17.3.05

Síðan síðast og Ólasaga Ögmundarsonar
Þessa stundina er ég heima hjá mér á Brammersgade. Ég og Stina erum annars að passa Fridu í Åbyhøj. Foreldrar Fridu eru í Frakklandi. Frida er köttur sem ekki má klappa. Hún er með snertifælni og þorir ekki út. Bara út á svalir. Hún var nefnilega einu sinni úti að leika sér og læstist sennilega inni í einhverju húsi og komst ekki út í nokkrar vikur. Hún kom svo heim seint og um síðir (eigendur hússins hafa komið heim og hleypt henni út) grindhoruð og varthugað um líf. En hún braggaðist þó, en hefur eitthvað klikkast í kollinum sennilega. Við höfum þó fengið að klappa henni aðeins, en bara voðalega lítið þó.
Frida er fordekruð. Hún fær rækjur og túnfisk í matinn.

Síðan síðastu netlu þá hef ýmislegt á mína daga drifið. Ég fór t.d. til Kaupmannahafnar og upplfiði stærstu músíkupplifun sem ég hef átt. Ég sá og heyrði Julius Cæsar eftir Händel í Det Kongelige Teater. Þvílíkt og annað eins. Aldrei séð annað eins né heyrt. Get ekki lýst því nánar. En fyrir þá sem eitthvað eru inn í músík þá voru söngvararnir frábærir (Andreas Scholl, Randi Steen ofl.) og bandið (concerto copenhagen, CoCo) rokkaði feitt undir spastískri stjórn Lars Ulrik Mortensen sem einnig spilaði á sembal. Hann bar sig að eins og Keith Emmerson, vantaði bara að hann legðist á gólfið og spilaði á sembalinn ofan á sér.
Sviðsetninginn var afargóð. Búningarnir fínir, ekkert svona asnaleg gömul föt þar sem brjóstin á konunum eru klemmd upp undir höku og karlarnir í asnalegum sokkabuxum.
Þessa sýningu á að gefa út á DVD og DR mun taka hana upp einnig og sýna í sjónvarpinu. Látið þetta ekki framhjá ykkur fara.

Yfir í eitthvað allt annað.
Ég er fæddur og uppalinn í Neskaupstað, svona fyrir ykkur sem ekki vita það. Gatan mín heitir Hliðargata og bjó ég í húsi nr.24. Foreldrar mínir búa þar ennþá. Pabba minn smíðaði húsið okkar. Hann og mamma mín bjuggu líka í þessari götu þegar þau voru lítil. Þau bjuggu meira að segja í sama húsi, Vinaminni. Mamma í innendanum og pabbi í útendanum.
En í þessari götu bjó einnig kona ein sem heitir Dunna. Hún á barnabarn sem heitir Óli (Ólafur Ögmundrason). Óli bjó í Reykjavík en kom stundum í heimsókn til ömmu sinnar.
Ég og Óli urðum góðir vinir. Við vorum svona c.a. 8-10 ára þegar við kynntumst. Óli er aðeins eldri.
Óli kom aðallega á sumrin til ömmu sinnar. Við brölluðum ýmislegt. Óli átti t.d. flottar byssur sem við lékum okkur með.
Heima hjá Dunnu, ömmu Óla, var góð lykt. Húsið var gamalt en fallegt og inni var líka fallegt. Afar ömmulegt.
Einu sinni fórum við inn að fiskverkuninni sem alltaf var kölluð SÚN þó svo að það var SVN sem átti hana (SÚN=samvinnufélag útgerðarmanna á nesi, SVN=síldarvinnslan í neskaupstað) og fórum að dorga.
Við steypta bryggjukantinn var frárennslið frá verkuninni. Þar út kom allt gumsið sem var skorið í burtu af fiskinum sem var verkaður. Þannig að þetta var hlaðborð fyrir mávinn og ufsann. Það var stundum svo þröngt á þingi að bökin á ufsanum stóðu upp úr vatninu og undir bryggjunni, sem er úr tréi, var allt morandi í ufsa. Svo mikið að maður sá ekki niður í botn.
Planið var að fylla hvítt fiskikar af ufsa og selja hann svo til Gylfa sem átti laxeldi. Hann gat notað ufsann í laxafóður.
Okkur fannst það ekki ganga nógu hratt með að dorga ufsann, þannig að við fundum tunnugjörð og settum net í hana. Gerðum stóran háf. Svo settum við reypi í gjörðina og létum þetta gossa niður í ufsamergðina. Ufsinn gekk auðveldlega í gildruna og við vorum ekki lengi að fylla karið, fylltum meira að segja tvö.
Svo skutlaði einhver okkur með körin til Gylfa og hann vigtaði þetta og skrifaði kvittun handa okkur og við áttum að fá þetta borgað síðar. Þar sem að Óli er eldri og skildi svona bissness mál þá tók hann kvittunina. Nema að við fórum svo aldrei aftur með kvittunina til Gylfa. Óli vildi ekki fara með hana. Ég veit ekki afhverju. Kannski fannst honum það eitthvað vandræðalegt. En hann setti kvittunina upp á hillu heima hjá ömmu sinni.
Ég hætti að hugsa um þetta, en eftir að Óli var farinn til Reykjavíkur þá varð mér oft hugsað til þessarar kvittunar. Stóð hún enn á hillunni, tók Óli hana sjálfur kannski einn daginn eða hafði kannski amma hans bara hent henni.
Í dag er Óli fiskeldisfræðingur og elur upp fisk á Sauðárkrók.

Nei sko, það labbaði hestur framhjá húsinu mínu!

Engin ummæli: