28.1.05

Frægur í Hiroshima
Ég rakst á þessa síðu um daginn þegar ég leitaði á Google undir "Livets Bro" (sem er titillinn á nýjum diski með kórnum sem ég syng í, ef þið ekki vissuð það ;-)
VIð nánari athugun er þetta heimasíða dreifingarfyritækis sem er staðsett í Hiroshima, og sérhæfir sig í Norrænni músík.
"Furðulegur kaupfélagsstjóri".

24.1.05

Söngur Entnanna
Orgvélin var kröftug og mikil. 32 fóta bombardinn hljómaði eins og maður gæti ímyndað sér að brúmmið í Entunum í Hringadróttinssögu myndi hljóma.

Annars er ég að horfa á ísskápinn afþíðast þannig að ég hef ekki tíma fyrir meira í bili...

19.1.05

Verkir í Dómkirkjunni
Ég fékk pöntun um daginn. Pöntunin er frá Dómkirkjunni, eða öllu heldur frá Dómkirkju Kantornum sem er Carsten Seyer-Hansen. Verkið á að vera fyrir kantoriið (kórinn), drengjakórinn og litla hljóðfæragrúppu. Ég hef svo valið að bæta á listann litla orgelinu, sem er splunkunýtt og notast við uppfærslur á barokk músík (positiv kallast þessi orgel held ég), og svo STÓRA orgvélin.
STÓRA orgvélin er verulega stór. Stærsta vélin hér í DK. Yfir 100 raddir. Ótrúlega margir möguleikar þar. Til að vita hvaða möguleika orgvélin hefur yfir að ráða mun ég fá útsýnisferð í dag kl.15 og dómorganistinn, Anders Ribe, mun vera leiðsögumaður. Spennandi! Ég ætla að spyrja mikið um 32.fóta röddina :-) (það er veeeerulega djúp rödd)

Annars kom minn kæri bróðir með þá uppástungu að við færum saman á Queen tónleika í vor. Auglýsi því hér með eftir einhverjum styrktaraðila, svo ég geti líka keypt mér nýtt Finale nótnaskriftarforrit í tölvuna mína nýju. Þekkið þið kannski einhvern greifa sem hefði áhuga á að fá mig í vinnu við að semja músík handa honum?

14.1.05

Fullur máni
Ég var afar ungur að (h)árum þegar ég fór að missa hárið. Sennilega kringum 14-15 ára gamall. Þetta byrjaði sem há kollvik en þar sem að ég gerði ekkert úr því að greiða mér almennilega, lét ég þetta bara liggja tiltölulega klessulega á hausnum og kollvikin voru ekki sýnileg. En svo fór tunglið að myndast, þ.e. þegar kollvikin mætast á miðjum hausnum. Það gerðist svona c.a. þegar ég var 18 ára gamall. Þegar það fór að gerast þá reyndi maður að fela þetta aðeins með að lyfta hárinu soldið frá skallanum...en það heldur ekki í heilan dag, þó svo það líti ágætlega út að morgni, þannig að þetta leit ekkert sérlega vel út. Hef séð myndir af mér frá þessum tíma, og eru þær ekkert til að halda upp á.
Sumarið 1996 var gott sumar. Ég var að vinna í sundlauginni. Dag einn segir mín kæra systir "Stefán, væri ekki sniðugt að ég snoðaði þig?". Ég var ekki alveg á því. En við nánari umhugsun þá myndi ekki mikið skje ef það klæddi mig ekki, ég myndi bara safna þeim hárlufsum sem eftir voru aftur. Í rauninni var þetta mjög góð hugmynd því það styrkir hárið að vera klippt alveg niður í rót og það yrði bara gott að láta sólina skína soldið á skallann þegar ég var í vinnunni.
Þannig að kvöld eitt snemmsumars fór ég heim til systur minnar og hún tók fram vélina rafmagns hárklippur og við fórum út á pall (tröppur, stétt við inngang íbúðarinnar) og byrjaði að "klippa flókann burt!" eins og þeir sögðu í Kardemommubænum.
"Gúlp, hvað nú ef þetta lítur nú hræðilega út!" hugsaði ég með mér, "hvað nú ef ég verð að athlægi og mun þurfa að ganga með húfu sem eftir er sumars, í steikjandi hita við sundlaugina." Þetta voru afar spennandi 15 mín. sem fóru í að klippa mig. Ég leit ekki í spegil. Ætlaði að geyma það þangað til ég kæmi heim.
Þegar ég kom heim fór ég beint að spegli, með bæði augun lokuð. Ég opnaði þau afar hægt svo sjokkið yrði ekki eins mikið.
"Fjandakornið!" þetta var nú ekki svo slæmt. Maður gat alveg vanist þessu. Þetta klæddi mig eiginlega bara miklu betur en að hafa einhvern lubba. "Gott mál, ég get alveg verið snoðaður í sumar".
Síðan snemmsumars 1996 hef ég ekki haft hár af neinu ráði á hausnum.
Afhverju skrifa ég um þetta? Jú, kórstjórinn minn í UNI-kórnum sagði í gær þegar við ræddum planið á móttökuathöfninni á nýja disknum okkar,Livets Bro, að eftir ræðu hans myndum við svo syngja tvo kafla úr verkinu "eftir hálfsköllótta Íslendinginn okkar".
Ég er ekki hálfsköllóttur, ég er heilsköllóttur. Það er ekki stingandi hár á kollinum og mér gæti ekki verið meira sama.
Það er fullur máni sem mig prýðir.

12.1.05

Skriferí
Þennan pistil ritaði ég í sumar, og var hann aldrei birtur hér á blogginu. Það eru sennilega ekki margir lesendur sem kannast við þennan klúbb né þá menn sem ég skrifa um, en hér vinstramegin á skjánum getið þið séð hlekk inn á sf.Heklu heimasíðuna. Þar getið þið séð myndir af umræddum leikmönnum og kynnt ykkur klúbbinn betur.

SF Hekla - IF Lyseng 3
"Endnu kommer der byger, men i løbet af eftermiddagen klarer det dog op nordfra. I aften og i nat tørt og klart vejr. Svag til jævn vind fra nord og nordvest, og temp. ned til omkring 10 grader. Søndag tørt med en del sol de fleste steder, med temp. op mellem 20 og 23 grader. Ret svag vind, mest omkring vest." (http://www.dmi.dk/dmi/danmark/til_lands/ostjylland.html)

Þannig hljómaði veðurspá dagsins fyrir austurhluta Jótlands. Einmitt á þessu svæði, nánar tiltekið í Lisbjerg sem er örlítið fyrir utan Árósa, mættu fræknir kappar SF Heklu kl.11.00. Leika átti leik gegn IF Lyseng og var það síðasti leikurinn þessa tímabils. Einnig stefnir í þetta sé síðastli leikur okkar Heklumanna á vellinum í Lisbjerg, því einhver plön eru um að leggja hraðbraut yfir hann. Andrúmsloftið var þrungið spennu. Einbeitingin var mikil innan hópsins sem hr. Pétursson hafði valið. Menn sóttu sínar treyjur, með sínum uppáhalds númerum letruð aftan á.

"Já mér hefur alltaf þótt vænt um númerið mitt. Ég hef reynt að spila með þetta númer í þeim klúbbum sem ég hef spilað síðan ég var hnokki. Mamma á meira að segja mynd af mér í Víkingstreyju nr. 4 eftir sigurleik gegn FJölni. Þá var ég í 6. flokki. Ég man að ég brenndi af einu víti í þessum leik." (samtal við Stein Gunnarsson, Heklumaður síðan 1997, eftir leikinn)

Snemma beygist krókurinn. Eftir að menn höfðu fundið sínar treyjur var tekið til við að gera sig kláran í síðasta leik fyrrihluta tímabilsins. Fyrirliðinn, Sigurður "smiður" Davíðsson, gaf sér þó tíma í að ganga örna sinna.

"Einhvernveginn er þetta fastur punktur í undirbúningi mínum fyrir leiki. Ég kemst í betra "kontakt" við völlinn og aðstöðuna við að kasta af mér vatni og saur í rétt fyrir leikinn." (samtal við Sigurð Davíðsson, Heklumann síðan 1996, fyrir leikinn)

Já, sumir fótboltamenn hafa undarlega siði og hjátrú. Sumir t.d. vilja þvo búninginn sinn sjálfir, aðrir vilja ekki þvo fötin sem þeir nota til að spila í.

"Ég kann bara orðið vel við stækjuna af hitabuxunum mínum. Hún hreinsar vel úr nefinu og stelpurnar láta mig algjörlega í friði, því lyktin er farin að sitja eftir á mér." (samtal við Örn Ingólfsson, Heklumann síðan 2002, á æfingu síðasta þriðjudag)

Eftir að menn höfðu smurt á sig sleypi-og hitamyndandi kremum, á líklegustu og ólíklegustu staði, og Kiddi búinn að smokra sér í hnjáhlífasmokkana sína, var haldið niður að velli. Völlurinn var afar mjúkur og grasið temmilega sítt. Undanfarna daga, og reyndar áður um morguninn, hafði rignt ansi vel þannig að aðstæður voru ákjósanlegar. Einnig voru allar línur sjáanlegar og þónokkuð beinar.

"Ég kom hingað kl. 10 og merkti völlinn. Fór af stað heiman frá mér kl. 7.30" (sagði Skúli "SM" Magnússon, Heklumaður síðan 2003, í upphitun)

Heklumenn eru að koma mislangt að á æfingar og leiki. Hr. Pétursson, þjálfari, stjórnaði upphituninni af hliðarlínunni. Sjálfur var hann kófsveittur og funheitur eftir hjólatúrinn frá miðbæ Árósa. Stemmningin er ávalt góð í upphitun hjá SF Heklu. Menn láta í sér heyra, þó mismikið, og "peppa" hvorn annan upp.

"Mér finnst það mjög mikilvægt að menn nái upp góðum móral og gríni svona fyrir leik. Sjálfur reyni ég að láta í mér heyra og smita þannig út frá mér. Mér finnst sumir ekki taka þennan part upphitunarinnar nógu alverlega. T.d. þætti mér gaman að heyra meira frá formanninum. Það fer alltof lítið fyrir honum. Ekki nægilega mikill leiðtogi. ÁFRAM HEKLA!!!" (samtal við Svein Guðmundsson, Heklumaður síðan 2004, á meðan upphitun stóð)

Oft getur þó hamagangurinn og köllin orðið að andhverfum tilgangi sínum, því ekki geta allir tekið gríni samfélaga sinna.

"Ég bara þoli ekki þegar menn eru að gera grín að vaxtarlagi mínu. Ég veit það vel að ég er frekar grannur og lágvaxinn, en mér finnst algjör óþarfi af Friðgeiri...og...og Hjalta að...að...[þurrkar burtu tár]...að núa mér því um nasir." (samtal við Erlend Ástgeirsson, Heklumaður síðan 2003, undir fjögur augu, þó voru tvö ansi rök)

Eftir nokkrar ferðir fram og til baka yfir völlin var liðinu deildt í nokkra reiti og svonefndur "reitabolti" var leikinn. Leikurinn felst í því að 4 menn standa á línum reitsins og 2 inn í reitnum. Hægt er að fjölga eða fækka á báðum þessum stöðum og er þá stærð reitsins breytt í samræmi við það. Svo eiga þeir sem inni í reitnum standa að komast inn í sendingar þeirra sem á línunum standa. Sá sem tapar boltanum skiptir svo við þann sem komst inn í sendinguna. Undirritaður er nú ekki vel að sér í svona boltareglum, en þessar reglur fékk hann að heyra þegar þjálfi reyndi að útskýra leikinn fyrir reynslulitlum nöfnum Einari Svan og Jóhanns.

"Bíddu, eigum við þá að spila okkar á milli þegar við stöndum inni í kassanum?"
"Nei nafni minn Svan. Við eigum að elta boltann. En Ingibjörn, hvað gerum við svo þegar við náum boltanum? Er þá 1-0 núll fyrir okkur?"
"Nei, er þá ekki bónus? Eða heitir það klobbi?"
(samræður Einars Svan Gíslasonar, Heklumaður síðan 2004, og Einars Jóhannssonar, Heklumaður síðan 2003, við Hr. Ingabjörn Pétursson, þjálfara, Heklumaður síðan 2002)

Ingibjörn hristi hausinn og sagðist ætla að fara yfir þetta á næsta töflufundi, sem verðu einkafundur þeirra þriggja. Þeir hlupu nokkrar ferðir á meðan hinir spiluðu reitaboltann. Þegar einungis 7 mín. voru til leiks fór þjálfi yfir liðsuppstillinguna. Í markinu stóð Erlendur (Elli) að vanda, miðverðir voru Sigurður "smiður" og Pálmar (fyrrv. félagi í SF Heklu). Í bakvarðastöðunum tveimur áttu Einar Jóhanns og Kiddi að standa. Á miðjunni áttu Steini, Einar Svan og Hjalti að vera. Hr. Ingibjörn og Sveinn áttu að vera kantmenn og Róbert formaður framherji. Á hliðalínunni myndu Friðgeir, Þór S. og Hákon standa. Mönnum var nú ekki alveg sama um hvar þeir ættu að standa á vellinum.

"Ég skil ekkert í honum Hr. Péturssyni að setja mig í svona mikilvæga stöðu. Ég er ekkert efni í þetta, fer bara á taugum og skýt framhjá opnu marki. En að sama skapi er ég ekki snöggur og kem boltanum illa frá mér. SKil ekki hvað maðurinn er að pæla!" (haft eftir Róberti Óttarssyni, formanni og Heklumanni síðan 2001, eftir að liðið var kynnt)

Þeir eru sumir hlédrægir Heklumennirnir. Spennan heldur áfram að aukast við hverja mínutu sem nær dregur leik. Smá skjálfti er í sumum, en eftirvænting þó í bland. Nokkrir leikmenn stinga sér út að runna og vökva hann aðeins. Þetta er stund eins og rétt á undan þrumuveðri. Maður finnur hvernig náttúran er að undirbúa sig fyrir átök. Vindinn lægir. Hitinn eykst. Sótgrá skýin hrannast upp. Svo brýst þetta upp með einni þrumu í fjarska...svo hellidemba. Svona er þetta í náttúrunni.

EN- ekki hjá okkur breyska mannfólkinu. Klukkan slær 12.00, hádegi í veldi Dana. Okkar menn verða furðulostnir. HVAR ERU ANDSTÆÐINGARNIR?!! HVAR ER DÓMARINN?!? Jú jú, mikið rétt. Hvorki lið IF Lyseng 3 né dómari eru á svæðinu við Lisbjergvöllinn okkar.

Tíminn heldur áfram að líða. Ekkert gerist. Heklumenn finna vonbrigðin hrannast upp. Menn líkja þessu við módel sem reyndist ekki vera eins flott og á myndinni á kassanum, eða IKEA mublu sem átti að vera borðstofuborð en reyndist vera koja. Eða fullnæging sem aldrei kom sökum heimsóknar tengdaforeldranna.

"Þetta er "major bømmer" maður! Ég var orðinn svo "upptjúnaður" og til í slaginn. Ef ég hefði gítarinn minn þá myndi ég brjóta hann eins og í Kaplakrika um árið." (sagði Þór Sigurðsson, Heklumaður síðan 2004, hundfúll kl.12.15)

En einn var sá sem var mest svekktastur. Sigurður Árnason heitir hann. Hann hafði nefnilega tekið sig til og keypt inn pylsur og meðlæti til að selja félagsmönnum eftir leik. Þetta átti að hala inn í kassa félagsins. Viðskiptamaðurinn í honum hafði nefnilega séð fram á að selja mótherjunum pylsurnar ljúfu á tvöföldu verði. Grilleigandinn og verðugur arftaki titilsins "Heklumaður ársins", Þorgeir J. Kjartansson var einnig þónokkuð sár.

"Ég tók með auka bjór sem ég hafði fyrir að kæla í litla ísskápnum mínum. Reyndar fékk fjölskyldan mín heita mjólk og örlítið súra út á Cheeriosið í morgun sökum þess. Já, ég er örlítið sár." (sagði svekktur Þorgeir J. Kjartansson, Heklumaður síðan 2002, með bjór í hendinni og bókhaldið í hinni)

"Strákar fáið ykkur nú pylsu! Þið látið það nú ekki fréttast að íslenskt fótboltalið geti ekki borðað 120 pylsur! Ég er meira að segja með símanúmerið hjá innkaupastjóranum í Føtex ef okkur skyldi vanta fleiri pylsur...ég gerði smá "deal" við hann." (haft eftir Sigurði Árnasyni, Heklumaður síðan 2004, við grillið)

Einum sárnaði ekkert sérlega mikið leikleysið og var það Ingvi. Feginn var hann að komast sem fyrst í pylsurnar.

"Strákar, fáið þið ekki líka svona kjötsvita þegar þið eruð á 15 pylsunni?" (sagði Ingvi Snorrason, Heklumaður síðan 2004, með fullan munnin)

En þrátt fyrir leikleysið áttu Heklumenn ágætan dag í sól og blíðu á Lisbjergvellinum kæra.
Húrra fyrir pylsugerðarmanninum!

Stefán Arason, Heklumaður síðan 2001.

11.1.05

Húsið við höfnina
Ég var að horfa á heimildarþátt um litla húsið við höfnina, sem Maersk gaf dönsku þjóðinni. KLIKKAÐ! Þvílík schnild! Að bara gefa eitt svona hús og gera það svona líka grand er ótrúlega svalt, kúlt, klikkað, magnað og geeeeeðveikt.
Kíkið á kofann hér. Nú er bara að vona að flutningur tónlistarinnar verði í sama gæðaflokki og húsið.

9.1.05

Jólatór
Var að koma frá Vejle, sem stendur við Vejle fjörð, afar fallegur bær og fallegt umhverfi. Þar vorum við í Universitetskórnum ásamt hljómsveit að flytja seinni hluta Jólaóratoríunnar eftir J(azzballett)S(kóla)B(áru)ach. Við sungum fyrstu 3 kantöturnar fyrir jól og vorum s.s. að syngja síðustu 3. Gekk vel og áfallalaust.
Ég er þreyttur.
Sybbinn.
Fékk mér viský á í rútunni á leiðinni heim. Það bjargaði heimferðinni alveg. Yfirleitt hafa rútubílstjórarnir kaldan bjór í bílnum sem þeir selja og græða á því nokkrar krónur, en þessi bílstjóri var ekkert á þeim buxunum að græða meira en sín laun. Við fengum engan bjór! Skandall! En þar sem að ég er Íslendingur og vanur því að þykkja aðeins í ölinu með sterkum drykkjum tók með mér vasapelann minn með tári af hinum gullnu veigum, viský. Gott í hálsinn.

Á fimmtudaginn er svo reception (móttaka...) á diskinum Livets Bro, sem inniheldur m.a. verk eftir undirritaðan. Vonandi fær diskurinn góðar móttökur.

Jæja, farinn í háttinn. Veit eiginlega ekki afhverju ég skrifaði þessa netlu...

7.1.05

Loksins, loksins!
Þá er ég kominn með internettengingu í híbýli mín, þannig að nú mun ég fara að drita út netlu eins og ég fengi borgað fyrir það...eða...kannski.
Ég hringi síðar!