20.12.05

Fá þau róandi?
Desember er sá mánuður sem ég kem oftast í pósthús. Allaveganna eftir að ég flutti til DK.

Fyrsta pósthúsið sem ég kynntist hérna í DK var pósthúsið í Løgten. Ég bjó í Skødstrup, og Løgten er næsti bær, en í Skødstrup var ekkert pósthús.
Þetta var afar notalegt pósthús. Var í rauninni ekki pósthús, heldur smá horn í stærri matvöruverslun. Einmitt það sem Olla litla skólausa var að kvarta yfir á blogginu sínu, en ég kunni ágætlega við þetta. Maður fékk persónulega þjónustu og örlítið spjall kannski. Þannig að jólaörtröðin hjá þeim var ekki svo mikil. Þau fengu sennilega ekki róandi.

Næsta pósthús sem ég kynntist var pósthúsið í Storcenter Nord (nord er borið fram sem "noa" á dönsku). Þetta var alvöru pósthús með númerakerfi og allt. Mér fannst aldrei gaman að koma þarna, því það voru of margir í röð og of fáir að afgreiða. Man ekki hvort starfsfólkið var sérlega viðkunnanlegt. Fengu sennilega róandi samt.

Eitt pósthús kom á milli pósthússins sem ég nota í dag, og þess í Stórmiðjunni í nyðra. En það var pósthúsið í Vesterport. Afar viðkunnanlegt pósthús. Einn starfsmaðurinn var meira að segja hetja, því hann stöðvaði einu sinni ræningja við iðju sína í opnunartíma. Minnir meira að segja að ræninginn hafi hótað starfsmanninum með hníf.
Ég náði aldrei að kynnast þessu pósthúsi í jólaörtröðinni því ég var fluttur, þangað sem ég bý núna, fyrir jól.

Núna bý ég á besta stað í Árósum. Það finnst ekki betra svæði, og það er satt. Fyrir þá sem til þekkja þá er svæðið rétt hjá brautarstöðinni, og rétt hjá Bruuns Galleri, og rétt hjá Emmerys (sem er afar gott bakarí og gourme búð sem brennir sitt eigið kaffi), og rétt hjá Byens Ost, sem er besta ostabúðin, og rétt hjá Føtex, og rétt hjá Schweizerbageriet, sem er eitt besta bakaríið í bænum, og baka besta sérbrauðið í allri Danmörku samkv. einhverri samkeppni þau voru með í, og rétt hjá Sct.Pauls, sem er kirkjan sem ég syng í...og svona mætti lengi telja.
Úr því að ég bý svona vel þá er næstasta pósthús, aðalpósthúsið í borginni, en það er pósthúsið á brautarstöðinni. Þetta er jafnframst stærsta pósthúsið, með flest afgreiðslufólk og flestu kúnnana.
En það sem furðar mig er að afgreiðslufólkið er ótrúlega vinsamlegt. Ef þau væru t.d. strætóbílstjórar þá væru þau þokkalega súr. Ef þau væru kennarar þá væru þau í verkfalli. Ef þau innu í IKEA þá vissu þau ekki neitt.
En þau eru öll sömul ótrúlega góð í sínu starfi. Kunna alveg að setja frímerki á pakkana og reyna að selja manni einhver jólamerki og jólakort, en gera það á vinsamlegan hátt. Og þó svo að ég fái númer 326 og það er verið að afgreiða 287 þá gengur þetta svo smurt að ég næ alls ekki að verða pirraður hjá þeim...bara þegar ég er að verða of seinn í rútuna til Kaupmannahöfn og kerlingartuðran biður mig um að tilgreina allar jólagjafirnar á tollskýrsluna og hvað þær kostuðu!
Þetta starfsfólk fær örugglega fullt af gleðipillum, hláturgas í kaffitímanum og skolaðan endaþarm í róandi upplausn.

--------(þessi punktalína er stolin frá Knútnum, nema að ég nota hana til að skipta um umræðuefni, en hann notar hana sem málsgreinaskipti...afar furðuleg notkun hjá honum finnst mér)

Í dag eru Messías tónleikarnir. Hlakka til að heyra einsöngvarana. Það er uppselt. Þessir tónleikar keppa við jólatónleikana í Dómkirkjunni. Spennandi að vita hvort einhver nennir þangað.

Jæja, let it snow let it snow!

Engin ummæli: