18.10.05

Carlsberg
Ef maður tekur rútuna frá Árósum til Kaupmannahafnar, þá er Valby einasta stoppistöðin í höfuðborginni. Valby var á sínum tíma lítill bær fyrir utan Kaupmannahöfn, en er nú samtengdur við borgina.
Í Valby stendur gamla hjólið hennar Stinu. Við notum það þegar við erum í stórborginni, sem er ansi oft, þar sem að ég er að stjórna þessum kór og Stina tekur einkatíma í söng.
Á leiðinni frá Valby niður í bæ hjólar maður framhjá Carlsberg brugghúsinu (húsunum ætti maður kannski frekar að segja). Byggingarnar eru fallegar og það er alltaf gaman að sjá fílana tvo (skúlptúr sem heldur einhverju húsinu uppi. Þeir sem hafa séð Elefant bjórinn vita hvað ég er að tala um).
Nema hvað að þarna er líka safn, Carlsberg safnið. Oft hef ég verið að pæla í að fara inn, og í dag lét ég verða af því.
Skemmtilegt safn sem endaði með stuttri heimsókn á barinn þeirra. Þar gat maður svo fengið að smakka allt það sem Carlsberg framleiðir, en þó aðeins 2 bjórar fríir.
Skemmtilegt safn fyrir bjóráhugafólk.
Hérna sendi ég litla kveðju úr safninu.

Engin ummæli: