30.9.05


Danskir dagar í Árósum
Þegar danir tala um "stegt flæsk og persillesovs" (steikt svínakjöt og steinseljusósu) fá þeir nostalgískan glampa í augun og hverfa aftur til barnæskunnar, þar sem þeir sátu í endalausu matarboði hjá einhverri frænkunni (tante) og fengu rétt eftir rétt eftir rétt...
Danir elska mat og það er hefð fyrir að borða mikið og lengi. Og drekka öl og snafs með. Svona er þetta ekki í dag hjá ungafólkinu, nema um jól. Þá eru jólahlaðborð, "julefrokost". Þar er etið og drukkið ótæpilega og yfirleitt endar það í vitleysu, t.d. með að halda allrækilega framhjá ektamaka sínum með ritaranum eða öðrum samstarfsaðila.
Ég bjó með einni stelpu sem sagði mér að þegar hún fer í heimsókn heim til foreldra sinna eða einhverrar frænkunnar, þá leiðir ein máltíð yfir í aðra, þ.a.e.s. morgunmatur teygist fram að hádegismat, hádegismatur fram að kaffi, kaffi fram til kvöldverðar og svo kvöldverður fram til kvöldkaffis. Og þetta var ekki lygi. Ég held reyndar að danir hafi fleiri matmálstíma en við íslendingar.

Um daginn fórum við, Stina og ég, í heimsókn til ömmu Stinu. Hún býr í Grenå, sem er einnig heimabær Stinu. Við komum kl.15. Þá var hún búin að baka tvennskonar sætabrauð. Það átum við og drukkum kaffi. Það leið ekki á löngu þangað til hún fór að tala um kvöldmat. Í kvöldmat snæddum við svo kjötbollur ("frikadellar") með agúrkusalati (fínar sultaðar agúrkuskífur), kartöflum og brúnni sósu. Afar ljúffengt. Ég og Stina náðum þó að stökkva út í smá göngutúr á milli máltíða. Svo fengum við aftur köku og kaffi í desert.
Við vorum vel södd þegar við tókum lestina heim.

En aftur að "stegt flæsk með persillesovs".
Í gær hjóluðum við, ég og Lars, út í vetrarbaðklúbbinn okkar (sjórinn er ennþá 15 gráður þannig að þetta flokkast varla undir vetrarbað), Jomsborg, og bleyttum aðeins í okkur. Sánan var einnig brúkuð.
Eftir buslið hjóluðum við svo til baka inn í bæ. Við ætluðum að finna okkur eitthvað að borða, áður við færum að sjá 2 kvikmyndir um nekrofili og sjálfsmorð, í kvikmyndaklúbbnum Slagtehal 3. Við hjóluðum framhjá veitingastaðnum Pinden, sem er í Skolegade. Þar er framreiddur danskur matur, upp á "gamla" mátann, og maður borðar af diskum eins og sést hér á myndinni til hægri. (Þetta er konunglegt danskt postulín, og er "musselmalet"...diskurinn kostar í kringum 700 dkr...litli anginn sem hangir niðraf blóminu í miðjunni á að vísa í átt að þér þegar þú borðar af diskinum. Eða svo sagði mér gamall maður sem sat á næsta borði. Kjötið á að vera næst þér á diskinum. Danir hafa greinilega klikkast af öllu þessu áti í gegnum tíðina) Við pöntuðum okkur "stegt flæsk með persillesovs"...ad libitum. Við átum! Og drukkum öl með.
Kjötið í sjálfu sér er ekkert sérstakt og sósan ekki heldur. En saman gera þau það gott.
Ég hafði það svo gott að mér lukkaðist að sofna yfir sjálfsmorðsmyndinni.
Nekrofilimyndin var afar fyndin.

23.9.05


"Þú ert bara Svíi!"
Í brúðkaupinu hjá Braga Þór, félaga mínum, og Christina var Gunnar H. Eyjólfsson veislustjóri. Honum fórst það ágætlega úr hendi, fyrir utan að hann mundi ekki nafn brúðarinnar, þegar hann tilkynnti að hún myndi halda ræðu. Hann sagði eitthvað allt annað nafn. En hvað um það. Hann sagði að þegar maður er í öðru landi en sínu heimalandi og maður væri farinn að dreyma á erlenda landsins tungu, þá væri langt náð í aðlögun að öðru landi.
Í nótt talaði ég á dönsku upp úr svefni. PISS!
Nú er bara að horfa á fréttirnar á ruv.is á hverjum degi og hlusta á Gest Einar í gegnum netið, því þetta gengur ekki!
Sem betur fer á ég íslenskt brennivín til að minna mig á ísa-kalt-land.

Úr útsæ rísa Íslands fjöll
með eld í hjarta, þakin mjöll
og brim við björg og sand. etc.

22.9.05

Klukk! Þú ert'ann!
Jón Knútur klukkaði mig.

1. Ég er pervert og perversjónir okkar mannanna heilla mig. Ég er meðlimur í perravinaklúbb Stefáns & Sigrúnar Svöfu.

2. Ég hlusta lítið á tónlist, miðað við að ég geri mig út fyrir að vera tónlistarmaður, og ég hlusta afar sjaldan á "nýja" músík.

3. Ég er snobbaður. Ég snobba fyrir góðri hönnun og dýrum hlutum. Get þó lítið notið þess...allavega minna en ég vildi.

4. Mér finnst afar gott að borða sætabrauð og drekka kalda mjólk á kvöldin. Geri þó lítið af því miðað við í gamla daga þegar maður bjó á Hótel Mamma. Hún á alltaf til heimabakað sætabrauð...og stóra frystikistu. Ég held að pabbi fái ótrúlega mikið sætabrauð eftir að við systkinin tjekkuðum okkur út.

5. Ég var 19 ára þegar ég drakk mig fyrst fullan og óhreinkaði minn sveindóm fyrir lífstíð. Þetta gerðist þó ekki sama kvöldið. Það eru margir djammdagar í kringum páska.

Ég klukka Tryggva tónskáld, Ollu litlu skólausu, Prumpulínuna Þyri, Ingibjörgu rigningarrass og Hjört möldvörpu.

19.9.05

Perversjón
Um daginn skrifaði ég tvö, afar fallega hjómandi, orð:
kokigami,
okulolingus.
Engin kom með komment.
Kokigami er þegar menn hafa þörf fyrir að pakka getnaðarlim sínum inn í pappírsfígurur, og æsast kynferðislega við það.
Okulolingus held ég að þýði tunga-auga. S.s. sá sem verður kynferðislega æstur við að sleikja auga náunga síns er okulolingus.
Í gær sá ég brot úr amerískum heimildarþætti um "feeder" eða fæðara.
Þeir sem eru fæðarar, laðast einvörðungu að offeitu fólki og vilja helst gera þau svo feit að þau geta ekki hreyft sig, og verði þ.a.l. algjörlega háð fæðaranum. Fæðarinn fær "kick" við það að vera ómissandi.
Myndin í gær fjallaði um mann sem gerði konuna sína svo feita að hún hætti að geta fært sig úr stað. Hún varð 300 og eitthvað kíló. Hann gerði kvikmynd um hennar síðasta "göngutúr". Og svo hélt hann áfram að gera myndir um hana á meðan hún var algjörlega ófær um að hreyfa sig. Hann seldi síðan þessar myndir. Það var góð sala í þessu. Hann notaði þessar myndir líka til að örva sig kynferðislega. Konan hans var svo feit að ysta fitulagið á lærunum á henni var orðið svart af blóðleysi. Maðurinn hennar var svo stolltur og þótti konan sín svo falleg. Konan komst í Heimsmetabók Guinnes í 2001 útgáfunni.
Konan ákvað að þetta gengi ekki lengur, því það var hætta á að hún fengi hjartaáfall. (!) Hún fór í magaopsaðgerð, og hún léttist. Varð á milli 150-200 kg. Maðurinn hennar tók því afar illa. Hann hætti að hafa eins mikinn áhuga á henni. Það leiddi nánast til skilnaðar.
Myndin endaði á því að maðurinn var inni í fokheldu húsi sem hann var að byggja fyrir konuna sína. Húsið var sniðið að stærð hennar. Dyrnar voru stærri. Herbergin voru stærri. Útsýnið úr svefnherberginu var fallegt, og varð það að vera svo því þetta var herbergið sem konan myndi nota mest. Hún gat ekki annað en legið í rúminu sínu.

Ég segi nú bara eins og Þór & Daníel í Dalalíf:
Furðulegur kaupfélagsstjóri!

17.9.05


Hjólreiðar í Reykjavík?!?
Lesið þessa frétt áður en þið lesið áfram.
Þessir blessuðu hjólreiðagarpar þurftu lögreglufylgd!
Ég skil það vel, þegar um "stórborg" eins og Reykjavík er talað um, vegna þess að það er fullkomlega ómögulegt að hjóla í þeirri borg án þess að leggja líf sitt og limi í stórhættu.
Það eru hvergi hjólastígar. Það er bannað að hjóla á gangstéttum. Umferðin er of klikkuð til að hjóla á götunum, hvað þá í lélegri vetrarfærð.
Þau sumur sem ég bjó í sollinum, vann ég í Gufunesi í Sorpu og Efnamóttökunni. Ég reyndi einu sinni að hjóla í vinnuna og komst að því að það var bara alls ekki hægt. Allar þessar slaufur og hlykkir í Elliðarárdalnum taka heila eilífð að hjóla, og það voru ekki neinir stígar eða undirgöng sem maður gat notað. Strætó var notaður eftir þetta.
Hérna í DK eru hjólastígar út um allt. Þú getur hjólað á milli bæja. Allsstaðar er tekið tillit til hjólreiðarmanna. Sumir eiga ekki einu sinni bíl (fyrir Íslending er það "váááá!") og hjóla um með barnið sitt í vagni sem hægt er að spenna aftan á hjólin. Sumir nota líka Kristjaníuhjólin (sjá mynd).
Ég hef ekki ennþá séð mislæg gatnamót í DK.
Árósar hafa jafn marg íbúa og allt Ísland.

Þannig að ég spyr: Afhverju er ekki hægt að hjóla frá Grafarvogi til Nauhólsvíkur án þess að hafa lögreglufylgd?

14.9.05

Tilveruleysi
Hvað varð um tilveruna?

13.9.05

Hið ástkæra og ylhýra
Stundum fer ég á netlurúnt. Ég kíki við hjá kunnuglegum netlurum og fer svo þaðan áfram á ókunnuga netlara. Maður les ýmislegt og skyggnist inn í líf margra, sem er unun fyrir Hr. Hnýsin í mér.
Ég skrapp á svona rúnt núna í morgun. Að sjálfögðu kíkti ég við hjá Hildigunni, tónskáldi og matgæðingi með meiru, og hlekkjaði hún á þessa síðu. Inni á "málbeininu" fann ég svo hlekk á þetta sprund. Hún skrifar ótrúlega vel að mínu mati. Hefur skemmtilegan orðaforða og beytir því ylhýra á hnittinn hátt. Tek mér það bessaleyfi (í minningu Bessa heitins) að birta hér sléttubönd eftir hana:

Mjúka holdsins freisting flý,
fráleitt drykkju stunda.
Brúka fræðin, aldrei í
enskutímum blunda.

11.9.05

"Ég berst á fáki fráum..."
Í gær hjóluðum ég og Stina ca. 50 km. Við erum bara afar sátt með það.
Það var blíðskaparveður, hlýtt en ekki of heitt. Við hjóluðum að heiman um eitt leytið og vorum komin heim aftur um tuttuguogeitt leytið.
Fyrir þá sem þekkja til staðarhátta hérna, þá hjóluðum við til Studstrup og þaðan upp til Skødstrup (jújú, þar bjó ég fyrst eftir að hafa flutt til DK) og þaðan til Løgten. Frá Løgten fórum við niður að sjó, borðuðum frokost við vatnið, fórum svo í smá skógartúr og hjóluðum svo heim. Á heimleiðinni komum við við (já 2svar við...nú 3svar) í vetrarbaðklúbbnum og fengum okkur bað og sánu. Frábær endir á góðum hjólatúr...jú og svo snæddum við á Sct. Olufs. Amminamminamm.

Annars hef ég spennandi fréttir að segja ykkur...en þær má ég bíða örlítið með. En bara til að spara ykkur spurnirnar þá erum við ekki að fara að gifta okkur og Stina er ekki ólétt.

9.9.05

Nýtt gullaldarskeið framundan í efnahagslífi Dana?
Var að lesa þessa frétt á mbl.is.
Hljómar vel, en er ekki bara búið að færa peningana á einn stað? Til þeirra sem eru í rekstri...til þeirra sem skapa peninga sjálfir? Til þeirra sem búa til þessar tölur?
Allavega hefur verið ótrúlega mikill niðurskurður í öllu sem flokkast til umönnunar og menntunar síðan ég kom hingað.
Það eru t.d. skólar hér í borg, þar sem að nemendurnir hafa ekki pláss til að hafa skólatöskurnar sínar inni í stofunni og kennarinn hefur ekkert borð til að sitja við.
Það verður spennandi að fylgjast með þessu gullaldarskeiði.

8.9.05

Skemmtileg orð
kokigami
okulolingus
To be...
Húrra! Nú er ég komin með lykil að Sct.Pauls kirkju! Kirkja sú liggur einvörðungu 30 m. frá útidyrunum mínum. Nú get ég spilað á orgvélina þar kvölds og morgna.

Vitið þið afhverju tilveran.is er lokuð tímabundið?

2.9.05

1001-1002-1003-1004...
Í nótt var eitt það magnaðasta þrumuveður sem ég hef upplifað. Það voru stanslausar eldingar, og þá meina ég að það leið mest 10-15 sekúndur á milli eldinga. Svo ringdi sem helt væri úr fötu. Kannski hellti einhver úr fötu.

Ég var að lesa á mbl.is fréttina um strætóbílstjórann sem missti báðar lappirnar í bílsysi. Var að velta þessari senu fyrir mér:
Maður situr á götunni, með aðra löppina í fanginu. Fólk drífur að. Hann rekur fólkið í burtu til að hjálpa hinum. Hann langar í smók!
Stórfurðulegt.

1.9.05


grasasnadansasarg
Fór til Kaupmannahafnar að sjá þessa sýningu í fyrradag.
Frábær sýning. Eiginlega ekki hægt að segja meira.

Ég var að spá í hvor það séu til naglaburstaburstar? Minn er nefnilega orðin ansi skítugur síðan ég fór að gera við gamla hjólið hennar Stínu.
eins og gömul kerling!
í dag er ég pirraður út í SU og Danske Bank.
Ég er pirraður út í SU af því að ég fæ ekki SU og ég er pirraður út í Danske Bank af því að það er léleg þjónusta hjá þeim.
Það versta er að ég get ekkert gert við því.
Það er ekki hægt að skammast í SU, því maður á að hafa samskipti við sinn SU-aðila í skólanum. Hún hefur ekkert með það að gera að ég fæ ekki SU.
Það er hægt að skrifa mail til Danske Bank, og ég er búinn að því. Samt er ég pirraður út í hann.

pirr pirr pirr pirr
irrp irrp irrp irrp
rrpi rrpi rrpi rrpi
rpir rpir rpir rpir