3.8.05

Framtíðin
Ég er ekki einn af þeim sem leggur plön fyrir næstu árin...mánuði...vikur...sjaldnast nokkra daga...legg aðallega plön um hvað ég ætla að fá mér næst að borða.
En í fyrradag hafði ég plan fyrir ansi langt tímabil. Fyrir allavega eitt ár.
Ég ætlaði nefnilega að skrá mig í orgelnám hjá Kirkjumúsíkskólanum hérna á Jótlandi. Þar get ég tekið svonefnt PO próf. Það er svona lítið orgelpróf sem gefur mér rétt til að vera organisti í litlum kirkjum. Í Árósum eru nokkrar svona PO stöður, þannig að þetta er ágætis nám sem gæti gefið salt í grautinn.
Svo ætlaði ég að hafa tónfræði námið samhliða.
Ég var búinn að fá alla bæklinga um PO námið og var farinn að spá í prógram fyrir inntökuprófið. Sá að skólaárið hjá þeim liggur frá janúar til desember og maður þarf að sækja um fyrir 1.sept.
Svo hringdi ég í gær í skólann með nokkrar spurningar varðandi námsskipan og námsmat (ansi mörg fög sem ég þyrfti ekki að taka, að mínu mati).
Þá segir daman að þau muni ekki hefja næsta skólaár fyrr en í ágúst 2006! Þau ætluðu núna að hoppa yfir eina önn svo þau gætu verið samferða öllum öðrum skólum.
Mín plön fyrir veturinn og komandi ár var sópað í ruslafötuna.
Þá verð ég bara að bíða með þetta. Kannski tek ég þetta þegar/ef við flytjum í höfuðstaðinn, næsta vetur.

Stundataflan mín fyrir þennan vetur í tónfræði hljómar á þessa leið:
Mán: Brugsklaver (píanónám fyrir tónfræðinema) 13-13.30.
Þri: Teori (tónfræði) 13-14

Hvorki meira né minna!

Engin ummæli: