sér texta sem er viðeigandi. Í þetta skiptið hafði kórinn ákveðið "tema", en það er "konur/kona". Þetta byrjaði allt saman með einhverju Maríu Mey dæmi og fór svo bara yfir í konan almennt.
Ég hafði samband við Jens Sanderhoff, sem er pabbi hennar Alinu, sem á fílinn Elmer (sjá mynd í bloggi fyrir ekki löngu síðan) og hann (Jens, ekki Elmer) er einnig maðurinn hennar Merete, sem er mamma Alinu, sem á fílinn Elmer, sem söng einu sinni í þessum kór (þ.e.a.s. Merete) og þar kynntumst við. En s.s. ég setti mig í samband við Jens og hann sendi mér svo nokkur ljóð sem passaði við þetta "tema".
Eitt þessara ljóða afskrifaði ég strax. Það voru orð í því sem ég gat ekki hugsað mér að setja músík yfir, t.d. "sítrónur og lax" o.fl.
En svo hefur þetta ljóð ásótt mig undanfarið, og ég fór að hleypa því aðeins meira til mín.
Nú er eins og þær músík hugmyndir sem ég hef haft smell passi við ljóðið. Bara sísona.
Jeij.

27.2.06


Hafa Kameldýr tær?
Í Eurowoman, auglýsinga-og lífstílssneplinum sem einvörðungu er prentaður til þess aðláta konum líða illa yfir því sem þær ekki eiga og verða að fá, sem kærastan mín kom með heim um daginn, sá ég slóð að heimasíðu. Mér fannst innihaldlýsing síðunnar það fyndin að ég kíkti á síðuna.
Ég mæli með að þið gerið það sama hér.


Stina v/s Dina
Kærastan mín heitir Stina.
Nokkuð þekkt sjónvarps-, leik-og söngkona, og ekki kærastan mín, heitir Dina, og er hún með sjónvarpsþátt á DR2 á fimmtudögum sem heitir "Dinas Date". Fínn þáttur.
Þessar næstum nöfnur eru ótrúlega líkar. Stina hefur oft verið spurð hvort hún sé ekki þessi þarna í sjónvarpsþættinum.
Nema hvað að um daginn þá var Stina að syngja með áður umræddri hljómsveit TV-2 í Vega í Kaupmannahöfn. Eftir að hún var búin að syngja og skipta úr vinnugallanum yfir í sín venjulegu föt, skellti hún sér í þvöguna og stóð og hlustaði á restina af tónleikunum. Við erum að tala um að það voru sennilega í krinum 3-4000 manns á þessum tónleikum. Stina lítur í kringum sig og sér þá að hún stendur næstum við hliðiná þessari Dinu. Þær kíkja á hvora aðra og hrökkva í kút. Stina forðaði sér.

Bolla bolla
Ég fór til slátrarans, sem er búinn að fá 3 fílukalla frá matvælaeftirlitinu, og keypti mér lifrarkæfu. Þetta er eins og rússnesk rúlletta í "slow-motion". Lifrarkæfan og ég fórum heim saman og saddi hún list mína. Á meðan að við gældum hvort við annað, hlustuðum við á rás 2 á netinu. Þulurinn í útvarpsauglýsingunum las þessa auglýsingu tvisvar: "Bolla bolla...15 tegundir af bollum í "einhverju"-bakaríi..."
Ég flissaði tvisvar.

p.s. þegar ég var að leita að myndum á Google undir orðinu "leverpostej" þá kom mynd af Lindu P. á 6.síðu. Tilviljun?

25.2.06


Klukk
Um daginn kitlaði eða klukkaði, man nú ekki alveg hvort, hann Kontri (Kristján Orri) mig.
Hér kemur s.s. það klukkið:

Fernt sem ég hef unnið við:
- handlöngun hjá karli föður mínum, sem er smiður
- bað- og lífvarðsla í Sundlaug Neskaupstaðar
- eyðslu og pökkun á skaðlegum efnum hjá Efnamóttökunni
- skoða klámblöð í Sorpu (fékk ekki borgað fyrir það, en við eyddum stórum hluta dagsins í það)

Fjórar kvikmyndir sem ég gæti horft á aftur og aftur:
- Ace Ventura I og II
- Top Secret
- Lord of the Rings serían
- The search for the holy Grail, Monty Python

Fjórir sjónvarpsþættir sem mér þykja skemmtilegir:
- Friends/Venner/Vinir
- Simpsons
- Nick Knackerton
- Línan

Fjórar bækur sem ég get lesið aftur og aftur:
- Punktur, punktur, komma, strik
- Virgill litli
- Kan man høre tiden/Har verden en klang (eftir Karl Aage Rasmussen, mæli eindregið með þessum bókum)
- Hringadróttinssaga

Fjórir staðir sem ég hef búið á:
- Hlíðargata 24, Neskaupstaður
- Háaleitisbraut 26, Reykjavík
- Grenåvej 681, Skødstrup
- Vesterport 8, Århus

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:
- Neskaupstaður/Ísland
- Cortona/Ítalía
- Grazalema/Spánn
- Samsø/Danmörk

Fjórar síður sem ég fer daglega inná:
- Bloggið mitt
- Bloggið hans Huga
- Bloggið hjá Daníel
- Mogginn

Fernt matarkyns sem ég held upp á:
- Prima Donna ostur
- Íslenskt lambakjöt
- Íslensk kjötsúpa
- Creme Bruleé sem ég borðaði á Bistro

FJórir staðir sem ég vildi heldur vera á núna:
- Væri gaman að vera á Íslandi
- Tunglinu
- Á einhverri fallegri eyju í meiri hita
- Í litlum smábæ á Ítalíu

Þar hafiði það.

Litaglaði Elmar
Ég var í heimsókn hjá kunningjafólki um daginn, og þau eiga litla dóttur, Alina. Alina á svona tuskufíl eins og sést hér á myndinni.
Ég kolféll fyrir þessum sæta fíl.
Langaði bara að segja ykkur það.
Ferðalög
Ég fann þessa "hvert hefur þú komið landakorta síðu" hjá henni Svanfríði Eygló, tónmenntakennara og Hornfirðingi með meiru.
Mér finnst þessi listi minn ekkert vera til að hreykja sér af. Maður er fæddur í þennan heim, sem er svo lítill miðað við allt hitt sem í kringum hann er, og maður hefur ekki einu sinni heimsótt fleiri heimsálfur en þessa sem maður fæddist í! Úr þessu verður að bæta áður en maður hrekkur upp af, því þá er það víst of seint. Ég væri alveg til í að vinna bara 2 miljónir í getraunum (svona ef ég myndi einhverntímann spila) og fara á heimshornaflakk. Kannski það sé ekki nægur aur, en samt ætti að duga fyrir einhverjum farmiðum.
Ég gæti t.d. vel hugsað mér að koma til Ástralíu eða Tasmaníu. Svo væri Japan afar skemmtislegt líka. Norður Ameríka væri líka spennó...þetta allt saman er mjög spennandi! Ég skal láta ykkur vita þegar ég hef látið verða af þessu.
En hér er svo kortið mitt:


create your own visited country map
or check our Venice travel guide

24.2.06
Flottar myndir
Í gær benti hann Bernhard Snizek, kærasti Ingibjargar Huldar, mér á afar góðan ljósmyndara. Hér er hlekkur á hana. Veit ekkert hvað hún heitir annað en eitthvað H Kvam. Þessar myndir sem koma með þessari færslu eru allar hennar, tekið af síðunni ég hlekkjaði á.

22.2.06


í beinni!
Í skrifuðum orðum er fullt fullt af músík og rafurmagni að streyma inn á nýja iPod-inn minn. iPod þessi er 30 Gb og held ég að það muni alveg duga mér eitthvað, þrátt fyrir önnur meðmæli títtnefnds kunningja, sem ég vill ekki nefna meira í bráð, þar sem mér skildist hans nafn hefði verið nefnt of mörgum sinnum á nafn á þessari bloggsíðu minni, og þessi setning er orðin svakalega löng, minnir eiginlega á Proust setningu. (dreg andann djúpt inn)
En s.s. ég á nýja græju og ég hlakka mikið til að leika mér með hana og brúka í leik og starfi.

iPod
Fyrir ekki alls löngu hélt ég söfnunina "iPod handa tónskáldinu". Safnaðist það mikið að innan skamms verð ég stoltur eigandi slíks tryllitækis, sem mun koma sér afar vel á öllum þeim rútuferðum og öðrum ferðum sem ég mun leggja í á næstunni, og eru þær fjölmargar. Tala nú ekki um öll önnur tækifæri sem munu gefast til að njóta þessa rómaða leiktækis.

Í gær var ég í Kaupmannahöfn. Ástæða fyrir veru minni þar var æfing með Stöku, eins og aðra þriðjudaga sem liðnir eru á þessu herrans ári 2006.
Gekk barasta ágætlega. Þau eru drulluseig og þola allan mína rytmísku leiki afar vel (við erum að syngja Tobbavísur eftir Snorra Sigfús, sem er ekkert nema fjölhrynur hægri vinstri, og svo byrjuðum við að æfa Vorið það dunar eftir Þorkel, og ekki er það nú minna hrynverk). Gaman að þessu.

Myndin hér til hægri sannar hvar svanirnir hér í Danmörku fengu flugnaflensuna. Eða er hún sönnun þess hvar fuglarnir á Íslandi fengu sína...
En þessi mynd var einmitt tekin þegar Smaladrengirnir og Högnarnir komu og trylltu lýðinn í Sönderborg fyrir skemmstu.

20.2.06

Afsakið hlé...
Einhver tæknileg mistök hjá Blogger, og nýja athugasemdarkerfið datt út og það gamla kom inn. Svo breytti ég þessu aftur, og þá hvarf færslan þar sem ég hafði kynnt nýja kerfið til sögunnar. Furðulegur kaupfélagsstjóri!

Orgvélaverkir
Í dag verkjar mig í hægri úlnliðinn sökum "mikilla" orgelspilamennsku. Ég get þó ekki státað mig af margra tíma æfingum undanfarið, en samt fæ ég verk í úlnliðinn. Mér líður eins og ég sé alvöru hljóðfæraleikari.

Þessa páskana mun kirkjukórinn sem ég syng í flytja Requiem eftir Fauré (já, aftur) og svo páskamótettur Poulencs. Hlakka til að takast á við þann durt. Við sungum jólamótetturnar í hitteðferra, og eru þær afar fallegar. Sungum þær því miður ekki eins fallega og þær eru. Vonum að betur gangi með páskamúsíkina...þó erfiðari sé.

Knúturinn talar um að hafa lög á heilanum á blogginu sínu. Í dag var nývalið Eurovision lag okkar Íslendinga í heimsókn í kollinum á mér. Ég hef heyrt þetta fokkings lag 3svar og það situr ansi þétt. Ætli það bara vinni ekki þessa hallærislegu keppni veraldar, sem er svo gaman að horfa á.

Jæja, best að búa sér til macchiato.

p.s. var að fatta að ég á ekki mjólk. DAMN! Nenni ekki út í búð...eða á ég...tja...hmmm..."hugsi hugsi hugsi"...Føtex, here I come!

17.2.06


Djöfullinn og aðdáandinn
Er þetta ekki sæt mynd af okkur félögunum?
Myndina tók Óskar Þór Þráinsson, þegar Smaladrengirnir fóru til Sönderborg, síðustu helgi, og ég slóst í hópinn.

15.2.06

Hlekkur
Ég er búinn að bæta við einum nýjum hlekk á Netlulistann. Þetta er hlekkur á hana Sigrúnu Mögnu Þórsteinsdóttur, organisti. Skemmtilegur pikkari þar á ferð.


Frumlegasta jólagjöfin í ár
Títtnefndur Hugi gaf mér afar frumlega jólagjöf. Hann gaf mér rakvél (skafa), raksápu og rakakrem til að bera á sig eftir rakstur. Þetta þótti mér afar sniðug gjöf, þar sem að ég er sköllóttur og raka því þessi fáu hár, sem eftir eru, alveg af í viku hverri. Nema hvað að þetta var ekkert venjuleg Gillette rakvél sem hann gaf mér, heldur var þetta sérhönnuð skafa til að raka hausa. Hönnunin á þessari sköfu hefur fengið einhver verðlaun og ég veit ekki hvað. Afar flott. Hérna má sjá meira um þessa sköfu.
En þar sem að Tryggvi, fyrrv. lærimeistari, spurði í "ísköldu mati" hvort ég væri að nota gjöfina þá þótti mér við hæfi að segja ykkur frá þessu.
Nú ætla ég að svara Tryggva:
Nei, ég nota ekki þessa sniðugu gjöf frá meistara Huga, því mér tókst að skera mig tvisvar all illilega (þetta gæti verið finska) í bæði skiptin sem ég notaði græjuna. Þannig að ég hef sett græjuna í smá pásu og held áfram með að nota Match 3 sköfuna frá Gillette, sem klikkar aldrei og er afar fín skafa. En aftur á móti er sápan og kremið algjört dúndur.

Þar hafið þið það.

14.2.06


Hugi kemur í heimsókn
Hr. Hugi Þórðarson ("Fruggi Roðrarson") og restin af hinum sívinsælu Smaladrengjum, komu til Danmerkur á föstudaginn. Þessir drengir eru allir góðir vinir mínir, þar sem ég er gamall smali, svo ég fór á móti þeim til København og keyrði svo með þeim til Sønderborg á suður Jótlandi. Þar áttu þeir að troða upp daginn eftir á þorrablóti íslendingafélagsins í þeirri borg. Það gekk allt eftir, við góðar undirtektir. Gaman að vera á þorrablóti.
Á sunnudagsmorgun fórum við svo í morgunkaffi niður til Freiburg (sem er hinumegin við landamærin, þ.a.l. í Þýzkalandi) og var það afar ljúft.
Leið hinna Smalanna og mín og Huga skildust svo á Jótlandi. Ég og Hugi vorum settir út í Kolding og restin keyrði austur til Kastrup til að taka flug. Hugi ætlaði að vera í 2 daga hjá mér í Árósum. Við tókum lestina heim.
Það er óttalega gaman að fá þennan góða vin í heimsókn.
M.a. þá fórum við í sjóinn í gær. Ég hef aldrei séð aðrar eins aðfarir hjá nýbyrjanda. Hann stakk sér til sunds í c.a. 2 gráðu "heitan" sjóinn og synti frá landi. Sem betur fer hætti hann við 1000 metra sprettinn og kom til baka. Ég lét mér nægja að synda aðeins á móti honum. Þennan háttinn hafði hann svo á í öll þrjú skiptin sem við kældum okkur.
Svo bauð Hugi mér og Stinu út að borða á Bistro. Afar ljúffengur matur og gott gott vín. Einnig má taka það fram að þeir gera besta créme brulée í heimi (ég veit, Hildigunnur, að ég hef ekki smakkað þitt ennþá).
Í morgun fór svo Hugi blessaður með lestinni til Kastrup og mun fljúga til Íslands í dag.
Takk fyrir heimsóknina Hugi!

7.2.06


Að lesa bók er góð skemmtun
Ég fékk lánaða bók af kunningja mínum Lars. Bókin sú heitir Alkemistinn og er eftir suður-ameríska rithöfundinn Paulo Coelho.
Það er margt hægt að segja um þessa bók, og margir hafa gert það.
Ég segi: "Lesið bókina!".

6.2.06


Ekki meir Geir
Ég var að lesa opið bréf Elísabetar Ólafsdóttur (Betarokk) til Geirs Ólafssonar (IceBlue). Hef ekkert um það mál að segja, en Elísabet skrifar ágætlega.
Nema hvað að í athugasemdakerfinu hennar rakst ég hlekk sem reyndist vera hlekkur á Söngvakeppni Sjónvarpsins (Eurovision forkeppnin). Og þar var umræddur Geir fyrstur á dagskrá.
Mér skildist einnig á þessum athugasemdum á síðunni hennar Elísabet að Geir hefði ekki komist áfram! Hvað er í gangi!?! Loksins loksins er þarna maður sem hæfir þessari keppni og hann er ekki sendur út í aðalkeppnina! Merkilegt val verð ég að segja.
Bróðurblogg
Þá er Daníel Arason, tónlistarmaður, kokkur og bróðir minn, farinn að blogga. (tja er allaveganna kominn með bloggsíðu)
Klöppum fyrir því.

Annars hef ég ekkert að segja ykkur, svo ég þegi bara.