28.12.05

Vitleysingur

ATH: Ef þú ert ekki búin/n að sjá Narnia, eða hefur ekki lesið bækurnar, þá er þessi lesning algjörlega á þína ábyrgð!

Við vorum að koma heim frá að sjá myndina Narnia. Ágætis ræma.
Svo á leiðinni upp tröppurnar í stigaganginum segir Stina (í þýði úr dönsku yfir á íslensku):
Stina: "Svo ljónið var bara Jesús."
Stefán: "Ha! Var ljónið Jesús..."
Stina: " Já varstu ekki búinn að fatta það?"
Stefán: "uuu...Nei, ég var ekkert að pæla í því."
Stina: "Hann dó meira að segja með 2 konum hjá sér...uppi á hæð."
Stefán: "Jááá þannig...hmm..."
Stina: "Og Edmond var Júdas, og Peter hét meira að segja Pétur!"
Stefán: "Já! Ég var ekkert búinn að pæla í þessu."
Stina: "Úff...það var gott að við áttum þessar samræður en ekki þú við einhverja aðra!"

Kærastan mín tók samt ekki eftir því að það var Liam Neeson sem átti röddina á bakvið Jesús...

25.12.05

Merkileg jól
Gleðileg jól öllsömul.

Þessi jól eru nú ekki liðin, en fúlara aðfangadagskvöld hef ég aldrei lifað.
Þetta byrjaði allt saman ágætlega. Við komum hingað til Grenå þann 23. og skreyttum tréð. Voða huggulegt.
Svo vöknuðum við á aðfangadag og allir höfðu fengið í skóinn frá Kertasníki (þau þekkja ekki hann, en ég útskýrði þetta fyrir þeim).
Svo fórum við í kirkju kl.13 og það var svo troðið að við þurftum að standa aftas við orgelið. Mjög fínt.
Eftir kirkju fórum við að leiði afa hennar Stinu og svo heim í kaffi.
Eftir það fór þetta að ganga niður á við.
Kl.17.30 lagðist ég í rúmið með hita og gubbupest. Gat ekki hugsað mér að borða. Ég steig ekki upp úr rúminu fyrr en þau voru farin að opna pakkana. Gat setið með þeim að opna, og fór svo í rúmið, með töluverðan hita. Svaf þetta úr mér í nótt, og er bara ágætur í dag.
ÞETTA FINNST MÉR VERA SVINDL!
Sem betur fer er til afgangur af öndinni, og ég hef matarlyst í dag.

21.12.05

1 down, 1 to go!
Kirkjan var algjörlega pökkuð. Ekki eitt einasta sæti laust. Ekki einu sinni á svölunum. Skemmtilegt að vera þáttakandi í svona vinsældum, þó svo að mér þykir Messías ekkert sérlega skemmtilegt verk. Þetta er alltof mikið hávaði og læti. Vantar nokkra góða kórala (þó svo að þeir séu að verða útdauðir...þennan fattaði Tryggvi alveg örugglega) og nokkra bara venjulega kórala. Og svo á að sjálfsögðu að gera það að venju að sleppa Alleluja kaflanum.
Stina kom á tónleikana með vinkonu sinni sem er líka söngkona. Vinkonan hnippti í hana áður en alt arían "He was despised" byrjaði og bað hana um að taka eftir hversu margir áheyrendur byrjuðu að hósta og ræskja sig á meðan að altinn söng þessa aríu. Það var eins og við manninn mælt, og allir fóru skyndilega að framkvæma þessa merkilegu iðju á meðan að arían var flutt.
--------
Mér dettur í hug atriði í einhverri mynd sem ég sá sem barn, en það var einhver að halda ræðu í vel þéttsettnum sal, og svo byrjaði einn að æla á fremsta bekk, ældi á þann við hliðiná, og svo koll af kolli. Þetta endaði með að allir höfðu ælt á sinn sessunaut (nema náttúrulega þeir sem sátu á endunum...)
--------
En ástæðan fyrir þessum hóstum gæti verið sú að þessi aría liggur töluvert djúpt, eins og allt það sem alt sólóistinn syngur, því altar voru ekki konur í denn, heldur menn, og áheyrendur mynda einhverja samkennd með söngvaranum og þ.a.l. leiðir það til hósta og ræskinga. Skemmtilegt fyrirbæri. Hlakka til að heyra þetta á tónleikunum í Nyborg í kvöld, því ég tók ekkert eftir þessu í gær.

20.12.05

Fá þau róandi?
Desember er sá mánuður sem ég kem oftast í pósthús. Allaveganna eftir að ég flutti til DK.

Fyrsta pósthúsið sem ég kynntist hérna í DK var pósthúsið í Løgten. Ég bjó í Skødstrup, og Løgten er næsti bær, en í Skødstrup var ekkert pósthús.
Þetta var afar notalegt pósthús. Var í rauninni ekki pósthús, heldur smá horn í stærri matvöruverslun. Einmitt það sem Olla litla skólausa var að kvarta yfir á blogginu sínu, en ég kunni ágætlega við þetta. Maður fékk persónulega þjónustu og örlítið spjall kannski. Þannig að jólaörtröðin hjá þeim var ekki svo mikil. Þau fengu sennilega ekki róandi.

Næsta pósthús sem ég kynntist var pósthúsið í Storcenter Nord (nord er borið fram sem "noa" á dönsku). Þetta var alvöru pósthús með númerakerfi og allt. Mér fannst aldrei gaman að koma þarna, því það voru of margir í röð og of fáir að afgreiða. Man ekki hvort starfsfólkið var sérlega viðkunnanlegt. Fengu sennilega róandi samt.

Eitt pósthús kom á milli pósthússins sem ég nota í dag, og þess í Stórmiðjunni í nyðra. En það var pósthúsið í Vesterport. Afar viðkunnanlegt pósthús. Einn starfsmaðurinn var meira að segja hetja, því hann stöðvaði einu sinni ræningja við iðju sína í opnunartíma. Minnir meira að segja að ræninginn hafi hótað starfsmanninum með hníf.
Ég náði aldrei að kynnast þessu pósthúsi í jólaörtröðinni því ég var fluttur, þangað sem ég bý núna, fyrir jól.

Núna bý ég á besta stað í Árósum. Það finnst ekki betra svæði, og það er satt. Fyrir þá sem til þekkja þá er svæðið rétt hjá brautarstöðinni, og rétt hjá Bruuns Galleri, og rétt hjá Emmerys (sem er afar gott bakarí og gourme búð sem brennir sitt eigið kaffi), og rétt hjá Byens Ost, sem er besta ostabúðin, og rétt hjá Føtex, og rétt hjá Schweizerbageriet, sem er eitt besta bakaríið í bænum, og baka besta sérbrauðið í allri Danmörku samkv. einhverri samkeppni þau voru með í, og rétt hjá Sct.Pauls, sem er kirkjan sem ég syng í...og svona mætti lengi telja.
Úr því að ég bý svona vel þá er næstasta pósthús, aðalpósthúsið í borginni, en það er pósthúsið á brautarstöðinni. Þetta er jafnframst stærsta pósthúsið, með flest afgreiðslufólk og flestu kúnnana.
En það sem furðar mig er að afgreiðslufólkið er ótrúlega vinsamlegt. Ef þau væru t.d. strætóbílstjórar þá væru þau þokkalega súr. Ef þau væru kennarar þá væru þau í verkfalli. Ef þau innu í IKEA þá vissu þau ekki neitt.
En þau eru öll sömul ótrúlega góð í sínu starfi. Kunna alveg að setja frímerki á pakkana og reyna að selja manni einhver jólamerki og jólakort, en gera það á vinsamlegan hátt. Og þó svo að ég fái númer 326 og það er verið að afgreiða 287 þá gengur þetta svo smurt að ég næ alls ekki að verða pirraður hjá þeim...bara þegar ég er að verða of seinn í rútuna til Kaupmannahöfn og kerlingartuðran biður mig um að tilgreina allar jólagjafirnar á tollskýrsluna og hvað þær kostuðu!
Þetta starfsfólk fær örugglega fullt af gleðipillum, hláturgas í kaffitímanum og skolaðan endaþarm í róandi upplausn.

--------(þessi punktalína er stolin frá Knútnum, nema að ég nota hana til að skipta um umræðuefni, en hann notar hana sem málsgreinaskipti...afar furðuleg notkun hjá honum finnst mér)

Í dag eru Messías tónleikarnir. Hlakka til að heyra einsöngvarana. Það er uppselt. Þessir tónleikar keppa við jólatónleikana í Dómkirkjunni. Spennandi að vita hvort einhver nennir þangað.

Jæja, let it snow let it snow!

19.12.05

Sykureitrun
Um daginn fékk ég afar skemmtilegan pakka með póstinum. Þetta var gulur kassi frá Póstinum. Systir mín kær sendi mér hann. Ég var ekkert sérlega glaður yfir sjálfum kassanum, meira heldur yfir innihaldinu. Kassinn var troðfullur af gjöfum og sælgæti...og við erum að tala um svo mikið magn af sælgæti að ég kastaði nærrum því upp bara við að sjá allt þetta slikkerí. Ég hafði reyndar beðið hana um að senda mér smá íslenskt nammi, og hún valdi þann kostinn að fylla upp í kassann með gotteríinu góða, frekar en gömlum dagblöðum. Ég er voða glaður...og í súkkulaðisjokki.
Annars er mjög gaman að gefa dönum íslenskt sælgæti. Þeir fussa flestir þegar maður lýsir fyrir þeim hvernig við blöndum saman súkkulaði, marsípani og hinu allraheilagasta í Danaveldi, á eftir skarti drottningarinnar, en það er lakkrís. En þeir bara vita ekki að súkkulaðið er ekki bara venjulegt súkkulaði. Onei! Þetta þarf að vera Nóa Síríus súkkulaði (sem er eiginlega ekki súkkulaði, meira súkkulaðilíki) og ekki alvöru marsípan, heldur einhver merkileg litefnafyllt blanda sem hefur sömu áferð og marsípan, og svo rúsínan í pylsuendanum (frekar ógeðsleg tilhugsun eftir allt þetta súkkulaði) er lakkrís, sem líkist enganvegin alvöru lakkrís eins og aðrar siðmenntaðar þjóðir þekkja hann. Okkar lakkrís er linur og sykursætur, með engan vott um beiskju eða herslu. Okkar lakkrís er meira svona barnamatur fyrir lakkrísfólkið.
En það er svo merkilegt að þessi þrjú innihöld (má maður ekki segja það?) mynda þvílíkt bandalag að hvaða lakkrís-, súkkulaði- og marsípanunnandi verða orðlausir og taka þessari blöndu sem einhverju óþekktu og spennandi blöndu, sem fellur vel að bragðlaukum þeirra.
Húrra fyrir Nóa Síríus!

Á morgun og hinn mun ég synjga í Messías e. Händel á tónleikum hérna í Árósum og í Nyborg. Ekki eins mikið maraþon og þegar ég söng hann með Kára Þormari í Fríkirkjunni, en þá sungum við hann á tvennum tónleikum...sama dag! Mig langaði ekkert að mæta í seinniumferðina. Vona að þessi umferð verði ekki eins þreytandi.
"HaaaaalleLúja! HaaaaalleLúja! HallleLúja! HallleLúja! HallLeeLúj! ."

16.12.05

Sudoku
Heyrt í auglýsingum ríkisútvarpsins í dag:
"Rétta jólagjöfin er á...Suuu...Suuu...suuu-do-kúúúú...sjop...punktur is.......Súdokúsjop punktur is átti þetta víst að vera."
www.sodukoshop.is


Að hemja sig og drepa sinn innri mann?
Ég hef það sem atvinnu að syngja í kirkju. Ég er meðlimur í Sct. Paulskirke kantori. Fyrir þetta fæ ég c.a. 2.000,- dkk. á mánuði. Fínt fínt.
Þegar maður hefur þessa atvinnu þá er maður viðstaddur ansi margar messur á sunnudögum og svo aðrar messur á virkum dögum. Og í morgun var ég að syngja í einni "hverdags gudstjeneste". Þessi messa var ætluð fötluðum einstaklingum frá einhverri stofnununni í sókninni okkar. Þetta var ótrúlega skemmtileg messa. Þau tóku afar virkan þátt í messunni. Þau jánkuðu þegar presturinn spurði þau að einhverju og þau fögnuðu við hvert tækifæri, með lófaklappi. T.d. þá klöppuðu þau eftir að presturinn var búinn að blessa þau. Afar fyndið. Það má segja að þau voru til staðar og sýndu það. Annað en við "venjulegar" messur. Það eru ekki einu sinni staðið upp þegar sungnir eru sálmar. Hversu mikil upplyfting liggur eiginlega í því að kúldrast á rassinum og reyna að syngja lofsöng til Guðs og drottins og allra þeirra þarna uppi í himninum? Nóg um það.

Þetta er fyndið.

Þessa stundina er ég að hlusta á rás 2. Rás allra landsmanna...minnir mig.
Meira en helmingur af þeirri músík sem ég er búinn að heyra núna á þessum hálftíma sem ég er búinn að hlusta hefur verið endurgerðir af gömlum lögum. Afhverju gerir fólk þetta? Núna er t.d. Helgi Björns að syngja "Samferða" með fáránlega loftfylltri röddu. Ekkert er nýtt í þessari endurgerð. Heyrði líka eitthvað jólalag með Nylon stúlkukindunum. Og lagið "Ást" (með texta eftir Pál Óskar, gott lag annars) með einhverju sumarballabandinu. Merkileg þörf hjá Íslenskum poppurum að gera svona lagað. Ég vissi ekki hvert ég ætlaði þegar ég heyrði íslenska útgáfu af einhverjum Kim Larsen slagaranum um daginn...á íslensku NB. og Kim Larsen útgáfunni algjörlega fylgt eftir. Furðulegur kaupfélagsstjóri.
Ég vil taka fram að myndin hér til hliðar er ekki af Kim Larsen, heldur tvífara hans.

11.12.05Blessuð börnin!
Þennan hlekk fékk ég sendan frá einum reglufélaga í Jeeves. Afar fyndið.
Og þennan hlekk fékk ég einnig sendan. Afar sniðug síða þar sem þér er boðið upp á sérhannaða útvarpsstöð, eftir þínum smekk. Gargandi brilli.

10.12.05Jólahátíðin er á næsta leyti
Satt er það. Aðventan er fyrir löngu gengin í garð og ég hef ekkert látið í mér heyra síðan ég kom heim frá Spáni.
Ég er s.s. komin heim frá Spáni. Á Spáni var gaman.

Á aðventunni eru nokkrir atburðir ár eftir ár. Jólatónleikar, jólainnkaup, borða eplaskífur og drekka jólaglögg (eplaskífur hafa ekkert með epli að gera, nema maður geri þær upp á suðurjóska mátann, en það er að setja epli og sveskju inn í hverja "skífu"), og svo eru náttúrulega allir jólafrokostarnir, eða eins og það útleggst á íslensku, jólahlaðborð.
Ég er búin að fara á einn slíkan jólafrokost. Það var með starfsfólki Sct.Pauls kirkju. Að þessu sinni var það bara starfsfólkið sem fór. Afhverju? Jú, það er nefnilega þannig að sóknarnefndin getur ekki verið saman komin í einu herbergi án þess að fara að slást. Kristilegur andi og bræðralag, ekki satt?
En þessi frokost var hinn ágætasti. Við fórum á veitingastað og fengum þriggja rétta máltíð sem smakkaðist vel. Og gaman að vera laus við þennan hefðbundna jólafrokost með hinum hefðbundnu réttum. Saknaði samt snafsins.

Í kvöld er svo jólafrokost nr.2. Í þetta skiptið er það Århus Universitets kórinn sem ætlar að fagna komu jólanna og hittast og snæða góðan mat og drekka vín eða öl.
Það er undirritaður sem sér um matinn. Eins og í fyrra þá mun ég bjóða upp á úrbeinað lambalæri að Andalúsískum sið. Reyndar breyti ég örlítið frá uppskriftinni og set rósmarín inn í rolluna, saman með hvítlauknum. Svo er allt húrlumhæið látið marinerast í sherry og sítrónusafa, sítrónuberki og lauk. Lærin verða svo bökuð í ofni með paprikum, tómötum og bjór, ásamt mareneringunni. Hlakka til að bragða þetta...hef aldrei prófað þetta áður. En þetta hljómar samt ansi öruggt.
Með þessu geri ég svo "klikkaðar kartöflur" (Patates Spastes). Það eru smáar kartöflur, barðar í spað, steiktar á pönnu með kóríanderfræum. Svo eru þær soðnar í rauðvíni. Bragðast afar vel.

Uppskriftirnar eru hérna:
Lambalæri
Patates Spastes

Í gær fór ég á frábæra tónleika með Ensemble 2000. Frumflutt var ný jólatónlist og ein upphafskafli Jólaóratoríunnar í nýrri útsetningu eins tónskáldsins. Þetta var ferskasti jólatónleikur sem ég hef verið á. Og frábært að heyra nýja músík flutta í kirkju. Fullt af klukkum og spennandi hljóðum. You had to be there.

21.11.05

"Ferðalag, ferðalag, förum í ferðalag"
Á morgun er förinni heitið til Spánar, enn eina ferðina gæti einhver haft af orði.
Við fórum í sumar til suður Spánar, og vorum þar í 3 vikur. Núna erum við að fara þangað aftur.
Við fljúgum frá Tirstrup (Århus lufthavn) til London og svo þaðan til Granada. Þar leigjum við bíl frá Helli Hollis og keyrum niður í smábæ rétt hjá Motril. Þar erum við búin að leigja hús og ætlum að vera þarna í eina viku.
Vinir okkar Loa og Rasmus og feita dóttir þeirra, Mira, ætla að koma með. Þetta var eiginlega þeirra hugmynd. Þau þekktu einn sem á húsið og svo fundu þau ódýrar ferðir.
Allt í allt kostar þetta 2.000 d.kr pr/mann!
Hola!

p.s. af hvaða barnaplötu er titillinn á þessari færslu komin?

15.11.05

Hér & Nú
Núverandi :
tími- 22:37 að dönskum tíma

föt- nike bolur frá Svanhvíti og mjúkar joggingbuxur (heimaföt)

skap- fínt takk

hár- nei...ekki síðan ég var 18 ára

pirringur- aðeins í stóru tánni

lykt- CK One

hlutur sem þú ættir að vera að gera- höhömmm...þið viljið ekki vita það...

skartgripir- nei

áhyggja- smá yfir fyrirlestrinum á fim. og fös.

löngun- í Hammond B3

ósk- alheimsfriður (hvað annað?)

farði- gvöð já! fullt af meiki og sparsli

eftirsjá- til hvers?

vonbrigði- já já...t.d. yfir að bréfið fína frá USA var ekki pöntun frá feitum ríkisbubba

skemmtun- HAAALÓÓÓÓ! það eru jól framundan!

ást- Allt fult af ást, eins og Páll Óskar söng

staður- Brammersgade 7, 2.sal II, inni í stofunni.

bók- Nokkrar...Bróðir minn Ljónshjarta (á sænsku) og A short history of nearly everything og slatti af námsbókum

bíómynd- var að horfa á Sin City...ekkert spes, en flott mynd samt. Langar að sjá nýju Harry Potter...svo er Debby does Dallas alltaf góð.

íþrótt- hleyp við og við

tónlist- ha? ég er með banana í eyrunum!

lag á heilanum- ekkert ennþá...en vakna oft með eitt slíkt

blótsyrði- rassgat, rækallinn

msn manneskjur- úff! margar! aðallega systa og Hugi

desktop myndir- vatn í baðkarinu hans Huga, ekki spyrja hvernig það komst þarna inn, en það er mjög flott!

áætlanir fyrir kvöldið- stefnan er tekin í bólið, þar sem mín kærasta liggur nú.

manneskja sem ég er að forðast- engin sérstök

dót á veggnum- spegill, sem Stina notar þegar hún æfir sig

Þeir sem nenna þessu meiga gjöra svo vel og prófa.

11.11.05

Götun
Áðan þá fór ég í sund. Það er ekkert sérlega gaman að fara í sund í Danmörku. Þetta eru innilaugar og engir heitir pottar. Ef þeir eru þá er einhver hallærisleg regla um að maður má vera ofaní í 10 mín. og svo má enginn vera ofaní í næstu 10 mín. því vatnið þarf að hreinsast. Merkilegt!
En ég fór ekki alveg í sund. Ég fór bara í sturtu-, sánu- og gufubað. Voðalega gott.
Nema hvað að ég stend þarna í sturtunni og er að baða mig, gengur þá ekki einn maður framhjá. Það er nú ekkert óvanalegt að það séu fleiri í sturtuklefanum. En þessum manni fylgdi svona "klink klink" hljóð í hverju skrefi, eins og hann væri með spora. Ég þurrkaði sápuna framan úr mér og vildi vita hvort maðurinn væri líka með kávbojhatt og skammbyssu. Onei. En aftur á móti þá hafði hann tvo afar stóra og volduga hringa í typpinu á sér, sem öllu þessum hljóðum.
Mér varð hugsað til þeirrar þjáningar sem maðurinn hefur gengið í gegnum við að fá þessa málmklumpa í tyllan á sér. Einnig velti ég því fyrir mér hver gerir svona lagað, þeas. hver framkvæmir svona göt. Það hlýtur að vera sérstakt starf.
......
Kúnninn kemur inn.
Kúnni: "Góðan daginn, gatarameistari."
Gatarameistari: "Góðan daginn, kúnni."
Kúnni: "Ég var að spá í að fá mér tvo stóra hringa, framarlega á typpið mér. Áttu einhverja?"
Gatarameistari: "Já, ég á einmitt tvo góða hringa handa þér. Þeir eru úr burstuðu stáli. Hérna, kíktu á þessa."
Kúnni: "Já...hmmm...ég var nú meira að spá í svolítið stærri hringa. Áttu ekki einhverja sem eru aðeins þyngri og meiri um sig?"
Gatarameistari: "hmm...þá verðurðu að koma með mér hérna bakvið..."
Kúnninn fer með gatarameistaranum inn í bakherbergið.

etc etc etc...
......

Ég passaði mig á að missa ekki sápuna og ekki fara einn með þeim gataða inn í gufuna.

2.11.05

Viðtalið
Það varð ekkert af viðtalinu við rektorinn, ég ræddi bara við hann.
Afhverju?
Á laugardaginn síðasta var nefnilega flutt verk eftir mig á hátíð í skólanum sem kallast Global Local. Á þessari hátíð var spiluð músík eftir tónskáld sem tengdust skólanum. Verkið Morrk eftir sjálfan mig ("hvernig finnst ykkur ég?") var spilað, og gekk það glimrandi vel. Sennilega besti flutningur á því verki hingað til. Verkið er fyrir 7 gítara og nikku.
En það var ekki umræðuefni okkar rektors. Onei.
Við ræddum nefnilega um verkið sem kom á eftir mínu verki. Það voru bara þrjú verk á dagskrá og mitt var í miðjunni.
Að mínu mati voru fyrstu tvö verkin bara ansi ágæt, enda það fyrsta eftir Karl Aage Rasmusen (fyrrv. kennarinn minn) og svo s.s. það annað eftir mig.
Þriðja verkið samdi svo píanisti nokkurn, sem stundar píanónám á 4.ári í skólanum.
Það verk var með eindæmum lélegt. Uppbygging eða formun verksins var nánast engin, stíllinn var leiðinlegur (pers.mat að sjálfsögðu) og illa gert innan þessa stíls, hljóðfæranotkun var afar óspennandi og illa samansett og flutningurinn var óstjórnlega lélegur.
Og öllum herlegheitunum stjórnaði svo rektorinn okkar.
Mér varð illt í líkama og sál.
Ég pantaði mér viðtalstíma við rektor og spurði hann hvernig í ósköpunum á þessu stæði. Fátt varð um svör, en eitt er víst að hann og skipuleggjandi hátíðarinnar tóku nokkurnveginn í sama streng, varðandi þetta verk.
Ég gerði þeim ljóst að ég hefði misst allt álit mitt á þeim og á skólanum, en sem betur fer höfðu aðrir tónleikar verið seinna ,sama dag, þar sem þeir tveir tóku þátt í flutningi og var það mun betra. Það reddaði nokkuð þeirra mannorði.
Þeir lofuðu að passa upp á að gera ekki svona flopp héðan í frá.

31.10.05

The Fool On The Hill
Þetta er afar fyndið.

Innan skamms mun ég birta örviðtal við rektor Det Jyske Musikkonservatorium.

24.10.05


Hr. Kitli
Úbbs...gleymdi að kitla nokkra aðra, þannig að hér kemur kitllistinn:
Bryndís fyrrv.sambýliskona, Halldóra, Hugi, Jón Knútur, Olla litla skólausa, Orri Smára og Siggi Óla.
Þessir aðilar eiga það allt saman sameiginlegt að koma frá Neskaupstað.

21.10.05

...sjö tunnur rauðagulls
Hildigunnur kitlaði mig:

sjö hlutir sem ég ætla að gera áður en ég dey:
lifa hamingjusamlegu lífi
reyna að gera allt sem ég geri eins vel og ég get
lesa Halldór Kiljan Laxness complete
horfa sem minnst á innihaldssnautt sjónvarpsefni
spila eitthvað af orgelmúsík eftir Brahms
klappa hjúkkunum á rassinn
búa í húsi langt frá öðrum húsum, og eiga dýr (kanínur, hænsn, kött, hund, endur oþh)

sjö hlutir sem ég get:
blístrað eins og Roger Whittaker
lagað gott kaffi
samið ljóð og fengið það útgefið
gert "u" með tungunni
skrifað á lyklaborð án þess að kíkja á það
keyrt lyftara
unnið við sorpböggunarvélarnar Helgu og Lindu í Sorpu

sjö hlutir sem ég get ekki:
farið í kollnís
munað stundatöflur, æfingaplön eða önnur tímaplön
sungið lagið "I Danmark er jeg født"
farið með trúarjátninguna án þess að ljúga
haft óreiðu í bakpokanum mínum
haft sorgarrendur undir nöglunum
sungið í falsettu

sjö hlutir sem heilla mig við hitt kynið:
geta fætt barn...jafnvel nokkrum sinnum
hafa næstum helmingi fleiri taugaenda í kynfærum sínum en við karlmenn
ótrúlega flókinn hugsunarháttur og kunnátta í að (mis)skilja hvað er sagt við þær
geta þeirra til að fæða afkvæmi sín
þær lykta yfirleitt vel
falleg dreifing fituvefs
raddbönd þeirra

sjö þekktir sem heilla:
Audrey Tautou, Amélie
Konan sem lék nunnuna í ensku þáttaröðina um nunnuna...
Kate Winslet
Uma Thurman
Lucy Liu, þessi sem leikur í KillBill og Charlie's Angel
Nicole Kidman
Tina Nordström, sænski kokkurinn

sjö orð/setningar sem ég segi oft:
mojn (hæ og bless á suðurjósku)
schubert! (í staðinn fyrir súper)
húbla (gleðihróp)
rassgat
rækallinn
Ha? (danir skilja því miður ekki "Ha" sem "fyrirgefðu hvað sagðirðu?")
"Nej, Es-dur ikke As-dur" (það er nánast enginn munur á þessum hljómaheitum á dönsku)

sjö hlutir sem ég sé núna:
Power Book tölvan mín
espresso kaffibolli
steinflaga sem Hilmar og Nína gáfu mér
gula Bumling ljósakrónan mín
græjurnar mínar
hvít gæran, sem er í stólnum, sem ég sit í
rafpíanóið hennar Stinu

18.10.05

Carlsberg
Ef maður tekur rútuna frá Árósum til Kaupmannahafnar, þá er Valby einasta stoppistöðin í höfuðborginni. Valby var á sínum tíma lítill bær fyrir utan Kaupmannahöfn, en er nú samtengdur við borgina.
Í Valby stendur gamla hjólið hennar Stinu. Við notum það þegar við erum í stórborginni, sem er ansi oft, þar sem að ég er að stjórna þessum kór og Stina tekur einkatíma í söng.
Á leiðinni frá Valby niður í bæ hjólar maður framhjá Carlsberg brugghúsinu (húsunum ætti maður kannski frekar að segja). Byggingarnar eru fallegar og það er alltaf gaman að sjá fílana tvo (skúlptúr sem heldur einhverju húsinu uppi. Þeir sem hafa séð Elefant bjórinn vita hvað ég er að tala um).
Nema hvað að þarna er líka safn, Carlsberg safnið. Oft hef ég verið að pæla í að fara inn, og í dag lét ég verða af því.
Skemmtilegt safn sem endaði með stuttri heimsókn á barinn þeirra. Þar gat maður svo fengið að smakka allt það sem Carlsberg framleiðir, en þó aðeins 2 bjórar fríir.
Skemmtilegt safn fyrir bjóráhugafólk.
Hérna sendi ég litla kveðju úr safninu.

11.10.05

Afmeyjaður
Þá er fyrsta kóræfingin mín með Stöku búin. Þetta var bara þrælgaman. Hlakka til að koma aftur til Kaupmannahafnar á næsta þriðjudag og leika mér meira með þeim.
Framundan er 5-tíma svefn og svo hjóla upp í Valby til að taka rútuna heim.

10.10.05


...og konan hans!
FJANDAKORNIÐ!
Það voru tvær konur í fylgd med Elvis, þegar hann kom út af veitingahúsinu. Svo er ég að lesa núna á Wikipedia að hann er giftur Diana Krall. Hún hefur örugglega verið önnur þessara kvenna!
Asnagangur að hafa ekki kynnt sig fyrir þeim!

Elvis is alive!
Áðan hjólaði ég framhjá Declan Patrick Aloysius MacManus!
Hann var að koma út af veitingahúsinu "Grønne Hjørnet".
Merkilegt!

6.10.05

Leyndó
Jæja, þá má ég segja það.
Héðan í frá megið þið kalla mig Maestro Arason. Ég hef nefnilega tekið það að mér að stjórna kór.
Kórinn sá heitir Staka. Alveg einstakur kór (hjé hjé hjé).
Þetta er kór sem starfar í Kaupmannahöfn. Guðný Einarsdóttir, öðlingur og listamaður, stjórnar kórnum núna, en hún ætlar að hætta því eftir áramótin sökum anna.
Ég hlakka mikið til að spreyta mig á þessu.

Í dag er ég skeggjaður og með mjúka hárbrodda á hausnum, þeas. á því svæði sem ég er ekki sköllóttur.

3.10.05

27
Ég á afmæli 27. júní.
Ég er 27 ára því ég fæddist nítjánhundruð7tíuogátta.
2+7=níu/þremur=þrír
Níu er sex á hvolfi.
Þrír er heilög tala (heilög þrenning).
7 er heilög tala.
2*7=fjórtán.
"Fjórtán" er fallegt orð og góð slétt tala.
2*2=4
7*7=49
Fjórir+fjörutíuogníu=fimmtíuogþrír
fimm+þrír=átta
Átta er brún og feit tala.

30.9.05


Danskir dagar í Árósum
Þegar danir tala um "stegt flæsk og persillesovs" (steikt svínakjöt og steinseljusósu) fá þeir nostalgískan glampa í augun og hverfa aftur til barnæskunnar, þar sem þeir sátu í endalausu matarboði hjá einhverri frænkunni (tante) og fengu rétt eftir rétt eftir rétt...
Danir elska mat og það er hefð fyrir að borða mikið og lengi. Og drekka öl og snafs með. Svona er þetta ekki í dag hjá ungafólkinu, nema um jól. Þá eru jólahlaðborð, "julefrokost". Þar er etið og drukkið ótæpilega og yfirleitt endar það í vitleysu, t.d. með að halda allrækilega framhjá ektamaka sínum með ritaranum eða öðrum samstarfsaðila.
Ég bjó með einni stelpu sem sagði mér að þegar hún fer í heimsókn heim til foreldra sinna eða einhverrar frænkunnar, þá leiðir ein máltíð yfir í aðra, þ.a.e.s. morgunmatur teygist fram að hádegismat, hádegismatur fram að kaffi, kaffi fram til kvöldverðar og svo kvöldverður fram til kvöldkaffis. Og þetta var ekki lygi. Ég held reyndar að danir hafi fleiri matmálstíma en við íslendingar.

Um daginn fórum við, Stina og ég, í heimsókn til ömmu Stinu. Hún býr í Grenå, sem er einnig heimabær Stinu. Við komum kl.15. Þá var hún búin að baka tvennskonar sætabrauð. Það átum við og drukkum kaffi. Það leið ekki á löngu þangað til hún fór að tala um kvöldmat. Í kvöldmat snæddum við svo kjötbollur ("frikadellar") með agúrkusalati (fínar sultaðar agúrkuskífur), kartöflum og brúnni sósu. Afar ljúffengt. Ég og Stina náðum þó að stökkva út í smá göngutúr á milli máltíða. Svo fengum við aftur köku og kaffi í desert.
Við vorum vel södd þegar við tókum lestina heim.

En aftur að "stegt flæsk með persillesovs".
Í gær hjóluðum við, ég og Lars, út í vetrarbaðklúbbinn okkar (sjórinn er ennþá 15 gráður þannig að þetta flokkast varla undir vetrarbað), Jomsborg, og bleyttum aðeins í okkur. Sánan var einnig brúkuð.
Eftir buslið hjóluðum við svo til baka inn í bæ. Við ætluðum að finna okkur eitthvað að borða, áður við færum að sjá 2 kvikmyndir um nekrofili og sjálfsmorð, í kvikmyndaklúbbnum Slagtehal 3. Við hjóluðum framhjá veitingastaðnum Pinden, sem er í Skolegade. Þar er framreiddur danskur matur, upp á "gamla" mátann, og maður borðar af diskum eins og sést hér á myndinni til hægri. (Þetta er konunglegt danskt postulín, og er "musselmalet"...diskurinn kostar í kringum 700 dkr...litli anginn sem hangir niðraf blóminu í miðjunni á að vísa í átt að þér þegar þú borðar af diskinum. Eða svo sagði mér gamall maður sem sat á næsta borði. Kjötið á að vera næst þér á diskinum. Danir hafa greinilega klikkast af öllu þessu áti í gegnum tíðina) Við pöntuðum okkur "stegt flæsk með persillesovs"...ad libitum. Við átum! Og drukkum öl með.
Kjötið í sjálfu sér er ekkert sérstakt og sósan ekki heldur. En saman gera þau það gott.
Ég hafði það svo gott að mér lukkaðist að sofna yfir sjálfsmorðsmyndinni.
Nekrofilimyndin var afar fyndin.

23.9.05


"Þú ert bara Svíi!"
Í brúðkaupinu hjá Braga Þór, félaga mínum, og Christina var Gunnar H. Eyjólfsson veislustjóri. Honum fórst það ágætlega úr hendi, fyrir utan að hann mundi ekki nafn brúðarinnar, þegar hann tilkynnti að hún myndi halda ræðu. Hann sagði eitthvað allt annað nafn. En hvað um það. Hann sagði að þegar maður er í öðru landi en sínu heimalandi og maður væri farinn að dreyma á erlenda landsins tungu, þá væri langt náð í aðlögun að öðru landi.
Í nótt talaði ég á dönsku upp úr svefni. PISS!
Nú er bara að horfa á fréttirnar á ruv.is á hverjum degi og hlusta á Gest Einar í gegnum netið, því þetta gengur ekki!
Sem betur fer á ég íslenskt brennivín til að minna mig á ísa-kalt-land.

Úr útsæ rísa Íslands fjöll
með eld í hjarta, þakin mjöll
og brim við björg og sand. etc.

22.9.05

Klukk! Þú ert'ann!
Jón Knútur klukkaði mig.

1. Ég er pervert og perversjónir okkar mannanna heilla mig. Ég er meðlimur í perravinaklúbb Stefáns & Sigrúnar Svöfu.

2. Ég hlusta lítið á tónlist, miðað við að ég geri mig út fyrir að vera tónlistarmaður, og ég hlusta afar sjaldan á "nýja" músík.

3. Ég er snobbaður. Ég snobba fyrir góðri hönnun og dýrum hlutum. Get þó lítið notið þess...allavega minna en ég vildi.

4. Mér finnst afar gott að borða sætabrauð og drekka kalda mjólk á kvöldin. Geri þó lítið af því miðað við í gamla daga þegar maður bjó á Hótel Mamma. Hún á alltaf til heimabakað sætabrauð...og stóra frystikistu. Ég held að pabbi fái ótrúlega mikið sætabrauð eftir að við systkinin tjekkuðum okkur út.

5. Ég var 19 ára þegar ég drakk mig fyrst fullan og óhreinkaði minn sveindóm fyrir lífstíð. Þetta gerðist þó ekki sama kvöldið. Það eru margir djammdagar í kringum páska.

Ég klukka Tryggva tónskáld, Ollu litlu skólausu, Prumpulínuna Þyri, Ingibjörgu rigningarrass og Hjört möldvörpu.

19.9.05

Perversjón
Um daginn skrifaði ég tvö, afar fallega hjómandi, orð:
kokigami,
okulolingus.
Engin kom með komment.
Kokigami er þegar menn hafa þörf fyrir að pakka getnaðarlim sínum inn í pappírsfígurur, og æsast kynferðislega við það.
Okulolingus held ég að þýði tunga-auga. S.s. sá sem verður kynferðislega æstur við að sleikja auga náunga síns er okulolingus.
Í gær sá ég brot úr amerískum heimildarþætti um "feeder" eða fæðara.
Þeir sem eru fæðarar, laðast einvörðungu að offeitu fólki og vilja helst gera þau svo feit að þau geta ekki hreyft sig, og verði þ.a.l. algjörlega háð fæðaranum. Fæðarinn fær "kick" við það að vera ómissandi.
Myndin í gær fjallaði um mann sem gerði konuna sína svo feita að hún hætti að geta fært sig úr stað. Hún varð 300 og eitthvað kíló. Hann gerði kvikmynd um hennar síðasta "göngutúr". Og svo hélt hann áfram að gera myndir um hana á meðan hún var algjörlega ófær um að hreyfa sig. Hann seldi síðan þessar myndir. Það var góð sala í þessu. Hann notaði þessar myndir líka til að örva sig kynferðislega. Konan hans var svo feit að ysta fitulagið á lærunum á henni var orðið svart af blóðleysi. Maðurinn hennar var svo stolltur og þótti konan sín svo falleg. Konan komst í Heimsmetabók Guinnes í 2001 útgáfunni.
Konan ákvað að þetta gengi ekki lengur, því það var hætta á að hún fengi hjartaáfall. (!) Hún fór í magaopsaðgerð, og hún léttist. Varð á milli 150-200 kg. Maðurinn hennar tók því afar illa. Hann hætti að hafa eins mikinn áhuga á henni. Það leiddi nánast til skilnaðar.
Myndin endaði á því að maðurinn var inni í fokheldu húsi sem hann var að byggja fyrir konuna sína. Húsið var sniðið að stærð hennar. Dyrnar voru stærri. Herbergin voru stærri. Útsýnið úr svefnherberginu var fallegt, og varð það að vera svo því þetta var herbergið sem konan myndi nota mest. Hún gat ekki annað en legið í rúminu sínu.

Ég segi nú bara eins og Þór & Daníel í Dalalíf:
Furðulegur kaupfélagsstjóri!

17.9.05


Hjólreiðar í Reykjavík?!?
Lesið þessa frétt áður en þið lesið áfram.
Þessir blessuðu hjólreiðagarpar þurftu lögreglufylgd!
Ég skil það vel, þegar um "stórborg" eins og Reykjavík er talað um, vegna þess að það er fullkomlega ómögulegt að hjóla í þeirri borg án þess að leggja líf sitt og limi í stórhættu.
Það eru hvergi hjólastígar. Það er bannað að hjóla á gangstéttum. Umferðin er of klikkuð til að hjóla á götunum, hvað þá í lélegri vetrarfærð.
Þau sumur sem ég bjó í sollinum, vann ég í Gufunesi í Sorpu og Efnamóttökunni. Ég reyndi einu sinni að hjóla í vinnuna og komst að því að það var bara alls ekki hægt. Allar þessar slaufur og hlykkir í Elliðarárdalnum taka heila eilífð að hjóla, og það voru ekki neinir stígar eða undirgöng sem maður gat notað. Strætó var notaður eftir þetta.
Hérna í DK eru hjólastígar út um allt. Þú getur hjólað á milli bæja. Allsstaðar er tekið tillit til hjólreiðarmanna. Sumir eiga ekki einu sinni bíl (fyrir Íslending er það "váááá!") og hjóla um með barnið sitt í vagni sem hægt er að spenna aftan á hjólin. Sumir nota líka Kristjaníuhjólin (sjá mynd).
Ég hef ekki ennþá séð mislæg gatnamót í DK.
Árósar hafa jafn marg íbúa og allt Ísland.

Þannig að ég spyr: Afhverju er ekki hægt að hjóla frá Grafarvogi til Nauhólsvíkur án þess að hafa lögreglufylgd?

14.9.05

Tilveruleysi
Hvað varð um tilveruna?

13.9.05

Hið ástkæra og ylhýra
Stundum fer ég á netlurúnt. Ég kíki við hjá kunnuglegum netlurum og fer svo þaðan áfram á ókunnuga netlara. Maður les ýmislegt og skyggnist inn í líf margra, sem er unun fyrir Hr. Hnýsin í mér.
Ég skrapp á svona rúnt núna í morgun. Að sjálfögðu kíkti ég við hjá Hildigunni, tónskáldi og matgæðingi með meiru, og hlekkjaði hún á þessa síðu. Inni á "málbeininu" fann ég svo hlekk á þetta sprund. Hún skrifar ótrúlega vel að mínu mati. Hefur skemmtilegan orðaforða og beytir því ylhýra á hnittinn hátt. Tek mér það bessaleyfi (í minningu Bessa heitins) að birta hér sléttubönd eftir hana:

Mjúka holdsins freisting flý,
fráleitt drykkju stunda.
Brúka fræðin, aldrei í
enskutímum blunda.

11.9.05

"Ég berst á fáki fráum..."
Í gær hjóluðum ég og Stina ca. 50 km. Við erum bara afar sátt með það.
Það var blíðskaparveður, hlýtt en ekki of heitt. Við hjóluðum að heiman um eitt leytið og vorum komin heim aftur um tuttuguogeitt leytið.
Fyrir þá sem þekkja til staðarhátta hérna, þá hjóluðum við til Studstrup og þaðan upp til Skødstrup (jújú, þar bjó ég fyrst eftir að hafa flutt til DK) og þaðan til Løgten. Frá Løgten fórum við niður að sjó, borðuðum frokost við vatnið, fórum svo í smá skógartúr og hjóluðum svo heim. Á heimleiðinni komum við við (já 2svar við...nú 3svar) í vetrarbaðklúbbnum og fengum okkur bað og sánu. Frábær endir á góðum hjólatúr...jú og svo snæddum við á Sct. Olufs. Amminamminamm.

Annars hef ég spennandi fréttir að segja ykkur...en þær má ég bíða örlítið með. En bara til að spara ykkur spurnirnar þá erum við ekki að fara að gifta okkur og Stina er ekki ólétt.

9.9.05

Nýtt gullaldarskeið framundan í efnahagslífi Dana?
Var að lesa þessa frétt á mbl.is.
Hljómar vel, en er ekki bara búið að færa peningana á einn stað? Til þeirra sem eru í rekstri...til þeirra sem skapa peninga sjálfir? Til þeirra sem búa til þessar tölur?
Allavega hefur verið ótrúlega mikill niðurskurður í öllu sem flokkast til umönnunar og menntunar síðan ég kom hingað.
Það eru t.d. skólar hér í borg, þar sem að nemendurnir hafa ekki pláss til að hafa skólatöskurnar sínar inni í stofunni og kennarinn hefur ekkert borð til að sitja við.
Það verður spennandi að fylgjast með þessu gullaldarskeiði.

8.9.05

Skemmtileg orð
kokigami
okulolingus
To be...
Húrra! Nú er ég komin með lykil að Sct.Pauls kirkju! Kirkja sú liggur einvörðungu 30 m. frá útidyrunum mínum. Nú get ég spilað á orgvélina þar kvölds og morgna.

Vitið þið afhverju tilveran.is er lokuð tímabundið?

2.9.05

1001-1002-1003-1004...
Í nótt var eitt það magnaðasta þrumuveður sem ég hef upplifað. Það voru stanslausar eldingar, og þá meina ég að það leið mest 10-15 sekúndur á milli eldinga. Svo ringdi sem helt væri úr fötu. Kannski hellti einhver úr fötu.

Ég var að lesa á mbl.is fréttina um strætóbílstjórann sem missti báðar lappirnar í bílsysi. Var að velta þessari senu fyrir mér:
Maður situr á götunni, með aðra löppina í fanginu. Fólk drífur að. Hann rekur fólkið í burtu til að hjálpa hinum. Hann langar í smók!
Stórfurðulegt.

1.9.05


grasasnadansasarg
Fór til Kaupmannahafnar að sjá þessa sýningu í fyrradag.
Frábær sýning. Eiginlega ekki hægt að segja meira.

Ég var að spá í hvor það séu til naglaburstaburstar? Minn er nefnilega orðin ansi skítugur síðan ég fór að gera við gamla hjólið hennar Stínu.
eins og gömul kerling!
í dag er ég pirraður út í SU og Danske Bank.
Ég er pirraður út í SU af því að ég fæ ekki SU og ég er pirraður út í Danske Bank af því að það er léleg þjónusta hjá þeim.
Það versta er að ég get ekkert gert við því.
Það er ekki hægt að skammast í SU, því maður á að hafa samskipti við sinn SU-aðila í skólanum. Hún hefur ekkert með það að gera að ég fæ ekki SU.
Það er hægt að skrifa mail til Danske Bank, og ég er búinn að því. Samt er ég pirraður út í hann.

pirr pirr pirr pirr
irrp irrp irrp irrp
rrpi rrpi rrpi rrpi
rpir rpir rpir rpir

28.8.05


...& Þremill Þyrniber
Ég fór í skokktúr áðan, niður að sjó og upp í gegnum skóginn. Á leiðinni heim stoppaði ég við brómberjarunna og borðaði nokkur ber. Þau voru bara ansi góð sumhver.

26.8.05

Nýr netlugerðarmaður
Mig langar til að kynna nýjan netlara, og bjóða hann velkominn í hóp okkar tónskálda sem netla. Tryggvi M. Baldvinsson heitir hann. Hér má lesa hans netl.
Fyrir þá sem hafa heyrt "Smjörra-Stuð" brandarann, þá er þetta höfundur hans.
Tryggvi var minn fyrsti tónsmíðakennari. Hann tók það erfiða verkefni að sér í 2 ár, það voru mín 2 fyrstu ár í Tónfræðadeild Tónlistarskólans í Reykjavík. Hann stóð sig með prýði. Kenndi mér hluti sem ég bý enn að.
Í fyrsta tímann átti ég að taka með þá músík sem ég hafði samið. Ég hafði í rauninni ekki samið neitt af ráði, bara smá-lög. Hann tók vel í þetta sem ég hafði gert, en sagði að nú ætti ég að prófa eitthvað aðeins alvarlegra. Á þessum tíma hafði ég t.d. aldrei heyrt Vorblót Stravinskys, eitthvað sem öll tónskáld eiga að þekkja afturábak og áfram, og helst í mörgum tempóum, þannig að ég vissi ekki alveg hvað ég var að gera þarna. Langaði bara að læra mikið um músík og prófa að skrifa eitthvað, en vissi ekki hvað. Við fikruðum okkur í átt að einhverju sem enn er að þróast. Vonandi mun það halda áfram að þróast restina af mínu lífi.
Eitt af þeim "lögum" sem ég kom með í fyrsta tímann er aðalefnið í mínum nýjasta smelli, Hvil Sødt.

Lengi lifi kóngurinn í Muffinslandi!

25.8.05

Bumling
Ég og Stina höfum leitað töluvert að ljósakrónu til að hafa fyrir ofan stofu/matarborðið henna. Við höfum kíkt á flóamarkaði og skransölur, en ekkert gengið. Dag einn kíkti ég inn í eina af fjölmörgum búðum hér í bæ, sem selur notaða hluti (mest illa lyktandi föt af látnu fólki), og rennur ágóðinn til líknarmála. Datt í hug að einhver af öllum þessu látnu mönnum hefðu kannski á einhverja skemmtilega skyrtu eða jakka.
Ég kíkti á fötin og fann ekki neitt, annað en þessa típísku lykt sem er inni í þessum búðum. Það er eins og að allt þetta gamla og dána fólk er samankomið inni í þessum búðum, til að fylgjast með hver kaupir nú röndóttu buxurnar eða fölgula sumarjakkann, eða hvað það nú er sem þau áttu.
Svo varð mér litið inn í það afdrep sem afgreiðslukonurnar nota sem kaffistofu. Þar sá ég LJÓSAKRÓNUNA!
Ég spurði afgreiðsludömuna hvort þessi ljósakróna væri til sölu og svo var.
Ég spurði um verð.
Það reyndist vera 50,- dkr.
Ég held að þær hafi ekki áttað sig á hversu marga peninga þær hefðu getað grætt á þessari krónu. Ljósakrónan heitir Bumling og er hönnuð af svíanum Anders Pehrson, árið 1968. Maður getur keypt svona Bumling á þessari síðu...fyrir mun fleiri peninga en ég borgaði.
Ég keypti gripinn umhugsunarlaust.
Hann seldi sig sjálfur.

Ber er hver að baki nema sér Bumling eigi.


"Það er eins og maður hafið tuggið tjörupappa og étið mold!"
Þetta var lýsingin, sem félagi Hugi hafði á þeim ljúffenga drykk sem leikur um bragðlauka mína þessa stundina. Ég smakkaði dreitil hjá honum á sínum tíma, örugglega eftir eina af okkar fjölmörgu sundferðum, og hefur mig langað í flösku af þessum fjanda ansi lengi. Nú hef ég loksins keypt mér flösku. Þetta er ansi gott "stads"!
Hlakka til köldu vetrarkvöldanna með glas af þessu við hönd.

Getur maður náð í svona arineldsmyndband á netinu, til að hafa í tölvunni?

23.8.05


Kántrýplatan
Ég las að Baggalútur hefur gefið út kántrýplötuna "Pabbi þarf að vinna". Það er ekkert sérlega oft sem mig langar í íslenskar plötur, en þessa langar mig í! Bara titlarnir einir eru fyndnir.
Þeir sem ekki hafa lesið samhverfurnar þeirra, geta séð þær hér.

Hugi hefur birt gönguferðasögu á síðunni sinni. Mæli eindregið með henni. Hló heilmikið við að lesa hana og fékk heimþrá.

21.8.05


Grófur húmor - Bannað innan 18 ára
Hver er munurinn á píku og Harboe dósabjór? (svar: sjá í "Ískalt mat")

17.8.05


"Mér langar í..."
Um daginn þegar ég var staddur á gatnamótum hér í borg kom maður hjólandi á móti mér. Ég veitti því athygli að maðurinn sat uppréttur og hafði stýrið hátt uppi. Hjólið sem ég á er DBS Kilimanjaro fjallareiðhjól sem ég keypti af Þyri, þegar hún skipti yfir í dömureiðhjól. Það er verulega þungt og hefur breið dekk, eitthvað sem maður hefur ekki not fyrir á malbikuðum, snjólausum vegum Danmerkur. Svo er ég orðinn afar þreyttur á því að bogra svona þegar ég hjóla. Þannig að ég veitti hjóli mannsins sem kom á móti mér sérstaka eftirtekt þegar hann fór framhjá. Annað eins hafði ég aldrei séð! Mikið ótrúlega var þetta flott hönnun og ég hafði ekki hugmynd um hvaða merki þetta var. En eitthvað sagði mér að ég hafði séð svona hjól áður, í ákveðnu svæði af Árósum.
Þangað fór ég svo í dag. Og ég fann eina hjólabúð sem hafði svona hjól fyrir utan. Ég hoppaði inn og spurgði afgreiðslumanninn út í hjólið.
Hjólin eru kölluð Pedersen hjól. Það er hægt að kaupa þau í Kristianiu. Þau kosta marga marga peninga (c.a. 100.000, ísl.kr.).
Hér má lesa meira um Pedersen hjólin.
Ef þú átt marga marga peninga, og veist ekkert hvað þú hefur við þá að gera, þá láttu mig vita og við finnum út úr því.

13.8.05


Búdrýgindi
Í dag hef ég haldið mig á Rømø, og svo soldið á E45, sem er hraðbrautin upp og niður Jótland (og reyndar eitthvað áfram í gegnum Evrópu). Ég var að syngja í brúðkaupi ásamt 3 öðrum. Við sungum "En yndig og frydefuld sommertid" og "Here, there and everywhere". Seinna lagið í útsetningu undirritaðs. Gekk bara fínt.
Ég var svo í veislunni að spila "suppestegis", eins og danskurinn kallar það, en við köllum það bara "dinner"músík.
Gott að fá nokkra svarta aura...þeir "falla í þurran stað".
Rømø er ótrúlega falleg eyja rétt fyrir sunnan Esbjerg. Ströndin þar er ótrúlega stór, maður keyrt lengi lengi á ströndinni áður en maður kemur að sjónum. Mæli með henni ef þið eigið leið um Jótland. Rømø liggur 200 km. frá Árósum. Þannig að ég er búinn að keyra 400 km. í dag, á bílnum þeirra Róberts og Selmu, og er alveg úrvinda eftir daginn.
"Bed, here I come!"

11.8.05HAHAHA!


Frumsýning
Í gærkvöldi var svo frumsýningin á "Brottnáminu úr kvennabúrinu". Fínn flutningur í alla staði. Sólistarnir voru ansi góðir, hljómsveitin lítil og velspilandi og kórinn (4 söngvarar, Stina einn af þeim) sungu nánst ekki neitt. Stina hefur kvartað mikið í æfingatímabilinu að þau þurfi ekkert að gera og tíminn fari mest í að bíða. Ég hélt að þetta væri eitthvað svona prímadonnu stælar...en hún hafði fyllilega rétt fyrir sér. Þau sungu svo lítið að það er næstum ekki réttlætanlegt að hafa þau þarna. Þau báru líka einhverja leikmuni fram og til baka, en sviðið í Helsingør Leikhúsinu í Den Gamle By (Gamli bærinn) er alls ekki stórt, þannig að það voru ekki margir leikmunir.
Þrátt fyrir plásslítið svið þá var sviðsmyndin afar vel hönnuð. Það var einn gylltur kassi (stór) á miðju sviðinu, eins og herbergi, nema að það vantaði einn vegg á kassann. Svo var hægt að opna hina veggina í heild sinni. Svo voru litlir gluggar á herberginu sem hægt var að syngja í gegnum og kíkja. Það má segja að þetta hafi verið búr, kvennabúr. Búrinu gat maður svo keyrt fram og til baka á sviðinu og snúið. Afar sniðugt.
Leikhúsið var fullt sem þýðir að það voru c.a. 237 áheyrendur.
Eftir sýninguna var svo öllum söngvurum og fylgifiski þeirra boðið í mat. Góður matur og frábær vín. Ammi namm.

8.8.05


Kærasta í kvennabúri
Kærastan mín er að syngja í "Brottnáminu úr kvennabúrinu" í Århus Sommeropera.
Hún er orðin ansi pirruð á að þurfa að syngja í gegnum þetta efni sem hún er með fyrir munninum og næstum kafna í því þegar hún dregur andann (sjá mynd, Stina er l.t.h.). Hún hefur þróað þá tækni að blása aðeins út áður en hún dregur andann. Þann 10.ágúst er frumsýning.
Myndin er tekin úr Århus Stiftstidende.


Tvífarar
Ég vissi að ég þurfti að fá mér sterkari gleraugu. Ég vissi líka að ég þyrfti að nota gleraugu daglega. Ég vissi að gleraugun mín sem ég notaði við tölvuna og við skriftir, voru ekkert sérlega þægileg í lengdina.
Þannig að ég fór að kanna gleraugu hér í borg. Fljótlega fann ég "Brillebutiken", sem útleggst "Gleraugnabúðin" á því ylhýra. Ástæðan fyrir því að ég kíkti inn í þessa búð var sú að í glugganum var þessi líka feykistóra mynd, af afar myndarlegum manni, með ansi fín gleraugu, að mínu mati. Við nánari athugun voru þessi gleraugu ótrúlega létt og sniðug í hönnun. Þegar ég setti upp gleraugun í búðinni hrópaði afgreiðslukonan upp fyrir sig. Það var eins og myndarlegi maðurinn á myndinni í glugganum hefði gengið inn í búðina.
Ég keypti gleraugun.
Erum við ekki bara sætir?
p.s. gleraugun mín eru aðeins meira ferköntuð en þau á myndinni t.h.
The Hitchhiker's Guide to the Galaxy
Eftir langan umhugsunartíma, c.a. 14 ár, hef ég hafið lesturinn á þessari bók. Meistari Hugi Þórðarson hafði lesið þessa bók þegar við kynntumst, sem pattar í Neskaupstað. Honum þótti hún ótrúlega fyndin. Ég hafði ekki þá hæfileika að geta lesið ensku, eins og nú, þannig að ég las ekki bókina þá.
Síðan þá hef ég ávallt kíkt á þessa bók í bókabúðum og hugsað "Er ég í stuði fyrir hana núna? Nei ætli það...hún er svo súr."
En um daginn lét ég slag standa og keypti hana án stúdentaafsláttar í bókabúð í Madrid, sem bauð upp á stúdentaafslátt fyrir nema með Isic-stúdentakort. Ég er með eitt slíkt.
Mér þykir þessi bók ekki eins fyndin og öðrum hefur þótt. Ég hef svona aðeins flissað yfir nokkrum atriðum, en ég hef alls ekki rekið upp rokur, grátið, átt erfitt með að ná andanum né fengið verk í magann af hlátri.
Ég var t.d. að lesa bókin "Down Under" e. Bill Bryson, og þótti hún mun fyndnari. Hlakka mikið til að komast í hinar bækurnar eftir hann.
Þó finns mér þessi setning úr bók þeirri sem ber titil þessarar færslu ótrúlega fyndin:
"Is there any tea on this spaceship?"

3.8.05

Framtíðin
Ég er ekki einn af þeim sem leggur plön fyrir næstu árin...mánuði...vikur...sjaldnast nokkra daga...legg aðallega plön um hvað ég ætla að fá mér næst að borða.
En í fyrradag hafði ég plan fyrir ansi langt tímabil. Fyrir allavega eitt ár.
Ég ætlaði nefnilega að skrá mig í orgelnám hjá Kirkjumúsíkskólanum hérna á Jótlandi. Þar get ég tekið svonefnt PO próf. Það er svona lítið orgelpróf sem gefur mér rétt til að vera organisti í litlum kirkjum. Í Árósum eru nokkrar svona PO stöður, þannig að þetta er ágætis nám sem gæti gefið salt í grautinn.
Svo ætlaði ég að hafa tónfræði námið samhliða.
Ég var búinn að fá alla bæklinga um PO námið og var farinn að spá í prógram fyrir inntökuprófið. Sá að skólaárið hjá þeim liggur frá janúar til desember og maður þarf að sækja um fyrir 1.sept.
Svo hringdi ég í gær í skólann með nokkrar spurningar varðandi námsskipan og námsmat (ansi mörg fög sem ég þyrfti ekki að taka, að mínu mati).
Þá segir daman að þau muni ekki hefja næsta skólaár fyrr en í ágúst 2006! Þau ætluðu núna að hoppa yfir eina önn svo þau gætu verið samferða öllum öðrum skólum.
Mín plön fyrir veturinn og komandi ár var sópað í ruslafötuna.
Þá verð ég bara að bíða með þetta. Kannski tek ég þetta þegar/ef við flytjum í höfuðstaðinn, næsta vetur.

Stundataflan mín fyrir þennan vetur í tónfræði hljómar á þessa leið:
Mán: Brugsklaver (píanónám fyrir tónfræðinema) 13-13.30.
Þri: Teori (tónfræði) 13-14

Hvorki meira né minna!

25.7.05

"Á spáni VAR gott að djamma og djúsa..."
Kom heim á föstudaginn eftir 3 vikna ferð til suður Spánar og viku ferð til Bonn.
Kem sennilega með einhverja ferðasögu eða einhverja þvælu, en nenni því ekki núna.
Auf wiedersehen!

25.6.05

Á Spáni er gott að djamma og djúsa...
Hola!
Fer til Spánar á morgun.
SKjáumst síðar,
adiós!

21.6.05

Sól og sumar
Undanfarna daga hef ég haldið mig til í skugganum með mína hvítu skanka. (Munið þið eftir slátraranum Hr. Skanka úr bókinni um Hr. Hávær?) Ég mun sennilega brenna upp til agna þarna á Spáni. Við erum nefnilega að fara þangað núna á sunnudagin. Hef heyrt að það sé í kringum 40 gráður í Madrid!

Já já...

Bless.

15.6.05

Systkinin mín...
...eru frábær!

10.6.05

Nokkrum dögum eftir...
Jæja gott fólk, þá er ég búinn að setja verkið sem var frumflutt um daginn, inn á hina síðuna mína, en þar sem ég vill ekki að þetta fari alveg inn á aðalsíðuna þá gef ég bara hlekkinn upp hérna. Þá veit ég nokkurn veginn hverjir koma til með að hlusta á "lagið" ;-) Ég mun taka verkið af síðunni eftir c.a. 1 mánuð.
SMELLIÐ á smellinn!
NB. þetta er generalprufan (sem lukkaðist betur en frumflutningurinn) þannig að það er örlítið talið (1-2-3-4-5) og míkrófónninn færður.
Aðgát skal höfð í nærveru Koda (sem er hið danska Stef).

4.6.05

Daginn eftir...
Frumflutningurinn gekk bara vel. Kirkjan þétt setin og kórarnir og hljóðfæraleikararnir skiluðu sínu mjög vel.
Ghita kom hálftíma of seint (með ferjunni frá Kaupmannahöfn) og svo heyrðist ekkert í henni því hún kom ekki í hljóðprufuna. Launin hennar fyrir þessa frammistöðu voru meira en tvöföld mín laun, og ég er búinn að vinna í þessu verki í 5 og hálfan mánuð. Fullkomlega óásættanlegt! (flott orð :-) En fólk gekk samt ekki út á meðan mitt verk var flutt, en það gerði fólk á meðan hún stóð og las ljóðin hans HCA með tilþrifum...en fór forgörðum þar sem að einungis 1/3 af kirkjugestum voru áheyrendur.
Þá er bara að vinda sér í næstu tónsmíð, sem er seinna verkið sem var pantað af mér af Aros listasafninu (eða ensemblinu þar). Ætli það verði ekki verk fyrir harmoníku og sneriltrommu. Kannski maður setji svo einhverja hljóðfæraleikara og söngvara hist og her á allar hæðirnar. Surround verk :-) Hvur veit!

Mojn!

2.6.05

Hvil sødt!

Hvil sødt!
Som var Du lagt i Dødens Skriin
Du min Erindrings Rose faur og fiin,
Du er ei Verdens meer, Du er kun min;
For Dig jeg synger, mine Taarer trille,
Natten er smuk, Natten er stille; —

Dødt! — Alt er dødt!

 Hvil sødt!
Hvert Barn i Ly af „Fader vor“,
Du Lidende, i Søvnen Sundhed groer,
Og Du som elsker, haaber, barnligt troer,
Gid ingen Drøm Dig ved Din Lykke skille;
Natten er smuk, Natten er stille; —

Dødt! — Alt er Dødt! —
-----------------------------

Salme

Som bladet der fra træet falder,
så er mit jordliv, ikke mer!
Jeg er beredt når du mig kalder,
Gud, du som helt mit hjerte ser,
ved al min brøst, hvad i mig bor,
og min fortrøstning dog så stor.

Gør smerten kort i min fovandling,
forund mig barnets hele mod,
du dømme tanke, dømme handling
i nåde kærlig, fadergod.
Ryst bort min angst! Kun dig jeg se!
I Jesu navn, din vilje ske!
-----------------------------

Þetta er textinn í nýjasta verkinu mínu ("Hvil sødt"). H.C. Andersen er skáldið.
Það á að frumflytja verkið í Dómkirkjunni í Árósum, lengstu kirkju Danmerkur, 93 m., á föstudaginn. M.a. á efnisskránni er músík eftir Hartman og svo mun Ghita Nørby lesa upp 2 ævintýri eftir. H.C.And.
Það voru prentaðir 1000 aðgöngumiðar (sem maður gat svo fengið frítt í nágrenni við kirkjuna) og það er búið að gefa alla miðana. Fólk þurfti að biðja um miðana, þannig að þetta eru miðar sem virka. Þannig að það má reikna með fullri dómkirkju á föstudagskvöldið. Verslanir í bænum munu líka hafa opið til miðnættis þannig að það verðu líf í bænum.
Ég er orðinn svolítið spenntur.

21.5.05

Kjöbenhavn!
Það var nú aldeilis "dejligt" að hjóla um stórborgina á rauðu tvístolnu borgarhjóli. Ég komst ansi langt á því.
Frumflutningurinn gekk bara ágætlega. Kórinn Staka söng eftir mig litla sykursæta útsetningu sem ég gerði handa þeim. Frábært framtak hjá ungum íslendingum í stórborginni. Guðný Einarsdóttir stjórnaði liðinu sem herforingi og hef ég aldrei séð hana eins flotta og á þessum tónleikum. Hún var afar kúl sem stjórnandi.
Partýið eftir tónleikana var líka bara fínt. Ég fór ekki í háttinn fyrr en kl.05.30 :-)

Framundan er svo frumflutningur á verkinu sem ég hef unnið að undanfarna mánuði, "Hvil sødt". Ansi viðamikið verk fyrir slatta af fólki.
Búinn að skila raddskrá og röddum (eins og Gunnsteinn vildi að við kölluðum þetta) til flytjendanna og stjórnandans. Þannig að nú liggur vinnan hjá öðrum.

Kvenkynnirinn í Evróvisjón er ÓTRÚLEGA pirrandi!

12.5.05

www.arason.net
Þá er ég loksins búin að fá mér svæði fyrir síðuna mína, sem auðvelt er að muna.
Hugi Þórðarson sagði að þetta hljómaði eins og slóð að heimasíðu fyrir stálsmiðju, og er það hárrétt hjá honum. Hver er svosem munurinn á stálsmíðum og tónsmíðum?
En allavega www.arason.net er mitt nýja svæði.
Ath. að það er komið fullt af raddskrám á svæðið!

28.4.05

Fyrir sunnudaginn
Hér í veldi dana vita allir hvað "Før søndagen" er. Ef það hefði ekki verið eitthvað sjónvarpstengt þá hefði ég sagt að það væri laugardagur. En "Før søndagen" er dagskrárliður á DR1 sem er sýndur rétt fyrir kl.18 á laugardögum. Í þessum lið eru sungnir 2 sálmar, af kór inni í kirkju, og svo er lesinn upp texti. Svona er þetta á hverjum laugardegi.
Kórinn minn var beðinn um að vera með í þessu prógrammi. Í gær og í dag höfum við verið í sjónvarpsupptökum í fallegri kirkju úti við Todbjerg. Það tekur um 1 klst. að keyra með strætó þangað út. Við erum með einsöngvara líka og svo syngur kórinn stundum "a capella" (án meðleiks) og svo er söfnuður sem syngur stundum með, Þetta þarf allt að ganga smurt því að einn sálmur þarf að takast upp í einni töku, ekkert hægt að klippa. Upptökumennirnir þurfa líka að læra sín spor þannig að það er MARGT sem getur klikkað.
Efnisskráin er upp á 20 sálma og eina mótettu.
Það þýðir að við verðum 10 sinnum í sjónvarpinu í sumar (í júlí).
Svo verður þetta endursýnt að ári.
Það er töluvert mikið.

12.4.05

Áhugaverð síða
Svona á að hnýta skóreimarnar!

7.4.05

Súkkulaði og kanil í kjötsósuna
Hér er góð grein eftir Jónas Sen.

6.4.05

Staðreyndir lífsins
- Það er ómögulegt að sleikja á sér olnbogann.
- Krókódíll getur ekki stungið út úr sér tungunni.
- Hjarta rækju er í höfði hennar.
- Þegar þú hnerrar stöðvar hjarta þitt í millisekúndu.
- Samkvæmt rannsókn sem gerð var á 200.000 strútum á yfir 80 árum hefur enginn séð strút stinga höfði sínu í sandinn né gera tilraun til þess.
- Í Bandaríkjunum er ákæra hverjar 30 sekúndur.
- Það er efnislega ómögulegt fyrir svín að horfa upp í himininn.
- Meira en 50% fólks í heiminum hefur aldrei hringt eða tekið á móti símtali.
- Rottur og hestar geta ekki gubbað.
- Ef þú hnerrar of harkalega geturðu brotið rifbein. Ef þú reynir að bæla niður hnerra geturðu rifið æð í höfðinu á þér eða háls og dáið. Ef þú heldur augunum á þér opnum með afli geta þau dottið út.
- Rottur fjölga sér svo hratt að á 18 mánuðum geta tvær rottur haft yfir milljón erfingja.
- Að vera með heyrnatól í einungis einn klukkutíma sjöhundruðfaldar bakteríu í eyrunum á þér.
- 40% þess fólks sem koma í partí í húsinu þínu kíkja í lyfjaskápinn þinn.
- Tannlæknir fann upp rafmagnsstólinn.
- Kveikjarinn var fundinn upp á undan eldspítunni.
- 100% lottósigurvegara þyngjast.
- 35% fólks sem nota einkamálaauglýsingar til að koma á stefnumótum eru þegar gift.
- Kvak andar bergmálar ekki, og enginn veit af hverju.
- 23% af öllum bilunum á ljósritunarvélum má rekja til þess að fólk situr á ljósritunarvélum til að ljósrita á sér botninn.
- Á meðaltalsæviskeiði munt þú, á meðan þú sefur, borða 70 margs konar pöddur og 10 kóngulær.
- 160 bílar geta keyrt hlið við hlið á breiðasta veigi í heimi í Brasilíu.
- Flestir innihalda fiskhreistur.
- Þvag kattar glóir undir útfjólubláu ljósi.
- Kólibrífugl er léttari en bandarískt penní.
- Líkt og fingraför, eru tunguför hvers manns ólík.
- 90% þeirra sem lesa þetta munu reyna að sleikja á sér olnbogana.
Á Spáni er gott að djamma og djúsa...
Var að bóka eftirfarandi flug:

København(CPH), Denmark
26.06.2005 / 07:05
Madrid(MAD), Spain
26.06.2005 / 10:15
DM309

Madrid(MAD), Spain
15.07.2005 / 19:35
København(CPH), Denmark
15.07.2005 / 22:35
DM310

Olei! :-)

31.3.05

slufsa
-aði s • éta e-ð lint og blautt, sötra eða súpa (með söturhljóði), smjatta.

Takk fyrir eintakið af íslensku orðabókinni, mamma og pabbi!

28.3.05

Gleðilega páska öllsömul!
Góð uppskrift að páskum:
1. á föstudaginn langa skal maður keyra frá Gern, þar sem maður er í fríi með allri fjölskyldu kærustunnar, til Árósa, sem er um 30 km. leið.
2. í Árósum skal maður syngja eina generalprufu og páskakonsert með rjómaverkunum Stabat Mater eftir Pergolesi og Requiem eftir Fauré (ég söng reyndar ekki í Stabat Mater þar sem það er fyrir sópran- og altsóló).
3. svo skal maður flýta sér aftur til Gern til að taka þátt í veisluhöldunum, því amman er áttræð.
4. en þegar heim er komið þá liggur kærastan veik uppi í rúmi, með ælupest. Greyið.
5. næsta morgun þá ert þú ekkert svo hress sjálfur.
6. þú kastar upp.
7. þú liggur uppi í rúmi, ásamt kærustunni, með hita (og samfarandi kulda) og gubbupest.
8. þetta endurtekið í 1.5 sólarhring.
Værs'go, páskar að hætti Stefáns og Stinu, 2005.

Rétt fyrir páska kom aldeilis heilmikill kippur í vorkomu. Það var bara reglulega hlýtt. En nú hefur vorið eitthvað aðeins hugsað sig um og haldið örlítið aftur af sér, en þó ekkert mikið. Þetta kemur jú allt saman. Frábær tími hérna í DK.

17.3.05

Síðan síðast og Ólasaga Ögmundarsonar
Þessa stundina er ég heima hjá mér á Brammersgade. Ég og Stina erum annars að passa Fridu í Åbyhøj. Foreldrar Fridu eru í Frakklandi. Frida er köttur sem ekki má klappa. Hún er með snertifælni og þorir ekki út. Bara út á svalir. Hún var nefnilega einu sinni úti að leika sér og læstist sennilega inni í einhverju húsi og komst ekki út í nokkrar vikur. Hún kom svo heim seint og um síðir (eigendur hússins hafa komið heim og hleypt henni út) grindhoruð og varthugað um líf. En hún braggaðist þó, en hefur eitthvað klikkast í kollinum sennilega. Við höfum þó fengið að klappa henni aðeins, en bara voðalega lítið þó.
Frida er fordekruð. Hún fær rækjur og túnfisk í matinn.

Síðan síðastu netlu þá hef ýmislegt á mína daga drifið. Ég fór t.d. til Kaupmannahafnar og upplfiði stærstu músíkupplifun sem ég hef átt. Ég sá og heyrði Julius Cæsar eftir Händel í Det Kongelige Teater. Þvílíkt og annað eins. Aldrei séð annað eins né heyrt. Get ekki lýst því nánar. En fyrir þá sem eitthvað eru inn í músík þá voru söngvararnir frábærir (Andreas Scholl, Randi Steen ofl.) og bandið (concerto copenhagen, CoCo) rokkaði feitt undir spastískri stjórn Lars Ulrik Mortensen sem einnig spilaði á sembal. Hann bar sig að eins og Keith Emmerson, vantaði bara að hann legðist á gólfið og spilaði á sembalinn ofan á sér.
Sviðsetninginn var afargóð. Búningarnir fínir, ekkert svona asnaleg gömul föt þar sem brjóstin á konunum eru klemmd upp undir höku og karlarnir í asnalegum sokkabuxum.
Þessa sýningu á að gefa út á DVD og DR mun taka hana upp einnig og sýna í sjónvarpinu. Látið þetta ekki framhjá ykkur fara.

Yfir í eitthvað allt annað.
Ég er fæddur og uppalinn í Neskaupstað, svona fyrir ykkur sem ekki vita það. Gatan mín heitir Hliðargata og bjó ég í húsi nr.24. Foreldrar mínir búa þar ennþá. Pabba minn smíðaði húsið okkar. Hann og mamma mín bjuggu líka í þessari götu þegar þau voru lítil. Þau bjuggu meira að segja í sama húsi, Vinaminni. Mamma í innendanum og pabbi í útendanum.
En í þessari götu bjó einnig kona ein sem heitir Dunna. Hún á barnabarn sem heitir Óli (Ólafur Ögmundrason). Óli bjó í Reykjavík en kom stundum í heimsókn til ömmu sinnar.
Ég og Óli urðum góðir vinir. Við vorum svona c.a. 8-10 ára þegar við kynntumst. Óli er aðeins eldri.
Óli kom aðallega á sumrin til ömmu sinnar. Við brölluðum ýmislegt. Óli átti t.d. flottar byssur sem við lékum okkur með.
Heima hjá Dunnu, ömmu Óla, var góð lykt. Húsið var gamalt en fallegt og inni var líka fallegt. Afar ömmulegt.
Einu sinni fórum við inn að fiskverkuninni sem alltaf var kölluð SÚN þó svo að það var SVN sem átti hana (SÚN=samvinnufélag útgerðarmanna á nesi, SVN=síldarvinnslan í neskaupstað) og fórum að dorga.
Við steypta bryggjukantinn var frárennslið frá verkuninni. Þar út kom allt gumsið sem var skorið í burtu af fiskinum sem var verkaður. Þannig að þetta var hlaðborð fyrir mávinn og ufsann. Það var stundum svo þröngt á þingi að bökin á ufsanum stóðu upp úr vatninu og undir bryggjunni, sem er úr tréi, var allt morandi í ufsa. Svo mikið að maður sá ekki niður í botn.
Planið var að fylla hvítt fiskikar af ufsa og selja hann svo til Gylfa sem átti laxeldi. Hann gat notað ufsann í laxafóður.
Okkur fannst það ekki ganga nógu hratt með að dorga ufsann, þannig að við fundum tunnugjörð og settum net í hana. Gerðum stóran háf. Svo settum við reypi í gjörðina og létum þetta gossa niður í ufsamergðina. Ufsinn gekk auðveldlega í gildruna og við vorum ekki lengi að fylla karið, fylltum meira að segja tvö.
Svo skutlaði einhver okkur með körin til Gylfa og hann vigtaði þetta og skrifaði kvittun handa okkur og við áttum að fá þetta borgað síðar. Þar sem að Óli er eldri og skildi svona bissness mál þá tók hann kvittunina. Nema að við fórum svo aldrei aftur með kvittunina til Gylfa. Óli vildi ekki fara með hana. Ég veit ekki afhverju. Kannski fannst honum það eitthvað vandræðalegt. En hann setti kvittunina upp á hillu heima hjá ömmu sinni.
Ég hætti að hugsa um þetta, en eftir að Óli var farinn til Reykjavíkur þá varð mér oft hugsað til þessarar kvittunar. Stóð hún enn á hillunni, tók Óli hana sjálfur kannski einn daginn eða hafði kannski amma hans bara hent henni.
Í dag er Óli fiskeldisfræðingur og elur upp fisk á Sauðárkrók.

Nei sko, það labbaði hestur framhjá húsinu mínu!

4.3.05

Umferð
Það gengur ekkert sérlega vel hjá danskinum þessa stundina í umferðinni. Það er nefnilega snjór yfir öllu og ís á vegum, og engin nagladekkin. En samt er það ekki það sem gengur verst. í fréttunum í morgn heyrði ég nefnilega að það væru 2 lestar útaf sporinu hérna í Árósum (þeim hefur sennilega lent saman), en engin mannskaði. Svo sigldi stórt fragtskip á Stóra-beltisbrúna í gærkvöldi.
Jahérnahér!

24.2.05

City of Wienerbread
Þetta fer að verða svona heimsborganetla því þessa stundina er ég í kóngsins Kaupmannahöfn (eða Möggu). Þannig er mál með vexti að Stina er að fara í söngtíma í nýja óperuhúsið í dag (já hljómar kúl) til einhverjar "Skrige Skinke" og ég ákvað bara að fara með svona upp á djók. Hélt jafnvel að ég gæti hitt á Huga kallinn, en hann er víst að fara til Íslands, þannig að ég finn mér eitthvað annað til dundurs. Hef svo sem ekki mikinn tíma til að gera eitthvað sérstakt annað en kannski bara að rölta aðeins um.
Við tókum ferjuna frá Árósum í gær og var vægast sagt verulega slæmt í sjóinn. Ég er nú ekkert sérstaklega hraustur í svona tækjum sem hreyfst (öðrum en bíl og flugvél) t.d. get ég ekki farið í leiktæki í tívolíum því ég þoli það bara ekki. Verð grænn og gulur í framann og maginn ætlar að hoppa upp úr mér. En s.s. speed-ferjan (getur siglt á 85 km/hraða) tók miklar dýfur og lamdist sundur og saman. Ég sat sem kyrrastur og andaði djúpt og hallaði höfðinu aftur (eins og maður á að gera í svona aðstæðum). Stina tók þessu mun betur, enda hefur hún unnið í Disney World og þolir því svona læti ágætlega.
Sem lesa má komumst við lifandi úr þessu og mikið voðalega var gott að sitja í rútunni á leið til Kaupmannahafnar. Við vorum með makkakrílið þannig að við gátum séð mynd á leiðinni. Huggulegt.
En hápunktur ferðarinnar, enn sem komið er, var gamall kall sem sat fyrir aftan okkur í strætó. Hann kom inn í strætóinn um leið og við, og hann hafði stóran vindil í svona vindlingamunnstykki. Var með alskegg og húfu.
Þegar á strætóferðina leið þá kemur inn stúlka með afar stóran rass, í rauninni verulega stóran rass, í rauninni svo stóran rass að hann fyllti vel í sæti fyrir 2. Maður gat í rauninni ekki tekið eftir rassinum.
Skyndilega fer gamli kallinn að gefa frá sér baul og ýmis hljóð, sem leiðir út í að hann fer að tala við sjálfan sig og hann byrjar hverjar setningu á "Jeee...nooo..." (lesist með íslenskum framburði). Það er greinilegt að kallinn hefur einhvern að ræða við, þó svo hann sitji einsamall.
Á meðan að kallinn er að spjalla við sig þá stendur stúlkan upp og fer út.
Þegar stúlkan er komin út þá segir kallinn:
"Jeee...nooo...det var en stor numse der...en elefant numse...jeee...hmmm...en stor stor elefant numse...jeee....nooo...tror du på Gud?...nooo....jeeee....nej det gør jeg ikke...men hvis hun havde troet på Gud så ville hun måske ikke blivet født med sådan kæmpe en elefant numse...nooo...jeee..." og svona hélt þetta áfram restin af ferðinni.
Ég hélt ég myndi detta niður af stólnum af hlátri.

20.2.05

"The City of Loeeve"
Vinur minn sagðist ekki kunna við alhæfingar, en honum fannst allir Frakkar vera óþolandi skítapakk.
Ég get ekki tekið undir þau orð, en mér finnst Parísarbúar vera svín. Þeir lifa í því sem þeir éta og skíta. Það angar af ólykt. En en þeir kunna að gera góðan mat!
Við eyddum 3.5 dögum í París í vikunni sem er að líða. Fengum gott tilboð á flug og hóteli og ákváðum bara að skella okkur. Gott að komast í burtu og upplifa eitthvað annað.
Stina talar frönsku og bjó einu sinni í París, þannig að ég fékk það hlutverk að vera læmingi. Tók reyndar nokkrum sinnum við kortalestrinum.
Við skoðuðum aðeins "Pompidú", kíktum á "Mon Martr" og snæddum þar frábærar kökur, kíktum aðeins á Notre Dame og heilsuðum upp á hringjarann, snæddum foi gras og "crem brúle" (vona samt að boðið þitt standi ennþá Hildigunnur!) og hugguðum ansi mikið.
Komum heim með osta, apertif og 2.5 kg af kaffi :-)

Nú er ég kominn með kvef. Langt síðan að ég hef farið í sjóinn og óþrifin í París hafa sennilega ekki lagst vel í nefið á mér. Sit því með makkakrílið uppi í rúmi og kúri inn á milli (það er jú best að ná svona óþverra úr sér með að sofa).

Er nánast búinn með Prélúdíuna að verkinu fyrir Dómkirkjuna. Tók bara einn mánuð...og nú er bara að nota annan mánuð til í sjálft verkið :-)

Ríkharður Örn fór ansi lofsamlegum orðum um "Livets Bro" í mogganum. Gaman. Þið getið farið inn á heimasíðuna mína, sem ég hlekkjaði á fyrir einhverjum dögum, og hlustað á verkið mitt á þessum diski.

12.2.05

"Que est ce vous voules"
Yfirskriftin er ein af fjölmörgum setningum sem ég mun ekki koma til með að skilja á næstu dögum. Ég er nefnilega að fara til París! Verð frá mán.-fim. og ég ætla að drekka mikið kaffi, borða osta og drekka rauðvín. Júbbí!

11.2.05

Afraksturinn
Hér getið þið svo séð hvernig umtöluð síða lítur út. Ég mun koma til með að breyta vefsvæðinu, en síðan mun líta svona út, svona fyrst um sinn.

9.2.05

"Þetta svokallaða inernet sem allir eru að tala um."
Nú er síðasti dagurinn í námskeiðinu. Shit hvað það er einfalt að gera heimasíðu...líka voðalega einfalt að búa til LJÓTA heimasíðu.
Ég er ekki ennþá búinn að fá mér vefsvæði, en ég læt ykkur vita, lesendur góðir, þegar það gerist.
Þannig að nú spyr ég, eins og Þóra Mart. spurði sína lesendur, hvað á ég að hafa sem slóð að síðunni minni?
www.stefanarason.is/.dk/.com
www.arason.is/.dk/.com
www.star.is/.dk/.com
www.st.arason.is/.dk/.com
www.farduirassgatfiflidthitt.is/.dk/.com
www.???

endilega komið með ykkar skoðun.

5.2.05

Dejlige Danmark
Ég lifi á danska kerfinu. Ég fæ dagpeninga. Þeir sem eru meðlimir í A-kassa geta fengið dagpeninga en þeir þurfa að vera líka að vera meðlimir í atvinnumiðlun. Ég er í FTF-A kassa og í AF (arbejds formedling).
Þegar maður hefur verið í ákveðinn tíma á dagpeningum þarf maður að gangsetjast (aktiveres). Ég hef nýlega verið gangsettur. Ég tek eitt tölvunámskeið í Dreamweaver, grunnnámskeið. Námskeiðið tekur 3 daga. Eftir það get ég haldið áfram að taka á móti dagpeningum.
Dejilega Danmark!

28.1.05

Frægur í Hiroshima
Ég rakst á þessa síðu um daginn þegar ég leitaði á Google undir "Livets Bro" (sem er titillinn á nýjum diski með kórnum sem ég syng í, ef þið ekki vissuð það ;-)
VIð nánari athugun er þetta heimasíða dreifingarfyritækis sem er staðsett í Hiroshima, og sérhæfir sig í Norrænni músík.
"Furðulegur kaupfélagsstjóri".

24.1.05

Söngur Entnanna
Orgvélin var kröftug og mikil. 32 fóta bombardinn hljómaði eins og maður gæti ímyndað sér að brúmmið í Entunum í Hringadróttinssögu myndi hljóma.

Annars er ég að horfa á ísskápinn afþíðast þannig að ég hef ekki tíma fyrir meira í bili...

19.1.05

Verkir í Dómkirkjunni
Ég fékk pöntun um daginn. Pöntunin er frá Dómkirkjunni, eða öllu heldur frá Dómkirkju Kantornum sem er Carsten Seyer-Hansen. Verkið á að vera fyrir kantoriið (kórinn), drengjakórinn og litla hljóðfæragrúppu. Ég hef svo valið að bæta á listann litla orgelinu, sem er splunkunýtt og notast við uppfærslur á barokk músík (positiv kallast þessi orgel held ég), og svo STÓRA orgvélin.
STÓRA orgvélin er verulega stór. Stærsta vélin hér í DK. Yfir 100 raddir. Ótrúlega margir möguleikar þar. Til að vita hvaða möguleika orgvélin hefur yfir að ráða mun ég fá útsýnisferð í dag kl.15 og dómorganistinn, Anders Ribe, mun vera leiðsögumaður. Spennandi! Ég ætla að spyrja mikið um 32.fóta röddina :-) (það er veeeerulega djúp rödd)

Annars kom minn kæri bróðir með þá uppástungu að við færum saman á Queen tónleika í vor. Auglýsi því hér með eftir einhverjum styrktaraðila, svo ég geti líka keypt mér nýtt Finale nótnaskriftarforrit í tölvuna mína nýju. Þekkið þið kannski einhvern greifa sem hefði áhuga á að fá mig í vinnu við að semja músík handa honum?

14.1.05

Fullur máni
Ég var afar ungur að (h)árum þegar ég fór að missa hárið. Sennilega kringum 14-15 ára gamall. Þetta byrjaði sem há kollvik en þar sem að ég gerði ekkert úr því að greiða mér almennilega, lét ég þetta bara liggja tiltölulega klessulega á hausnum og kollvikin voru ekki sýnileg. En svo fór tunglið að myndast, þ.e. þegar kollvikin mætast á miðjum hausnum. Það gerðist svona c.a. þegar ég var 18 ára gamall. Þegar það fór að gerast þá reyndi maður að fela þetta aðeins með að lyfta hárinu soldið frá skallanum...en það heldur ekki í heilan dag, þó svo það líti ágætlega út að morgni, þannig að þetta leit ekkert sérlega vel út. Hef séð myndir af mér frá þessum tíma, og eru þær ekkert til að halda upp á.
Sumarið 1996 var gott sumar. Ég var að vinna í sundlauginni. Dag einn segir mín kæra systir "Stefán, væri ekki sniðugt að ég snoðaði þig?". Ég var ekki alveg á því. En við nánari umhugsun þá myndi ekki mikið skje ef það klæddi mig ekki, ég myndi bara safna þeim hárlufsum sem eftir voru aftur. Í rauninni var þetta mjög góð hugmynd því það styrkir hárið að vera klippt alveg niður í rót og það yrði bara gott að láta sólina skína soldið á skallann þegar ég var í vinnunni.
Þannig að kvöld eitt snemmsumars fór ég heim til systur minnar og hún tók fram vélina rafmagns hárklippur og við fórum út á pall (tröppur, stétt við inngang íbúðarinnar) og byrjaði að "klippa flókann burt!" eins og þeir sögðu í Kardemommubænum.
"Gúlp, hvað nú ef þetta lítur nú hræðilega út!" hugsaði ég með mér, "hvað nú ef ég verð að athlægi og mun þurfa að ganga með húfu sem eftir er sumars, í steikjandi hita við sundlaugina." Þetta voru afar spennandi 15 mín. sem fóru í að klippa mig. Ég leit ekki í spegil. Ætlaði að geyma það þangað til ég kæmi heim.
Þegar ég kom heim fór ég beint að spegli, með bæði augun lokuð. Ég opnaði þau afar hægt svo sjokkið yrði ekki eins mikið.
"Fjandakornið!" þetta var nú ekki svo slæmt. Maður gat alveg vanist þessu. Þetta klæddi mig eiginlega bara miklu betur en að hafa einhvern lubba. "Gott mál, ég get alveg verið snoðaður í sumar".
Síðan snemmsumars 1996 hef ég ekki haft hár af neinu ráði á hausnum.
Afhverju skrifa ég um þetta? Jú, kórstjórinn minn í UNI-kórnum sagði í gær þegar við ræddum planið á móttökuathöfninni á nýja disknum okkar,Livets Bro, að eftir ræðu hans myndum við svo syngja tvo kafla úr verkinu "eftir hálfsköllótta Íslendinginn okkar".
Ég er ekki hálfsköllóttur, ég er heilsköllóttur. Það er ekki stingandi hár á kollinum og mér gæti ekki verið meira sama.
Það er fullur máni sem mig prýðir.

12.1.05

Skriferí
Þennan pistil ritaði ég í sumar, og var hann aldrei birtur hér á blogginu. Það eru sennilega ekki margir lesendur sem kannast við þennan klúbb né þá menn sem ég skrifa um, en hér vinstramegin á skjánum getið þið séð hlekk inn á sf.Heklu heimasíðuna. Þar getið þið séð myndir af umræddum leikmönnum og kynnt ykkur klúbbinn betur.

SF Hekla - IF Lyseng 3
"Endnu kommer der byger, men i løbet af eftermiddagen klarer det dog op nordfra. I aften og i nat tørt og klart vejr. Svag til jævn vind fra nord og nordvest, og temp. ned til omkring 10 grader. Søndag tørt med en del sol de fleste steder, med temp. op mellem 20 og 23 grader. Ret svag vind, mest omkring vest." (http://www.dmi.dk/dmi/danmark/til_lands/ostjylland.html)

Þannig hljómaði veðurspá dagsins fyrir austurhluta Jótlands. Einmitt á þessu svæði, nánar tiltekið í Lisbjerg sem er örlítið fyrir utan Árósa, mættu fræknir kappar SF Heklu kl.11.00. Leika átti leik gegn IF Lyseng og var það síðasti leikurinn þessa tímabils. Einnig stefnir í þetta sé síðastli leikur okkar Heklumanna á vellinum í Lisbjerg, því einhver plön eru um að leggja hraðbraut yfir hann. Andrúmsloftið var þrungið spennu. Einbeitingin var mikil innan hópsins sem hr. Pétursson hafði valið. Menn sóttu sínar treyjur, með sínum uppáhalds númerum letruð aftan á.

"Já mér hefur alltaf þótt vænt um númerið mitt. Ég hef reynt að spila með þetta númer í þeim klúbbum sem ég hef spilað síðan ég var hnokki. Mamma á meira að segja mynd af mér í Víkingstreyju nr. 4 eftir sigurleik gegn FJölni. Þá var ég í 6. flokki. Ég man að ég brenndi af einu víti í þessum leik." (samtal við Stein Gunnarsson, Heklumaður síðan 1997, eftir leikinn)

Snemma beygist krókurinn. Eftir að menn höfðu fundið sínar treyjur var tekið til við að gera sig kláran í síðasta leik fyrrihluta tímabilsins. Fyrirliðinn, Sigurður "smiður" Davíðsson, gaf sér þó tíma í að ganga örna sinna.

"Einhvernveginn er þetta fastur punktur í undirbúningi mínum fyrir leiki. Ég kemst í betra "kontakt" við völlinn og aðstöðuna við að kasta af mér vatni og saur í rétt fyrir leikinn." (samtal við Sigurð Davíðsson, Heklumann síðan 1996, fyrir leikinn)

Já, sumir fótboltamenn hafa undarlega siði og hjátrú. Sumir t.d. vilja þvo búninginn sinn sjálfir, aðrir vilja ekki þvo fötin sem þeir nota til að spila í.

"Ég kann bara orðið vel við stækjuna af hitabuxunum mínum. Hún hreinsar vel úr nefinu og stelpurnar láta mig algjörlega í friði, því lyktin er farin að sitja eftir á mér." (samtal við Örn Ingólfsson, Heklumann síðan 2002, á æfingu síðasta þriðjudag)

Eftir að menn höfðu smurt á sig sleypi-og hitamyndandi kremum, á líklegustu og ólíklegustu staði, og Kiddi búinn að smokra sér í hnjáhlífasmokkana sína, var haldið niður að velli. Völlurinn var afar mjúkur og grasið temmilega sítt. Undanfarna daga, og reyndar áður um morguninn, hafði rignt ansi vel þannig að aðstæður voru ákjósanlegar. Einnig voru allar línur sjáanlegar og þónokkuð beinar.

"Ég kom hingað kl. 10 og merkti völlinn. Fór af stað heiman frá mér kl. 7.30" (sagði Skúli "SM" Magnússon, Heklumaður síðan 2003, í upphitun)

Heklumenn eru að koma mislangt að á æfingar og leiki. Hr. Pétursson, þjálfari, stjórnaði upphituninni af hliðarlínunni. Sjálfur var hann kófsveittur og funheitur eftir hjólatúrinn frá miðbæ Árósa. Stemmningin er ávalt góð í upphitun hjá SF Heklu. Menn láta í sér heyra, þó mismikið, og "peppa" hvorn annan upp.

"Mér finnst það mjög mikilvægt að menn nái upp góðum móral og gríni svona fyrir leik. Sjálfur reyni ég að láta í mér heyra og smita þannig út frá mér. Mér finnst sumir ekki taka þennan part upphitunarinnar nógu alverlega. T.d. þætti mér gaman að heyra meira frá formanninum. Það fer alltof lítið fyrir honum. Ekki nægilega mikill leiðtogi. ÁFRAM HEKLA!!!" (samtal við Svein Guðmundsson, Heklumaður síðan 2004, á meðan upphitun stóð)

Oft getur þó hamagangurinn og köllin orðið að andhverfum tilgangi sínum, því ekki geta allir tekið gríni samfélaga sinna.

"Ég bara þoli ekki þegar menn eru að gera grín að vaxtarlagi mínu. Ég veit það vel að ég er frekar grannur og lágvaxinn, en mér finnst algjör óþarfi af Friðgeiri...og...og Hjalta að...að...[þurrkar burtu tár]...að núa mér því um nasir." (samtal við Erlend Ástgeirsson, Heklumaður síðan 2003, undir fjögur augu, þó voru tvö ansi rök)

Eftir nokkrar ferðir fram og til baka yfir völlin var liðinu deildt í nokkra reiti og svonefndur "reitabolti" var leikinn. Leikurinn felst í því að 4 menn standa á línum reitsins og 2 inn í reitnum. Hægt er að fjölga eða fækka á báðum þessum stöðum og er þá stærð reitsins breytt í samræmi við það. Svo eiga þeir sem inni í reitnum standa að komast inn í sendingar þeirra sem á línunum standa. Sá sem tapar boltanum skiptir svo við þann sem komst inn í sendinguna. Undirritaður er nú ekki vel að sér í svona boltareglum, en þessar reglur fékk hann að heyra þegar þjálfi reyndi að útskýra leikinn fyrir reynslulitlum nöfnum Einari Svan og Jóhanns.

"Bíddu, eigum við þá að spila okkar á milli þegar við stöndum inni í kassanum?"
"Nei nafni minn Svan. Við eigum að elta boltann. En Ingibjörn, hvað gerum við svo þegar við náum boltanum? Er þá 1-0 núll fyrir okkur?"
"Nei, er þá ekki bónus? Eða heitir það klobbi?"
(samræður Einars Svan Gíslasonar, Heklumaður síðan 2004, og Einars Jóhannssonar, Heklumaður síðan 2003, við Hr. Ingabjörn Pétursson, þjálfara, Heklumaður síðan 2002)

Ingibjörn hristi hausinn og sagðist ætla að fara yfir þetta á næsta töflufundi, sem verðu einkafundur þeirra þriggja. Þeir hlupu nokkrar ferðir á meðan hinir spiluðu reitaboltann. Þegar einungis 7 mín. voru til leiks fór þjálfi yfir liðsuppstillinguna. Í markinu stóð Erlendur (Elli) að vanda, miðverðir voru Sigurður "smiður" og Pálmar (fyrrv. félagi í SF Heklu). Í bakvarðastöðunum tveimur áttu Einar Jóhanns og Kiddi að standa. Á miðjunni áttu Steini, Einar Svan og Hjalti að vera. Hr. Ingibjörn og Sveinn áttu að vera kantmenn og Róbert formaður framherji. Á hliðalínunni myndu Friðgeir, Þór S. og Hákon standa. Mönnum var nú ekki alveg sama um hvar þeir ættu að standa á vellinum.

"Ég skil ekkert í honum Hr. Péturssyni að setja mig í svona mikilvæga stöðu. Ég er ekkert efni í þetta, fer bara á taugum og skýt framhjá opnu marki. En að sama skapi er ég ekki snöggur og kem boltanum illa frá mér. SKil ekki hvað maðurinn er að pæla!" (haft eftir Róberti Óttarssyni, formanni og Heklumanni síðan 2001, eftir að liðið var kynnt)

Þeir eru sumir hlédrægir Heklumennirnir. Spennan heldur áfram að aukast við hverja mínutu sem nær dregur leik. Smá skjálfti er í sumum, en eftirvænting þó í bland. Nokkrir leikmenn stinga sér út að runna og vökva hann aðeins. Þetta er stund eins og rétt á undan þrumuveðri. Maður finnur hvernig náttúran er að undirbúa sig fyrir átök. Vindinn lægir. Hitinn eykst. Sótgrá skýin hrannast upp. Svo brýst þetta upp með einni þrumu í fjarska...svo hellidemba. Svona er þetta í náttúrunni.

EN- ekki hjá okkur breyska mannfólkinu. Klukkan slær 12.00, hádegi í veldi Dana. Okkar menn verða furðulostnir. HVAR ERU ANDSTÆÐINGARNIR?!! HVAR ER DÓMARINN?!? Jú jú, mikið rétt. Hvorki lið IF Lyseng 3 né dómari eru á svæðinu við Lisbjergvöllinn okkar.

Tíminn heldur áfram að líða. Ekkert gerist. Heklumenn finna vonbrigðin hrannast upp. Menn líkja þessu við módel sem reyndist ekki vera eins flott og á myndinni á kassanum, eða IKEA mublu sem átti að vera borðstofuborð en reyndist vera koja. Eða fullnæging sem aldrei kom sökum heimsóknar tengdaforeldranna.

"Þetta er "major bømmer" maður! Ég var orðinn svo "upptjúnaður" og til í slaginn. Ef ég hefði gítarinn minn þá myndi ég brjóta hann eins og í Kaplakrika um árið." (sagði Þór Sigurðsson, Heklumaður síðan 2004, hundfúll kl.12.15)

En einn var sá sem var mest svekktastur. Sigurður Árnason heitir hann. Hann hafði nefnilega tekið sig til og keypt inn pylsur og meðlæti til að selja félagsmönnum eftir leik. Þetta átti að hala inn í kassa félagsins. Viðskiptamaðurinn í honum hafði nefnilega séð fram á að selja mótherjunum pylsurnar ljúfu á tvöföldu verði. Grilleigandinn og verðugur arftaki titilsins "Heklumaður ársins", Þorgeir J. Kjartansson var einnig þónokkuð sár.

"Ég tók með auka bjór sem ég hafði fyrir að kæla í litla ísskápnum mínum. Reyndar fékk fjölskyldan mín heita mjólk og örlítið súra út á Cheeriosið í morgun sökum þess. Já, ég er örlítið sár." (sagði svekktur Þorgeir J. Kjartansson, Heklumaður síðan 2002, með bjór í hendinni og bókhaldið í hinni)

"Strákar fáið ykkur nú pylsu! Þið látið það nú ekki fréttast að íslenskt fótboltalið geti ekki borðað 120 pylsur! Ég er meira að segja með símanúmerið hjá innkaupastjóranum í Føtex ef okkur skyldi vanta fleiri pylsur...ég gerði smá "deal" við hann." (haft eftir Sigurði Árnasyni, Heklumaður síðan 2004, við grillið)

Einum sárnaði ekkert sérlega mikið leikleysið og var það Ingvi. Feginn var hann að komast sem fyrst í pylsurnar.

"Strákar, fáið þið ekki líka svona kjötsvita þegar þið eruð á 15 pylsunni?" (sagði Ingvi Snorrason, Heklumaður síðan 2004, með fullan munnin)

En þrátt fyrir leikleysið áttu Heklumenn ágætan dag í sól og blíðu á Lisbjergvellinum kæra.
Húrra fyrir pylsugerðarmanninum!

Stefán Arason, Heklumaður síðan 2001.

11.1.05

Húsið við höfnina
Ég var að horfa á heimildarþátt um litla húsið við höfnina, sem Maersk gaf dönsku þjóðinni. KLIKKAÐ! Þvílík schnild! Að bara gefa eitt svona hús og gera það svona líka grand er ótrúlega svalt, kúlt, klikkað, magnað og geeeeeðveikt.
Kíkið á kofann hér. Nú er bara að vona að flutningur tónlistarinnar verði í sama gæðaflokki og húsið.

9.1.05

Jólatór
Var að koma frá Vejle, sem stendur við Vejle fjörð, afar fallegur bær og fallegt umhverfi. Þar vorum við í Universitetskórnum ásamt hljómsveit að flytja seinni hluta Jólaóratoríunnar eftir J(azzballett)S(kóla)B(áru)ach. Við sungum fyrstu 3 kantöturnar fyrir jól og vorum s.s. að syngja síðustu 3. Gekk vel og áfallalaust.
Ég er þreyttur.
Sybbinn.
Fékk mér viský á í rútunni á leiðinni heim. Það bjargaði heimferðinni alveg. Yfirleitt hafa rútubílstjórarnir kaldan bjór í bílnum sem þeir selja og græða á því nokkrar krónur, en þessi bílstjóri var ekkert á þeim buxunum að græða meira en sín laun. Við fengum engan bjór! Skandall! En þar sem að ég er Íslendingur og vanur því að þykkja aðeins í ölinu með sterkum drykkjum tók með mér vasapelann minn með tári af hinum gullnu veigum, viský. Gott í hálsinn.

Á fimmtudaginn er svo reception (móttaka...) á diskinum Livets Bro, sem inniheldur m.a. verk eftir undirritaðan. Vonandi fær diskurinn góðar móttökur.

Jæja, farinn í háttinn. Veit eiginlega ekki afhverju ég skrifaði þessa netlu...

7.1.05

Loksins, loksins!
Þá er ég kominn með internettengingu í híbýli mín, þannig að nú mun ég fara að drita út netlu eins og ég fengi borgað fyrir það...eða...kannski.
Ég hringi síðar!