24.12.06

Jolahald
Thessa stundina sit eg vid danskt lyklabord, i dønsku heimili theirra mætu hjona Helgu og Ove (sem eru foreldrar kærustu minnar), og eg byd thess ad vid megum fara ad opna pakkana. Ægileg spenna i gangi...eda...tja...
I nott kom jolasveinninn (eda "Nissen" upp a dønskuna) og allir fengu eitthvad, nema Ove, thvi hann fekk sinn Nisse pakka i gærkvøldi. I hans pakka var nefnilega National Lampoon Christmas Vacation, med Chevy Chase. Bradnaudsynleg mynd ad sja a thorlaksmessu, allaveganna fannst sveinka thad.
Jæja, best ad koma ser ut i solskinid og 8 gradurnar.

Eg vona ad thid, lesendur kærir, munid eiga gledileg jol, og farsælt komandi nytt år.

16.12.06

Hor og slím
Aðlaðandi titill ekki satt?
Allaveganna hef ég hausinn og hálsinn fullan af þessum góðkunningjum mínum. Þessir félagar taka sér oft bólfestu í umræddum svæðum líkama míns þegar ég hef verið undir álagi og fer að slappa af, eða þegar ég er að fara í ferðalag. Og fyrir nokkrum dögum síðan (á sunnudaginn nánar tiltekið) var ég einmitt á báðum þessum aðstæðum, álagið að minnka og ég að fara í ferðalag.
Tónleikarnir með Stöku á þarsíðasta miðvikudag gengu barasta alveg hrein ágætlega. Ég skemmti mér allaveganna vel. Smá "kikk" í að stjórna sameiginlega kórnum (Staka plús Mpiri). Ég og Gorm, stjórnandi Mpiri, erum báðir spenntir fyrir að gera eitthvað meira sameiginlegt, sem einn kór þá.
Jarðarfararferðin til Jótlands gekk vel og var í rauninni afar hugguleg. Skemmtilegir ferðafélagar tveir og margt spjallað.
Daginn eftir var svo kórdagurinn mikli þar sem ég stóð frá kl.10 um morgunin til kl.18.30 og stjórnaði kórum. Fyrst Vox Absona á kóræfingu, og svo Stöku og Kirkjukórnum á Nord Atlantisk Korfestival (NAK). Á NAK var Vor Frue kirkja á strikinu aljgörlega pökkuð. Gaman að því.
Daginn eftir fórum við tengdó svo til Íslands. Minnismiði til ykkar: ekki ferðast með yfirvigt, hún er dýr. Við borguðum, eða öllu heldur fyrirtækið sem tengdó vinnur fyrir, 850 dkr í yfirvigt. Það voru mest möppur og efnissýnishorn til kúnnanna sem voru svona þung.
Það var ansi gaman að koma heim. Reykjavík er náttúrulega algjörlega ógeðsleg borg, með hryllilegum gatnaspellvirkjum og samanklesstum lúxusvillum. En mikið ægilega var nú gott að komast í sund og horfa á jólaljósin í öllu myrkrinu.
Við flugum einnig austur, og þar var nú annað upp á teningnum en í henni Reykjavík. Fallegt landið naut sín og huggulegir bæjirnir stóðu í ljósum jólalogaljósum og allt eins huggulegt og hægt var. Heim í heiðardalinn var gott að koma og Hlíðargata 24 með ábúendum er alltaf afar gott að hitta.
En það sniðugasta sem við gerðum var svo að leigja bíl til að keyra á suður aftur. Við fengum nefnilega drullugan Land Rover, sem þurfti að skila til Rvk, þannig að við borguðum bara bensínið. Stórsniðugt. Keyrðum norðurfyrir land og fórum í jarðböðin í Mývatni. Ævintýri fyrir blessaðan danann.
Á þessum tímapunkti var ég orðinn ansi kvefaður og aumingjalegur.
Svo þegar ég kom hingað heim var ég algjörlega orðin raddlaus, með hita og kvef. Bölvaður aumingi. En að sjálfsögðu beið mín einn kórinn og generalprufa hans. Það gekk nú og í dag héldum við svo tónleika sem einkenndust af látum í krökkum og kór sem átti erfitt með að einbeita sér. En okkur tókst þó að gera smá músík.
Nú ætla ég að fá mér viský og njóta þess að jólafríið nálgast óðfluga.

4.12.06

Úr stressi í tilhlökkun
Undanfarið hef ég verið örlítið stressaður. Það er margt framundan sem er sökudólgurinn.
Vikan sem við erum að stíga inn í, í skrifuðum orðum, er vinningshafi að "flestir tónleikar á einni viku" verðlaunanna.
Þetta byrjaði reyndar fyrir síðustu helgi. Þá var hringt í mig og ég beðinn um að koma með músík á árshátíð íslensks fyrirtækis, sem ákvað að halda gleðina í Kaupmannahöfn. Ég hristi allar mínar ermar og tæmdi vasana, sem tilboð handa þeim, og svo fengu þau bara að velja. Og völdu vel. Kórinn Staka söng fyrir gestina, og þegar þau voru búin að því, þá settist ég við flygilinn og lék undir borðhaldinu. Þurti reyndar lítið að spila þar sem þau voru svo góð í að segja klámvísur og syngja fjöldasöng.
Svo kom jú orgelfræðiprófið.
Í gær var ég á kóræfingu í kirkjunni sem ég syng í frá kl.10-16.
Á morgun er æfing með Vox Absona, þar sem ég er afleysingarstjórnandi. Ég á svo að stjórna þeim á jólatónleikum þann 16. des.
Á þriðjudaginn eru styrktartónleikar í kirkjunni minni, þar sem ég syng í kórnum. Beint á eftir tónleikunum er sameiginleg æfing Mpiri, sem er færeyskur kór, og Stöku, sem er íslenskur kór (sem ég er að gaufast við að stjórna).
Á miðvikudaginn eru svo tónleikar með þessum 2 kórum. Allir að mæta í Samúelskirkjuna og hlusta m.a. á Poulenc, Rachmaninov og Huga Guðmundsson.
Á fimmtudaginn er svo kóræfing hjá kirkjukór íslenska safnaðarins í Kaupmannahöfn (sem ég svo einnig er að gaufast við að stjórna).
Á föstudaginn fer ég svo með presti íslenska safnaðarins til Jótlands að spila og syngja í jarðarför. Þá um kvöldið er svo Aðventukvöl hjá íslenska söfnuðinum í Kaupmannahöfn, og þar mun kirkjukórinn meðal annarra koma fram.
Á laugardaginn er svo aukakóræfing hjá Vox Absona frá kl.10-13. Um seinnipartinn er svo NAK (Nord Atlantisk Korfestival) þar sem allir þeir kórar sem eru starfandi í Kaupmannahöfn, og eru skipuð fólki úr N-Atlantshafinu, hittast og syngja fyrir hvorn annan. Svo er borðaður góður matur á eftir og drukkið mikið áfengi (kommon, þetta eru Grænlendingar, Færeyingar og Íslendingar!).
Daginn eftir flýg ég svo með "tengdó" til Íslands til að selja húsgögn. Ég vona að sú ferð snúist meira um að fara í sund og skoða landið, en að þeytast á milli búða. Held reyndar að hann hafi bara einn kúnna þarna uppfrá, þannig að kannski rætist úr þessari ósk minni.

En s.s. það eru bissí dagar framundan, með heilum helling af kórsöng.
Ástæðan fyrir titlinum á þessu bloggi er sá að í dag var generalprufa hjá okkur í Stöku, í Samúelskirkjunni.
Sú æfing breytti mínu stressi í tilhlökkun. Þetta eru mjög duglegir "krakkar" og ég hlakka afar mikið til að flytja músík saman með þeim.
"Að syngja í Stöku er góð skemmtun."

1.12.06

Praktískt Par
Í haust var UNM hér í Kaupmannahöfn. Ég og Stina buðum að sjálfsögðu íslenska genginu í mat, en við áttum ekkert nægilega stórt ílát til að elda í. Allir pottarnir okkar voru of litlir fyrir svona marga í mat. Því sagaði ég af mér lappirnar og fór á stúfana að leita að potti sem hægt væri að elda mat í handa mörgum. Slíkan pott fann ég svo. Maturinn lukkaðist ágætlega. Taílenski kókoskjúklingurinn var allaveganna etinn með ágætri list.
Síðan þá hefur þessi pottur verið mikið notaður. Það er stórsniðugt að elda "simremad" (mallmat) í svona tæki. Nóg pláss fyrir allt, og ekkert slettist út á eldavélina eða gólf, eins og raunin var þegar við notuðum bara pönnu.
En þetta fullkomnaðist allt saman þegar það fór að kólna í veðri.
Við erum nefnilega með svalir. Þannig að nú þegar við eldum í stóra pottinum, þá gerum við bara stóran skammt, og svo stendur potturinn úti á svölum í kuldanum, með restunum.
Ég er nýbúinn að sækja mér t.d. chili con carne sem við elduðum í fyrradag í pottinn góða úti á svölum. Sniðugt fyrir fátæka námsmenn að hafa svona pott.

Þetta var leiðinlegt blogg.
Afsakið.
Held samt aðeins áfram.

Í gær fór ég í orgelfræðipróf, í kirkjutónlistarskólanum í Hróarskeldu. Stóð mig ágætlega, og fékk hrós fyrir góða stillingu á Regal röddinni. Regal röddin, er eins og alþjóð veit, "uafstemt" rödd. Þeas. að lengd hornsins hefur ekkert með tónhæð að segja, eins og er t.d. með Trompet röddina. Þannig að tónn Regal raddarinnar getur verið svolítið trikkí. Er ekki jafn skýr og t.d. í Trompet röddinni (er þetta ekki rétt hjá mér orgelnördar?). En þeir kapparnir voru svona líka ánægðir með stillingu mína á tóninu sem ég fékk.
Síðar um daginn fór ég í JólaTívolí. Það var ekkert nema prangur, múgur og margmenni. Jújú, jólaljósin voru falleg, en þegar maður hefur alist upp í smábæ á Íslandi, þar sem flestir húseigendur "går amok" í jólaseríuskreytingum, þá var ég ekkert að pissa í mig yfir þessu.

26.11.06

16.11.06


André Rieu
Vitið þið hver Richard Clayderman er? Ef svarið er já, og þið eruð orðin aðeins þreytt á nýjustu plötunni hans, þá finnst svona "fiðlu-Richard Clayderman", sem gæti verið smá tilbreyting frá píanistanum knáa. Sá mikli fiðlusnillingur heitir André Rieu.
Hann ferðast um heiminn með hljómsveitinni sinni og heldur stórtónleika. Við erum að tala um tónleika á leikvöngum, sem eru troðfullir af áheyrendum, sem borga sennilega góða fúlgu fjár til að heyra og upplifa þennan stórkostlega listamann.
Fiðluleikarinn er með afar mikið og hrokkið hár, eins og sannur tónlistarmaður.
Hann gerir svona hrukkur á ennið þegar hann spilar á fiðluna sína, þannig að hann spilar af mikilli innlifun.
Fiðlan hans er af gerðinni Stradivarius, þannig að hann er rosalega góður.
Tónleikagestir eru fullir af svo mikilli hrifningu að þeir geta ekki annað en klappað með hverju lagi, á 1. og 3. slagi að sjálfsögðu.
Svo er hann líka rosalega sniðugur, t.d. þá blístrar hann stundum í staðinn fyrir að spila á Stradivariusinn sinn. Og allir mega blístra með. Og fleira sniðugt kann hann, en ég ætla ekki að telja það upp hér, svona ef þið skilduð nú verða svo heppinn einhvern daginn að komast á tónleika með þessu tónlistarundri.
Tónlistarundur sagði ég. Hmm... það er eiginlega alveg rétt, því ég er alveg gáttaður á þessu fyrirbæri.
Hvernig getur það eiginlega gerst að svona margir áheyrendur flykkjast á tónleika undramannsins...og er konunglega skemmt?
Mér verður eiginlega hugsað til Nazismans, og fyllist sama óhug yfir báðum þessum fyrirbærum, þeas. að svo margar manneskjur gátu sameinast í Nazisma og svona margar manneskjur geti virkilega þótt undramaðurinn svona áhugaverður og skemmtilegur að það flykkist á "tónleika" með honum.
Þú hlýtur að vera stórlega brenglaður tónlistarmaður ef þér líður ekki eins og þú sért að hæðast að áheyrendum með svona framkomu og tónlist. Hljómsveitarmeðlimir eru örugglega allir fátækir námsmenn, sem sárvantar aur. Eða þá að þau eru bara öll kolgeggjuð, og fiðlusnillingur er kolgeggjuforinginn!
Óhuggulegt með eindæmum!

14.11.06

Áhugaleysi
Ég hef engan áhuga á þessu bloggi meir. Eða öllu heldur, ég hef ekki þörf á að blogga. Áður fyrr hafði ég þörf fyrir það. Það var gaman. Mér fannst ég hafa eitthvað að segja, annað en t.d. núna. Nú hef ég ekkert að segja, nema að ég hafi ekkert að segja. Þessvegna er betur að gera eitthvað annað en að eyða orku og tíma, bæði ykkar og mínum, í að kreista uppþornaða sítrónu.

Ég hef þó eitt að segja.
Nágranni okkar syngur með þegar Stina er að æfa sig.
Hún syngur ekki bara eitthvað, heldur nákvæmlega það sama og Stina syngur. Líka upphitun og raddæfingar.
Er hún að kvarta yfir söngnum eða er hún að lauma sér inn í söngtíma, frítt?

8.11.06

Jónshús
Tvö kvöld vikunnar er á að stjórna kórum í Jónshúsi.
Þessa stundina sit ég í Jónshúsi.
Jónshús er gott hús.
Jónshús

30.10.06

Tagensbokirkja
Úbbs.
Ég hélt ég hefði skrifað eitthvað um ljótleika Tagensbokirkju, en svo hef ég ekki gert.
Tagensbo er afar ljót kirkja.
Hún stendur í hverfi þar sem bara eru ljósar/gulleitar músteinablokkir, ferkantaðar. Múrsteinn getur alveg verið fallegur, sem betur fer því þá ættu danir einvörðungu ljót hús, en þessi ljósi/guli múrsteinn er alveg einstaklega leiðinlegur að horfa á. Húsin líta út sem þau eru með gubbupest og 43stiga hita.
En svo er það þannig að Tagensbokirkja er byggð sem hluti í eina svona blokkina í hverfinu sem hún stendur í. Og það eina sem gefur til kynna að þarna sé kirkja er örlítill ferkantaður klukkuturn sem stendur upp úr þakinu. Það er meira að segja svona stigagangur í kirkjunni, með svona týpískri danskri lyftu sem lyktar illa.
Ljótt ljótt ljótt!
Óléttir kórstjórar
Um helgina tók ég við kór númer 2 sem vantar stjórnanda vegna barnsburðarleyfis síns fasta stjórnanda. Fyrsti kórinn er kirkjukór Íslenska safnaðarins hér í Kaupmannahöfn. Þið vissuð allt um það.
Kórinn sem bættist við um helgina heitir Vox Absona. Ekkert sérlega traustvekjandi nafn, þar sem að nafnið útleggs eitthvað á þessa leið: "skökku raddirnar". Vona að þetta sé kaldhæðni.
Þannig að nú er kórstjóri á mánudags-, þriðjudags- og miðvikudagskvöldum!
En tilurð þess að ég fékk þennan kór ýtir undir þá kenningu að það eru ákveðnir kraftar í heiminum sem tengja okkur öll saman, og vilju maður eitthvað nægilega mikið í hjarta sínu þá mun það gerast.
Þannig er nefnilega mál með vexti að ég hef kirkju til afnota. Kirkja sú heitir Tagensbokirke (ein sú ljótasta sem ég hef séð...þið hafið einnig heyrt um það held ég). Það er annar orgelnemandi sem fær líka afnot af kirkjunni, þannig að við erum komin með smá tímaplan hvenær við erum í kirkjunni. Þessi organisti syngur í kór og sagði mér á fimmtudaginn, þegar hún tók við af mér við orgelið, að það væri íslensk stelpa að fara að stjórna kórnum sem hún syngur í. Ég vissi alveg hver þessi stúlka er þegar hún hafði sagt mér hvað hún heitir. Ég samgladdist landa mínum, en varð einnig svolítið öfundsjúkur, þegar ég heyrði hvað þau ætluðu að syngja á jólatónleikunum.
Daginn eftir hringdi þessi landi minn í mig. Hún var í stökustu vandræðum. Hún var hálfbúin að taka að sér einhvern kór, sem hún hafði eiginlega ekki tíma fyrir. Hún spurði hvort ég vildi ekki taka hann að mér.
Tilviljun?

26.10.06


Óskar Þór Þráinsson
er drengur góður. Ég kynntist honum í Hamrahlíðakórnum á sínum tíma, og síðar meir í Smaladrengjunum síkátu. Hann er víst ennþá gildur limur (he he) í þeim klúbbi...hættir maður einhverntímann að vera smaladrengur? Ekki ég!

Intermezzo:
Þó svo það komi ekki fram á vikipedia, í umfjöllun um Smaladrengina, þá var ég einn af þeim sem tróð upp við frumraun þeirra, í Gettu Betur. Ég spilaði á kongatrommur. Og ef ég man rétt þá var það ég sem hannaði búningana þeirra við þær sjónvarpsupptökur (húfur, lopapeysur, gallabuxur og stígél). Svo söng ég einnig með þeim í fyrstu upptöku þeirra, og spilaði á píanó. Og ekki man ég betur en ég hafi átt stórleik á einu plötu þeirra, Strákapör, þar sem ég fór á ostum í harmóníkuleik. Þetta vissi wikipedia ekki, en nú veit alþjóð þetta...

En aftur að Óskari.
Við deilum saman afmælisdegi, þó á sitthvoru árinu.
Óskar hefur samið eitt minst jólalega jólalag sem ég hef heyrt, og telst það nokkuð afrek. Mig minnir að það hafi meira að segja verið svona "jólalagahrista" í því, en allt kom fyrir ekki. Það hljómaði meira sem lag úr einhverjum vestra.
Jæja, ég ætlaði ekki að blaðra út í eitt um jólalagatónsmíðar Óskars.
Óskar er viðskiptamaður góður. Hann seldi mér einu sinni 19tommu skjá, á meðan hann vann í BT. Sá skjár er ennþá við hestaheilsu.
Nú er drengurinn búinn að starta svona skipti síðu, þar sem smátt verður stærra, þangað til að alheimurinn springur á meðan að hann sötrar kokteil, fljótandi á vindsæng í sundlauginni við villuna sem hann hefur byggt á einkaeyjunni sinni, á einhverjum sólríkum stað í heiminum.
Tja...þetta er kannski soldið ýkt.
En þetta gengur út á að hann byrjar að skipta einni lyklakippu. Einhverjum fannst hún flott og bauð eitthvað, dýrara, til skiptanna, og svo koll af kolli.
Mér skilst að hann vilji skipta forláta vekjaraklukku, sem söngkonan Hallveig Rúnarsdóttir átti. Svo segir sagan að þessi vekjaraklukka hafi þann stórfenglega eiginleika að hún geti vekið þig á öllum tímum sólahringsins, þeas. ef þú ert sofandi og mundir að stilla klukkuna.
Kíkið á síðuna hjá Óskari, hérna, og bjóðið í klukkuna. Ef búið er að skipta út klukkunni þá er örugglega eitthvað annað spennandi að finna.

20.10.06


Drykkjarföng
Það er þrír drykkir sem ég geri meira úr en öllum hinum drykkjunum.
Þessir þrír drykkir eru eftirfarandi:
- vatn
- kaffi
- bjór

Mér finnst vín er einnig afar gott, sé það gott þeas., en vínáhugi minn gengur í bylgjum, en hin heilaga þrenning er mér ávalt kær.
Þið hafið nú fengið nóg af kaffisögum, svo mikið að sumir eru farnir að kalla netluskrif mín um kaffi, þráhyggju.
Vatn er jú nauðsynlegt til að gera kaffi, og gott vatn er undirstaða góðs kaffis. Þessvegna hreinsa ég vatnið, í svotilgerðri könnu. Við þá hreinsun síjast t.d. kalk úr vatninu, en hérna í DK er ótrúlega mikið af kalki í vatni. Kalkið er eitur í æðum hennar Silviu litlu. Svo bragðast vatnið bara mun betur en ella.

En ástæðan fyrir þessu bloggi er eiginlega bjór.
"Mmmm...beer!" eins og Homer sagði.

Undanfarna daga hafa "tengdaforeldrar" mínir verið í heimsókn hjá okkur.
Þau fóru í bæjarferð í gærdag og slógumst, ég og Stina, í för með þeim þegar líða tók á daginn.
Á leiðinni heim þá var komið við á Nørrebro Bryghus. Við kolféllum öll sömul fyrir staðnum. Fínn bar, veitingahús á efrihæðinni (tjekkuðum þó ekki á matseðlinum), hugguleg stemmning og síðast en ekki síst, afar góður bjór. Að sjálfsögðu féll ég fyrir þeirra útgáfu af belgískum klausturbjór, og varð ég ánægður með það fall.
Við smökkuðum svona hjá hvort öðru, og allir bjórarnir voru barasta til fyrirmyndar.
Ég reikna með að við munum koma oftar við á þessum stað, og mæli eindregið með að þú, lesandi góður, geri slíkt hið sama, eigir þú leið um Kaupmannahöfn.
Burt af Strikinu, götu dauðans, og upp á Norðurbrú!

16.10.06

Enn og aftur af skóm
Í gær var sunnudagur.
Ég og Stina erum með bíl í láni. Bróðir hennar er í viðskiptaferð í útlöndum og geymdi bílinn hjá okkur á meðan. Afar gott.
Sökum þess að þetta tvennt, bíllinn og sunnudagurinn, bar upp á sama dag, þá skelltum við okkur í óvissuferð í gær, eftir kirkjusönginn.
Við bara keyrðum af stað, norður á bóginn, í glimrandi góðu veðrir, en köldu, og létum bara vind ráða seglum...eða hvað það nú heitir.
Allar villurnar upp með austurströnd Sjálands eru stórar, og bera vott um ótrúlegt fjármagn þeirra sem í þeim búa. Gaman að virða þetta fyrir sér og láta sig dreyma. Sjórinn var líka fallegur, og sum laufblöðin komin í haustbúning, og farin að falla. Tilvalinn dagur í þessa ferð okkar.
Fljótlega komum við að Helsingjaeyri. Þar stendur höll nokkur tilkomumikil við sjóinn. Við löggðum bílnum og tókum okkur smá labb í kringum höllina.
Þegar við vorum að ganga í átt að höllinni þá átta ég mig á því að þangað hafði ég komið áður, ekki í fyrra lífi þó. Fyrir ca. 9 árum, í minni fyrstu utanlandsreysu (já ég var...látum okkur nú sjá...tvítugur þegar ég kom fyrst til útlands). Þá var ég í för með þáverandi kærustu minni, Þyri, kvenskörungur og píanóleikari í háum gæðaflokki, og vorum við í heimsókn hjá systur og mági hennar, í Kaupmannahöfn.
Fyrir þá ferð var okkur ráðlagt að kaupa okkur sandala, því það væri varla verandi í dönsku sumri í lokuðum skóm. Við fengum okkur bæði sandala, Teva sandala.
Í gær, þegar það rann upp fyrir mér, er ég stóð fyrir framan höllina á Helsingjaeyri, að ég hefði komið þangað áður, þá varð mér litið á skóbúnað minn. Voru þá ekki Teva sandalarnir góðu einnig að koma í annað skipti til Helsingjaeyrar, bara ca. 9 árum seinna. Á sömu fótum.
Merkilegt!

Annars þá héldum við för okkar áfram, eftir göngutúr í kringum höllina. Við keyrðum lengra upp Sjáland, og skyndilega segir Stina "Hey! Söngkennarinn minn á sumarbústað hérna rétt hjá, eigum við að tjekka hvort hún sé heima?" Það var hún og maðurinn hennar líka, og buðu þau okkur í kvöldmat og áttum við frábært kvöld með þeim.
Svona getur það nú verið gaman að keyra "ud i det blå".

11.10.06

Nýjustu kaffifréttirnar frá Hamletsgötu
Þið eruð kannski orðin hundleið á þessu, en fyrir mér er þetta bara svo stórkostlegir tímar að því er varla hægt að lýsa.
Eftir langan dag, fór að heiman kl.09 og kom heim kl.21, þá var ég ekki upp á marga fiska, þrátt fyrir að Stina eldaði fisk, við kvöldmatarborðið. Ég var eins og undin gólftuska.
Fyrst fór ég upp í Tagensbo kirkju, sem er ljótasta kirkja sem ég hef komið í, til að æfa mig. Þar æfði ég mig í klukkutíma eða svo, áður en ég hjólaði niður í bæ í orgeltíma. Það tekur ca. 20 mín að hjóla oneftir.
Orgeltíminn var fínn.
Svo fór ég á flakk. Kannaði aðeins umhverfi Istedgade og endaði svo á besta frokost stað Kaupmannahafnar, Encke & Duers, og snæddi "lunch box". Mæli eindregið með þessum stað. Reyndar er bara eitt borð til að sitja við, og tveir stólar, enda er þetta ekki staður sem stílar upp á að fólk komi og sitji, heldur taki matinn með. Góð hugmynd ef maður er td. á leið í dýragarðinn.
Saddur og glaður hjólaði ég mér niður í Risteriet, uppáhalds kaffihúsið, og fékk mér cortado. Ég gat að sjálfsögðu ekki látið mér það nægja, og keypti mér einn poka af espresso blöndunni þeirra, óristaðri! Eitt kg. fyrir 110 kr. Ef ég kaupi það ristað þá kosta 250 gr. 55 kr, þannig að sparnaðurinn er mikill. En ég vissi ekki hvort mér skildi lukkast að gera drykkjarhæft kaffi úr þessu.
Þarnæst lá leiðin í Jónshús, sem er mitt uppáhalds Jónshús í Kaupmannahöfn. Þar gat ég spilað aðeins á flygilinn og undirbúið mig fyrir kirkjukórsæfingu, sem hófst síðan kl. 18. Í þetta skiptið mættu heilir 5! Ef það heldur svona áfram þá er jafnvel kominn kór rétt eftir jól...
"Kór" æfingin gekk fínt.
Og ss. ég kom þreyttur heim í faðm minnar ástkæru, sem var búin að elda handa mér. Fallegt.
Eftir matinn, gat ég ekki á mér setið, svona úr því að ofninn var heitur, og skellti baunum á ofnplötu. Svo beið ég eftir fyrsta hoppi, og öðru hoppi, "og om lidt er kaffen klar". Ég átti ekki til eitt aukatekið orð. Þetta tókst bara svona líka glimrandi. Kröftugt og gott kaffi.
Nú fer ég þreyttur, en glaður kaffiristari að sofa.
Ps. Ef þið hafið áhuga á að vita meira um kaffiristun í ofni, þá eru góðar leiðbeiningar hérna, með myndum og öllu.

8.10.06


Kynþroski
Eins og þið vitið, lesendur góðir, þá er ég kaffiáhugamaður. Mér finnst afar gaman að búa til kaffi, að skoða espressovélar, að lesa um kaffi og kaffibruggun, er farin að kynna mér hvernig ég eigi að rista kaffi osfrv. Síðast og alls ekki síst, þá finnst mér kaffi gott. Ég drekk lítið kaffi yfir daginn, en það skal "satanædeme" vera gott. "Vinnustaðakaffi" er eitur í mínum maga og ég skil ekki hvernig sumir geta þambað alla þessa lítra af kaffi yfir daginn.

...
Intermezzo:
Sjúklingurinn hefur þráláta magaverki.
Læknarnir geta ekkert fundið út úr þessum verkjum sjúklingsins. Sjúklingurinn hefur verið rannsakaður í krók og kima, og allt kemur fyrir ekki, aldrei tekst læknunum að finna rót vandans.
Eftir nokkra vikna rannsóknir dettur einum lækninum í hug að spyrja hversu mikið af kaffi sjúklingurinn drekki yfir daginn.
"Tja...svona 10-15."
"10-15 bolla?"
"Nei, lítra."
...

En eins og ég sagði í síðasta innleggi, þá eignaðist Silvia litla bróður, hann Rocky. Silvia og við foreldrarni höfum beðið lengi eftir komu Rocky. Við eignuðumst Silviu í febrúar/mars á þessu ári. (Fyrir ykkur sem haldið að Silvia og Rocky séu gæludýr, eða jafnvel eitthvað ennþá verra, eins og t.d. börn, þá er Silvia espressovél og Rocky er kaffikvörn).

Hingað til höfum við fengið kaffið malað í kaffibúðinni. Við keyptum kaffi í Emmerys þegar við bjuggum í Árósum. Þó svo að kaffihúsið Altura hafi verið með besta kaffið í bænum, þá keyptum við af Emmerys því það lá við hliðiná íbúðinni okkar. Hérna í Kaupmannahöfn kaupum við kaffi í Risteriet, og innan skamms mun ég byrja á því að rista sjálfur. Þá kaupir maður bara grænar baunir og ristar þær svo í ofninum. Það er náttúrulega hægt að kaupa svona kaffibaunaristara, en ég á bara ekki 15.000 akkúrat núna til að fjárfesta í slíkum grip.

En jæja, aftur að systkinunum litlu.
Eftir að Rocky kom í húsið þá er eins og að Silvia hafi þroskast úr að vera dugleg lítil stúlka, yfir í að vera gjafvaxta ung mey. Hún er farin að gera frábært kaffi! Ef þið hafið drukkið Guinness, þá líkist kaffið sem hún er farin að gera, froðunni á slíkum drykk, þegar það lullar niður úr bruggunarhandfanginu. Kíkið á þetta myndband, þá skiljið þið hvað ég er að meina.
Ástæðan fyrir þessum snögga kynþroska er náttúrulega Rocky.
Ég er því farinn að halda að Rocky og Silvia séu alls ekkert systkin. Þau eru kærustupar. Nema það eigi sér stað ægilegt sifjaspell í eldhúsinu.

6.10.06

Fjölgun í fjölskyldunni...og smá um skótau
Nú hefur heldur betur bæst í fjölskylduna á Hamletsgade. Silvia litla eignaðist nefnilega bróður í dag. Hann heitir Rocky. Föðurnafnið er hið sama, Rancilio. Systkinin eru ennþá að kynnast hvort öðru, en þau eru samt farin að leika sér afar fallega saman, á meðan að foreldrarnir eru upptendruð af koffíni.
Hin svokallaða "mjókurlist" er nú æfð af kappi og nú þegar hefur lukkast að gera eitthvað í átt að yfirkeyrðum hundaskít, en það er langt í að það verði teiknuð hjörtu og laufblöð.

Í morgun var rigning. Ég keypti mér stígvél í tilefni þess. Það er óþarfi á velferðartímum að vera blautur í fæturna. Því miður voru ekki til Nokia stígvél, eins og maður fékk í gamladaga. Ætli Nokia framleiði ennþá stígvél?

4.10.06

Og örlítið meira um skótau
Og skórnir reyndus svona líka ótrúlega vel. Það var eins og maður væri í góðu fótabaði, þegar ég hljóp um pedalana á orgelinu í Kingos kirkjunni.
Og nú hef ég sagt mitt síðasta um Organmaster orgelskóna mína.

3.10.06

Skótau
Og þá eru orgelskórnir komnir til mín, og þeir passa.
Það var dinglað hérna í morgun, og pósturinn kom með pakka til mín. Ég þurfti bara að borga 219 kr í toll. Hélt að það yrði jafnvel meira.
Þannig að nú klæjar mig í tærnar að komast í orgel að æfa mig...nema það sé bara fótsveppur að pirra mig.

2.10.06

Af slögurum
Síðan ég byrjaði að spila á píanó, 7 ára gamall, þá hef ég aldrei spilað slagara, svona týpískan píanó slagara. Slagari gæti t.d. verið "Für Elise" e. Beethoven, eða píanósónata nr.14 (Tunglskinssnónatan) eftir sama kappa. Reyndar man ég eftir að hafa spilað stefið úr öðrum kafla píanókonserts nr. 21 eftir afmælisbarnið Mozart, en það var náttúruleg ekki í upprunulegri útgáfu, því þetta var ekki allur kaflinn, og það vantaði eins og eina litla sinfóníuhljómsveit.
Þannig að ég hef aldrei spilað alvöru slagara, í hans fullorðins útgáfu.
Fyrr en nú!
Á miðvikudaginn á ég að koma með nóturnar að Tokkötu og Fúgu í d-moll eftir meistara J.S. Bach (jazzballettskóli Báru, eins og Tryggvi Baldvins kynnti hann) í orgeltíma. Kennaranum mínum fannst það tilvalið að ég kæmi með þetta verk, því það er ágætis framhald frá Prelúdíunni og Fúgunni í c-moll, sem ég hef verið að æfa.

En ég hef verið að velta þessari slagarafælni minni fyrir mér í dag, og hef einnig spáð í hvort þetta sé fælni sem margir aðrir upplifa.
Hvað finnst þér?

27.9.06

Og...
...athugasemdakerfið er komið í lag.

24.9.06

Búinn!
Þá er ég loksins búinn að láta verða af því að panta mér orgelskóna frá henni Ameríku. Spennandi að sjá hvað skatturinn hérna í DK leggur ofaní verðið.
Ég læt ykkur vita þegar ég hef fengið pakkann og prufukeyrt skóna.

23.9.06

Afsprengi
Shit!
Á morgun, sunnudaginn 24.09.06, er þáttur á Rás 1, sem heitir "Afsprengi". Ég þekki ekki þessa þætti, sökum þess að ég hlusta ekkert á íslenskt útvarp. Hlusta almennt ekki á útvarp. En hvað um það. Gestur þáttarinns er ég sjálfur.
Þannig var mál með vöxtum að hún Berglind María Tómasdóttir, flautuleikari, framkvæmda-og útvarpskona, tók viðtal við mig þegar hún var hérna í Kaupmannahöfn á UNM-hátíðinni í haust. Þar átti ég eitt verk (eins og getið hefur verið áður hér nokkrum innsetningum neðar), og þar sem hún var útsendari frá Rás 1, þá tók hún viðtal við mig, og fékk upptöku af verkinu mínu, sem DR gerði, spilaða í "Hlaupanótunni".
Að viðtalinu.
Við settumst niður í eitt hornið á Den Sorte Diamant og hún spurði mig nokkurra spurninga.
Ég man ekki eftir að hafa sagt eitt orð af viti.
Þetta var reyndar mjög erfitt, því ég hef ekkert talað um músík, á íslensku, í mjög langan tíma, þannig að allur íslenskur orðaforði er rokinn í veður og vind. Ég sit meira að segja oft fyrir framan þessa tölvu og veit hreinlega ekki hvernig ég eigi að koma orðum að því sem ég vil segja. Þetta er afleyðing þess að hlutföllin á milli þeirra tungumála sem ég tala dags daglega er c.a. svona:
Íslenska 20%
Danska 80%
Svo var ég að skoða dagskrána fyrir morgundaginn á Rás 1, og sé að þátturinn er 50 mínútna langur!!! Vona að það verði spilaður hellingur af tónlist.

18.9.06

...á hlaupum
Undanfarið hefur Fælledparken verið mér uppspretta að orðum, eða stemningu, sem ég síðan set saman í ljóð, eins og þið hafið lesið hér á síðustu tveimur færslum. En í dag komu engin orð. Ég bara datt. Datt á hausinn eins og gömul kerling. Ípóðinn hentist úr lúkum mér, en sem betur fer var hann í skinnhulsunni sem fylgir þegar maður kaupir hann, þannig að ekki kom skráma á gripinn, né sló hann feilnótu.
En orðin komu ekki í dag. Samt var alveg nóg af fólki og lífi í garðinum. Svona er listin.

15.9.06

hauststelpur
pappírsþurrka stelpunnar með ísinn
fýkur í burtu af bekknum
sem þær sátu á
og slæst í för með laufblöðum trjánna
sem loksins fá að fækka fötum
eins og hinar stelpurnar í garðinum

8.9.06

í garðinum
undir ostgulum pakksöddum mána
hleypur hvítleggjaði íslendingurinn
...í rökkrinu
það er blóðbragð af haustlyktinni
umhverfis steingrá híbýli þeirra geðsjúku
í almennings garðinum

Húbla!
Í dag er ég í húbla.
Í dag fékk ég nefnilega greitt fyrir hittarann sívinsæla, Torden, sem ég skrifaði fyrir grúví bandið Århus Universitetskor. Það var Statens Kunstfond sem lagði út 10.000 Dkr. í svartholið stóra á bankareikningnum mínum. Já já, að sjálfsögðu á maður að muna að taka skattinn frá núna strax etc. etc. en ég vona að ég fái einhver fleiri gigg, greitt með negrapeningum, og þá mun ég leggja til hliðar.
En já, HÚBLA!
En sökum minkunar á svartholi, þá fór ég og spreðaði. Ég keypti mér hlaupabuxur. Svona tights. Bíðið aðeins, Eyþór Gunnars er að spila sóló...............
sóló
sóló
sóló
sóló
Úúúúúooohhhh! (sem er annars hið últimatíva þýska klámmyndahljóð, fyrir ykkur sem ekki kveiktu á perunni) Þetta var nú bara ansi hressandi hjá honum. Er að rifja upp síðustu plötu MF-manna á meðan ég skrifa þetta.
Hvert var ég komin? Já! Tights!
Ég fjárfesti (ekki verslaði, því það er að selja, en ekki kaupa) í svona svörtum Nike (Nækí) buxum, sem ná niður á mið læri og eru afar þröngar yfir minn stælta og harða rass. Ég ætla að fara út að hlaupa á eftir, og er afar spenntur yfir að sýna mig í þessum klæðnaði. Kannski barasta að ég klæðist einvörðungu þessum buxum. Sé alveg fyrir mér aðdáunar augnaráðin sem ég mun fá, frá móthlaupandi einstaklingum, þá aðallega kvenkyns.

Í gær var reyndar líka afar mikill húbla dagur. Ég fekk tvo pakka!
Einn kom með póstsendlinum. Hann var frá mömmu minni. Í honum var lopapeysa, sem hún hafði einu sinni prjónað og enginn gat notað. Í sumar komst ég svo að því að ég gat það vel, hún þurfti bara aðeins að lengja ermarnar, og náði þvi ekki áður en ég fór aftur út til DK. Í pakkanum var líka svona pönnukökuspaði. Afar gagnlegt þegar maður bakar pönnukökur. Ég hafði nefnilega fengið pönnukökupönnu frá foreldrum mínum í afmælisgjöf.
Pönnukökupönnur, eins og þær eru á Íslandi, eru útdauðar hér í DK. Hér eru bara svona teflonhúðaðar úrkynjaðar pönnur. Þær vil ég ekki sjá í mínum húsum.
Aftur að pakka nr.1. Af einhverjum ástæðum hafði sá pakki farið til Osló ("hey, strákar, við erum ekki í Köben!"). Skemmtilegt að vita hvað póstflokkunarmaðurinn hefur verið að hugsa þegar hann setti pakkann, sem var kirfilega merktur með réttu heimilisfangi mínu, í póstinn til Osló.
En úr því að ég þurfti út, og var nýbúinn að fá þessa líka fínu peysu, þá skellti ég mér í hana og hjólaði niður í bæ.
Á rauðu ljósi heyrði ég sagt fyrir aftan mig:
"Ertu frá Íslandi?" (á Íslensku)
Ég leit við og sá að þar sat kona, sem farþegi, í bifreið, og hafði skrúfað niður rúðuna til að komast að þessu.
Ég játaði upp á mig sökina.
"Datt það bara svona í hug þegar ég sá peysun."
"Já, finnst þér hún ekki annars flott?"
Það þótti henni. Ég hjólaði yfir á grænu ljósi, enn stolltari yfir hvítu lopapeysunni minni.

Og þá að pakka nr.2.
Af einhverjum merkilegum ástæðum þótti póstmanninum, sem kom með pakka nr.1 ekki við hæfi að koma með pakka nr.2 til mín, en aftur á móti gaf hann mér seðil sem myndi leiða mig á hinn pakkann, ef ég afhenti hann réttum aðila í réttu pósthúsi. Mér lukkaðist það, á leiðinni heim úr bænum.
Pakki nr.2 var þónokkuð stór, gulur kassi.
Hann var frá systur minni kærri.
Þegar ég hafði dröslað kassanum heim, opnaði ég hann.
Hann var fullur að sælgæti! Íslensku sælgæti. Mikið varð ég glaður!
En ekki nóg með það, heldur leyndist þarna líka bókin Salka Valka, eftir Laxnes, og diskurinn Jón Ólafsson, eftir Jón Ólafsson. Einnig var þarna bókin Hr. Sæll, en ég er mikill aðdáandi Herramannanna.
Mikið á ég nú góða systur!

Og þá yfir í kveikjuna að þessari blogggleði (3 g í röð!) minni.
Sökum fjárgnægðar minnar hef ég ákveðið að festa kaup á nýjum orgelskóm, þar sem að ég geri mikið af því að spila á orgel þessa dagana, og hef í hyggju að fá mér vinnu við þá iðju, þegar ég er búinn með þetta organistanám (eftir 2 ár).
Fyrir ykkur sem vita ekkert í ykkar haus, og kváið eins og kjánar þegar þið heyrið talað um orgelskó, þá er það þannig að þegar maður spilar á orgel, já svona hljóðfæri eins og er í kirkjum, þá er það kostur að geta spilað á pedalana á orgelinu. Pedalarnir eru tengdri þeim pípum sem hafa dýpri hljóm en hinar, og gefur það meiri fyllingu í t.d. meðleik sálma. Einnig gera pedalarnir það mögulegt að spila fleiri nótur (raddir) en hendurnar einar ráða við.
Þegar maður spilar á þessa pedala er æskilegt að hafa mjúka og góða skó, sem eru ekki of breiðir, og hafa mjúkan botn. Sumir kjósa að spila bara í sokkum, en það er t.d. ekki ákjósanlegt, þar sem að maður spennir tærnar meira við það, og getur það verið óþægilegt til lengdar. Svo getur maður líka fengið flísar í fæturnar ef maður ekki er í skóm.
Gömlu skórnir mínir, sem ég keypti dýrum dómum fyrir c.a. 14 árum þegar ég var aðeins farinn að fitla við orgelspil, þykja víst ekki nógu góðir, að mati orgelkennarans míns. Honum þótti þeir of breiðir, og botninn er of harður. Ég get alveg samþykkt þetta, þannig að nýja orgelskó þarf ég.
Kennarinn benti mér á einhverja dansbúð niðrí bæ. Þar kostuðu svona dans/orgelskór 650 kr. Þær hafði ég barasta ekki á þeim tíma ég fór þangað inn. Þannig að ég beið með það kaupa orgvélaskóna.
En þegar ég fór að kanna málið, aðallega hjá Sigrúnu Mögnu Þórsteinsdóttur, garganista og netlara m.m., þá er hægt að kaupa svona skó á netinu. Á þessari síðu er hægt að kaupa svona líka fína orgelskó, sem eru víst mun betri en dansi/orgel bastarðurinn, og fyrir mun minni pening, meira að segja þó svo þeir séu sendir alla leiðina frá henni Amríku!
Hlakka til að vera orðinn stoltur eigandi nýs orgelskótaus.

Lík ég þá þessu netluflæði og bið ykkur vel að lifa, húblandi eður ei.

25.8.06

Huggulegheit
Í bakgarðinum, við hliðiná mínum bakgarði, er í skrifuðum orðum jazztónleikar. Það er kirkjan, þar sem ég var nýlega ráðinn tenór í, sem stendur fyrir þessum tónleikum. Ég er að malla mér þann rétt sem hefur í gegnum tíðina verið minn uppáhalds réttur, svona þegar maður talar um hversdagsmat, spagetti bolognese. Ég veit ekki afhverju mér finnst hann svona góður, en þetta er eitthvað sem hefur hangið við mig síðan ég var lítill. Ég fann það stundum á mér, þegar ég var á leiðinni heim eftir t.d. lúðrasveitaræfingu, að mamma myndi hafa hakk og spaghetti í matinn. Mín gerð af þessum rétti er ekki alveg eins og mamma gerði, heldur er meiri tómatsósa í kjötinu, sem inniheldur beikon, sveppi, hvítlauk, gulrætur!, papriku og ýmis krydd.
Nágranninn er kominn út á svalir, með hitarann á, því það er farið að vera aðeins svalara (NB. við erum að tala um að það er ennþá mjög þægilegt að vera í skyrtu og stuttbuxum), og með rauðvínsglas sér við hönd.
Ég gleymdi að minnast á að ég er einn heima, sem getur verið afar huggulegt.
Huggulegheitin gætu ekki verið meiri!

12.8.06


Dúfur
Þegar ég var lítill (og vitlaus eins og bróðir minn hefði sagt) þá fannst mér dúfur vera fallegir fuglar. Kommon! Það eru ekki margir fuglar bláir í íslenskri náttúru. Dúfur geta jú alveg haft annan lit, en þessi venjulega dúfa er blá.
Þessi dúfu hrifning mín gekk svo langt að ég prófaði að veiða þær lifandi. Systkini mín lugu að mér að dúfur þætti laukur góður. Svo ég hakkaði ein lauk eða sjö og setti í gildruna mína. Ég fékk ekki eina einustu dúfu.
Þegar ég flutti svo til Reyjavíkur þá fékk ég að heyra að dúfur væru "fljúgandi rottur" (var það ekki Hemmingway sem kom með þessa myndlíkingu?). Þær væru allsstaðar og bæru með sér allskonar óþverra.
Ást mín á dúfum fór minnkandi og í dag er þessi áhugi minn á dúfum alveg slokknaður.
Í gönguferðinni sem ég fór í áðan, sökum þess að ég læsti mig úti og þurfti að bíða eftir að Stina væri búin í söngtíma, sem fór fram í nýja óperuhúsinu í Holmen, sem er langt í burtu frá grænum völlum Nørrebro, sá ég tvær dúfur gæða sér á niðurtröðkuðum hundaskít.
Ég hefði betur prófað slíka beitu í gildruna mína.

Í umræddum göngutúr fann ég afar huggulega krá. Það sem gerir þessa krá huggulega er að hún er nánast við hliðiná blokkinni minni, hún hefur ágætis úrval af flöskubjór (kráar eigandi vill meina að hann bjóði upp á 60 mismunandi bjór á flöskum) og staðurinn lítur afar danskur út. Ekkert verið að hugsa um nýjar fansí innréttingar eða slíkt. Bara þykk eikarborð og langir bekkir meðfram veggjum. Staðurinn heitir Café Viking. Hlakka til að gæða mér meira á þeirra gleðitárum.
Í dag smakkaði ég bara A-Z Ale no. 16. Hef smakkað hann áður og er afbragðs mjöður.

11.8.06


J.R
Það er ekki mín áætlun að netla um Dallas, heldur um nágranna minn, J.R. Granninn hefur sama eftirnafn og kærasta mín, Schmidt.
Það hefur ekki hent mig oft, að ég sjái inn í framtíð annarra við það eitt að búa í stigagangi með allt annarri persónu, en það er óhugnanlega mikill samhljómur með granna mínum J.R. og einum afar kærum vini mínum.
J.R. spilar nefnilega á píanó, sem er ólíkt píanó míns kæra vinar, falskt. J.R. er sennilega milli sextugs og sjötugs. J.R. spilar einvörðungu klassískar píanóbókmenntir. Félagi minn kær spilar mest jazz, en á þó til að detta í sama spor og J.R. J.R spilar aðallega á kvöldin. Það heyrist afar vel í öllum stigaganginum það sem hann spilar. Ég er ekki pirraður á því, finnst það eiginlega bara mjög huggulegt. Hann á það líka til að blasta einhverjum píanó konsertinum eftir Mozart og félaga út yfir sitt næsta nágrenni, sem fær mann til að líða eins og ég búi í einhverju fjölbýlishúsi í smáþorpi á Ítalíu. Afar huggulegt.
Í gær var svo kominn auglýsing á sameiginlega korktöflu stigagangsins. Auglýsingin var prentuð á ritvél. Þetta er A4 blað, og á því stendur tónleikaprógramm. J.R. ætlar að halda tónleika 24. ágúst. Hann ætlar að spila þekktar perlur úr heimi píanóbókmentanna.
Ég sé fyrir mér líf míns kæra vinar, eftir svona c.a. 35-40 ár, í lífi J.R.

10.8.06

Stórborgari
Og nú er þriðja borgin að bætast í safn þeirra borga sem ég hef búið í. Þessi borg er einnig sú stærsta sem ég hef búið í.
Kaupmannahöfn/Nørrebro eru nýjustu heimkynni mín. Við erum búiin að koma okkur vel fyrir í íbúðinni, og við erum afar glöð með lóðrétta veggina og allt rýmið. Við fórum úr 34 fm í 56 fm. Á milli stofunnar og svefnherbergisins er glerhurð (hurð með litlum gluggum í) sem gerir íbúðina afar lúxuslega og birtan flæðir um hallarsali Hamletsgötu 15.

Undanfarnir dagar hafa farið í að flytja og koma sér fyrir. Ove kom með flutningabílinn, eins og við reiknuðum með, og hann pakkaði svo vel að annað eins hefur aldrei sést. Menn sem hafa unnið alla sína ævi við sölu húsgagna veit hvernig á að stafla í svona bíla. Einnig fengum við góða hjálp góðra manna bæði við að flytja út og inn. Takk strákar! (svona ef þið lesið þetta)
En nú snýst mitt líf um að finna mér:
1. kirkju til að æfa mig í
2. vinnu
Skólinn minn, Kirkjutónlistarskólinn á Sjálandi, fyllir ekki marga tíma í dagatalinu mínu. Ég fer í bókleg fög á þriðjudögum, aðra hverja viku, og svo er orgeltími alla miðvikudaga frá kl.12-13. Annað var það nú ekki, þannig að ég ætti að geta fengið mér einhverja vinnu án þess að það komi niður á náminu. Þá er bara að finna eina slíka.
Það sem er þó mest merkilegast við þennan skóla, er að ég þarf að borga 2.700 kr fyrir árið. Öll þau 5 ár sem ég hef lært við konservatoríið, hef ég ekki borgað krónu í skólagjöld, þó svo það nám hafi verið mun viðameira. Merkilegt fyrirkomulag.

Og þá fór að rigna.

3.8.06

Borgarkveðja
Mig minnir að titillinn á þessari netlu sé einnig titill á verki eftir Guðmund Hafsteinsson. Passar það, þið tónfróðu lesendur?
En tilurð titilsins er tilkomin sökum brottflutnings míns frá þeirri ágætu borg Árósar. Stefnan er tekin á þá einnig ágætu borg Kaupmannahöfn. Það mun gerast næstkomandi laugardag.
Íbúðin er sett í stand, m.ö.o. máluð og þrifin. Það fóru c.a. 2 sólahringar í það, og má segja að ef hjálp Helgu, "tengdó", hefði ekki notið við þá hefðum við sennilega ennþá verið að. Hún er sú atorkumesta manneskja sem ég hef hitt. Svo ætlar Ove, "tengdó", að koma á flutningabílnum frá Grenå og flytja alla okkar búslóð á laugardaginn. Ég hef kærastað mig inn í afar góða fjölskyldu!

Seinna í þessum mánuði mun ég svo hefja nám í Kirkjutónlistarskólanum á Sjálandi. Praktískt!

...ég hringi síðar...

6.7.06

Upplitaður en veðurbarinn
Síðan ég kom hingað uppeftir (til Íslands) þá hef ég farið daglega í sund. Íslenskar sundlaugar er eitthvað sem ég sakna hvað mest þarna niðurfrá (í Danmörku), enda gætu sundlaugar varla orðið Íslenskar í Danmörku...en hvað um það...
Að synda svona c.a 500-1000 metra og fara svo í 42-44 gráða heitan pott er góð skemmtun. Líkaminn heldur hitanum í sér restina af deginum og allir vöðvar verða mjúkir.
Þessu fylgir þó einn ókostur. Húðin fer að mótmæla öllum þessum klórböðum. Ætli ekki eitthvað apótekið hafi ráð handa mér.

En þessir dagar hérna í Reykjavík hafa vægast sagt verið frábærir. Þeir hafa liðið við lestur góðra bóka, sundferðir, kaffihúsaferðir á Kaffitár á Laugavegi, og almenn huggulegheit hérna í íbúðinni hans Huga á Magahel. Minntist ég á að við erum líka búin að borða góðan mat? Það höfum við allaveganna gert nóg af.

Á laugardaginn fórum við reyndar í göngu um Hengilssvæðið, í roki og ekkert of miklum hita. Mikið var það nú frískandi. Það lá við að ég og Stina fengum sjokk sökum mikils magns af góðu lofti. Hugi dró þá bara upp cafe creme vindlingana sína og sá okkur fyrir örlítilli mengun. Annars er hann soddan fjallageit að til hans sást nánast ekkert í þessari göngu, hann var alltaf kominn upp á næsta hól á meðan við vorum á miðri leið.
Við enduðum svo daginn með að fara í sunda í Verahvergi.

Daginn eftir (sunnudagur) brugðum við okkur aftur út fyrir bæinn, en þó nokkuð lengra en síðast. Í þetta skiptið fórum við á Stykkishólm. Við höfðum pantað heimagistingu hjá "Heimagistingu Ölmu" og borð á "Fimm fiskum". Báðir þessir staðir reyndust vera til fyrirmyndar.
Reyndar er ekki hægt að hrósa báðum þessum stöðum fyrir smekklegan stíl, herbergið sem við fengum að sofa í var innilega bleikt og með gluggatjöldum í stíl, og veitingahúsið framreiddi matinn á ódýrum diskum frá Rekstrarvörum, en þrátt fyrir það sváfum við vel í góðum rúmum og maturinn var afar góður. Við fengum reyktan svartfuglt í forrétt, með sinnepssultutauji og balsamikedik. Jömmí. Í aðalrétt fékk ég mér kola og meðlætið var fátæklegt salat og bygg í hvítlaukssósu. Mjög gott. Fiskurinn var fullkomlega eldaður. Hugi fékk þorsk með gráðostasósu og Stina fékk fiskiþrennu einhverja. Við vorum öll ánægð. Hugi valdi eitthvað hvítvín sem fullkomnaði matinn. Í eftirrétt fengu þau sér rabbabaraböku með ís en ég fékk skyrköku. Góður endir á góðri máltíð var svo kaffið og koníakið, og hafði koníakið að sjálfsögðu yfirhöndina, þar sem að flestir veitingastaðir hafa ennþá ekki fattað að það er hægt að gera gott kaffi.
Eftir góðan nætursvefn fórum við svo í siglingu um Breiðarfjörðinn, þar sem skipstjórinn og leiðsögumaðurinn var kvenkyns. Hún heillaði okkur þrjú alveg upp úr skónum með ótrúlega fallegri rödd. Maður tók nánast ekkert eftir hvað hún sagði sökum raddfegurðar. Mér finnst að RÚV ætti að hafa upp á þessari stúlku, bara til að lesa eitthvað upp. Hún gæti t.d. róað umferðina í Reykjavík ansi mikið, ef hún fengi að tala í umferðaútvarp, sem er ekki ennþá til hérna uppfrá.
En já, siglingin var góð, enda Breiðafjörðurinn spegilsléttur.
Við keyrðum svo fyrir Snæfellsnesið og nutum útsýnisins úr Fólksvagninum hans Huga.
Dagurinn endaði svo með steiktum lambalundum í gráðaostasósu, að hætti Huga.

Í gær var okkur svo boðið í heimsókn og mat hjá góðu fólki sem var gaman að hitta.

Þetta frí hefur verið í alla staði frábært.
Framundan er svo ættarmót og sumarbústaðarferð út næstu viku, þannig að ferðapistill verður að bíða betri tíma.

30.6.06


Dagur hinna mörgu jakka
Það er hreinlega yndislegt að vera komin til Íslands.
Ég er búinn að fá hverja Íslandsfullnæginguna á eftir annarri í dag. T.d. er ég búinn að borða flatbrauð og hangikjöt, skyr (bæði naturel og bláberja), fara í sund (vestubæjarlaugina), búinn að fá fullt af góðu lofti (með rigningu og roki), búinn að borða gráðaost á rúgbrauð (hið íslenska rúgbrauð er eins og súkkulaðiterta miðað við hið danska, það er svo sætt!) og búinn að kíkja aðeins í miðbæ Reykjavíkur. Dejligt!
En í miðbæ Reykjavíkur gerði ég þau ótrúlegustu kaup sem ég hef nokkurntímann gert. Ég keypti mér tvo jakka! Einn var frá 66 gráðum norður, og hinn var úr "second hand" búðinni Spútnik. Sá fyrsti er útivistarjakki (sjá mynd hér til hliðar), afar fínn. Annar jakkinn er hreinlega sá jakki sem ég hef leitað að í allri Árósaborg, og ekki fundið. Ég fór í hann og hann hreinlega bara hrópaði á mig "Stefán! Ég er passa þér fullkomlega. Þú ert minn næsti eigandi. Kauptu mig!!!) Ég keypti hann. Hann var ekkert sérlega dýr. Fyrri jakkinn var sérlega dýr. En "Tax Free" hjálpar aðeins upp á bókhaldið.

27.6.06

Hann á...
Í tilefni sameiginlegs afmælisdags okkar fjögurra þá vil ég óska hinum þremur, Hafdísi "móðu", Óskari smala og Kristínu Gyðu frænku, til hamingju með daginn!
Stina vakti mig með kossi (já Daníel, þú vissir þetta) og pakkaflóði. Ég fékk Mexíkósk eðal rauðvín sem ég hlakka mikið til að smakka. Einnig gaf hún mér Holmegaard karöflu, 4 kaffi/mjólkur glös og síðast en ekki síst, þá fékk ég kaffi stimpil (stamper). Það er ótrúlegur munur að hafa stimpil sem passar í handfangið á espresso vélinni. Frábær gjöf, eins og hinar, en þó aðeins meira frábærari, sem ég er nú þegar búinn að prófa 3svar.
Frá tengdafólkinu fékk á svo Weber "ferða"grill (go-anywhere).
Í dag er rigning, en það gerir ekkert til.

26.6.06

Ráðgáta
a) Afhverju komst hann ekki inn í "einleikara"-deildina í Konservatoriinu í Kaupmannahöfn?
b) Hvernig stóð á því að hann hélt að hann yrði "musiklærer" eftir 4.árs prófið í tónfræði, en það var misskilningur?
c) Afhverju náði hann 4.árs prófinu í tónfræði?
d) Hvernig náði hann að gera 2. ára ritgerða vinnu á 1 mánuði?
e) Afhverju komst hann inn í organista námið, þrátt fyrir að hafa fengið annað að heyra í inntökuprófinu?
f) Á hann að taka 5. árið í tónfræði, í Árósum, saman með organistanáminu, í Hróarskeldu?
g) Skildi hann fá SU (statens uddannelsesstøtte)?
h) Hvað ætli hann fái í afmælisgjöf?
i) Ætli einhver annar kór vilji syngja nýju mótettuna hans, sem var samin fyrir herrana og solosópran í kirkjukórnum sem hann hefur sungið í undanfarin ár, og var frumflutt í gær?
j) Skildi það rigna allan tímann á meðann hann og unnustan eru í fríi uppi á Íslandi?

18.6.06

Sextíu mannsár
Í dag hefur ástkær móðir mín lifað í 60 ár. Mér finnst það vel að verki staðið hjá kellu.

Í gær fagnaði ég þjóðhátíðardegi Íslands með dönskum vinum. Ég og Stina héldum eina af okkar sívinsælu pizza veislum. Við tökum hráefnið með okkur, hráefni í mjög svo ítalskar pizzur, og "gestgjafinn" leggur til ofninn. Og í þetta skiptið bauð gestgjafinn einnig upp á alveg hreint frábær rauðvín. Ég hef aldrei drukkið svo mikið af góðum og ólíkum rauðvínum. Og í gærkvöldi fékk ég það sannað að ef maður bara drekku góð rauðvín þá leggjast þau ekki illa í mann, og timburmenn fá frí daginn eftir. Gestgjafinn er Per, vinnuherbergisleigusali minn, og Maria, mezzo sópran. Góð "veisla" í góðum félagsskap. Ég og Per sungum svo þjóðsönginn, upp úr háskólasöngbók þeirra dana. Ég sá einnig um meðleikinn. Skemmtilegur bassa dúett.

Á þriðjudaginn fer ég svo í síðasta prófið mitt. 4.árs lokapróf í tónfræði. Ef ég stenst þá er ég orðinn "musiklærer". Hef ekki hugmynd um hvaða réttindi sá titill veitir mér. Prófið felst í því að ég fæ að heyra einhverja músík, ásamt því að ég fæ nóturnar að henni, og svo á ég að halda fyrirlestur um þessa músík í 45 mín. Ætli það sé ekki bara best að ég drekki einn bjór eða svo á undan prófinu. Það ætti allavegann að mýkja aðeins málbeinið..."og stemningen bliver meget hyggeligere".

12.6.06


slurp
Loksins er byrjað að selja skyr hérna í Árósum. Nágranni minn, sem býr í sama stigagangi og ég, vinnur í heilsubúð hérna rétt hjá. Ég kom við hjá henni í búðinni og sá að þau höfðu mjólkurvörur frá Thise, en ekkert skyr. Svo ég benti henni á þessa nýju vöru, og hún pantaði skyr "med det samme". Ég var í búðinni á föstudag, og skyrið kom í búðina núna í dag (mánudag). Að sjálfsögðu er ég búinn að kaupa og borða, og mikið er nú gott að fá smá skyr. Ég man að ég var kominn með upp í háls áður fyrr, af skyri, en núna var ég farinn að sakna þessa holla réttar.

Þannig að ef þú ert búsettur í Árósum og lest þetta, þá er skyr selt í Ren Kost í Jægergårdsgade.

Verði ykkur að góðu!

11.6.06

Skilafrestur
Mikið er nú gott að sjá fyrir endann á mikilli vinnutörn! Mér þykir svo gott að geta séð fyrir endann á þessum ritgerðasmíðum mínum að ég er búinn að panta sunnudagsmat frá uppáhalds Gríska veitingastaðnum mínum (maður fær góðan og hollan mat undir 100 krónum) sem jafnframt er elsti Gríski veitingastaðurinn í Árósum (var stofnaður sama ár og ég fæddist, 1978) og svo ætla ég að horfa á fótbolta kl.21, með góðri samvisku. LJÚFT!!!
Málið er nefnilega að ég á að skila 2 ritgerðum til að meiga klára 4. ár í tónfræði. Ekki að ég sé eitthvað að deyja úr spenningi í þessari tónfræði, en á sínum tíma hélt ég að þetta væri praktískt nám, en komst svo að því að ég hef ENGAN áhuga á að kenna tónfræði. Tónfræði er nefnilega svona kjaftafag, þeas. þegar þú ert kominn yfir það að læra hvað nóturnar heita og hvernig G-dúrs þríhljómur lítur út á nótum.
En já, ég var farinn að minnast á þessar blessaðar ritgerðir. Í rauninni á maður að gera 3 stór verkefni á þessum 4 árum í tónfræði. 2 bla bla ritgerðir og svo 1 æfingu í einhverjum stíl, ásamt greinagerð. Ég hafði gert margar stílæfingar á Íslandi í tónfræðideildinni þar, svo ég fékk þær bara metnar. En helv...ritgerðarnar mátti ég ekki sleppa við.
Þannig að undanfarna 2 mánuði hef ég verið að baksa við 1 ritgerð...já EINA FÖKKING RITGERÐ!!! Ég hef aldrei verið sérlega klár í ritgerðasmíðum. Í rauninni gerði ég örfáar ritgerðir á menntaskólaárum. Fékk mikla "hjálp" frá mér eldri systkinum...hehemm...en hvað um það. Svo hóf ég að gera ritgerð um tónlist á 20. öld sem byggir á tilvitnunum. Spennandi verkefni, en algjör pína að skrifa um í samráði við kennarann minn, því hann er fluguríðari eins og það kallast á dönsku. Hann elskar að velta sér upp úr skilgreiningum og fínum orðum og bla bla. Ekki ég.
Önnur ritgerðin mín átti svo að vera 3 vikna ritgerð, þar sem ég fæ uppgefið umfangsefni frá kennaranum mínum og svo á ég að gera ritgerð um það. Við fundum reyndar upp á efni í sameiningu, þannig að þetta er alveg spennandi. Verkefnið er samanburðargreining á hljóðfæranotkun 4. sinfóníu Brahms og 6. sinfóníu Tsjækofskíjs. Ég greini bara 1. kaflana í þessum verkum, þar sem af nógu er að taka, og ritgerðin má ekki vera meira en 20 síður.
Nema hvað að ég var ekki búinn með fyrri ritgerðina þegar ég fékk þetta verkefni. Og ég tók c.a. 1.5 viku af þessu 3 vikna verkefni í að klára þá fyrri. Þannig að ég hef nú verið að baksa saman þessari síðustur ritgerð á c.a. einni og hálfri viku. Ofaní allt annað, t.d. loka tónleika Stöku (kórinn sem ég stjórna), messusöng í kirkjunni minni, afleysingar í dag sem organisti í kirkju rétt hjá Skanderborg og ýmislegt annað.
Ég á að skila á þriðjudaginn...og á miðvikudaginn fer ég í inntökupróf í "einleikara deildina" í tónsmíðum í konsinu í Kaupmannahöfn.
Mikið hlakka ég til miðvikudagskvöldsins...kannski maður bara detti í það þá! Ertu "game"?

p.s. afsakið leiðinlega færslu! ég er farinn út að ná í matinn minn...er svangur...lofa að skrifa ekki skrifa á fastandi maga næst.

6.6.06

Hlekkir & Dagsetning
Eins og þið sjáið lesendur góðir að þá er kominn nýr flokkur í hlekkjalistann minn, ykkur á vinstri hönd. Sá heitir "Ættingjar og fjölskylda". Ef þið passið í þennan flokk endilega skiljið slóðina á ykkur hér í "ískalt mat".

Svo vildi ég líka vekja athygli á dagsetningunni í dag 06.06.06...óhuggulegt að lesa upphátt.

3.6.06

Ferðalok
Síðastliðinn þriðjudag fór ég í mína síðustu ferð frá Árósum til Kaupmannahafnar til að stjórna kórnum mínum Stöku. Í næsta skipti sem ég stjórna honum mun ég búa í Kaupmannahöfn.
Það var æfing á þriðjudeginum og á miðvikudagskvöldinu voru svo aðrir og jafnframt síðustu vortónleikar Stöku á þessari vorönn. Tónleikarnir voru haldnir í Københavns Bymuseum. Hljómburðurinn var ljúffengur og tónleikarnir heppnuðust ágætlega.

En það sem gerðist fyrr á þessum miðvikudegi heppnaðist ekki eins ágætlega.
Ég var nefnilega með allt mitt hafurtask (bakpoki og íþróttataska), hjólandi, á leiðinni að hitta Ingibjörgu Huld. Ég hjóla varlega sökum tasknanna. Framúr mér hjólar ung stúlka. Hún rekst í mig, missir stjórn á hjólinu, keyrir útaf hjólastígnum, inn á hann aftur og dettur beint fyrir framan mig. Ég næ ekki að gera annað en að hjóla á hana og detta svo sjálfur...með andlitið á undan. Ég kynnti kinnina á mér fyrir malbiki hjólastígsins og öfugt. Þeim kom ekkert vel saman. Malbikið reif af kinninni smá húð og skemmdi gleraugun mín. Ekkert sérlega huggulegt samskipti þar.
Sökum þess að ég lenti á andlitinu og líka öxlinni þá var ég svolítið vankaður eftir fallið og hélt á tímabili að það myndi líða yfir mig. Það voru tvö góð vitni að þessu sem buðust til að hringja á sjúkrabíl. Ég þáði það þar sem að ég hafði ekki hugmynd um hvar næsta sjúkrahús væri og hélt jafnvel að ég væri farinn úr axlarlið. Svo reyndis þó ekki við nánari athugun, en ég gat með engu móti hreyft á mér vinstri handlegginn.
Stúlkan sem ég keyrði á og datt yfir skrámaði sig örlítið á ökklanum, önnur voru ekki meiðsli hennar.
Löggan kom og tjekkaði á okkur og svo var ég settur upp í sjúkrabíl og skutlað á sjúkrahúsið. Gaman að hafa prófað svona sjúkrabíl, og sérstaklega þar sem að ég var ekkert alvarlega laskaður.
Á sjúkrahúsinu fékk ég að bíða lengi eftir að sár mín á andlitinu voru malbiks hreinsuð, mér gefinn stífkrampasprauta til vonar og vara, og svo settur í röntgen. Ekkert brotið, bara svona djéskoti slæm tognun. Ég get ekki ennþá hreyft á mér vinstri handleginn eðlilega.
Sem betur fer var þetta bara vinstri handleggur sem bæklaðist, því annars hefði ég ekki getað stjórnað tónleikunum um kvöldið. En s.s. þá gengu þeir fínt þannig að þetta gerði ekki að sök.
Við slúttuðum svo kvöldinu á Hvids Vinstue, með nokkrum bjórum og vindlum.

27.5.06


Århus by night
Núna er nótt. Klukkan er 01.35 og það er föstudagsnótt.
Ég var að koma ofan úr Viby. Þar búa Skúli, Sigrún og Guðjón Steinn. Skúli og Sigrún giftu sig fyrir 11 mánuðum og nokkrum dögum síðan, og hafa verið trúlofuð í 5 ár, 1 klukkutíma og 35 mínútur. Í tilefni af giftingu þeirra þá gaf ég þeim tvo bíómiða í brúðkaupsgjöf og barnapössun á meðan þau myndu geta nýtt sér miðana. Það var svo í kvöld þau nýttu sér þetta tilboð.
Þetta var alveg eins og ég væri táningsstúlka að koma að passa. Þau pöntuðu pizzu handa mér, reyndar handa sér líka, og svo fóru þau í bíó. Þau skildu eftir nammi handa mér og drykkjarföng. Þau svæfðu meira að segja Guðjón Stein áður en þau fóru. Það þarf reyndar ekkert að svæfa drenginn, hann er bara settur í rúmið og honum óskað góðrar nætur. Þannig að ég hafði ekkert að gera nema að "zappa" á milli allra 30 sjónvarpsstöðvanna sem buðu upp á ekki neitt.
Svo komu þau heim rétt eftir miðnætti og ég hjólaði heim, sem er ástæðan fyrir þessu netli.
Lyktin af gróðrinum er frábær hérna í DK. Sérstaklega á kaldri sumarnóttu. Og það skemmtilega er að ég á minningar um þessa lykt. Það er ekki margt sem ég á minningar um í þessu landi, þar sem ég ólst jú upp í allt öðru landi. En nú eru þetta orðin nánast 5 ár síðan ég fluttist hingað, og fjárhagurinn ekkert boðið upp á eilíft flakk heim, þannig að einhverjar minningar eru komnar á minnisbankabókina.
Þessi lykt sem ég er að tala um, þessi sæti gróðurilmur í kaldri nóttinni, tengist minningunni um morgnana þegar ég var blaðberi alheimsblaðsins Jylland Posten yfir eitt sumar. Það var sumarið 2002. Það sumar var HM í fótbolta. Það sumar samdi ég "Fimm vísur um nóttina". Það sumar bjó ég saman með Þyri á Vilhelm Bergsøesvej 43. Þetta sumar byrjaði ég líka að blogga, undir súð, í hita og svita. Ef ykkur langar að vita meira hvað ég gerði þá getið þið farið í (vonandi) huggulega ferð aftur í tímann á þessari netl síðu, sem þá hét neddusíða, og lesið ykkur til um það sem á daga mín dreif í júlí mánuði árið 2002. Hljómar spennandi, ekki satt?
En aftur að þessu með minningarnar.
Það er skrýtið að flytja til lands, þar sem maður hefur enga fortíð í. Það er ekkert í náttúrunni eða bæjunum hérna sem ég get tengt við mína fortíð. Þetta er náttúrulega engin Afríka, þar sem fólk hefur annan húðlit og kúkar í holur, en samt annað. Ég þekki ekki Eurovision lögin sem mínir dönsku vinir ólust upp við (sennilega sem betur fer), ég þekki ekki kvikmyndirnar sem þau sáu, ég veit ekki hvað þeim þykir hallærislegt af því að það var svo vinsælt hérna í kringum 1980 (t.d. kínakál hefur gengið í gegnum mikinn hallæris áróður, en er að koma inn aftur því það var orðið svo hallærislegt að það var komið hringinn) og ég veit ekki hvernig það er að halda sumarfrí á ströndinni. Ég er ekkert að kvarta, því ég hef fullt fullt af öðrum minningum, en það er bara skrýtið stundum að vera algjörlega ekki með á nótunum þegar þessi danagrey fá fjarræn blik í augun og rifja upp gamla daga.
Það er gott að eiga góða íslenska vini sem minna mann á uppruna sinn, og eiga súkkulaðirúsínur frá Nóa Síríus handa mér.

21.5.06

Kirkjan og fólkið
Áðan var ég að spila í 2 messum sem afleysingarmaður fyrir kunningja minn. Kirkjurnar voru einni tvær og hafa báðar ágætis orgel að glamra á. Mér finnst gaman að spila í messu.
En ástæða fyrir þessu netli er fjöldi kirkjugesta. Í fyrri messunni sem var kl.09.00 voru 3 kirkjugestir, og svo 4 starfsmenn. Það voru s.s. presturinn, kirkjusöngvarinn, kirkjuvörðurinn og svo ég. Í allt vorum við 7, sjáanleg, í kirkjunni.
Í seinni messunni mætti 1 kirkjugestur. EINN! Starfsmenn voru aftur samtals 4.
Er ekki kominn tími til að annaðhvort loka ríkiskirkjusjoppunni eða að hrista verulega upp í þessu? Þá á ég ekkert endilega við að öll músík þurfi að vera hallærsilegt gospel sungið af hvítbleikum svínétandi dönum (tja eða hvítbleikum íslendingum) eða einhver poppismi á ferð. Það má bara færa hið talaða mál og músík nær okkar samfélagi á einhvern hátt. Sumir prestar geta þetta, en ég held að það séu alltof margir prestar sem eiga ekki möguleika.
Ég er allaveganna hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju. Húsin eru góð, en innihaldið er oft jafn spennandi og að horfa á brauð bakast.
Áfram kristmenn krossmenn!
Evróvisjón
Á bloggsíðum þessa dagana hefur ekki verið um annað skrifað en gengi Silvíu Nætur og Evróvisjón. Þannig að ég verð að taka mig á og fylgja straumnum.
Sem barn þótti mér gaman að Evróvisjón. Öll fjölskyldan var saman komin og við borðuðum laugardagsmat, yfirleitt pítsa eða pylsur. Svo sáum við showið. Spáðum í hver myndi vinna og þetta sem maður gerir þegar maður sér Evróvisjón. Eftir að ég fluttist að heiman hef ég verið í einu Evróvisjón partýi, og það var bara gaman. Missti reyndar af Mezzoforte tónleikum, en úr þeim missi bætti ég úr um daginn.
En undanfarnar keppnir hefur mér verið nokkuð sama um hvort ég hef séð þetta eður ei. Mér finnst asnalegt að keppa í tónlist.
Núna í kvöld sá ég síðustu lögin. Ég náði í endinn á Finnska laginu og kaus því það. Lögin sem komu á undan heyrði ég ekki, og lögin sem voru á eftir voru ekki nema til að hlæja ennþá meira að. Mér finnst þessi finnska framkoma vera frumleg á Evróvisjónskum mælikvarða og mér finnst þetta aðeins hrista upp í þessari keppni, og ekki veitir af. Því að mínum mati ætti að slökkva ljósin í loka Evróvisjón bankanum. Þetta er eitt af því furðulegasta tónlistarfyrirbæri sem finnst...fyrir utan heimsmeistaramótið í harmóníkuleik.
Hver er tilgangurinn með þessari keppni? Afhverju er verið að eyða aurum skattborgara í þetta? Hvert er menningarlegt gildi þessarar keppni?
Ég stend á gati, og nenni ekki að skrifa meira um þessa "lágkúrulegustu tónlistarhátíð heims" eins og Knúturinn orðaði svo vel.

19.5.06


Loksins, loksins!
Nú hefur Thise mjólkurbúið hafið framreiðslu á skyri, íslensku eðal skyri. Og varan heitir líka skyr, ekker rugl á dönum.
Foreldrar mínir borða skyr í hverju einasta hádegi. Það gerði ég líka þegar ég bjó heima. En eins og svo margt annað, þá verður maður leiður á því til lengdar. En síðan ég flutti til DK þá hefur áhugi minn á að fá skyr, aukist til muna. Ég hlakka mikið til að opna fyrstu skyrdósina og hræra mér gott, þónokkuð súrt, skyr, og hafa rjómabland með...mmm.

18.5.06


Um ágengni hunds
Í gær vann ég frameftir. Þarafleiðandi náði ég ekki í búð til að kaupa eitthvað í kvöldmatinn. Þannig að á leiðinni heim kom ég við hjá nærliggjandi innflytjenda búllu og keypti mér kefta. "Innflytjenda búlla" er ekki neikvætt orð yfir skyndibitastað sem er rekinn af innflytjendum. Bara nákvæmlega það sem svona staður er. Staður rekinn af innflytjendum og ekkert sérlega huggulegur, þarafleiðandi búlla. Á sumum þessara staða er hægt að fá mjög góðan mat, á öðrum er hægt að fá mjög vondan mat. Þessi staður var nær því síðast nefnda.
Kefta er nautahakk sem er blandað saman við steinselju og fleiri góðar kryddjurtir. Kjötið er síðan sett inn í svona flatbrauð, ásamt helling af grænmeti og viðeigandi sósu. Þessu er síðan rúllað upp í brauðinu. Munurinn á þessu og shawarma eða kebab er kjötið.
Eftir að ég hafði fengið mitt kefta, reiddi ég hjólið á meðan ég gekk heim og maulaði matinn. Úr því að rúllan var pökkuð inn í pappír þá þurfti ég stundum að fjarlægja smá pappír til að geta fengið mér bita. Í einni af þessari pappírsfærslu sé ég að á eftir mér gengur hundur með eigandann sinn, og bókstaflega í þessari orðaröðun. Þetta var svona breiður, ófríður bolabítur, eins og hundurinn í Tomma og Jenna (sjá mynd hér til hægri). Hundurinn teymdi eiganda sinn, sem einnig var nokkuð breiður og sterklegur ungur maður, upp að mér og settist bein fyrir framan mig. Hann einblíndi á matinn minn, sleikti út um og setti upp álíka bros og hundurinn á myndinni hér til hliðar. Stakk framtönnunum svona út, en var samt ekkert að urra eða neitt, bara að biðja eins fallega og hann gat um matinn minn. Ef hann hefði getað staðið uppréttur eins og hundurinn hér til hliðar, þá hefði hann örugglega tekið svona í mig, eins og hann gerir við Tomma á myndinni.
Þetta þótti mér fyndið, og hló mikið að hundinum, sem var afar staðráðinn í að fá matinn af mér. Eigandinn sagði að hann væri bara gráðugur og fengi nægan mat heima hjá sér. Ég sagði hundinum að þessi kvöldmatur væri reiknaður handa einni persónu, og sú persóna var ég, þannig að hann gæti bara gengið leiðar sinnar. Eigandanum tókst að koma hundinum á 4 fætur og saman gengu þeir leiðar sinnar, þó hundurinn afturábak, því hann langaði ennþá í matinn minn. Ég stóð eftir einn, skellihlæjandi á gangstéttinni.

16.5.06

Morten Harket
Þetta finnst mér fyndið.

15.5.06


Kaffihús
Síðan ég var krakki hef ég drukkið kaffi.
Þetta byrjaði allt saman með því að ég fékk stundum að dýfa sykurmola ofan í kaffið hjá Gyðu Marvins, þegar hún kom í spjall og kaffi til mömmu. Mér fannst þetta voðalega gott, og þykir reyndar ennþá.
Heima hjá mér er kaffið bara lagað í venjulegri kaffivél, nema þegar ein kaffivélin gaf upp öndina, því þá var lagað kaffi upp á gamla mátann. Það er þegar maður sýður vatn í katli og hellir því yfir kaffið (sem er í filter og í svona kaffitrekt, og það lekur beint ofan í brúsann).
Ég var iðinn við að laga kaffi heima hjá mér, og reyndar var það oft þannig að ég fór fyrstur á fætur og lagaði kaffi og tók til morgunmatinn.
Mér fannst lyktin af kaffinu best, og þykir enn. Að opna bláan Braga og hella kaffinu niður í kaffidósina var algjör nautn.
Þegar ég fluttist til Reykjavíkur og bjó á Háaleitisbrautinni þá var kaffivél þar líka, en hana nennti ég sjaldan að nota. Mér fannst einhvernveginn svo asnalegt að laga mér einn bolla í svona stórri vél, þannig að ég fékk mér pressukönnu.
Með þeim kaupum opnuðust augu mín því pressukannan þurfti jú grófmalaðra kaffi.
Sérvöruverslanir hafa mér alltaf þótt skemmtilegar, þannig að ég keypti þá mitt kaffi í kaffibúð (sennilega Te og Kaffi í Austurveri, á leiðinni heim frá Hamrahlíðinni).
En það sem að pressukönnukaffið hefur fram yfir kaffi lagað í venjulegri kaffivél er að vatnið er nægilega heitt þegar maður bruggar kaffið í pressukönnu. það á að vera á milli ca. 94-98 gráður þegar það blandast saman við kaffið, en má ekki vera sjóðandi. Þetta fær allt það bragð úr kaffinu sem gerir kaffi að góðum drykk.
En fljótlega fór ég að finna fyrir því að mér þótti ekkert sérlega gott að drekka svona mikið kaffi. Ég vildi frekar fá mér einn lítinn sterkan bolla, þannig að ég keypti mér svona litla könnu til að laga espressó í. Lærði samt með tímanum að þetta heitir mokka kaffi kanna. Espresso kemur bara úr vél sem hefur nægilega mikinn þrýsting til að laga alvöru espresso. Kem að því síðar.
Það tók mig langan tíma að búa til viðunandi kaffi í þessari könnu. Maður þarf að pressa kaffið örlítið ofan í hana og setja rétt magn af vatni og svo það mikilvægasta að hafa réttan hita á hellunni þegar maður lagar kaffið. Mikil stúdía sem mér þótti afar skemmtileg.
Mokkakaffið krefst þess að maður noti fínmalað kaffi. Ég sá að það var praktískara að kaupa bara heilar baunir og svo litla rafmagnskvörn, svo ég gæti bara malað þann gróf/fínleika sem ég ég vildi fá. Það leiddi af sér að ég notaði alltaf nýmalað kaffi, sem þýðir að kaffið varð mun betra en áður.
Í dag á ég 3 mokkakönnur í mismunandi stærðum. Svo er náttúrulega nauðsynlegt að eiga mjólkurkönnu sem maður getur hitað og strokkað mjólkina í.
Í dag á ég litla maskínu sem heitir Rancillio Silvia, og hún er endalaus uppspretta góðs kaffis.

En, afhverju er ég að þreyta ykkur með þessu?
Jú, mig langar að stofna lítið kaffihús. Þann draum hef ég haft lengi í maganum, en ég held jafnvel að ég láti til skara skríða innan fárra ára.
Þetta verður kaffihús með eðalkaffi, þar sem ég mun jafnvel sjálfur brenna baunirnar. Ef húsakynnin eru rétt staðsett þá er hef ég einnig áhuga á að geta boðið upp á mat, en afar einfaldan kaffihúsamatseðil. Ef um mat er að ræða þarf ég líka að geta boðið upp á vín og að sjálfsögðu góðan bjór. Helst innfluttann (belgískan og tékkneskan bjór).
Líst ykkur ekki vel á þetta?
Ef þið hafið gott nafn á huggulega kaffihúsið mitt (sem er NB ennþá draumur og verður ekki alveg að veruleika í bráð) þá skuluð þið endilega koma með það hérna í "ískalt mat".

14.5.06

Síðan síðast...
...hefur ýmislegt gerst í mínu lífi. Hér kemur smá listi yfir það:
- ég er búinn að syngja í söngkvartett á tónlistarhátíð
- ég er búinn að stjórna mínum fyrstu alvöru tónleikum
- ég er búinn að stjórna verki eftir sjálfan mig á tónleikum
- ég er ekki búinn með ritgerðina sem ég á að skila þann 23.maí
- ég fór á tónleika með Mezzoforte
- ég er búinn að fá nýtt vinnuherbergi og flytja í það
- við erum búin að fá íbúð í Kaupmannahöfn að Hamletsgade 15

iPoddinn minn er veikur og hefur verið laggður inn til skoðunar. Ég vona að hann deyji svo ég fái nú splunkunýjan.

Vorið í Danmörku skartar sýnu fegursta þessa dagana. Ég er kominn í stuttbuxurnar og stuttermabol og tek á móti vorinu fagnandi.

2.5.06

Lesið í skýin
Fyrir rúmlega 2 árum síðan var ég staddur á bar ásamt nokkrum sem ég hafði verið að syngja með á tónleikum fyrr um daginn. Eftir alltof fá bjóra gegnum við út, og ég var fyrstur út. Þegar ég kem út fyrir er mér litið upp til himins. Á himninum voru skýin búin að móta þetta líka risatyppi sem var á leiðinni inn í kvennmannssköp. Þessari sýn deildi ég einvörðungu með einni manneskju úr hópnum, því þegar hinir komu út var þessi sýn búin að breytast í kynfæri á holdsveikum einstakling, eða tómat sem var á leiðinni yfir götu. Við fórum bæði að skellihlæja við þessa sýn. Svo sögðum við bless og gengum hver til sinnar íbúðar.
Fyrir c.a. 1 mánuði erum við tvö búin að vera saman (í þeirri merkingu "að vera kærustupar") í 2 ár.

Horfðu til himins.

1.5.06


I remember...
Á fimmtudaginn byrjar tónlistarhátíð hér í borg. Hátíðin kallast Spor og á henni er eingöngu spiluð nýlega samin tónlist. "Nýlega" þá meina ég á síðustu 50 árum.
Á fimmtudagskveldið mun söngkvartettinn Sinus, þar sem ég er bassinn, syngja tvö verk. Það eru verkin "Six Geometries" eftir Alvin Lucier og "You" eftir Andrew Hamilton. Á þessum tónleikum verður svo verkið "I remember" eftir áðurnefndan Alvin Lucier flutt. Það er ástæðan fyrir þessu netli.
Þetta verk er örugglega ansi skemmtilegt áheyrnar. Það er líka gaman að "syngja" í því.
Verkið er fyrir raddir. Hver einstaklingur er með hlut sem "resónerar" og er lokaður í annan endann, t.d. blómavasi, stór skál osfrv. Verkið hefst á því að "kórinn" heldur þessum hlutum fyrir framan munninn á sér (best ef hlutirnir hylja allt andlitið) og byrja að syngja, frekar veikt, ofan í þá, á sérhljóðanum "Ú". Svo á hver og einn söngvari að finna þá tónhæð þar sem hluturinn "resónerar" mest. Þetta fer fram með löngum líðandi tónum. Svo þegar maður hefur fundið þennan "resónans" tón þá á maður að renna hægt og rólega af og á þann tón. Það myndast margir spennandi hljómar, og svo þegar einn hittir á "resónans" tón þá hljómar sá tónn aðeins hærri en hinir. Þetta myndar afar athygliverðan hljóðheim.
En þetta er ekki nóg. Hver og einn söngvari á að lesa upp nokkrar setningar sem eru minningarbrot úr lífi þeirra. Setningarnar eiga að vera á ensku, en við höfum þetta bæði á ensku og dönsku. Dæmi um setningu gæti verið "I remember when my best friend hit me in the face". Eftir að maður hefur sagt eins setningu þá bara heldur maður áfram að syngja og leita að sínum "resónans"tóni. Voða gaman.
Verkið getur verið eins langt og við viljum, og það getur verið flutt af eins mörgum og þú vilt. Þó er lágmarskstærð c.a.15 manns.
Tónleikarnari verða haldnir í Sct.Pauls kirkju (kirkjunni minni) og hefjast þeir kl.22.
Spennandi tónleikar.

Aðrir spennandi tónleikar eru tónleikar kórsins sem ég stjórna, Staka. Við munum halda tónleika á sunnudaginn, þann 7.maí kl.15, í Frederiks Bastionen í Kaupmannahöfn. Þar syngjum við aðallega íslenska, og að mestu leyti nýlega, músík. Yfirskrift tónleikanna er "Ást að vori". Sjá meira hérna.
Endilega mætið ef þið getið.

22.4.06

Meira um mikilmennskuna
Sumardagurinn fyrsti
Sumardagurinn fyrsti er á fimmtudegi, nú 19. til 25. apríl, en 9. til 15. apríl í gamla stíl fyrir 1700. Um fyrsta sumardag er getið þegar í elstu heimildum. Vikan var helsta tímaeining í gamla íslenska tímatalinu, og kann það að valda nokkru um að nafn fyrsta sumarmánaðar, hörpu, er ekki þekkt fyrr en frá 17. öld.

Nafnið virðist dregið af vorhörkum, en síðar tengist það öðrum persónugerðum mánaðaheitum og er þá litið á Hörpu sem yngismey sem piltar eiga að fagna á fyrsta degi. Sumarblóta er lítillega gerið í frásögnum af heiðnum sið. Þótt heimildir séu fámálar er líklegt að Íslendingar hafi alltaf haldið til dagsins í mat og drykk eftir efnum og ástæðum. Sumargjafir eru þekktar frá 16. öld og eru miklu eldri en jólagjafir. Ekki var unnið nema nauðsynjastörf eða táknræn sumarstörf, og hafa börn nýtt daginn til leikja. Víða var messað á sumardaginn fyrsta til miðrar 18. aldar en húslestrar héldust mun lengur. Samkomur hefjast í sveitum og bæjum seint á 19. öld. Eftir aldamót tengjast þær ungmennafélögunum, en frá þriðja áratugnum hefur dagurinn verið helgaður börnum með skrúðgöngum, skemmtunum og útgáfustarfi. Fyrsti „barnadagurinn" var í Reykjavík árið 1921. Ýmis þjóðtrú tengist sumarkomu, og er meðal annars talið vita á gott ef sumar og vetur „frýs saman" aðfaranótt sumardagsins fyrsta. Þegar maður sá fyrsta tungl sumars átti hann að steinþegja þar til einhver ávarpaði hann. Úr ávarpinu mátti lesa véfrétt, og hét þetta að láta svara sér „í sumartunglið".
Heimild: Saga daganna eftir Árna Björnsson, 1996

20.4.06

Nýjasta nýtt
Í dag kláraði ég að semja verkið "Torden" (þruma/þrumur). Ég hætti við sítrónu-laxa verkið, og samdi við annan texta í staðinn. Hér er hann:

Torden, har jeg hørt, kan vække de døde,
men ikke i aften!

Du har taget dit tøj af, og ligner en skitse
til fremtiden. En solsort i birken under vinduet
ved ikke, at den ikke har en chance.

Tordenskyernes sorte regnarme
fanger den.

Også du bliver helt våd.

----------------------------------
Skáldið heitir Jens Carl Sanderhoff. Vinsamlegast ekki stela þessu án hans leyfis.

Þið hafið kannski auga með vinsældarlistunum næstu dagana...verkinu er spáð miklum vinsældum!
Mikilmennskubrjálæði
Á meðan að margur danskurinn er farinn að lengjast eftir alvöru vori, þá fæ ég sms frá Íslandi þar sem mér er óskað gleðilegs sumars!?!
Þessi íslenska þjóð.

12.4.06


South Park
Cartman: "Hey guys, do you know what Jewish woman boobs are called?...Jebs."

7.4.06

Tindastelpur
Frá því ég fæddist og fram til 17 ára aldurs bjó ég í einu húsi. Það hús byggði karl faðir minn á sínum æskuslóðum. Þegar hann var lítill þá kallaðist þetta svæði "Melarnir". En í dag heitir þetta bara Hlíðargata. Húsið er númer 24 í röðinni. Gatan er í kaupstað sem heitir Neskaupstaður, og liggur við fjörðinn Norðfjörð.
Áðurnefnt hús stendur upp á smá hól og er efst í bænum, þannig að útsýnið þaðan er afar gott. Úr elhúsglugganum og þeim gluggum sem snúa frá götunni sér maður upp í fjallið sem gnæfir yfir bænum. Úr gluggunum sem vísa að götunni sér maður yfir allan fjörðinn og þeim fjöllum og dölum sem honum fyljga. Eftir að hafa búið í blokkum og húsum sem ekkert útsýni hafa þykir manni meira og meira vænt um þetta útsýni sem Hlíðargata 24 hefur.
Margan rigningardaginn sat maður inni í stofu, með einhverja plötu á fóninum horfði yfir í Búland. Búland er fjallið sem er hinumegin við Norðfjörð. Það eru allavega þrjú tröll sem sofa ofaná Búlandi, og enn fleiri eru þar standandi. Ég lék mér oft að því að láta punktana í auganu (þá sem maður sér ef maður fókuserar ekki á eitthvað sem er fyrir framan þig...) hoppa ofan á þessum tröllum.
Það er allt of langt síðan ég hef komið heim.

En ástæðan fyrir þessu netli er að ég rakst inn á netlsíður hjá stúlkum tveim sem bjuggu einu sinni í næsta húsi fyrir utan Hlíðargötu 24.
Þegar ég var lítill þá bjuggu mægðurnar Halla og Erla í þessu húsi. Þetta er stórt steypuhús, með 2 íbúðum. Það er voldugt. Það var alltaf góð lykt í því. Halla og Erla bjuggu á efri hæðinni, en enginn í þeirri neðri.
Þegar maður fór með mömmu í heimsókn yfir til Höllu og Erlu, þá fékk maður stundum svona djúsfrostpinna, á meðan að þær drukku kaffi og reyktu kannski eina sígarettu. Ég man að mamma reykti Kent og Halla reykti svona brúnar langar sígarettur. Hétu þær ekki More? Bollarnir voru grófir keramikbollar og Halla hafði hvítt hvítt hár. Hún hét reyndar Hallbera. Flott nafn.
Erla og Halla höfðu viðurnefnið "á Tindum". En Tindar er hús sem stendur einnig við Hlíðargötu, bara aðeins fyrir innan nr.24. Ég er ekki alveg nægilega klár í ættfræðinni eða sögunni, en þær hljóta að hafa búið þar á sínum tíma.
En svo þegar þær fluttu í húsið fyrir utan nr.24 þá fór fólk einnig að kalla það Tinda. Einhversstaðar hef ég séð Tindar II á lista yfir húsanöfn.
Svo þegar ég var c.a. 8 ára eða svo þá fluttu Halla og Erla til Reykjavíkur.
Það kallaði í nýja íbúa. Og nú var búið í öllu húsinu. 2 fjölskyldur. Og 2 litlar stelpur. Bjarney og Jónína. Þær léku sér mikið þarna í kring, og stundum komu þær og spurðu hvort ég vildi leika, þrátt fyrir að ég var nokkuð eldri.
Í dag eru þær menntaskólapíur og blogga báðar tvær. Í mínum augum eru þær ennþá bara litlu nágrannastelpurnar.
Þær eru komnar á nobbarahlekkjalistann.

6.4.06

Home alone
Þessa dagana er ég grasekkill. Unnustan er í fjarlægum bæjum að syngja, eins og fyrri daginn. Nú er bærinn ekki lengur Københavnstrup eða Óðinsvé, heldur sá merki bær Skjern.
Ummæli um Skjern:"Skjern er helmingi dauðari en Fossvogskirkjugarður, og helmingi minni" (þýtt og staðfært af undirrituðum).
10 hvert ár er blásið lífi í Skjern Óperuna. Allur bærinn er með. Sviðið er gígantískt og það eru atvinnumenn í öllum stöðum, öðrum en sönghlutverkum. Gott mál fyrir þá nema sem fá tækifæri til að vera með.
Í ár er það "Samson og Dalila" eftir Saint Saens á dagskránni.
Stina syngur Dalilu.

Nú er kórverkið handa Universitetskórnum að skríða saman. Veit ekki með það...allavega mjög "minimalskt" og hreint. Spennandi að heyra útkomuna.

Gengur samt erfiðlega með að byrja á ritgerð um "tilvitnana" tónlist (citat/collage tónlist). Á sennilega að skila 1.maí og er ekki byrjaður. Maximum 25 síður. Júbbí!!!

3.4.06

Low Batteri
Í dag er mánudagur. Batteríin eru lág. Fallið úr sæluvímunni er hátt.
Æfingarhelgin var frábær. Ég held ég hafi aldrei skemmti mér eins vel.
Á föstudaginn komu flestir úr kórnum til Árósa. Eftir að þau voru búin að koma sér fyrir í lélegum húsakynnum Færeyingafélagsins, og smá pítsuát, héldum við litla æfingu. Huggulegheitin ein. Svo fórum við á barinn.
Á laugardagsmorgninum kom restin af kórnum. Svo var æft í Helligåndskirken allan daginn. Mikið rosalega er gaman að stjórna svona góðum kór í svona góðum hljómburði! Hreinn unaður.
Eftir langa æfingu fórum við svo út að borða á Sct. Olufs. Maturinn þar klikkar ekki og við fengum sér herbergi útaf fyrir okkur. Eftir að við vorum búin að borða fórum við "heim" í Færeyingahúsið. Þeir eru með bar á neðri hæðinni, sem var opinn, og áttum við að syngja fyrir gestina. Nema það voru ekki neinir gestir þegar við komum, þannig að ég settist bara við píanóið og við fórum að syngja hina ýmsu slagara. Klukkan var c.a. 23. Ég hætti að spila kl.01. Var þá búinn að fá mikið af rokkviskíi (Jack Daniels) og farið að blæða úr fingrunum á mér. Ég ákvað þó að vera skynsamur og fara heim og fá mér smá svefn.
Ég vaknaði kl.7, og eftir 2 Panodil og langt bað, var ég klár í slaginn.
Við sungum í messu kl.10.30 í Helligåndskirken, sumir úr kórnum bara búnir að sofa í nokkra tíma (já sumir héldu áfram...ungt og efnilegt þetta fólk!). Við sungum Maríumúsík þar sem þetta var boðunardagur Maríu. Við sungum "Haustvísur Máríu" e. Atla Heimi Sveinsson og "Ég vil lofa eina þá" e. Báru Grímsdóttur. Ætli það hafi ekki bara verið einhverjir "rytmískir fordómar", en þeir eru á bak og burt. En hækkunin er nú samt alltaf svolítið hlægileg. EN! Algjörlega nauðsynleg, því annars væri þetta svolítið þreytt í öllum þessum versum.
Þetta gekk allt saman vel og fólk var ánægt.
Kl.14 héldum við svo tónleika. Ég auglýsti tónleikana með aðstoð tölvupósta og sms-a. Það bar svo mikinn árangur að það mættu 4! En þeir voru 4 glaðir sem fóru úr kirkjunni eftir c.a. klukkutíma langa tónleika. Mér fannst gaman að debútera sem kórstjóri. Eiginlega barasta alveg hrikalega gaman. Held ég sé orðinn húkt á þessu.
Ég sagði bless við kórinn minn kl.17.30 og fór svo á kórtónleika með GAIA. Kórhóra gæti maður sagt.

Mikið hlakka ég til kóræfingarinnar á morgun.

31.3.06

Einstök æfingahelgi í Árósum
Á eftir koma 11 meðlimir kórsins Stöku hingað til Árósa og snemma í fyrramálið bætast nokkrir við hópinn. Allt þetta fólk ætlar að eyða helginni í að syngja á kóræfingum. Í kvöld verður stutt æfing, á morgun verður LÖNG æfing og á sunnudaginn syngjum við í einni messu og litla tónleika. Allt þetta fer fram í Helligåndskirken.
Hlakka mikið til að syngja góða músík með þeim. Reyndar mun ég gera meira af að veifa höndunum en að syngja, ekki vegna þess að ég er spastískur einstaklingur með athyglisbrest, heldur vegna þess að ég er kórstjórinn þeirra.
Þessir tónleikar á sunnudeginum eru debut-tónleikar fyrir mig sem kórstjóri. Spennandi að sjá/heyra hvernig það mun ganga.

25.3.06

Laugardagur til martraðar
Ég er líkur karli föður mínum að því leyti að ég kann alls ekki vel við verslunarstórhýsi, svona eins og Kringlan og Smáralind oþh.
Í næsta nágrenni við mig er eitt svona ferlíki sem kallast Bruuhns Galleri. Á mánudögum fyrir kl.12 er ansi gott að fara inn í Bruuhns Galleri ef það er kalt og mann vantar eitthvað úr búð. Þá getur maður rölt um í ró og næði og skoðað það sem hugurinn girnist. En á laugardögum þá breytist staðurinn í helvíti á jörðu. Allt er morandi í krökkum, sem eru orðin stjörf af þreytu eða æsingi, og pirruðum foreldrum þessara barna. Og það er eins og fólk læri aldrei af reynslunni því þessi bygging er alltaf troðfull á laugardögum.
Afhverju finnur fólk ekki upp á því að gera eitthvað annað með börnunum sínum á laugardögum þegar allir eiga frí. Afhverju fara þau ekki í labbitúr með ormana, eða í bíó, eða í fótbolta, eða á bar þar sem krakkinn getur fengið kók á meðan þeir fullorðnu drekka bjór...tja kannski ekki svo uppbyggilegt.
Ég var í þessum hryllingi áðan, því ég þurfti að kaupa blóm handa ömmu hennar Stinu (við förum í afmæli til hennar í kvöld) og ég lofaði mér að ég ætla aldrei að stíga fæti inn í svona hús á laugardegi með börnin mín, þeas. ef ég eignast nú einhver.

En yfir í annað.

Ég var eitthvað að netlast um þetta verk sem ég á að skrifa fyrir kórinn sem ég syng í, Århus Universitetskoret. Þið kannski munið að ég deildi með ykkur erfiðleikunum að skrifa yfir ákveðin orð, en samt ætlaði ég að nota þetta ljóð. Ég er búinn að skipta um skoðun. Nú er annað ljóð komið á vinnuborðið, þó eftir sama höfund, og í þetta skiptið hefur ljóðið töluverðan erótískan undirtón, allavega í minni túlkun. En í þetta skiptið ætla ég láta vera með að birta ljóðið, allavega ekki fyrr en ég er búinn með verkið.

24.3.06...og meira um músík...
Ég er að hlusta á verkið Rendering eftir Luciano Berio (1925-2003). Verkið er að mestum part samið af F. Schubert (1797-1828) en Franz karlinn átti það til að hætta í hálfkláruðum verkum. Þannig að Berio tók sig til og fyllti upp í eyðurnar, á sinn eigin hátt. Sennilega hefur hann eitthvað skáldað á Schubertísku, en allavega er þarna Schubertmúsík og svo Beriomúsík. Ágætis blanda.
Þetta minnti mig á annað tónskáld, Karl Aage Rasmussen, fyrrverandi tónsmíðakennari minn...með meiru. Hann hefur einnig fengist við að fylla upp í holurnar hjá Franz. Nema að Karl Aage (Klaage) fyllir upp í að hætti Franz. T.d. hefur Klaage fyllt upp í ókláraða óperu Schuberts, Sakontola. Einnig hefur hann tekið sinfóníu, sem sumir kenna við Schubert, og tekið þær holufyllingar sem einhver klaufi hafði sett í og fyllt upp í með einhverju meira vitrænna. Ágætis handavinna það.
En það var nú ekki meiningin að blogga um þetta. Meiningin var að vitna í Klaage.
S.s. ég var að hlusta á þetta Berio-Schubert verk (er reyndar að hlusta á Berio-Brahms verk núna) og datt í hug að kíkja á hvað Klaage hafði að segja um Berio karlinn, í bók sinni "Kan man høre tiden", sem ég mæli eindregið með sem og bókinni "Har verden en klang". Þetta eru góðir lystaukar áður en maður sperrir eyrun í átt að tónlist þeirra garpa sem Klaage skrifar um. Klaage hafði ekkert svo mikið nýtt að færa mér varðandi Berio, en aftur á móti er tilvitnun í hann aftan á bókinni. "Vi hører ikke et kvæk, vi hører kun en frø". Á íslensku gæti þetta hljómað á þessa leið: "Við heyrum ekki jarmið, við heyrum kindina".
Þetta finnst mér heilmikil speki.

22.3.06


Apavellir
Sökum þess að ég er orðinn stoltur eigandi iPod þá hef ég verið að endunýja kynni mín við ýmsa músík úr safninu mínu sem ég annaðhvort hef ekki heyrt lengi eða aldrei heyrt í heyrnatólum. Þám. er platan "Monkey Fields" með hljómsveitinni Mezzoforte. Og ætla ég að velta aðeins vöngum yfir þeirri plötu.
Árið 1996 var ég nýfluttur til Reykjavíkur frá Neskaupstað. Ég bjó einn í íbúð sem foreldrar mínir áttu, við Háaleitistbrau 26. Ágætis tími. Eitthvert kvöldið fór ég með Skaftahlíðardrengjunum (Hugi, Addi, Fjalar, Bjarni Agga o.fl.) á tónleika í Borgarbíó. Þetta voru útgáfutónleikar með Mezzoforte, en þeir voru nýbúnir að taka upp plötuna "Monkey Fields".
Ég þekkti nú svona sæmilega til Mezzoforte. Á diskinn "Daybreak" og eru nokkrar perlur þar, t.d. titillagið. Það sem heillaði mig mest við bandið var stórgóður hljómborðsleikur Eyþórs Gunnarssonar. Annars er þetta frábærlega vel spilandi band í heildina.
Músík Mezzoforte hafði verið, fram að þessu, bræðings músík (fusion), og þá bræðingur af jazz, blús og popp tónlist. Slík músík getur verið ágæt, en getur líka verið óttalega litlaus. Það hefur Mezzoforte oft tekist, að mínu mati. Vel flutt músík sem rennur ljúflega niður án þess þó að maður hrífist með. Einhver kallaði tónlistina þeirra "skjáauglýsingamúsík". Ég get vel tekið undir það, þrátt fyrir að lagasmíðarnar hafa verið góðar og flutningur "tipp topp".
En s.s. við fórum á þessa útgáfutónleika, og ég held að ég hafi aldrei haft eins mikinn hálsríg eftir tónleika eins og þessa. Mezzoforte grúvaði geðveigt. Þeir höfðu fengið Óskar Guðjónsson til liðs við sig. Ungur saxófónleikari, fullur af orku og fönkheitum. Það var eins og ungi drengurinn hefði tekið þetta vel spilandi band og rasskellt þá með blautu handklæði og sagt þeim að spila almennilega músík.
Platan einkennist af fönki, brætt saman við spuna jazzins og hráleika rokksins. Þessi blanda getur ekki annað en hrist upp í fólki sem hefur einhvern snefil af rytma í kroppnum. Inn á milli voru týpísk Mezzofortelög (t.d. lögin "Wee Ahh", "Drive" og "Blow") en það var bara önnur stemmning yfir þessari plötu, en þeim gömlu.
Nú hef ég ekki heyrst þeirra nýjustu plötu, "Forward Motion" (2004), bara heyrt aðeins brot af henni, og er ég hræddur um að þeir hafi yfigefið þennan ferska stíl sem þeir höfðu á Apavöllum.

Ályktun: ekki festa sig í einhverju. Gamlar fréttir, en góðar. Þannig að ég segi eins og ég hef áður sagt, burstum stundum tennurnar afturábak.

20.3.06


sjö ellefu
Þar sem ég bý er urmull af góðum matvörubúðum. Gourmet matvörubúðum. Ég hef netlað um það áður, en þar sem að ég er hobbiti þá finnst mér aldrei leiðinlegt að tala um mat, eða borða hann.
Emmerys hefur t.d. upp á frábært maltrúgbrauð að bjóða og góðar kaffibaunir sem þau brenna sjálf. Einnig eru vínin hjá þeim góð og bara allt í búðinni er gott, nema verðlagið. Það er aldrei gott, bara hátt.
Schweizerbageriet státar yfir góðu brauði, eins og góð bakarí gera. Þau fengu 1. verðlaun í keppninni "Besta sérbrauð í Danmörku". Einnig er þjónustan hjá þeim góð.
Byens Ost er afar góð ostabúð. En eins og í Emmerys er verðið himinhátt.
Svo hef ég Føtex sem er góð matvöruverslun.
Slátrarinn á horninu stendur sig líka sæmilega, þrátt fyrir að hafa fengið nokkra fýlukallastimpil í kladdann.
En nú kemur ástæðan fyrir þessu netli.
7-eleven, ameríska sjoppukeðjan alræmda, er einnig í næsta nágrenni (ská á móti kirkjunni minni). Þessari búllu, af öllum bakaríum sem ég hef að velja úr, tekst að búa til frábær croissant. Og stundum eru þau á tilboði, 2 fyrir 10 kr. Hættulegt og ljúft.
Ég tileinka þetta netl 2 croissant, úr umræddri sjoppu. Þau urðu munni og magasýrum mínum að bráð. Herlegheitunum skolaði ég niður með cafe au lait, frá ástinni minni, Miss Silvia...Miss Silvia Rancilio.

19.3.06

Vorið góða
Í dag er "fyrsti í vori". Undanfarið hefur verið svívirðilega kalt. Ég var áðan í sjónum og hann var fagurgrænn sökum lífsins sem sólin kveikir í vatninu. Maður gat setið á bryggjunni og farið í sólbað. "Meget hyggeligt".
Ég fagnaði vorkomunni með því að fá mér ís með dýfu (soft-ice med chokolade overtræk).

17.3.06


Stefáns Bøfhus
Stundum þegar ég er einn heima þá finnst mér afar gott að leika að ég sé kokkur á Jensens Bøfhus. Ég set á mig svuntuna sem mamma gerði handa mér fyrir nokkrum árum (hún er köflótt og er stillanleg) og steiki mér steik. Þetta byrjar nú allt með því að ég tölti mér yfir til slátrarans góða. Tja...góður er hann nú kannski ekki. Matvælaeftirlitið gaf honum einu sinni "ekki alveg broskall" og í næsta skipti þeir komu þá gáfu þeir honum "fýlukall". En hvað um það...
Ég s.s. tölti mér yfir til slátrarans og kaupi mér steik. Svo fer ég í Føtex, sem er gengt slátraranum og kaupi mér ofnkartöflur. Þær getur maður bara sett beint í ofninn, án þess að þurfa að þrífa og skera. Auðvelt.
Svo kaupi ég einnig Jensen Bøfhus sósu. Maður getur valið um nokkrar tegundir sósna (já Daníel, ég stend með þér í þessu) og yfirleitt verður viský eða piparsósan fyrir valinu. Það er svo sniðugt með þessa sósur að maður hellir innihaldi flöskunnar í pott, og fyllir svo flöskuna aftur af rjóma og blandar við sósuþykknið, helst 38% rjóma segir á flöskunni, og blúbbs! þú ert kominn með ljúffenga sósu.
Svo fer ég heim, baka kartöflurnar í ofninum, hita sósuna, steiki kjötið, og blúbbs! (já aftur) ég er kominn á steikhús Stefáns. Jens er farinn í frí og ég redda þessu sjálfur.
Nú gætu sumir spurt, afhverju ferðu ekki bara á Jensens Bøfhus? Sjáðu nú til, Jensens Bøfhus er eins og McDonalds. Fullt af fólki (yfirleitt með slatta af krakkaskröttum með sér) og maður fær ekkert spes þjónustu, né kjöt. En sósurnar þeirra eru góðar!

Jæja, þá ættu kartöflurnar rétt að vera tilbúnar, þannig að tími er kominn á að steikja kjötið.
Verði mér að góðu.