28.1.06

Með grátt í vöngum
Tók mér vetrarbað áðan. Lofthiti -3° og sjóhiti 0°. Svo náttúrulega sauna. Ekkert meira hressandi.

Nú sit ég með viský tár í glasi og hlusta á Deep Purple. Mér líður eins og ég sé fimmtugur. Sennilega fæddist ég gamall.

Á eftir er mér boðið í mat hjá Lars. Hann ætlar að framreiða önd handa mér og Bryan (við bjuggum allir í bofællesskap í Vesterport á sínum tíma). Líf og fjör. Glaumur og gleði.

Han spiser sin is!
Í gærkvöldi voru tónleikar með TV-2 í Óðinsvé(um). Ég fór með Stinu, því mig langaði að sjá hana á sviði með þeim. Þetta var mjög fínt alltsaman. Íþróttahöllin var full, 3250 manns.
Í hléinu fór ég baksviðs að ná í Stinu, því hún vildi heyra seinna helmingin (hennar lag er í fyrri helmingi). Þegar ég kem inn í herbergið sem þau voru í spyr söngvarinn hvort þeir hafi of hátt. Ég segist vera afar óvanur svona tónleikum, svo það er ekki að marka. Svo spurði hann hvort ég gæti skilið textann. "Já já...Borðar hann ekki annars síld?" Svo var víst ekki. Þeim þótti þetta svolítið fyndið.
En það er gaman að sjá og heyra svona band sem hefur verið til síðan í byrjun 1980 og átt ótrúlega marga smelli hérna í DK. Allir hafa einhverjar minningar um lögin þeirra, og allir syngja með og kunna lögin. En það er svo merkilegt að þessi músík væri alveg dauð í öðru landi.
Eftir tónleikana fórum við upp á hótelið. Fínt fínt hótelherbergi, með baðkari og leðursófum. Ljúft að fá hellurnar úr eyrunum í notalegu heitur baði (í DK eru flest hús ekki byggð með salerni eða baðaðstöðu í huga, enda byggð á fyrri hluta síðustu aldar. Þannig að maður hefur yfirleitt bara sturtu haus í pinkulitlu baðherbergi. Þannig að baðkar er lúxus.)

----------------------------

Inni í DSB eru rennihurðar sem opnast sjálfvirkt. Á þeim er lítil mynd af hendi og tvær pílur út frá hendinni. Maður stingur hendinni sinni að þessari mynd og hurðin opnast. Þetta fatta ekki allir farþegar. Þeim finnst meira lógískara að framkvæma einhverjar merkilegar handahreifingar fyrir fram hurðina og benda í allar áttir, í hröðum og fálmandi hreyfingum. Skemmtileg sýn þegar maður ferðast með DSB. Það er sennilega líka það eina sem er skemmtilegt við DSB...tja...þeir hafa líka gott stef sem kemur alltaf á undan öllum tilkynningum. Það er lítið stef byggt á nótunum D-Es-B.

----------------------------

Hugi Þórðarson bendir á að við Íslendingar lítum stórt á okkur bara af því að við höfum keypt einhver hús og fyrirtæki í DK. En það er bara ansi merkilegt að við höfum gert það. Og það er ansi merkilegt að við eigum svona marga listamenn sem skara framúr og vekja athygli hins vestræna heims.
Mér finnst allt í lagi að Íslendingar séu stoltir af því hvað þessi litla þjóð á þessu stóra fallega skeri nær að framkvæma. Svo lengi sem það er ekki stóriðja, þá megum við vel vera stolt.

27.1.06

Niðurlæging
Síðan ég fluttist til Danaveldis þá hefur gengi Íslendinga á danskri grund aukist til mikilla muna.
Íslendingur fékk aðalhlutverkið í mynd Lars von Trier í Dancer in the dark, og er ekki einhver íslendingur að fá næsta aðalhlutverk í næstu mynd hans?
Það eru íslendingar sem eru búnir að kaupa stóran hluta af öllu hérna í drottningarríki Möggu.
Það er fullt af íslendingum sem eru sterkustu liðsmenn hinna ýmissu íþróttaliða hér í baunalandi.
Og það eru íslendingar sem munu vinna dani í þessum handboltaleik í kvöld.
Hversu mikið ætlar íslenska þjóðin að halda áfram?

p.s. við skulum ekkert minnast á 6-0 leikinn í fótbolta hérna um árið.
p.p.s. eða gengi dana í eurovision.

25.1.06

Undarlegur sími
Kærastan mín átti síma sem gafst upp á blaðrinu í henni...eða hún gafst upp á veseninu í honum. Hún fékk lánaðan gamlan Nokia síma frá einu skyldmenninu. Sá sími er dökkbleikur og er c.a. 5 kg. og svínvirkar (þeas. maður getur hringt úr honum og sent og fengið sms, einmitt það sem sími á að kunna. Sími á t.d. ekki að taka myndir, eða hafa litaskjái, eða sýna tónlistarmyndbönd...etc.)
Nema hvað að eftir að hún fékk þennan síma hefur hún tekið á móti afar furðulegum símhringingum. T.d. hringdi einn um daginn sem er formaður Damuco. Stina hafði einmitt sungið á tónleikum daginn áður, sem þetta Damuco hafði skipulagt. Maðurinn í hinum endanum á línunni sagðist þurfa að segja henni furðulegar fréttir. Það hafði nefnilega einn tónlistargestur hringt í hann og sagt að sér hefði alls ekki líkað þessir tónleikar, og hakkaði alla sem fram komu í spað. En aftur á móti sagðist þessi maður vera afar hrifinn af þessari mezzo sópran söngkonu sem söng svo fallega, og vildi gjarnan borga henni meira en hún hefði fengið fyrir þessa tónleika, því hún ætti það fullkomlega skilið! Ja-há! Formaðurinn vildi nú ekki alveg láta þennan náunga fá símanúmerið hennar, án þess að fá leyfi. En nú hefur formaðurinn fengið leyfi til að gefa náunganum gjafmilda símanúmer mezzosópransins. Spennandi að heyra hvað kemur út úr þessu.
Daginn eftir hringdi síminn aftur. Stina svarar.

"góðan daginn."
"hæ"
"ég heiti Steffen...Steffen Brandt, söngvari í TV2" (TV2 er nafn á afar þekktri hljómsveit hér í Danaveldi. Þeir eru svona eins og Stuðmenn, allir þekkja þá og lögin. Hljómsveitin er frá Árósum. Þeir segjast vera leiðinlegasta hljómsveit Danaveldis.)
"já....sæll..."
"uuu...hvað ertu að gera?"
"tja...ég er bara á leiðinni í gegnum Botanisk Have á leið í skólann"
"já, það er fallegt veður"
"jú satt er það"
"heyrðu...okkur vantar óperusöngkonu til að syngja með okku á nokkrum tónleikum í vikunni. Ertu til í það?"
"hmm...tja...leyfðu mér aðeins að hugsa málið...ég bjalla í þig þegar ég hef hugsað mig um."
"já gott mál! Við heyrumst"

Þegar Stina sagði mér frá þessu þá sagði ég að pabbi hennar myndi sennilega aldrei fyrigefa henni ef hún myndi ekki gera þetta. Hann hefur verið aðdáandi þeirra frá byrjun (þetta eru menn á besta aldri í þessu bandi).
Stina fer á æfingu með TV2 í kvöld og syngur svo á tónleikum með þeim á morgun í Álaborg, á föstudaginn í Óðinsvé og svo á laugardaginn í Hróarskeldu.
Merkilegur sími sem hún á!

Ég er annars búinn að bæta inn tveimur hlekkjum í netluhlekkina. Þetta eru hlekkir á:
Árna Heimi, tónfræðing og tónlistarmann
Önnu Þorvaldsdóttur, tónskáld
Jón Hafstein Guðmundsson, stjarneðlisfræðinema og bassa í Stöku.

Í gær var önnur æfing mín með kórnum Stöku í Kaupmannahöfn. Mikið rosalega var gaman! Góðir krakkar.

16.1.06


Krýning Poppeu
Í kvöld er frumsýning á "Krýningu Poppeu" ("Poppeas Kroning") í flutningi nemenda úr konsinu hérna í Árósum. Stina syngur Ottaviu, keisaraynju (sjá mynd hér til hliðar)
Ég sá generalprufuna, og er þetta ágætis sýning hjá þeim. Það er búið að stytta óperuna niður í 3 tíma...ef allt hefði verið með þá erum við að tala um einhverja 5 tíma held ég. Menn höfðu mun minna að gera í gamladaga, eða gáfu sér kannski meiri tíma í það sem þeir gerðu. Ef Monteverdi hefði séð MTV þá held ég að hausinn á honum myndi bræða út.

12.1.06

Voksenbaby.dk
Eftir að ég las ískalt mat frá Orra Smárasyni, sálfræðingi og trymbli, þá finnst mér að þið ættuð að hlusta á drengina frá Angora syngja um Búmm og búmmelúmmbúmm...eða hvernig það er að vera fullorðinn og vera með bleyju.
Sjáið myndbandið hérna.
Þetta er heimasíða drengjanna.
Og hérna er texti lagsins.
Eins og þið sjáið á textanum þá hafa danir mun fjölbreyttari orð yfir orðið "kúkur" heldur en við íslendingar. Við tölum t.d. ekki um að gera "núgat-handlegg" eða að gera "pylsur" eins og danskurinn.
Danir hugsa mikið um mat, það er víst.

11.1.06

Bleyjuskipti
Að skipta á ungbörnum hefur aldrei verið mín sterkasta hlið. Í rauninni fékk ég nóg af ungbarnaskít þegar systkini mín voru bæði komin með krakka og ræddu um þykkt og áferð á saur barnanna sinna...og við sátum og snæddum hádegismat! Það leiddi til þess að ég hef aldrei skipt á krakka, ekki einu sinni systkinabörnum mínum (hef reyndar aldrei verið annað en frændinn í Reykjavík eða útlöndum fyrir þeim).
EN! Í kvöld skipti ég í fyrsta skipti ég um bleyju! Húrra fyrir mér og barninu. Hún er nú svo meðfæranleg að ég hefði sennilega ekki getað fengið betri krakka til að frumreyna þetta.
En staðan var sú að ég og Stina vorum að passa fyrir vini okkar, sem voru í bíó, og krakkinn skeit á sig. "Framhjá veginum" (btw.) þá heitir hún Mira. Ég sagði við Stinu að hún væri nú sennilega búin að gera eitthvað í bleyjuna. "Jæja! Þá sérð þú bara um það." segir Stina og fer út! Shit (í orðsins fyllstu merkingu)! Ég verð víst bara að skipta á stúlkunni, þeas. Miru, áður en hún fer að háskæla.
Nema hvað að í því sem ég fjarlægi bleyjuna og er að þurrka restina af skítnum af henni, þá koma foreldrar henna úr bíói og horfðu þau á mig setja Miru í nýja bleyju. Þau gáfu mér afar góða einkun fyrir handbragðið.
Þannig að í kvöld sofna ég glaður og ánægður með að hafa gert eitthvað sem ég hef aldrei á ævinni gert áður.

10.1.06

Minningargrein
Ég vil minnast góðs vinar og förunautar í örfáum orðum.
Við kynntumst að vori 1996. Ég kynntist einnig Þyri (eða "PrumpulínaPrinsess" eða fyrrv. unnusta mín) þetta sama vor. Við eyddum mörgum tímum saman, við þrjú, og fórum víða. M.a. fórum við til Danmerkur saman og við fórum langan túr frá Árósum til Vallekilde og alltaf stóð hann sig eins og hetja, sama hvað á gekk.
Hann hafðir farið í gegnum ýmsar læknismeðferðir. Fengið skipt út einu og öðru, en stellið var sterkt og grunnurinn góður, svo hann kom ávalt frískur til baka.
Ég sakna hans og vona að hans nýji "eigandi" hugsi vel um hann. Honum hefur verið stolið áður, en þá fann ég hann aftur, en í þetta skiptið hef ég litla trú á að við munum hittast aftur.
Megi herra DSB Kilimanjaro Fjallareiðhjól hvíla í friði.

6.1.06"Og troddu þessu upp í ..."
Samkvæmt Tao kynfræðinni, þá er það afar mikilvægt að hafa hreinan endaþarm, og við erum ekki bara að tala um að skeina sig vel. Nei nei, við erum að tala um mun meiri þrifnað en það. Fræðin segir að endaþarmurinn er fullur af óhreinindum og óæskilegum úrgangsefnum, og líkaminn á víst hrörnast mun fyrr ef maður hreinsar ekki í þessum útgangi meltingarfæranna. Fræðin bendir einnig á að við burstum í okkur tennurnar oft á dag og að við notum tannþráð og munnskol og ég veit ekki hvað. Þetta er jú bara inngangurinn að meltingunni. Afhverju ekki að hreinsa til í útganginum?
Fræðin (allaveganna í þeirri bók sem ég lánaði á bókasafninu) segja að sólarljósið sé eitt öflugasta hreinsiefnið sem við komumst í. Þessvegna er mælst með að fólk taki endaþarmssólböð. Bókin mælir með að maður begi sig fram fyrir sig og láti sólina skína á umrætt svæði. Samkvæmt bókinni virka þessi böð best ef einstaklingurinn er nakin.

"Sól sól skín á mig, ský ský burt með þig"...þetta hefur allt aðra merkingu eftir að hafa lesið um endaþarmssólböðun.

3.1.06

Gleðilegt hár!
Var skaupið gott?