3.2.04

Garganistar
Fyrir þá sem vita ekki hvað ég tala um, þá eru þetta organistar. Flestir þeirra eru stórskrítnir, á mjög fallegan og skemmtilegan hátt. Þeir eru oftast nær nördar. Þeir eru í flestum tilvikum vel að sér í tónfræðigreinum eins og hljómfræði og kontrapunkti. Þeir æfa sig mikið (einir að sjálfsögðu) og þeir fara í ferðalög til að skoða orgel.
Ég hef verið þeirrar gæfu njótandi að hafa kynnst nokkrum organistum í gegnum tíðina. Nokkrir þeirra eru fullmenntaðir og sumir eru enn í námi. Sómafólk. Í rauninni gæti ég skrifað LANGAN lista yfir alla þá organista sem ég þekki.
Einn er sá organisti sem ég hef haft töluverð samskipti við undanfarið, en það er organistinn í Sct.Pauls kirkju. Hann heitir Thomas. Afhverju hef ég haft samskipti við hann? Jú, ég syng í kirkjukórnum hans. Thomas er duglegur organisti. Hann vinnur vinnuna sína mjög vel og spilar líka mjög vel. Hann reynir að stjórna kórnum eins vel og hann getur, þó hann hefi ekki mikla reynslu í kórstjórn. Hann hefur stór plön, við ætlum nefnilega að syngja Jóhannesar Passíuna um páskana. FRÁBÆRT músíkverk það eftir J.(azzballet)S.(kóla) B(áru)ach (eins og Tryggvi komst að orði).
Thomas er ógiftur, snyrtilegur, grannur, Audi og einbýlishús-eigandi. Hann er einnig feiminn. Tekur góðan tíma í að móta það sem hann ætlar að segja. Ég held að hann sé í raun málhaltur - stam eða eitthvað slíkt. En hann felur það vel. Þegir frekar.
Í dag var guðsþjónusta á elliheimili rétt hjá kirkjunni. Ég átti að leiða safnaðarsöng við meðleik Thomasar á píanó af gerðinni HELLAS (hefur EINHVER heyrt getið um þessa píanótegund fyr???). Við hittumst fyrir framan kirkjuna og löbbuðum oneftir.
Við náum vel saman, eigum álíka erfitt með að mynda setningar.
Á leiðinni niður í elliheimili rekur hann augun í 25 aur og þarnæst í 50 aur. Við fund þennan verður hann himinlifandi. Skælbrosir eins og krakki sem fær gotterí. Ég samgleðst honum. Hann segir mér að hann finni oft smáaura, enda leitar hann eftir þeim þegar hann gengur um gangstéttir bæjarins. "Ha?" sagði ég, "horfiru virkilega á gangstéttina þegar þú er að labba á milli staða?". Svo sagðist hann gera. Hann sagði að sér þætti mjög gaman að finna smáaura á götunni. Hann sagðist meira að segja henda annað slagið frá sér 5 krónum (c.a. 70 ísl.kr) því fólki þætti svo gaman að finna slíkt. "HA? Hendirðu frá þér femkroner til að gleðja aðra?" "Jámm", sagðann og hélt áfram að vera glaður yfir fundi sínum.
Alla leiðina frá fundarstaðnum hélt hann á sínum 75 aurum og hringlaði þeim í lófa sínum, og líka á bakaleiðinni upp í kirkju. Hann sýndi meira að segja prestinum fund sinn.
Þetta var skemmtilegur göngutúr með Hr. Thomas, organista og smámyntauppsafnara, á blautum og gráum þriðjudegi.

Engin ummæli: