19.2.04

Vesen
Eitthvað er haloscan að stríða mér! Ég fæ ekki séð athugasemdakerfið og það tekur langan tíma að geta séð síðuna...bölvað. En þetta sést samt fínt í PC tölvum... Ef þið hafið einhver ráð, sendið mér vinsamlegast póst.

17.2.04

Pestagemlingur!
Ég er pestagemlingur, eða svo sagði pabbi minn alltaf. Ég fæ oft kvef. Er ennþá með háls- og nefkirtlana, því læknarnir segja að það muni ekki breyta neinu við að fjarlægja þá. Þessa stundina líður mér svo illa af kvefinu að ég get ekki sofið...HELVÍTIS RASSGAT! segi ég nú bara.

16.2.04

"Mjer langar..."
Það hefur ekki verið minn vani að ganga um og langa í föt. Ég er einn af þeim sem lét móður sína kaupa föt á sig töluvert fram eftir aldri (veit að við erum allavega tveir í þeim klúbbi). Nema hvað að þegar ég fluttist að heiman þá varð ég að standa í þessu sjálfur, með misgóðum árangri. Ég hafði ekki neina sérstaka skoðun á þessum spjörum, bara að þær væru hreinar og heilar. Fljótlega eftir að ég fluttist að heiman þá kynntist ég smekkmanneskju mikilli, Þyri. Hún hefur gott auga fyrir útliti ýmiskonar, er t.d. snillingur að innrétta og sjá fyrir sér liti oþh, eitthvað sem ég er herfilegur í. Hún tók því nokkurn veginn við af móður minni í þessum kaupum, nema hvað að nú var það ég sem kom með tillögur og hennar að samþykkja eður ei.
Nú er ég aftur orðinn einn í þessum bransa. Sem betur fer býr Þyri ennþá í sömu borg þannig að ég get ráðfært mig við einhvern. Nema að mér varð litið inn í Helly Hansen verslun um daginn, með það í huga að skoða úlpur. Fann þar þessa líka fínu úlpu, svört með stórri hettu (hefur langað í úlpu, sem er hlý og góð og með hettu, í langan tíma) sem er á útsölu. Átti að kosta 2500 dkr en er á 1700 dkr. Þannig að þessa dagana geng ég um og spökulera hvort maður eigi að kaupa sér úlpu. Stórmerkileg upplifun fyrir mig.
Maður er gjörsamlega orðinn fangi neysluþjóðfélagsins.

14.2.04

Hr. Snilli
Í þó nokkur ár hef ég þekkt náunga einn sem á örskömmum tíma breyttist úr littlum mjóróma gutta í ekkert svo stóran djúpradda karlmann. Drengurinn ber koparlitað hár sitt með stolti, og hann var aldrei kallaður "gulrótin" af bekkjarfélögum. Þessi drengur er allra manna HUGljúfi og er öðlingur heim að sækja. Hann er einnig afbragðs kokkur. Hann spilar af miklum móð á píanó, þá aðallega jazzmúsík og er hann virkilega sleipur á því sviðinu. T.d. var sagt við hann þegar hann sótti inn í FÍH tónlistarskólann, í jazzdeild, að hingað kæmu menn sem vildu læra jazz, en ekki þeir sem kynnu hann nú þegar.
Við félagarnir höfum gert ýmislegt saman. T.d. sáum við um músík í kristilegu leikriti í heimabæ okkar. Hann spilaði á píanó og ég á trompet. Hann hefur verið mér stoð og stytta í öllum þeim tölvumálum sem ég hef tekið mér fyrir hendur; hann hjálpaði okkur með mac-ann sem foreldrar mínir keyptu, hann sá um að kaupa stærri harðdisk í hann, hann kenndi mér helling á tölvuna og gaf mér ýmis forrit, hann "keypti" fyrir mig mína fyrstu tölvu (fékk fínan afslátt í appleumboðinu því hann vann þar), hann hjálpaði mér að kaupa mína aðra tölvu (þá sem ég á núna), hann hefur alltaf reddað málunum þegar eitthvað er að maskínunni. Hann er s.s. tölvusnillingur og drengur góður. Ef hann væri söluvara þá ætti hann að vera til á öllum heimilum.
Mig hefur lengi langað að skrifa um hann smásögur, því þeir hlutir sem honum hefur tekist að gera í sínu lífi er ótrúlegir. Hver kannast t.d ekki við söguna um Frugga Roðrarson, eða þegar hann skreið inn um gluggan heima hjá sér með vöffludeigið úr vinnunni, eða þegar hann spjallaði heillengi við "þá heittelskuðu" en komst svo að því eftir nokkara mínútur að það var ekki hún, eða þegar hann dreifði þvottinum sínum á Miklubrautina, ógleymanlegur sketch þegar hann kom með rifjárnið í hljómfræði, reyndi að faðma átrúnaðargoðið sitt sem var með snertifælni á háu stigi, eða þegar hann veggfóðraði eldhúsið með sveppasúpu. Já þetta er ótrúlegur drengur.
Þegar þið eruð búin að lesa þennan pistil þá vil ég biðja ykkur um að hrópa hátt (megið líka ímynda ykkur) "Hugi Þórðarson lengi lifi...HÚRRA-HÚRRA-HÚRRAAAAAA!!!"
p.s. stúlkur, hann er á lausu.

8.2.04

Tintin
Í gær (lau.) fór ég á heimildarmyndina "Tintin et moi" eftir Anders Østergaard. Myndin var sýnd í Øst for paradis, sem er svona bíó sem sýnir allskonar myndir, ekki bara Hollywood metsölu/léttfroðumyndir. Virkilega fín mynd. Tinni ferðaðist út um allan heim, en Hergé sat heima og teiknaði. Ótrúlegt hvað hann sökkti sér í nákvæmnis vinnu. Svo er líka heilmikil pólitík í Tinnabókunum sem maður vissi ekki um. Mæli eindregið með myndinni, hvort sem um er að ræða Tinna aðdáanda eður ei.
Ég las aldrei Tinnabækurnar sem krakki. Nennti því ekki. Fannst þær svo fjarlægar, en samt of raunverulegar. Las frekar myndabækur á við Goðheimar og Fjögur fræknu. Las samt í rauninni ekkert mikið af myndabókum. Ekki einu sinni Andrés.
Til að halda upp á góða mynd, þá fór ég á McDonalds til að snæða kvöldmat (ef mat skildi kalla). Langaði svo að prófa þennan nýja hamborgara,Big Tasty. Mikið var hann ekki góður. Mæli ekki með honum, hvort sem um er að ræða svín eður ei.

3.2.04

Garganistar
Fyrir þá sem vita ekki hvað ég tala um, þá eru þetta organistar. Flestir þeirra eru stórskrítnir, á mjög fallegan og skemmtilegan hátt. Þeir eru oftast nær nördar. Þeir eru í flestum tilvikum vel að sér í tónfræðigreinum eins og hljómfræði og kontrapunkti. Þeir æfa sig mikið (einir að sjálfsögðu) og þeir fara í ferðalög til að skoða orgel.
Ég hef verið þeirrar gæfu njótandi að hafa kynnst nokkrum organistum í gegnum tíðina. Nokkrir þeirra eru fullmenntaðir og sumir eru enn í námi. Sómafólk. Í rauninni gæti ég skrifað LANGAN lista yfir alla þá organista sem ég þekki.
Einn er sá organisti sem ég hef haft töluverð samskipti við undanfarið, en það er organistinn í Sct.Pauls kirkju. Hann heitir Thomas. Afhverju hef ég haft samskipti við hann? Jú, ég syng í kirkjukórnum hans. Thomas er duglegur organisti. Hann vinnur vinnuna sína mjög vel og spilar líka mjög vel. Hann reynir að stjórna kórnum eins vel og hann getur, þó hann hefi ekki mikla reynslu í kórstjórn. Hann hefur stór plön, við ætlum nefnilega að syngja Jóhannesar Passíuna um páskana. FRÁBÆRT músíkverk það eftir J.(azzballet)S.(kóla) B(áru)ach (eins og Tryggvi komst að orði).
Thomas er ógiftur, snyrtilegur, grannur, Audi og einbýlishús-eigandi. Hann er einnig feiminn. Tekur góðan tíma í að móta það sem hann ætlar að segja. Ég held að hann sé í raun málhaltur - stam eða eitthvað slíkt. En hann felur það vel. Þegir frekar.
Í dag var guðsþjónusta á elliheimili rétt hjá kirkjunni. Ég átti að leiða safnaðarsöng við meðleik Thomasar á píanó af gerðinni HELLAS (hefur EINHVER heyrt getið um þessa píanótegund fyr???). Við hittumst fyrir framan kirkjuna og löbbuðum oneftir.
Við náum vel saman, eigum álíka erfitt með að mynda setningar.
Á leiðinni niður í elliheimili rekur hann augun í 25 aur og þarnæst í 50 aur. Við fund þennan verður hann himinlifandi. Skælbrosir eins og krakki sem fær gotterí. Ég samgleðst honum. Hann segir mér að hann finni oft smáaura, enda leitar hann eftir þeim þegar hann gengur um gangstéttir bæjarins. "Ha?" sagði ég, "horfiru virkilega á gangstéttina þegar þú er að labba á milli staða?". Svo sagðist hann gera. Hann sagði að sér þætti mjög gaman að finna smáaura á götunni. Hann sagðist meira að segja henda annað slagið frá sér 5 krónum (c.a. 70 ísl.kr) því fólki þætti svo gaman að finna slíkt. "HA? Hendirðu frá þér femkroner til að gleðja aðra?" "Jámm", sagðann og hélt áfram að vera glaður yfir fundi sínum.
Alla leiðina frá fundarstaðnum hélt hann á sínum 75 aurum og hringlaði þeim í lófa sínum, og líka á bakaleiðinni upp í kirkju. Hann sýndi meira að segja prestinum fund sinn.
Þetta var skemmtilegur göngutúr með Hr. Thomas, organista og smámyntauppsafnara, á blautum og gráum þriðjudegi.

2.2.04

Fluttur
Á föstudaginn flutti ég niður í miðbæ. Húrra, ég er kominn í póstnúmer 8000! (101 okkar Árósarbúa). Kominn með hillur og skáp úr IKEA og nokkra kassa sem liggja á gólfinu og bíða eftir að verða "uppteknir". Einnig er ég búinn að leggja "skeiðvellinum" í geymsluna og fá lánað rúm frá Ragnari Páli og Arnlaugu.
Herbergið er í svokölluðu bofællesskab (sambýli). Sambýlingarnir eru vænstu grey. Allir danir (greyin) og það mun örugglega taka þau nokkurn tíma þar til þau fatta húmorinn minn...held meira að segja að einn þeirra, leigusalinn minn, muni aldrei fatta hann. Hann er á leið til USA þannig að hann þarf ekki að kveljast lengi.
Hér hef ég ubegrænset internet, þvottavél og þurrkara, afnot af DVD og sjónvarpi, ágætis eldhús, PÍANÓ!, þaksvalir sem fúnkera vel í sólinni á sumrin, stóra stofu með borðstofuborði, allt innifalið í leigunni. Ágætis kostur.
En það sem kemur mér mest á óvart er að vatnið hérna er MIKLU betra heldur en uppi á hæðinni (þar sem Vilh.Bergsøesvej liggur). Merkilegt. Hér þarf ég allavega ekki að sýja það, eins og ég þurfti að gera með Brita könnunni góðu. Kaffið er meira að segja fínt úr þessu vatni.
Þeir sem þurfa að fá nákvæma adressu, geta sent mér tölvupóst.