25.1.06

Undarlegur sími
Kærastan mín átti síma sem gafst upp á blaðrinu í henni...eða hún gafst upp á veseninu í honum. Hún fékk lánaðan gamlan Nokia síma frá einu skyldmenninu. Sá sími er dökkbleikur og er c.a. 5 kg. og svínvirkar (þeas. maður getur hringt úr honum og sent og fengið sms, einmitt það sem sími á að kunna. Sími á t.d. ekki að taka myndir, eða hafa litaskjái, eða sýna tónlistarmyndbönd...etc.)
Nema hvað að eftir að hún fékk þennan síma hefur hún tekið á móti afar furðulegum símhringingum. T.d. hringdi einn um daginn sem er formaður Damuco. Stina hafði einmitt sungið á tónleikum daginn áður, sem þetta Damuco hafði skipulagt. Maðurinn í hinum endanum á línunni sagðist þurfa að segja henni furðulegar fréttir. Það hafði nefnilega einn tónlistargestur hringt í hann og sagt að sér hefði alls ekki líkað þessir tónleikar, og hakkaði alla sem fram komu í spað. En aftur á móti sagðist þessi maður vera afar hrifinn af þessari mezzo sópran söngkonu sem söng svo fallega, og vildi gjarnan borga henni meira en hún hefði fengið fyrir þessa tónleika, því hún ætti það fullkomlega skilið! Ja-há! Formaðurinn vildi nú ekki alveg láta þennan náunga fá símanúmerið hennar, án þess að fá leyfi. En nú hefur formaðurinn fengið leyfi til að gefa náunganum gjafmilda símanúmer mezzosópransins. Spennandi að heyra hvað kemur út úr þessu.
Daginn eftir hringdi síminn aftur. Stina svarar.

"góðan daginn."
"hæ"
"ég heiti Steffen...Steffen Brandt, söngvari í TV2" (TV2 er nafn á afar þekktri hljómsveit hér í Danaveldi. Þeir eru svona eins og Stuðmenn, allir þekkja þá og lögin. Hljómsveitin er frá Árósum. Þeir segjast vera leiðinlegasta hljómsveit Danaveldis.)
"já....sæll..."
"uuu...hvað ertu að gera?"
"tja...ég er bara á leiðinni í gegnum Botanisk Have á leið í skólann"
"já, það er fallegt veður"
"jú satt er það"
"heyrðu...okkur vantar óperusöngkonu til að syngja með okku á nokkrum tónleikum í vikunni. Ertu til í það?"
"hmm...tja...leyfðu mér aðeins að hugsa málið...ég bjalla í þig þegar ég hef hugsað mig um."
"já gott mál! Við heyrumst"

Þegar Stina sagði mér frá þessu þá sagði ég að pabbi hennar myndi sennilega aldrei fyrigefa henni ef hún myndi ekki gera þetta. Hann hefur verið aðdáandi þeirra frá byrjun (þetta eru menn á besta aldri í þessu bandi).
Stina fer á æfingu með TV2 í kvöld og syngur svo á tónleikum með þeim á morgun í Álaborg, á föstudaginn í Óðinsvé og svo á laugardaginn í Hróarskeldu.
Merkilegur sími sem hún á!

Ég er annars búinn að bæta inn tveimur hlekkjum í netluhlekkina. Þetta eru hlekkir á:
Árna Heimi, tónfræðing og tónlistarmann
Önnu Þorvaldsdóttur, tónskáld
Jón Hafstein Guðmundsson, stjarneðlisfræðinema og bassa í Stöku.

Í gær var önnur æfing mín með kórnum Stöku í Kaupmannahöfn. Mikið rosalega var gaman! Góðir krakkar.

Engin ummæli: