14.1.05

Fullur máni
Ég var afar ungur að (h)árum þegar ég fór að missa hárið. Sennilega kringum 14-15 ára gamall. Þetta byrjaði sem há kollvik en þar sem að ég gerði ekkert úr því að greiða mér almennilega, lét ég þetta bara liggja tiltölulega klessulega á hausnum og kollvikin voru ekki sýnileg. En svo fór tunglið að myndast, þ.e. þegar kollvikin mætast á miðjum hausnum. Það gerðist svona c.a. þegar ég var 18 ára gamall. Þegar það fór að gerast þá reyndi maður að fela þetta aðeins með að lyfta hárinu soldið frá skallanum...en það heldur ekki í heilan dag, þó svo það líti ágætlega út að morgni, þannig að þetta leit ekkert sérlega vel út. Hef séð myndir af mér frá þessum tíma, og eru þær ekkert til að halda upp á.
Sumarið 1996 var gott sumar. Ég var að vinna í sundlauginni. Dag einn segir mín kæra systir "Stefán, væri ekki sniðugt að ég snoðaði þig?". Ég var ekki alveg á því. En við nánari umhugsun þá myndi ekki mikið skje ef það klæddi mig ekki, ég myndi bara safna þeim hárlufsum sem eftir voru aftur. Í rauninni var þetta mjög góð hugmynd því það styrkir hárið að vera klippt alveg niður í rót og það yrði bara gott að láta sólina skína soldið á skallann þegar ég var í vinnunni.
Þannig að kvöld eitt snemmsumars fór ég heim til systur minnar og hún tók fram vélina rafmagns hárklippur og við fórum út á pall (tröppur, stétt við inngang íbúðarinnar) og byrjaði að "klippa flókann burt!" eins og þeir sögðu í Kardemommubænum.
"Gúlp, hvað nú ef þetta lítur nú hræðilega út!" hugsaði ég með mér, "hvað nú ef ég verð að athlægi og mun þurfa að ganga með húfu sem eftir er sumars, í steikjandi hita við sundlaugina." Þetta voru afar spennandi 15 mín. sem fóru í að klippa mig. Ég leit ekki í spegil. Ætlaði að geyma það þangað til ég kæmi heim.
Þegar ég kom heim fór ég beint að spegli, með bæði augun lokuð. Ég opnaði þau afar hægt svo sjokkið yrði ekki eins mikið.
"Fjandakornið!" þetta var nú ekki svo slæmt. Maður gat alveg vanist þessu. Þetta klæddi mig eiginlega bara miklu betur en að hafa einhvern lubba. "Gott mál, ég get alveg verið snoðaður í sumar".
Síðan snemmsumars 1996 hef ég ekki haft hár af neinu ráði á hausnum.
Afhverju skrifa ég um þetta? Jú, kórstjórinn minn í UNI-kórnum sagði í gær þegar við ræddum planið á móttökuathöfninni á nýja disknum okkar,Livets Bro, að eftir ræðu hans myndum við svo syngja tvo kafla úr verkinu "eftir hálfsköllótta Íslendinginn okkar".
Ég er ekki hálfsköllóttur, ég er heilsköllóttur. Það er ekki stingandi hár á kollinum og mér gæti ekki verið meira sama.
Það er fullur máni sem mig prýðir.

Engin ummæli: