28.12.05

Vitleysingur

ATH: Ef þú ert ekki búin/n að sjá Narnia, eða hefur ekki lesið bækurnar, þá er þessi lesning algjörlega á þína ábyrgð!

Við vorum að koma heim frá að sjá myndina Narnia. Ágætis ræma.
Svo á leiðinni upp tröppurnar í stigaganginum segir Stina (í þýði úr dönsku yfir á íslensku):
Stina: "Svo ljónið var bara Jesús."
Stefán: "Ha! Var ljónið Jesús..."
Stina: " Já varstu ekki búinn að fatta það?"
Stefán: "uuu...Nei, ég var ekkert að pæla í því."
Stina: "Hann dó meira að segja með 2 konum hjá sér...uppi á hæð."
Stefán: "Jááá þannig...hmm..."
Stina: "Og Edmond var Júdas, og Peter hét meira að segja Pétur!"
Stefán: "Já! Ég var ekkert búinn að pæla í þessu."
Stina: "Úff...það var gott að við áttum þessar samræður en ekki þú við einhverja aðra!"

Kærastan mín tók samt ekki eftir því að það var Liam Neeson sem átti röddina á bakvið Jesús...

25.12.05

Merkileg jól
Gleðileg jól öllsömul.

Þessi jól eru nú ekki liðin, en fúlara aðfangadagskvöld hef ég aldrei lifað.
Þetta byrjaði allt saman ágætlega. Við komum hingað til Grenå þann 23. og skreyttum tréð. Voða huggulegt.
Svo vöknuðum við á aðfangadag og allir höfðu fengið í skóinn frá Kertasníki (þau þekkja ekki hann, en ég útskýrði þetta fyrir þeim).
Svo fórum við í kirkju kl.13 og það var svo troðið að við þurftum að standa aftas við orgelið. Mjög fínt.
Eftir kirkju fórum við að leiði afa hennar Stinu og svo heim í kaffi.
Eftir það fór þetta að ganga niður á við.
Kl.17.30 lagðist ég í rúmið með hita og gubbupest. Gat ekki hugsað mér að borða. Ég steig ekki upp úr rúminu fyrr en þau voru farin að opna pakkana. Gat setið með þeim að opna, og fór svo í rúmið, með töluverðan hita. Svaf þetta úr mér í nótt, og er bara ágætur í dag.
ÞETTA FINNST MÉR VERA SVINDL!
Sem betur fer er til afgangur af öndinni, og ég hef matarlyst í dag.

21.12.05

1 down, 1 to go!
Kirkjan var algjörlega pökkuð. Ekki eitt einasta sæti laust. Ekki einu sinni á svölunum. Skemmtilegt að vera þáttakandi í svona vinsældum, þó svo að mér þykir Messías ekkert sérlega skemmtilegt verk. Þetta er alltof mikið hávaði og læti. Vantar nokkra góða kórala (þó svo að þeir séu að verða útdauðir...þennan fattaði Tryggvi alveg örugglega) og nokkra bara venjulega kórala. Og svo á að sjálfsögðu að gera það að venju að sleppa Alleluja kaflanum.
Stina kom á tónleikana með vinkonu sinni sem er líka söngkona. Vinkonan hnippti í hana áður en alt arían "He was despised" byrjaði og bað hana um að taka eftir hversu margir áheyrendur byrjuðu að hósta og ræskja sig á meðan að altinn söng þessa aríu. Það var eins og við manninn mælt, og allir fóru skyndilega að framkvæma þessa merkilegu iðju á meðan að arían var flutt.
--------
Mér dettur í hug atriði í einhverri mynd sem ég sá sem barn, en það var einhver að halda ræðu í vel þéttsettnum sal, og svo byrjaði einn að æla á fremsta bekk, ældi á þann við hliðiná, og svo koll af kolli. Þetta endaði með að allir höfðu ælt á sinn sessunaut (nema náttúrulega þeir sem sátu á endunum...)
--------
En ástæðan fyrir þessum hóstum gæti verið sú að þessi aría liggur töluvert djúpt, eins og allt það sem alt sólóistinn syngur, því altar voru ekki konur í denn, heldur menn, og áheyrendur mynda einhverja samkennd með söngvaranum og þ.a.l. leiðir það til hósta og ræskinga. Skemmtilegt fyrirbæri. Hlakka til að heyra þetta á tónleikunum í Nyborg í kvöld, því ég tók ekkert eftir þessu í gær.

20.12.05

Fá þau róandi?
Desember er sá mánuður sem ég kem oftast í pósthús. Allaveganna eftir að ég flutti til DK.

Fyrsta pósthúsið sem ég kynntist hérna í DK var pósthúsið í Løgten. Ég bjó í Skødstrup, og Løgten er næsti bær, en í Skødstrup var ekkert pósthús.
Þetta var afar notalegt pósthús. Var í rauninni ekki pósthús, heldur smá horn í stærri matvöruverslun. Einmitt það sem Olla litla skólausa var að kvarta yfir á blogginu sínu, en ég kunni ágætlega við þetta. Maður fékk persónulega þjónustu og örlítið spjall kannski. Þannig að jólaörtröðin hjá þeim var ekki svo mikil. Þau fengu sennilega ekki róandi.

Næsta pósthús sem ég kynntist var pósthúsið í Storcenter Nord (nord er borið fram sem "noa" á dönsku). Þetta var alvöru pósthús með númerakerfi og allt. Mér fannst aldrei gaman að koma þarna, því það voru of margir í röð og of fáir að afgreiða. Man ekki hvort starfsfólkið var sérlega viðkunnanlegt. Fengu sennilega róandi samt.

Eitt pósthús kom á milli pósthússins sem ég nota í dag, og þess í Stórmiðjunni í nyðra. En það var pósthúsið í Vesterport. Afar viðkunnanlegt pósthús. Einn starfsmaðurinn var meira að segja hetja, því hann stöðvaði einu sinni ræningja við iðju sína í opnunartíma. Minnir meira að segja að ræninginn hafi hótað starfsmanninum með hníf.
Ég náði aldrei að kynnast þessu pósthúsi í jólaörtröðinni því ég var fluttur, þangað sem ég bý núna, fyrir jól.

Núna bý ég á besta stað í Árósum. Það finnst ekki betra svæði, og það er satt. Fyrir þá sem til þekkja þá er svæðið rétt hjá brautarstöðinni, og rétt hjá Bruuns Galleri, og rétt hjá Emmerys (sem er afar gott bakarí og gourme búð sem brennir sitt eigið kaffi), og rétt hjá Byens Ost, sem er besta ostabúðin, og rétt hjá Føtex, og rétt hjá Schweizerbageriet, sem er eitt besta bakaríið í bænum, og baka besta sérbrauðið í allri Danmörku samkv. einhverri samkeppni þau voru með í, og rétt hjá Sct.Pauls, sem er kirkjan sem ég syng í...og svona mætti lengi telja.
Úr því að ég bý svona vel þá er næstasta pósthús, aðalpósthúsið í borginni, en það er pósthúsið á brautarstöðinni. Þetta er jafnframst stærsta pósthúsið, með flest afgreiðslufólk og flestu kúnnana.
En það sem furðar mig er að afgreiðslufólkið er ótrúlega vinsamlegt. Ef þau væru t.d. strætóbílstjórar þá væru þau þokkalega súr. Ef þau væru kennarar þá væru þau í verkfalli. Ef þau innu í IKEA þá vissu þau ekki neitt.
En þau eru öll sömul ótrúlega góð í sínu starfi. Kunna alveg að setja frímerki á pakkana og reyna að selja manni einhver jólamerki og jólakort, en gera það á vinsamlegan hátt. Og þó svo að ég fái númer 326 og það er verið að afgreiða 287 þá gengur þetta svo smurt að ég næ alls ekki að verða pirraður hjá þeim...bara þegar ég er að verða of seinn í rútuna til Kaupmannahöfn og kerlingartuðran biður mig um að tilgreina allar jólagjafirnar á tollskýrsluna og hvað þær kostuðu!
Þetta starfsfólk fær örugglega fullt af gleðipillum, hláturgas í kaffitímanum og skolaðan endaþarm í róandi upplausn.

--------(þessi punktalína er stolin frá Knútnum, nema að ég nota hana til að skipta um umræðuefni, en hann notar hana sem málsgreinaskipti...afar furðuleg notkun hjá honum finnst mér)

Í dag eru Messías tónleikarnir. Hlakka til að heyra einsöngvarana. Það er uppselt. Þessir tónleikar keppa við jólatónleikana í Dómkirkjunni. Spennandi að vita hvort einhver nennir þangað.

Jæja, let it snow let it snow!

19.12.05

Sykureitrun
Um daginn fékk ég afar skemmtilegan pakka með póstinum. Þetta var gulur kassi frá Póstinum. Systir mín kær sendi mér hann. Ég var ekkert sérlega glaður yfir sjálfum kassanum, meira heldur yfir innihaldinu. Kassinn var troðfullur af gjöfum og sælgæti...og við erum að tala um svo mikið magn af sælgæti að ég kastaði nærrum því upp bara við að sjá allt þetta slikkerí. Ég hafði reyndar beðið hana um að senda mér smá íslenskt nammi, og hún valdi þann kostinn að fylla upp í kassann með gotteríinu góða, frekar en gömlum dagblöðum. Ég er voða glaður...og í súkkulaðisjokki.
Annars er mjög gaman að gefa dönum íslenskt sælgæti. Þeir fussa flestir þegar maður lýsir fyrir þeim hvernig við blöndum saman súkkulaði, marsípani og hinu allraheilagasta í Danaveldi, á eftir skarti drottningarinnar, en það er lakkrís. En þeir bara vita ekki að súkkulaðið er ekki bara venjulegt súkkulaði. Onei! Þetta þarf að vera Nóa Síríus súkkulaði (sem er eiginlega ekki súkkulaði, meira súkkulaðilíki) og ekki alvöru marsípan, heldur einhver merkileg litefnafyllt blanda sem hefur sömu áferð og marsípan, og svo rúsínan í pylsuendanum (frekar ógeðsleg tilhugsun eftir allt þetta súkkulaði) er lakkrís, sem líkist enganvegin alvöru lakkrís eins og aðrar siðmenntaðar þjóðir þekkja hann. Okkar lakkrís er linur og sykursætur, með engan vott um beiskju eða herslu. Okkar lakkrís er meira svona barnamatur fyrir lakkrísfólkið.
En það er svo merkilegt að þessi þrjú innihöld (má maður ekki segja það?) mynda þvílíkt bandalag að hvaða lakkrís-, súkkulaði- og marsípanunnandi verða orðlausir og taka þessari blöndu sem einhverju óþekktu og spennandi blöndu, sem fellur vel að bragðlaukum þeirra.
Húrra fyrir Nóa Síríus!

Á morgun og hinn mun ég synjga í Messías e. Händel á tónleikum hérna í Árósum og í Nyborg. Ekki eins mikið maraþon og þegar ég söng hann með Kára Þormari í Fríkirkjunni, en þá sungum við hann á tvennum tónleikum...sama dag! Mig langaði ekkert að mæta í seinniumferðina. Vona að þessi umferð verði ekki eins þreytandi.
"HaaaaalleLúja! HaaaaalleLúja! HallleLúja! HallleLúja! HallLeeLúj! ."

16.12.05

Sudoku
Heyrt í auglýsingum ríkisútvarpsins í dag:
"Rétta jólagjöfin er á...Suuu...Suuu...suuu-do-kúúúú...sjop...punktur is.......Súdokúsjop punktur is átti þetta víst að vera."
www.sodukoshop.is


Að hemja sig og drepa sinn innri mann?
Ég hef það sem atvinnu að syngja í kirkju. Ég er meðlimur í Sct. Paulskirke kantori. Fyrir þetta fæ ég c.a. 2.000,- dkk. á mánuði. Fínt fínt.
Þegar maður hefur þessa atvinnu þá er maður viðstaddur ansi margar messur á sunnudögum og svo aðrar messur á virkum dögum. Og í morgun var ég að syngja í einni "hverdags gudstjeneste". Þessi messa var ætluð fötluðum einstaklingum frá einhverri stofnununni í sókninni okkar. Þetta var ótrúlega skemmtileg messa. Þau tóku afar virkan þátt í messunni. Þau jánkuðu þegar presturinn spurði þau að einhverju og þau fögnuðu við hvert tækifæri, með lófaklappi. T.d. þá klöppuðu þau eftir að presturinn var búinn að blessa þau. Afar fyndið. Það má segja að þau voru til staðar og sýndu það. Annað en við "venjulegar" messur. Það eru ekki einu sinni staðið upp þegar sungnir eru sálmar. Hversu mikil upplyfting liggur eiginlega í því að kúldrast á rassinum og reyna að syngja lofsöng til Guðs og drottins og allra þeirra þarna uppi í himninum? Nóg um það.

Þetta er fyndið.

Þessa stundina er ég að hlusta á rás 2. Rás allra landsmanna...minnir mig.
Meira en helmingur af þeirri músík sem ég er búinn að heyra núna á þessum hálftíma sem ég er búinn að hlusta hefur verið endurgerðir af gömlum lögum. Afhverju gerir fólk þetta? Núna er t.d. Helgi Björns að syngja "Samferða" með fáránlega loftfylltri röddu. Ekkert er nýtt í þessari endurgerð. Heyrði líka eitthvað jólalag með Nylon stúlkukindunum. Og lagið "Ást" (með texta eftir Pál Óskar, gott lag annars) með einhverju sumarballabandinu. Merkileg þörf hjá Íslenskum poppurum að gera svona lagað. Ég vissi ekki hvert ég ætlaði þegar ég heyrði íslenska útgáfu af einhverjum Kim Larsen slagaranum um daginn...á íslensku NB. og Kim Larsen útgáfunni algjörlega fylgt eftir. Furðulegur kaupfélagsstjóri.
Ég vil taka fram að myndin hér til hliðar er ekki af Kim Larsen, heldur tvífara hans.

11.12.05Blessuð börnin!
Þennan hlekk fékk ég sendan frá einum reglufélaga í Jeeves. Afar fyndið.
Og þennan hlekk fékk ég einnig sendan. Afar sniðug síða þar sem þér er boðið upp á sérhannaða útvarpsstöð, eftir þínum smekk. Gargandi brilli.

10.12.05Jólahátíðin er á næsta leyti
Satt er það. Aðventan er fyrir löngu gengin í garð og ég hef ekkert látið í mér heyra síðan ég kom heim frá Spáni.
Ég er s.s. komin heim frá Spáni. Á Spáni var gaman.

Á aðventunni eru nokkrir atburðir ár eftir ár. Jólatónleikar, jólainnkaup, borða eplaskífur og drekka jólaglögg (eplaskífur hafa ekkert með epli að gera, nema maður geri þær upp á suðurjóska mátann, en það er að setja epli og sveskju inn í hverja "skífu"), og svo eru náttúrulega allir jólafrokostarnir, eða eins og það útleggst á íslensku, jólahlaðborð.
Ég er búin að fara á einn slíkan jólafrokost. Það var með starfsfólki Sct.Pauls kirkju. Að þessu sinni var það bara starfsfólkið sem fór. Afhverju? Jú, það er nefnilega þannig að sóknarnefndin getur ekki verið saman komin í einu herbergi án þess að fara að slást. Kristilegur andi og bræðralag, ekki satt?
En þessi frokost var hinn ágætasti. Við fórum á veitingastað og fengum þriggja rétta máltíð sem smakkaðist vel. Og gaman að vera laus við þennan hefðbundna jólafrokost með hinum hefðbundnu réttum. Saknaði samt snafsins.

Í kvöld er svo jólafrokost nr.2. Í þetta skiptið er það Århus Universitets kórinn sem ætlar að fagna komu jólanna og hittast og snæða góðan mat og drekka vín eða öl.
Það er undirritaður sem sér um matinn. Eins og í fyrra þá mun ég bjóða upp á úrbeinað lambalæri að Andalúsískum sið. Reyndar breyti ég örlítið frá uppskriftinni og set rósmarín inn í rolluna, saman með hvítlauknum. Svo er allt húrlumhæið látið marinerast í sherry og sítrónusafa, sítrónuberki og lauk. Lærin verða svo bökuð í ofni með paprikum, tómötum og bjór, ásamt mareneringunni. Hlakka til að bragða þetta...hef aldrei prófað þetta áður. En þetta hljómar samt ansi öruggt.
Með þessu geri ég svo "klikkaðar kartöflur" (Patates Spastes). Það eru smáar kartöflur, barðar í spað, steiktar á pönnu með kóríanderfræum. Svo eru þær soðnar í rauðvíni. Bragðast afar vel.

Uppskriftirnar eru hérna:
Lambalæri
Patates Spastes

Í gær fór ég á frábæra tónleika með Ensemble 2000. Frumflutt var ný jólatónlist og ein upphafskafli Jólaóratoríunnar í nýrri útsetningu eins tónskáldsins. Þetta var ferskasti jólatónleikur sem ég hef verið á. Og frábært að heyra nýja músík flutta í kirkju. Fullt af klukkum og spennandi hljóðum. You had to be there.