17.6.04

Þjóðhátíðardagur
"Hæ hó jibbíjei og jibbíbei, það er kominn sautjándi júní!"

Eins og venjan er þá rignir á þjóðhátíðardegi Íslendinga, þó svo þeir séu í Danmörku. Lítið er um hátíðahöld hérna. Allavega er mér ekki kunnugt um þau. En til að bæta úr því þá mun skólin minn, Det Jyske Musikkonservatorium, halda mér veislu í dag. Ég er nefnilega að útskrifast úr skólanum núna á eftir. Fyrst verður einhver athöfn í stórasalnum, rektor blaðrar og einhverjir flytja músík, svo fæ ég skjalið mitt. Þar á eftir er "reception" í mötuneytinu. Allt þetta mér til heiðurs...jú og hinum sem að útskrifast.

Gleðilega þjóðhátíð!

12.6.04

Venjur
Ég átti samtal við félaga úr Sf.Heklu áðan og varð það til að smá hugsun fór í gang í litla kollinum mínum.

Siggi: "Sigúrdur"
Stefán: "Blessaður Siggi! Stefán heiti ég. Er ég að vekja þig?"
Siggi: "Neihei! Ég er sko búinn að slá garðinn og reita frá blómunum!"
Stefán: "Það er aldeilis harkan hjá ykkur fjölskyldu mönnunum"
Siggi: "Ég er nú bara að ljúga. En maður er nú ekkert að hanga í rúminu lengur en til 8, svona í sumartímanum."
Stefán: "Já það er rétt...
(smá Intermezzo sökum úrhellis. Ég elska þau. Algjölt steypibað í nokkrar mínútur og svo sól aftur. Manni líður bara eins og í útlöndum...)
Stefán: "...er rétt, maður á ekkert að hanga í bælinu lengur en nauðsynlegt er. Hvað er verið að brasa?"
Siggi: "Ég er bara að kíkja aðeins á netið."
Stefán: "Ertu að skoða klám?"
Siggi: "Nei ertu bilaður! Svona snemma dags!?! Ég skoða aldrei klám fyrripart dags."

Þetta litla brot úr samtali okkar olli mér smá truflun frá að hugsa um ekki neitt. Afhverju hefur Sigurður ekki áhuga á að skoða klám fyrripart dags, svona úr því hann gerir það annars (eins og nánast hver einasti karlmaður sem hefur aðgang að interneti)? Er ég bara svona brenglaður og úrkynjaður eftir sumarstörf í Sorpu, þar sem dagurinn hófst á því að ég fékk mér kaffibolla og blaðaði í gegnum Hustler, eða ennþá betra hinn danska gæðaklámsnepill Cats, að finnast það skrýtið að skoða bara klám seinnipartinn? Eru það menn eins og Sigurður sem geta bara borðað Cheerios (eða Kátínur eins og einhver þýddi það) að morgni dags? Eru það sömu menn sem hafa ákveðna daga til að stunda kynlíf með bólfélaga sínum? Er það svona fólk sem hefur alltaf það sama í jólamatinn, getur ýtt aftur á "play" þegar diskurinn er búinn, hefur ekki gaman af að sjá finnska bíómynd (bara af því að hún er á finnsku), fer í sumarfrí til Costa del Sol og finnst það vera hápunktur ferðarinnar kvöldið sem grísaveislan var, eða finnst allur annar bjór en Carlsberg "vera svolítið skrýtinn", eða fer alltaf á klósettið kl.12.17?
Ef þú, lesandi kær, fattar hvað ég er að meina og finnst það vera skrýtið hvað við getum eytt lífinu eftir föstum brautum, líttu þá í eigin barm.
Ég mæli með því að prófa að bursta tennurnar afturábak.

8.6.04

Gjöf
Með póstinum í dag kom brúnt umslag með einhverju hörðu í. Á pakkann var mitt nafn skrifað. Ég þekkti skriftina. Þetta var frá henni systu. "Hvað skildi hún nú vera að senda mér?", hugsaði ég með mér. "Ég á ekki afmæli strax og það eru nokkrir mánuðir í blessuð jólin...hvað skildi þetta vera?". Í pakkanum var geisladiskur, diskur sem ég myndi ALDREI kaupa mér sjálfur. Frábært! Alltaf gaman að fá eitthvað sem kemur manni á óvart. Nú hljóma "The Beach Boys" af disknum "Pet Sounds" í græjunum mínum. Takk Svanhvít!

7.6.04

Hallcast
Ég bara varð að setja þetta lag á síðuna mína. Halli, Þú ert SCHNILLINGUR!
Heimaslóðir
Ég rakst á ansi merkilega og skemmtilega síðu um daginn á netlunni hans Sævars Sólheim. Þetta er síða með myndum eftir Björn Björnsson. Ég fékk töluverða heimþrá við að sjá þessar myndir. Fullt af minningum. Reyndar eru myndirnar teknar ansi mikið löngu fyrir mína tíð, en ég kannast við margar af þessum myndum. Hef séð þær á ýmsum veggjum hjá Norðfirðingum af eldri kynslóðinni. Gluggið á þessa síðu.

1.6.04

aaaa-búið
Í dag mun ég fagna því að ég er búinn með síðasta tímann minn í skólanum þetta skólaárið. Ég ætla að spóka mig aðeins í bænum í rólegheitum og svo ætla ég að fara á fótboltaæfingu...aldrei þessu vant! Svo hef ég jafnvel í hyggju að heilsa upp á vini mína hér í borg í kvöld. Eitthvað sem ég hef ekki gert í LAAAAANGAN tíma.
Er farinn út í ilmandi sumarið. Ciao!