24.8.04

...bíður mín brúða þar...
Jú jú, ég er kominn heim í Búðardalinn...Árósa. Þetta er búið að vera ansi löng netlupása. Hef haft nóg að gera.
Eftir að ég hætti að passa köttinn og húsið í Åbyhøj þá fór ég í kórfer með Universitetskórnum. Ansi fín ferð. Vorum rétt hjá Løgum kloster. Tókum upp verk eftir Svend Nielsen og ykkar ástkæran netlugerðarmann. Þessi tvö verk ásamt nokkrum öðrum munu koma út á geislaskífu í kringum jólin. Júbbí, mín fyrsta plata :-)
Ég tók mér einn dag í að umpakka dótinu mínu og fór svo til Kaupmannahafnar. Þar gistum við Stina hjá vinafólki í góðu yfirlæti. Daginn eftir flugum við til Íslands.
Mín elskulegust systir lánaði okkur bílinn sinn og Friðgeir ljúfurinn ljáði okkur íbúð sína á meðan í höfuðborginni var dvalið. Svo brunuðum við nyrðri leiðina austur á land. Stoppuðum eina nótt rétt hjá Sauðárkróki og keyptum okkur byrgðir af besta flatbrauði Íslands, en það er selt í bakaríinu hjá pabba hans Róberts á króknum. Kíktum einnig á Dettifoss. Hrykalegur!
Heim til mömmu og pabba var ljúft að koma. Veðrið lék við okkur. Gaman að hitta systkinin og frændsystkinin og að sjálfsögðu hjónin að Hlíðargötu 24.
Við brunuðum svo syðri leiðina ásamt varaþingmanninum systur minni. Tókum okkur bara einn dag í það. Fórum samt í sund á Svínafelli í glampandi sólskini.
Í Rvk. bauð Hugi okkur í mat heim á Magahelinn. Maðurinn er snillingur, svo einfalt er það.
Ferðin slúttaði svo með brúðkaupi þeirra Christinu og Braga Þórs....part II. Þau giftu sig sko fyrst í S-Afríku, þaðan sem hún kemur. Bæði í ægilega hvítum fötum. Hann söng til henner einhvern sænskan söng. Ég og tveir aðrir studdu hann í músíkinni en sjálfur fór hann niður á hnén. Afar hjartnæmt.
Jæja, nú haldið þið kannski að komið sé nóg. Onei.
Við flugum svo daginn eftir brúðkaupið til Kaupmannahafnar. Stina fór til Árósa en ég fór til Stokkhólms. UNM í Stókkhólmi og Nörrkøping þetta árið. Ég fékk reyndar ekki að heyra mitt verk þar sem það var flutt á laugardegi, en þá var í í giftingarveislu uppi á Íslandi. Hátíðin gekk ágætlega fyrir sig. Ekkert spes fyrirlesari, Svend David-Sandström. En félagsskapurinn góður og músíkin að meirihluta til rusl.
Nú á laugardaginn kom ég svo heim.
Ah!

Engin ummæli: