19.11.04

"Ástkæra ylhýra..."
Í dag er ég veikur. Ég er með hálsbólgu. Ekkert óeðlilegt með mig. Ég sem hélt að sjóböðin myndu halda mig frá þessum óþverra, en svo reyndist ekki vera. Reyndar segja þeir sem eru vanir sjóbaðarar að maður fái kannski smá kvef til að byrja með en svo ætti maður bara að halda áfram þegar manni er batnað þannig að ég stefni enn á að prófa það sem þeir kalla "grødvand" eða "sjógraut". Það er þegar sjórinn er örlítið farinn að frjósa og hann "þykknar". Ég ætla ekki að fá á mig stimpilinn "sæson forlænger" eða "tímabilsframlengjari". Jæja, nóg um það.
Þar sem að ég er með hálsbólgu þá fór ég í vörumarkaðinn Føtex til að kaupa ýmislegt inn sem gott er að setja ofan í sig þegar um þennan kvilla er að ræða. Ég keypti hunang, te, sítrusávexti, klósettpappír og uppþvottalög (þetta tvennt síðastnefnda er ekkert sérlega gott við hálsbólgu, það vantaði bara á heimilið). Svo á leiðinni út þá kom ég við í sjoppunni (í Danmörku hafa vörumarkaðarnir svona litla sjoppu við útganginn þar sem hægt er að kaupa lyf, sígarettur, tímarit og brennivín) og keypti Strepsils, þessar rauðu. Svo tölti ég yfir götuna og var kominn heim. Dejligt að búa svona í miðbænum.
Eftir að ég var búinn að koma vörunum fyrir þá næ ég í pakkann, opna hann og sting einni töflu upp í mig. Ég fann hvernig díklórbenzýlalkóhólið, amýlmetakresólið, anísolían, piparmyntuolían, mentólið, vínsýran og sykurinn lék um tunguna og blandaðist við munnvatn mitt. Ég fann hvernig bakteríudrepandi virknin í töflunni eyddi óæskilegum bakteríum í munninum og hálsinum. Svo laggði ég pakkann á stað þar sem börn hvorki sjá né getað náð til hans. En bíddu nú hægur! Hvað sé ég ekki á bakhlið pakkans, íslenskar leiðbeiningar. Það er nú ekki á hverjum degi sem maður er þess lúxus aðnjótandi að geta lesið leiðbeiningar um vöruna á sínu ástkæra ylhýra. Ég settist niður og las á pakkann. Í fjórðu málsgrein staðnaði ég við þessa setningu:
"Hver munnsogstafla inniheldur:" (...)
Munnsogstafla!
Ef þið þekkið þann sem skrifaði þessar leiðbeiningar á Strepsilspakkana þá megið þið skila kærri kveðju frá mér.
Munnsogstöflur!

Engin ummæli: