30.3.04

Nei sko!
Jújú, hálsbólga enn eina ferðina! Helv...andsk...djöf...bévít...rassgat!
Þar sem bólgan og hitinn angrar þá hef ég verið í að endubæta síðuna. Bætt inn Nobbara Netlum og svo vil ég benda á stefin úr Staupasteini og Derrick sem eru undir Tónlistarliðnum. Einnig er Klaufabárðahlekkur komin undir Áhugavert liðinn. Gaman af því.

Fátt eitt hefur á daga mína drifið. Á laugardaginn átti Lars sambýlingur afmæli. Við (restin af sambýlinu) gáfum honum matreiðslubókina hennar Tinu Nordström, sem er sænskur kokkur. Matreiðsluþættirnir hennar eru sýndir hérna á DR1 og við strákarnir á sambýlinu erum aldrei eins áhugasamir um mat eins og þegar hún byrjar að elda ;-)
Afmælið fór annars nokkuð vel fram. Fámennt en góðmennt. Ég átti náttúrulega að syngja daginn eftir, í kirkjunni, þannig að ég hélt mig á mottunni, sem endranær.

Áðan kom Þyri til mín með ost, kex, vínber, sultu og súkkulaði út í kaffi. Gaman að vera veikur þegar maður fær svona góða heimsókn! Takk Prumpulína!

Jæja best að fara að snýta sér og drekka engiferte.

27.3.04

Monterí-fillí-bombombom
Í dag spilaði hið frækna lið Sf.Hekla fótboltaleik við Søften GF. Í þessum leik setti ég persónulegt met. Ég skoraði TVÖ mörk! Þið getið lesið meira um það hérna.

19.3.04

"...en það voru allt saman orðlausir draumar..."
Vorið er farið að gera vart við sig. Fullt af litlum sætum blómum farin að stinga kollinum upp úr þiðinni jörðu og fuglarnir farnir að syngja sínar vorvísur. Frábær tími.

Um daginn fór ég til Kjöbenhavn. Ég og Mads kollegi minn fórum samfó með lestinni á fimmtudegi. Skemmtum okkur og öðrum ferðalöngum með leiknum "Þekkirðu stefið?". Leikurinn gengur út á að þekkja stefið sem hinn aðilinn syngur, svona ef þið þekkið ekki leikinn. Mjög gaman. Held ég hafi aldrei verið svona stuttan tíma til Kaupmannahafnar frá Árósum. Svo deildum við soldið um hver væri besta laglínan eftir Carl Nielsen. Stúlkan á móti okkur klökknaði bara þegar Mads hóf upp raust sína og söng svo...hrmpf...undurblítt eitthvert lag eftir hundraðkrónukallinn, sem mamma hans var vön að syngja fyrir hann.
Við röltum síðan aðeins um borgina, þegar til Hafnar var komið. Leiðir skildust þó um seinnipartinn og ég fór heim til Hjartar moldvörpu. Þangað var mér boðið í for-afmælisveislu og svo ætlaði ég að fá að lúra á beddanum hans næstu 2 nætur. Veislan var ógleymanleg. Hann eldaði Chili con Carne (eða Bjarne) sem innihélt þrennskonar chili (þ.á.m. hinn vandfundna Chipotle chili, sem er reyktur chili, lyktar eins og vindill) og súkkulaði. Afar góð bragðupplifun. Í veislunni voru margar skemmtilegar týpur. Ógleymanlegt.
Á föstudagsmorgninum hlustaði ég svo á general-generalprufu á óperunni hans Bent, Under himlen. Ágætis ópera. Dramað ekkert sérstaklega grípandi en manni leiddist þó ekki. Músíkin að Bentískum sið, full af nosturslegri hljóðfæranotkun og glissando tónum.
Eftir æfingu var skundað á afar skemmtilegan pöbb. Einhver breskur pöbb rétt hjá Nyhavn. Fullt af góðum bjórtegundum af krana (på fad, sbr. fadøl, kranabjór). Fékk mér t.d. einn súkkulaðibjór, Double Chocolate. Virkilega góður.
Eftir að hafa snætt kvöldmat með samnemendum mínum og fylgt þeim í lestina, þá fór ég í bíó. Þar sá ég myndina "Salmer fra køkkenet". Mæli eindregið með henni. Afar sérstök og fyndin mynd. Kíkti svo aðeins við á kránni góðu og smakkaði einn belgískan mjöð, svona fyrir svefninn.
Á laugardeginum gerði ég það markverðast, fyrir utan að hitta Guðnýju í morgunkaffi og Ingibjörgu í 3kaffi, að ég fór í geisladiskabúð. Hérna í Árósum eru ekki góðar geisladiskabúðir, allavega ekki með gott úrval af klassískri músík. Þessi búð hefur það! Nafnið "Axel musik" ber hún. Garanterað að hún verður fastur punktur í mínum Hafnar ferðum. Keypti 7 diska. Allt frábærir diskar. Hæstánægður.
Lestarferðin heim var löng. Enginn Mads til að syngja með. Sessunautur minn var afar furðulegur (segir sá sem fannst gaman að heyra Mads syngja fyrir sig í fyrri lestarferð sinni). Hann var greinilega eitthvað öðruvísi en við hin. Honum var t.d. mikið í mun um að fá að vita hversu þykkar pylsurnar væru sem maðurinn með matvagninn seldi. Svo keypti hann helling af þeim...allavega 3! Eftir að hafa snætt þá fór hann fram á salerni, náði í klósettpappír með sápu í og sótthreinsaði borðið okkar. í seinna skiptið þegar sjoppumaðurinn kom trallandi þá keypti sessunauturinn, eftir mikla umhugsun, saltlakkrís. Svona saltlakkrísfiska. Eftir það upphófst mikil togstreita milli hans og pokans, því pokinn vildi ekki láta opna sig. Þetta gekk fullkomlega ekki hjá honum. Hann pikkaði í mig og spurði hvort ég ætti hníf. "Að sjálfsögðu á ég hníf" svaraði ég og dró upp Svissneska hnífinn minn sem inniheldur m.a. skæri. Honum tókst að finna út úr þessum merkilegu skærum og klippti varnfærnislega smekklegt gat á pokann, efst í öðru horninu. Hann varð himinlifandi við að geta smakkað á lakkrísfiskunum sínum og bauð mér með. Þeir voru afar góðir.

Bráðum missi ég 80 cm fjölina sem ég sef á. Kannski maður geri sér ferð í IKEA, þar sem sænskar kjötbollur eru framreiddar í stórum stíl, og kaupi mér rúm. Orðlausir draumar?...rúmlausir draumar.

9.3.04

Klaage
Tónsmíðakennarinn minn heitir Karl Aage Rasmussen, eða stundum kallarðu Klaage (kloge, með mjúku "g", útleggst "hinn klóki"). Maðurinn er ótrúlegur. Afhverju? Jú, hann fær svo mörgu komið í verk. Hann hefur t.d. skrifað slatta af tónverkum. Ég hef heyrt eitthvað af þeim, og er ekki aðdáandi. En góður kennari er hann. Hann hefur líka skrifað bækur, og ég mæli eindregið með að hver músíkunnandi lesi þær. Hann skrifar algjörlega á mannamáli (ef við teljum dönsku sem mannamál) sem allir geta skilið.
Kan man høre tiden og Har verden en klang eru bækur eftir Klaage með stuttum köflum um hin og þessi tónskáld. Aljgör skemmtilesning.
Önnur bók heitir Den kreative løgn og fjallar hún um kanadíska píanistann Glenn Gould. Einnig ágætis bók, en samt ekki fullgild ævisaga, en ágæt til að skyggnast inn í listamannsins heim.
Klaage skrifaði einnig einn kafla í GADs tónlistarsögubókina (aðal tónlistarsögu bókin hérna í DK). Heitir kaflinn "Musik i det 20. århundrede".
Í næstu viku mun Klaages nýjasta bók líta dagsins ljós. Er hún um tónskáldið og píanistann R. Schumann.
Hann hefur gert mynd um Carl Nielsen.
Hann hefur fyllt upp í eyðurnar á skissum Schuberts að óperunni Sakontola. Eitthvað sem Schubert kláraði ekki.
Hann hefur nýlega lokið við að endurgera sinfóníu eftir Schubert, sem hefur verið týnd eða Schubert ekki klárað, sem einhver annar reyndi á sínum tíma, en gerði bara hörmulega. Hann s.s. tók allt það burt sem ekki leit út fyrir að vera Schubert og setti inn það sem honum fannst vera meira Schubertistískt.
Og nýlega fékk hann tilboð um að skrifa ævisögu eins mesta píanista síðustu aldar, Sviatoslav Richter. Það finnst ekki nein ævisaga um hann ennþá. Klaage fær aðgang að persónulegur bréfum píanistans, sem lést 1997, og ýmsum öðrum heimildum. Svo mun hann taka viðtöl við samstarfsmenn Richters, þ.á.m Dietrich Fischer-Diskeau o.fl.
Ég dái þennan kennara minn.

6.3.04

Bernskuminning
Ég er einn af þeim sem man ósköp lítið frá bernskunni. Sumir muna heilmikið, t.d. þekki ég einn sem man eftir að hafa horft út um barnavagninn sinn, og hann var ekkert lengur en aðrir að vaxa upp úr slíkum farkosti. Svona langt aftur man ég ekki. En ég man þegar ég fór í pössun til Böddu móðursystur upp á Eiða. Man t.d. eftir þegar ég ætlaði að raka mig með sköfunni hans Kristjáns (þetta var svona gamaldags járnskafa með alvöru rakblaði) og skar mig í hökuna. Eftir það fékk ég bara að nota áhaldið til að maka á sig sápu; kallast það bursti?
Í þessari sömu dvöl minni hjá Böddu veiktist ég, ekki í fyrsta skipti hvað þá heldur í síðasta. Ég fékk í eyrun minnir mig og kvef og læti. Svo vaknaði ég einn morgunin og ég GAT EKKI OPNAÐ AUGUN! Ég man þegar ég kallaði á Böddu skelfingu lostinn "Badda, ég get ekki opnað augun, þau eru föst!" Hryllilegt fyrir lítinn gutta. Málað var að það var svo mikill gröftur í augunum að þau límdust aftur. Hún þurfti að koma með þvottapoka og þvo af mér gröftinn svo ég gæti opnað augun.
Þetta man ég eins og gerst hafi í gær...sem er svolítið sniðugt því þetta gerðist einmitt líka í gær! Ég var í svefnrofunum og ætlaði að opna aðeins annað augað til að líta á klukkuna, nema hvað að ég gat það ekki. Líf mitt spólaðist aftur um 22-23 ár á sekúndubroti. Það sem gerst hefur með mig er að ég fékk að sjálfsögðu kvef, AFTUR!, og í staðinn fyrir að allt jukkið fengi að fjúka út um nefið eða oní háls, þá safnaðist það saman í svokölluðum "skútum", ennisholur. Eitthversstaðar varð það að fara út og eru augun því tilvalinn útgönguleið. Gaman að þessu!
Ég fór að sjálfsögðu til læknis til að fá eitthvað við þessum andskota.
Læknirinn er sniðugur kall. Það nægði honum ekki að sjá að augun í mér voru/eru rauð og hvítan samsamar sér vel við brúna hluta augnanna (ég er með brún augu, þeir sem ekki eru með brún augu hafa ekki brúnan part í augunum). Onei. Hann varð nefnilega að stinga mig í puttann til að komast að því hvort ég væri með sýkingu. Ekkert vont, en bráðsniðugt! Lá í augum uppi. Sko. Ef um sýkingu er að ræða þá ætti að vera eggjahvítuefni (minnir mig) í blóðinu, og svo var í mínu tilfelli. Ég fékk góðann skammt af gleðipillunum pensilín eða öllu heldur Primcillin.
Nú er Primcillinið góða farið að virka og jukkið er byrjað að stífla mitt nef. Ég hlakka svo sannarlega til þegar ég get farið að finna pensilínangan þegar ég fer að pissa, þá er maður á batavegi.

5.3.04

Tölvuvesen
Eitthvað var ég nú að kvarta yfir tölvuveseni um daginn, en nú er sem að makkinn minn hafi læknað sig sjálfur og nú get ég opnað hvaða síður sem er og allt í stakasta lagi! Húrra fyrir makkagerðarmanninum!!! Þess vegna held ég upp á daginn með því að skipta aftur yfir í Haloscanathugasemdakerfið góða, "...Ég á heima á Haloscan-athugasemdar-kerfis-landinu góóóða."

3.3.04

Raddleysi og annað
Síðasta vika var tileinkuð kóræfingum og tónleikum. Var nánast 24/7 gaulandi með hinum og þessum kórnum. Söng m.a. litlu messuna hans Rossini. Mjög fyndið verk. Virkilega geðklofalegt, einn kaflinn er Palestrina-stæling, annar er hlægilegur vals með stjörnutenórsaríu ívafi og svo finnur hann upp rokkið í enn einum. Verkið var flutt af kór, einsöngvurum, harmóníum og uppréttu píanói. Gaman að gaula þetta stykki.
Ég var náttúruleg bara rétt búinn að ná mér eftir kvefið, þannig að ég hefði kannski átt að fara mér aðeins hægar í hetjubassahlutverkinu. Á laugardaginn var nefnilega afmæli hjá henni Mitte, sem er einn af sambýlingunum. Okkur hinum var að sjálfsögðu boðið. Ég hélt mig í vatninu, en reykurinn klístraðist í hálsinn á mér og nú er ég aftur kominn í baráttuna við hor og eymsli. Bölvað vesen. Er búinn að fjárfesta í leysiefni kennt við Tullamore Dew sem var á tilboði í Super Best. Vona að það hjálpi aðeins til ;-)
Framundan? Kannski að semja smá...já, það gerist stundum...og syngja meira...það gerist oft!...já og svo er tónskáldaferð til Kjøbenhavn að heyra æfingu á nýju óperunni hans Bent Sørensen, Under Himlen, þarnæstu helgi. Júbbíí!