19.11.04

"Ástkæra ylhýra..."
Í dag er ég veikur. Ég er með hálsbólgu. Ekkert óeðlilegt með mig. Ég sem hélt að sjóböðin myndu halda mig frá þessum óþverra, en svo reyndist ekki vera. Reyndar segja þeir sem eru vanir sjóbaðarar að maður fái kannski smá kvef til að byrja með en svo ætti maður bara að halda áfram þegar manni er batnað þannig að ég stefni enn á að prófa það sem þeir kalla "grødvand" eða "sjógraut". Það er þegar sjórinn er örlítið farinn að frjósa og hann "þykknar". Ég ætla ekki að fá á mig stimpilinn "sæson forlænger" eða "tímabilsframlengjari". Jæja, nóg um það.
Þar sem að ég er með hálsbólgu þá fór ég í vörumarkaðinn Føtex til að kaupa ýmislegt inn sem gott er að setja ofan í sig þegar um þennan kvilla er að ræða. Ég keypti hunang, te, sítrusávexti, klósettpappír og uppþvottalög (þetta tvennt síðastnefnda er ekkert sérlega gott við hálsbólgu, það vantaði bara á heimilið). Svo á leiðinni út þá kom ég við í sjoppunni (í Danmörku hafa vörumarkaðarnir svona litla sjoppu við útganginn þar sem hægt er að kaupa lyf, sígarettur, tímarit og brennivín) og keypti Strepsils, þessar rauðu. Svo tölti ég yfir götuna og var kominn heim. Dejligt að búa svona í miðbænum.
Eftir að ég var búinn að koma vörunum fyrir þá næ ég í pakkann, opna hann og sting einni töflu upp í mig. Ég fann hvernig díklórbenzýlalkóhólið, amýlmetakresólið, anísolían, piparmyntuolían, mentólið, vínsýran og sykurinn lék um tunguna og blandaðist við munnvatn mitt. Ég fann hvernig bakteríudrepandi virknin í töflunni eyddi óæskilegum bakteríum í munninum og hálsinum. Svo laggði ég pakkann á stað þar sem börn hvorki sjá né getað náð til hans. En bíddu nú hægur! Hvað sé ég ekki á bakhlið pakkans, íslenskar leiðbeiningar. Það er nú ekki á hverjum degi sem maður er þess lúxus aðnjótandi að geta lesið leiðbeiningar um vöruna á sínu ástkæra ylhýra. Ég settist niður og las á pakkann. Í fjórðu málsgrein staðnaði ég við þessa setningu:
"Hver munnsogstafla inniheldur:" (...)
Munnsogstafla!
Ef þið þekkið þann sem skrifaði þessar leiðbeiningar á Strepsilspakkana þá megið þið skila kærri kveðju frá mér.
Munnsogstöflur!

11.11.04

Verkfall
Á meðan að ég hef ekki internet heima þá nenni ég ekki að netlast. Skjáumst síðar!

18.10.04

Permanente
Fyrir ekki alls löngu gerðist ég meðlimur í Vikingeklubben Jomsborg. Klúbburinn hefur aðsetur hér í Árósum, nánar tiltekið í Den Permanente Badeanstalt í Risskov. Nú ert þú örugglega farin að velta fyrir þér hvað í ósköpunum starfið í klúbbnum gengur út á, en það er vetrarböðun í sjónum. Ég hef lengi haft þá löngun að prófa svona vetraböðun og lét ég verða af því nú í ár. Ég var ekki viss hvernig maður sótti um að vera meðlimur og hvernig þessu væri nú háttað þannig að þetta dróst um nokkur tímabil hjá mér. Í morgun tók ég svo mín fyrstu sundtök í sjónum á þessu tímabili sem stendur fram til 7.maí 2005.
Fyrir þá sem ekki hafa séð svæðið eða vita út á hvað þetta gengur þá ætla ég að lýsa þessu örlítið.
Þegar maður gerist meðlimur þá fær maður lykilkort sem veitir manni aðgang að svæðinu. "Svæðið" er alveg upp við skóginn Risskov og hefur maður útsýni að skóginum, yfir Mols og Árósa og svo út á haf. Þegar maður er kominn inn þá eru tvær bryggjur sitthvoru megin við litla strönd. Á sumrin er opið fyrir almenning en á veturna hefur klúbburinn aðsetur þarna við aðra bryggjuna. Báðar bryggjurnar eru svo afgirtar með búningaklefum og saunum.
Það sem maður svo gerir er að maður dýfir sér berrassaður í sjóinn og tekur nokkur sundtök ef maður vill og fer svo í saunu. Þetta gerir maður svo til skiptis eins oft og maður vill. Það er skilyrði að maður komi blautur inn í saununa. Það er ekkert heitt vatn á svæðinu nema kannski í handvöskum á salerninu.
Svæðinu er ekki kynskipt.
Ég fór með Lars, fyrrv.sambýlismanni mínum úr Vesterport. Hann var einnig að prófa þetta í fyrsta skipti. Við urðum mjög hrifnir af þessu. Manni líður mjög vel í kroppnum sem keppist við að spýta blóði af fullum krafti um líkamann restin af deginum.

Um helgina var ég á suður Jótlandi í 85 ára afmælisveislu ömmu hennar Stinu (kærustu minnar). Veislan var haldin í Søstjernen. Þetta var bara eins og að koma í mat til mömmu. Kjöt, brúnaðar kartöflur og brún sósa. Svo voru tartalettur í forrétt og ísfjöll í eftirrétt (stór íshaugur með súkkulaðisósu og rjóma utan á...ég fékk mér 3svar :-). Ég held ég borði bara grænmeti og ávexti þessa vikuna...

9.10.04

Nota ferdina
Thar sem ad eg er staddur i konsinu og hef ekkert vid timann ad gera i ca. 15 min tha nyti eg ferdina og netla sma.

I gær spiladi hid feykivinsæla duo Schmidt/Arason i glerblásaríi (glaspusteri) her i Århus fyrir gesti og gangandi. Nottin var helgud menningu og tvi vorum vid fengin til ad syngja og spila nokkur løg. Temad var ljos i nottinni (lys i natten) og var bláseríid skreytt med lømpum ymiskonar sem blásararnir høfdu gert i tilefni nóttarinnar. Musikin fell i godan jardveg. Inni var heitt en uti var kalt.

I kvøld er svo fyrirhugad ad sja og heyra kammeroperuna "Inside your mouth sucking the sun" eftir skolabrodur minn Niels Rønsholdt (sja hlekk undir Tonlist). Hlakka til. Lesid endilega meira um thetta a sidunni hans.

A morgun: ammæli i Grenå city.

8.10.04

Tölvuleysi
Kæru lesendur
Þar sem að ég hef ekki möguleika á veftengingu í vinnuherberginu mínu, og þar sem að tölvan mín er þar niðurkomin, þá mun ég ekki vera sérlega virkur við netluskrif. Ég vona að úr þessu bætist þegar ég fæ mér "beranlega" tölvu. Þá mun ég fá mér veftengingu í híbýli mín.
Lifið heil.
Ykkar einlægur,
/stef.

p.s. mér urðu á þau herfilegu mistök að kalla kærustu mína fyrir unnustu í síðustu netlu. Biðst ég afsökunar á þeirri staðreyndarvillu og vil því ítreka að enn sem komið er er hún einvörðungu kærasta.

21.9.04

Pláss
Einhvernveginn virðist allt leysast hjá mér þessa dagana. Ekki að mitt líf hafi verið fullt af vandamálum; það er meira sem að það sem ég vil að gerist, það gerist!
T.d. ætla ég að flytja til unnustu minnar. Þá þarf að finna leigjanda í herbergið og ég þarf að finna mér vinnuherbergi. Þetta tvennt bara "poppaði" upp í lúkurnar á mér. Ljúft. Og allt var það að tilstuðlan þess að maður þekkir mann. Mitte sem ég bý með á vinkonu sem hætti með kærastanum sínum og hefur engan stað að búa á. Fínt, hún fær herbergið. Ég þarf ekki að borga tvöfalda leigu eða slíkt. Svo var það þannig að ég spurði leigusala unnustu minnar hvort hún vissi um eitthvað vinnuherbergi. Hún vissi um einn í sama húsi sem hafði laust herbergi. Það var of dýrt, en mamma hans leigði víst út mjög ódýrt herbergi sem gæti hentað mér. Það svona líka smellpassar mér, bæði líkamlega og fjárhagslega.

Fór annars á tónleika með Graduale Nobili. Heyrði frumflutning á Vesper eftir ™Bald. (Tryggvi M. Baldvinsson). Þær eru hörkugóðar! Verkið skíterfitt en þær héldu ótrauðar áfram þrátt fyrir mikla ófærð.

13.9.04

"...málar bæinn rauðann."
Ef maður borðar rauðbeður þá fær maður rauðar hægðir.

9.9.04

Svara svara, vertu velkominn...
Að sjálfsögðu var það Sindri Óskarsson, minn gamli bekkjarbróðir og meistari, sem vissi svarið.
Lag: Silfur Egils. Höfundur: Megas

8.9.04

Nobbarar
Vildi bara benda fólki á tvo góða nobbara sem hafa bæst í hópinn. Það eru þeir Siggi Óla og Hugi Þórðarson. Báðir algjörir schnillingar....schlümpf!
Ég mun ekki birta svarið við getrauninni, þið megið glíma við þetta áfram. En ein vísbending: höfundur texta og lags er verðlaunahafi Jónasarverðlaunanna.

1.9.04

Kvusslax
Veit enginn svarið við tónlistargetrauninni?
Vísbending:
í textanum kemur þessi setning fyrir "En ég er Egill og þú ert Þórólfur."

28.8.04

Músíkgetraunin
Einhverntímann var slík getraun á Rás 1 á sunnudögum. Ég man að systkini mín og foreldrar fylgdust stundum með þessu. Mig minnir einnig að Einar Ágúst frændi minn hafi eitthvað verið viðloðinn þetta líka með þeim. Þessi getraun var eins og krossgáta. Svarið við spurningunni passaði í hina og þessa línu, lárétt eða lóðrétt. Mjög sniðugt. Er þessi getraun ennþá á gufunni?

Talandi um gamla útvarpsþætti þá er mér hugsað til útvarpsþáttanna "Heimsendir". Þar voru þau Jón Gnarr, Sigurjón Kjartansson og Helga Braga sem fóru á kostum. Meðal dágskrárliða var útvarpssagan "Hótel Wolksvagen". Algjör schnild! Gaman væri að heyra þá aftur. Þetta var áður en þau gerðu sjónvarpsþættina sívinsælu "Limbó". Þar höfðu þeir Radíusbræður slæðst með í hópinn, Steinn Ármann og Davíð Þór. Einnig var Hjálmar Hjálmarsson með í spilinu (hver man ekki eftir "Þorrabakkasketsinum"???"...ég vil ekki þrumara!") Reyndar kom íslenska þjóðin með hörð mótmæli eftir fyrsta þáttinn, og ennþá harðari eftir annan, en einmitt í öðrum þættinum var briddað upp á hommagríni og afar klámfengnu gríni. Algjör bylting í íslenskum húmor. En s.s. þá hafa íslendingar ekki þolað neitt slíkt þannig að þessir þættir voru teknir af dagskrá, en þeir höfðu verið sýndir kl.20.30 í Sjónvarpi allra landsmanna á laugardagskvöldum. Besti tími Sjónvarpsins. Ótrúlegt hversu margir þættir hafa verið sýndir á þessum tíma; Fyrirmyndarfaðir, Spaugstofan (öll sín ár), Limbó, Radíus, Simpsons ofl. En mér til mikillar ánægju þá er hægt að kaupa þessa Limbó þætti ásamt Radíus þáttunum á DVD diski.

En sökum sendingar frá bróður mínum þá verð ég að koma með eina músíkspurningu:
- Hvaða íslenska meistaraverk hefur þennan hljómagang: E-D-A-F#-E/h-H7(/d#)-E-A-D-E, og hver samdi?
Bróðir minn kær má EKKI svara!

24.8.04

...bíður mín brúða þar...
Jú jú, ég er kominn heim í Búðardalinn...Árósa. Þetta er búið að vera ansi löng netlupása. Hef haft nóg að gera.
Eftir að ég hætti að passa köttinn og húsið í Åbyhøj þá fór ég í kórfer með Universitetskórnum. Ansi fín ferð. Vorum rétt hjá Løgum kloster. Tókum upp verk eftir Svend Nielsen og ykkar ástkæran netlugerðarmann. Þessi tvö verk ásamt nokkrum öðrum munu koma út á geislaskífu í kringum jólin. Júbbí, mín fyrsta plata :-)
Ég tók mér einn dag í að umpakka dótinu mínu og fór svo til Kaupmannahafnar. Þar gistum við Stina hjá vinafólki í góðu yfirlæti. Daginn eftir flugum við til Íslands.
Mín elskulegust systir lánaði okkur bílinn sinn og Friðgeir ljúfurinn ljáði okkur íbúð sína á meðan í höfuðborginni var dvalið. Svo brunuðum við nyrðri leiðina austur á land. Stoppuðum eina nótt rétt hjá Sauðárkróki og keyptum okkur byrgðir af besta flatbrauði Íslands, en það er selt í bakaríinu hjá pabba hans Róberts á króknum. Kíktum einnig á Dettifoss. Hrykalegur!
Heim til mömmu og pabba var ljúft að koma. Veðrið lék við okkur. Gaman að hitta systkinin og frændsystkinin og að sjálfsögðu hjónin að Hlíðargötu 24.
Við brunuðum svo syðri leiðina ásamt varaþingmanninum systur minni. Tókum okkur bara einn dag í það. Fórum samt í sund á Svínafelli í glampandi sólskini.
Í Rvk. bauð Hugi okkur í mat heim á Magahelinn. Maðurinn er snillingur, svo einfalt er það.
Ferðin slúttaði svo með brúðkaupi þeirra Christinu og Braga Þórs....part II. Þau giftu sig sko fyrst í S-Afríku, þaðan sem hún kemur. Bæði í ægilega hvítum fötum. Hann söng til henner einhvern sænskan söng. Ég og tveir aðrir studdu hann í músíkinni en sjálfur fór hann niður á hnén. Afar hjartnæmt.
Jæja, nú haldið þið kannski að komið sé nóg. Onei.
Við flugum svo daginn eftir brúðkaupið til Kaupmannahafnar. Stina fór til Árósa en ég fór til Stokkhólms. UNM í Stókkhólmi og Nörrkøping þetta árið. Ég fékk reyndar ekki að heyra mitt verk þar sem það var flutt á laugardegi, en þá var í í giftingarveislu uppi á Íslandi. Hátíðin gekk ágætlega fyrir sig. Ekkert spes fyrirlesari, Svend David-Sandström. En félagsskapurinn góður og músíkin að meirihluta til rusl.
Nú á laugardaginn kom ég svo heim.
Ah!

19.7.04

A lifi
Ja, eg tori enn, tho svo eg hafi ekki islenska stafi. Eg hef bara ekki nennt ad blogga. Foreldrarnir voru i heimsokn og meistari Hugi einnig thannig ad thad hefur verid nog ad gera.
Thessa dagana er eg ad passa kott og hus i Åbyhøj.
Skrifa sidar.

17.6.04

Þjóðhátíðardagur
"Hæ hó jibbíjei og jibbíbei, það er kominn sautjándi júní!"

Eins og venjan er þá rignir á þjóðhátíðardegi Íslendinga, þó svo þeir séu í Danmörku. Lítið er um hátíðahöld hérna. Allavega er mér ekki kunnugt um þau. En til að bæta úr því þá mun skólin minn, Det Jyske Musikkonservatorium, halda mér veislu í dag. Ég er nefnilega að útskrifast úr skólanum núna á eftir. Fyrst verður einhver athöfn í stórasalnum, rektor blaðrar og einhverjir flytja músík, svo fæ ég skjalið mitt. Þar á eftir er "reception" í mötuneytinu. Allt þetta mér til heiðurs...jú og hinum sem að útskrifast.

Gleðilega þjóðhátíð!

12.6.04

Venjur
Ég átti samtal við félaga úr Sf.Heklu áðan og varð það til að smá hugsun fór í gang í litla kollinum mínum.

Siggi: "Sigúrdur"
Stefán: "Blessaður Siggi! Stefán heiti ég. Er ég að vekja þig?"
Siggi: "Neihei! Ég er sko búinn að slá garðinn og reita frá blómunum!"
Stefán: "Það er aldeilis harkan hjá ykkur fjölskyldu mönnunum"
Siggi: "Ég er nú bara að ljúga. En maður er nú ekkert að hanga í rúminu lengur en til 8, svona í sumartímanum."
Stefán: "Já það er rétt...
(smá Intermezzo sökum úrhellis. Ég elska þau. Algjölt steypibað í nokkrar mínútur og svo sól aftur. Manni líður bara eins og í útlöndum...)
Stefán: "...er rétt, maður á ekkert að hanga í bælinu lengur en nauðsynlegt er. Hvað er verið að brasa?"
Siggi: "Ég er bara að kíkja aðeins á netið."
Stefán: "Ertu að skoða klám?"
Siggi: "Nei ertu bilaður! Svona snemma dags!?! Ég skoða aldrei klám fyrripart dags."

Þetta litla brot úr samtali okkar olli mér smá truflun frá að hugsa um ekki neitt. Afhverju hefur Sigurður ekki áhuga á að skoða klám fyrripart dags, svona úr því hann gerir það annars (eins og nánast hver einasti karlmaður sem hefur aðgang að interneti)? Er ég bara svona brenglaður og úrkynjaður eftir sumarstörf í Sorpu, þar sem dagurinn hófst á því að ég fékk mér kaffibolla og blaðaði í gegnum Hustler, eða ennþá betra hinn danska gæðaklámsnepill Cats, að finnast það skrýtið að skoða bara klám seinnipartinn? Eru það menn eins og Sigurður sem geta bara borðað Cheerios (eða Kátínur eins og einhver þýddi það) að morgni dags? Eru það sömu menn sem hafa ákveðna daga til að stunda kynlíf með bólfélaga sínum? Er það svona fólk sem hefur alltaf það sama í jólamatinn, getur ýtt aftur á "play" þegar diskurinn er búinn, hefur ekki gaman af að sjá finnska bíómynd (bara af því að hún er á finnsku), fer í sumarfrí til Costa del Sol og finnst það vera hápunktur ferðarinnar kvöldið sem grísaveislan var, eða finnst allur annar bjór en Carlsberg "vera svolítið skrýtinn", eða fer alltaf á klósettið kl.12.17?
Ef þú, lesandi kær, fattar hvað ég er að meina og finnst það vera skrýtið hvað við getum eytt lífinu eftir föstum brautum, líttu þá í eigin barm.
Ég mæli með því að prófa að bursta tennurnar afturábak.

8.6.04

Gjöf
Með póstinum í dag kom brúnt umslag með einhverju hörðu í. Á pakkann var mitt nafn skrifað. Ég þekkti skriftina. Þetta var frá henni systu. "Hvað skildi hún nú vera að senda mér?", hugsaði ég með mér. "Ég á ekki afmæli strax og það eru nokkrir mánuðir í blessuð jólin...hvað skildi þetta vera?". Í pakkanum var geisladiskur, diskur sem ég myndi ALDREI kaupa mér sjálfur. Frábært! Alltaf gaman að fá eitthvað sem kemur manni á óvart. Nú hljóma "The Beach Boys" af disknum "Pet Sounds" í græjunum mínum. Takk Svanhvít!

7.6.04

Hallcast
Ég bara varð að setja þetta lag á síðuna mína. Halli, Þú ert SCHNILLINGUR!
Heimaslóðir
Ég rakst á ansi merkilega og skemmtilega síðu um daginn á netlunni hans Sævars Sólheim. Þetta er síða með myndum eftir Björn Björnsson. Ég fékk töluverða heimþrá við að sjá þessar myndir. Fullt af minningum. Reyndar eru myndirnar teknar ansi mikið löngu fyrir mína tíð, en ég kannast við margar af þessum myndum. Hef séð þær á ýmsum veggjum hjá Norðfirðingum af eldri kynslóðinni. Gluggið á þessa síðu.

1.6.04

aaaa-búið
Í dag mun ég fagna því að ég er búinn með síðasta tímann minn í skólanum þetta skólaárið. Ég ætla að spóka mig aðeins í bænum í rólegheitum og svo ætla ég að fara á fótboltaæfingu...aldrei þessu vant! Svo hef ég jafnvel í hyggju að heilsa upp á vini mína hér í borg í kvöld. Eitthvað sem ég hef ekki gert í LAAAAANGAN tíma.
Er farinn út í ilmandi sumarið. Ciao!

27.5.04

Óðríkur algaula
Var að koma úr söngprófi. Ég var ekki prófaður heldur kennarinn minn, sem er söngnemandi í konsinu. Þetta gekk bara ágætlega hjá okkur held ég. Númerið mitt var aría Papageno úr Töfraflautunni. Hann syngur sennilega fleiri, en þessi er nr.20. Ég var látinn hoppa um og láta öllum illum látum á meðan ég söng undurfagurt um hinn síkáta og gra...uuu já... fuglafangara. Hann þarf á kvenmanni að halda blessaður. Gott að hann fann Papagenu.

Ekki er nóg með að ég var að gaula í þessu prófi, heldur eru tónleikar, einkatónleikar, með kórnum mínum á eftir. Einhver læknaráðstefna pantaði eitt stykki tónleika í Dómkirkjunni okkar með kórnum mínum. Veldi á þessum læknum! Þetta er ekkert ódýrt dæmi. Pogramið samanstendur af verk(j)um eftir Tage og Svend Nielsen, Per Nørgård, Max Reger, Einojuhani Rautavaara og mig sjálfan. Næturvísurnar mínar verða sungnar (enn eina ferðina :-) og í þetta skiptið mun 3.útgáfan af síðasta kaflanum verða prófuð...gaman að semja svona lifandi verk.

25.5.04

Voff voff, barf barf, bow wow etc.
rowlf jpeg
You are Rowlf.
You are a loner, and love classical music, You can
play the piano without opposable thumbs. Then
again, you are just a Muppet.

ALSO KNOWN AS:
Ol' Brown Ears
HOBBIES:
Piano playing, punning, fetching.

QUOTE:
"My bark is worse than my bite, and my piano
playing beats 'em both."

FAVORITE MOVIE:
"The Dogfather"

FAVORITE COMPOSER:
Poochini

FAVORITE SONG:
"I've Never Harmed An Onion, So Why Should
They Make Me Cry?"


What Muppet are you?
brought to you by Quizilla

24.5.04

"...og svo spýta!
Í dag fór ég til tannlæknis. Ég er hjá frábærum tannlækni. Tannlæknirinn minn er kvenkyns. Það er mikið atriði að tannlæknarnir í mínu lífi séu kvenkyns. Ég hef haft 3 karlkyns tannlækna, allir ágætir, en kann betur við þessar tvær tannlæknakvennverur. Þannig að Sjaram, Óli tann og Pálmi, þið eruð allir ágætir...en þær eru bara betri.
T.d. þá segir minn danski tannlæknir, Marianne, að ég hafi engar holur í hvert skipti sem ég kem til hennar. Frábært! Nú geng ég um með nýpússaðar tennur og smæla framan í heiminn með góðri samvisku.

Jæja, best að reyna að púsla saman þessum 25 bútum af einhverju verki eftir Schuman sem Lasse teorikennari var svo sætur í sér að klippa í sundur.

p.s. ég fattaði aldrei þegar ég var lítill hvað þessi "spýta" var að gera í lokin á laginu (sjá titil). Ég var líka bara lítill, vitlaus og feitur krakki (varð að skrifa þetta því annars hefði Daníel bróðir skirfað það ;-)

23.5.04

Ó nei!


Take the Dead German Composer Test!...ég hef aldrei skrifað sinfóníu...hann skrifaði 120!!!
Og hvað svo?
Þá er mínu lokaprófi í tónsmíðum aflokið. Þetta var reyndar jafnframt EINA próf í tónsmíðum sem ég hef tekið...UM ÆVINA! Mjög næs þannig séð. Ég undibjó smá kynningu á 2 verkum, sem fór reyndar alveg í vaskinn því ég hafði gert vitleysu á einu blaðinu sem ég hafði útskýringar á, þannig að tíminn fór í að leiðrétta það, þó aðallega af hálfu prófdómarans, sem var Hans Abrahamsen. Þetta gekk þó allt saman og Karl Aage endaði með að segja að það eina sem ég má vænta er umsöng og staðfesting á að ég hafi náð. Júbbííí! Ég er orðið ríkismenntað tónskáld. :-) Unser Herrzen hilfe!

Síðustu dagar hafa því farið í að ná sér niður eftir þetta þrekvirki og komast í samband við sjálfan sig.
Framundan eru einhverjir tímar, en ekkert brjálað, og svo bara SUMAR! Mamma og pabbi ætla að koma hingað út svo ég er farinn að hlakka til þess heilmikið. Þau verða með bíl þannig að nú verður rúntað í rólegheitum með settið um danska grundu og margt skoðað; Skagen, Den tilsandede Kirke, Råbjerg Mile, Ebeltoft, Den Gamle By, Ribe, Legoland, Himmelbjerget, Ejer Baunehøj, Botanisk Have, Århus, Skødstrup (ekkert sérstakt nema í mínum augun ;-) Mols og nokkrir Molbúar, máské verður keyrt niður að landamærum, eða á Fjón að skoða eitthvað skemmtislegt. Gaman gaman gaman. Sumar, hér kem ég!

Verð annars að nefna að æfingin á gítarskissunum sem ég skrifaði tókst svona líka vel. Kom mér svakalega á óvart hversu frábært tónskáld ég er! :-) Martin spilaði líka hörku vel.

13.5.04

Im wunderschönen Monat Mai
Þegar kollegar mínir eru farnir að kalla mig aumingja þá læt ég nú í mér heyra! :-)

Ekki hægt að segja annað en að vorið sé "dejligt" hérna í DK. Hitinn temmilegur (ekki of heitt né kalt), trén skrýdd fagurskærgrænum blöðum og sumhver blómstra hvítu og bleiku.

Í morgun sat ég á þaksvölunum okkar og snæddi morgunmatinn minn. Síðasta sunnudag sat ég allan daginn og samdi úti á sömu svölum, ber að ofan og varð sólbrenndur. Ég er svo heppinn á hafa fengið þetta herbergi sem ég bý í. Ekki stórt herbergi, en fólkið hérna er fínt, húsakynni eru góð (stórt bað, stór stofa og gott eldhús) og þessar svalir eru hreint æði!

Á þriðjudaginn fer ég í lokapróf í tónsmíðum. Ekki að hægt sé að meta það í einhverju prófi hvort ég sé gott eða slæmt tónskáld...það getur víst enginn nema útaf fyrir sig... , en þeir vilja svona tékka mig áður en mér verður hleypt út í heiminn. Ég mun blaðra um sjálfan mig og tvö verk mín. En fyrst vilja þeir sjá hvort ég geti átt í samskiptum við hljóðfæraleikara. Þau verk sem eru í flutningi hjá mér þessa stundina eru fyrir svo stóra hópa að ómögulegt hefði verið að smala þeim í þetta próf. Þannig að ég fór í að skrifa gítarmúsík handa Martin, sem stjórnaði Morrk. Hörku gítaristi og næs gutti. Viljugur í að spila, og vill endilega fá eitthvað frá mér. Það sem ég skrifa núna handa honum eru svona drög/hugmyndir að verki handa honum. Ef mér tekst að koma einhverju af viti út úr mér við hann og einnig um mig við dómnefndina þá verð ég ríkismenntað tónskáld!
Þessa dagana er ég að plana hvernig eigi að fagna þessum merka viðburði. Meira um það síðar. En hægt er að segja að ef þau plön ganga eftir þá mun ég verða á faraldsfæti í næstum allt sumar. Því get ég fagnað með góðu JÍBBBÍÍÍÍ !!!

Jæja, áfram með gítarverki...

27.4.04

Sól, sól, skín á mig!
Nú er þetta að skána. Rigningin orðin hlý (þegar hún er) og sólin farin að verma þess á milli. Dejligt.

Nú er það mesta yfirstaðið sem á döfinni var. Seminar, tónleikar, mótettuskrif, páskar; allt gekk þetta yfir.

Hef ekkert að segja. Hlakka til að komast á fótboltaæfingu í dag! Ég sakna þín líka Össi ;-)

Annars var ég beðinn um daginn að skrifa fyrir slagverk, gítar og rödd. Toppklassa spilarar á ferð. Spennó. Þarf nú að finna spennandi texta...veit bara ekki á hvaða máli né hvar ég á að byrja að leita. Er óskaplega lítill bókmenntakall. Maður ætti kannski bara að nota símanúmer úr símabókinni? Eða búa til bullmál? "Morí karka, imbimb úmri e kalíja. Snork ú farkí smússke." Hvur veit, hvur veit...

19.4.04

Það rignir...

10.4.04

Píslarsaga Krists
Undanfarin vika hefur farið í að æfa og flytja Jóhannesarpassíuna eftir meistara J.S. Bach. Tja...kannski ekki alveg öll vikan, en stór partur af henni. Á fimtudaginn var æfing allan daginn og svo var æfing á föstudaginn (langa) fram að tónleikum og svo konsert. Allt fór þetta fram í Sct.Pauls kirkju og var flutningurinn bara ansi ágætur. Reyndar boðaði Evangelistinn (sögumaðurinn) forföll daginn fyrir tónleikana þannig að nýr var fundinn. Reyndar þurfti tvo til að fylla skarðs hins veika; einn sem sögumaður og annar til að syngja aríurnar.
Þess ber að geta að sellórokkarinn Hanna Loftsdóttir spilaði í hljómsveitinni (Ensamble Zimmerman) og rokkaði feitt. Hún var ein í sinni rödd. Gaman að heyra hversu góð hún er orðin. Svo kom hennar elsk-Hugi með þannig að margt var um góða vini. Gaman.

Framundan er svo heilmikil törn. Seminar í skólanum um listfræði, tónsmíðatími, hreinvinna á raddskrá, ein mótetta þarf að vera klár úr mínum höndum þann 20. apríl og svona fleira og fleira...manni leiðist allavega ekki!

Annars vildi ég bara óska ykkur gleðilegrar páskahátíðar!

30.3.04

Nei sko!
Jújú, hálsbólga enn eina ferðina! Helv...andsk...djöf...bévít...rassgat!
Þar sem bólgan og hitinn angrar þá hef ég verið í að endubæta síðuna. Bætt inn Nobbara Netlum og svo vil ég benda á stefin úr Staupasteini og Derrick sem eru undir Tónlistarliðnum. Einnig er Klaufabárðahlekkur komin undir Áhugavert liðinn. Gaman af því.

Fátt eitt hefur á daga mína drifið. Á laugardaginn átti Lars sambýlingur afmæli. Við (restin af sambýlinu) gáfum honum matreiðslubókina hennar Tinu Nordström, sem er sænskur kokkur. Matreiðsluþættirnir hennar eru sýndir hérna á DR1 og við strákarnir á sambýlinu erum aldrei eins áhugasamir um mat eins og þegar hún byrjar að elda ;-)
Afmælið fór annars nokkuð vel fram. Fámennt en góðmennt. Ég átti náttúrulega að syngja daginn eftir, í kirkjunni, þannig að ég hélt mig á mottunni, sem endranær.

Áðan kom Þyri til mín með ost, kex, vínber, sultu og súkkulaði út í kaffi. Gaman að vera veikur þegar maður fær svona góða heimsókn! Takk Prumpulína!

Jæja best að fara að snýta sér og drekka engiferte.

27.3.04

Monterí-fillí-bombombom
Í dag spilaði hið frækna lið Sf.Hekla fótboltaleik við Søften GF. Í þessum leik setti ég persónulegt met. Ég skoraði TVÖ mörk! Þið getið lesið meira um það hérna.

19.3.04

"...en það voru allt saman orðlausir draumar..."
Vorið er farið að gera vart við sig. Fullt af litlum sætum blómum farin að stinga kollinum upp úr þiðinni jörðu og fuglarnir farnir að syngja sínar vorvísur. Frábær tími.

Um daginn fór ég til Kjöbenhavn. Ég og Mads kollegi minn fórum samfó með lestinni á fimmtudegi. Skemmtum okkur og öðrum ferðalöngum með leiknum "Þekkirðu stefið?". Leikurinn gengur út á að þekkja stefið sem hinn aðilinn syngur, svona ef þið þekkið ekki leikinn. Mjög gaman. Held ég hafi aldrei verið svona stuttan tíma til Kaupmannahafnar frá Árósum. Svo deildum við soldið um hver væri besta laglínan eftir Carl Nielsen. Stúlkan á móti okkur klökknaði bara þegar Mads hóf upp raust sína og söng svo...hrmpf...undurblítt eitthvert lag eftir hundraðkrónukallinn, sem mamma hans var vön að syngja fyrir hann.
Við röltum síðan aðeins um borgina, þegar til Hafnar var komið. Leiðir skildust þó um seinnipartinn og ég fór heim til Hjartar moldvörpu. Þangað var mér boðið í for-afmælisveislu og svo ætlaði ég að fá að lúra á beddanum hans næstu 2 nætur. Veislan var ógleymanleg. Hann eldaði Chili con Carne (eða Bjarne) sem innihélt þrennskonar chili (þ.á.m. hinn vandfundna Chipotle chili, sem er reyktur chili, lyktar eins og vindill) og súkkulaði. Afar góð bragðupplifun. Í veislunni voru margar skemmtilegar týpur. Ógleymanlegt.
Á föstudagsmorgninum hlustaði ég svo á general-generalprufu á óperunni hans Bent, Under himlen. Ágætis ópera. Dramað ekkert sérstaklega grípandi en manni leiddist þó ekki. Músíkin að Bentískum sið, full af nosturslegri hljóðfæranotkun og glissando tónum.
Eftir æfingu var skundað á afar skemmtilegan pöbb. Einhver breskur pöbb rétt hjá Nyhavn. Fullt af góðum bjórtegundum af krana (på fad, sbr. fadøl, kranabjór). Fékk mér t.d. einn súkkulaðibjór, Double Chocolate. Virkilega góður.
Eftir að hafa snætt kvöldmat með samnemendum mínum og fylgt þeim í lestina, þá fór ég í bíó. Þar sá ég myndina "Salmer fra køkkenet". Mæli eindregið með henni. Afar sérstök og fyndin mynd. Kíkti svo aðeins við á kránni góðu og smakkaði einn belgískan mjöð, svona fyrir svefninn.
Á laugardeginum gerði ég það markverðast, fyrir utan að hitta Guðnýju í morgunkaffi og Ingibjörgu í 3kaffi, að ég fór í geisladiskabúð. Hérna í Árósum eru ekki góðar geisladiskabúðir, allavega ekki með gott úrval af klassískri músík. Þessi búð hefur það! Nafnið "Axel musik" ber hún. Garanterað að hún verður fastur punktur í mínum Hafnar ferðum. Keypti 7 diska. Allt frábærir diskar. Hæstánægður.
Lestarferðin heim var löng. Enginn Mads til að syngja með. Sessunautur minn var afar furðulegur (segir sá sem fannst gaman að heyra Mads syngja fyrir sig í fyrri lestarferð sinni). Hann var greinilega eitthvað öðruvísi en við hin. Honum var t.d. mikið í mun um að fá að vita hversu þykkar pylsurnar væru sem maðurinn með matvagninn seldi. Svo keypti hann helling af þeim...allavega 3! Eftir að hafa snætt þá fór hann fram á salerni, náði í klósettpappír með sápu í og sótthreinsaði borðið okkar. í seinna skiptið þegar sjoppumaðurinn kom trallandi þá keypti sessunauturinn, eftir mikla umhugsun, saltlakkrís. Svona saltlakkrísfiska. Eftir það upphófst mikil togstreita milli hans og pokans, því pokinn vildi ekki láta opna sig. Þetta gekk fullkomlega ekki hjá honum. Hann pikkaði í mig og spurði hvort ég ætti hníf. "Að sjálfsögðu á ég hníf" svaraði ég og dró upp Svissneska hnífinn minn sem inniheldur m.a. skæri. Honum tókst að finna út úr þessum merkilegu skærum og klippti varnfærnislega smekklegt gat á pokann, efst í öðru horninu. Hann varð himinlifandi við að geta smakkað á lakkrísfiskunum sínum og bauð mér með. Þeir voru afar góðir.

Bráðum missi ég 80 cm fjölina sem ég sef á. Kannski maður geri sér ferð í IKEA, þar sem sænskar kjötbollur eru framreiddar í stórum stíl, og kaupi mér rúm. Orðlausir draumar?...rúmlausir draumar.

9.3.04

Klaage
Tónsmíðakennarinn minn heitir Karl Aage Rasmussen, eða stundum kallarðu Klaage (kloge, með mjúku "g", útleggst "hinn klóki"). Maðurinn er ótrúlegur. Afhverju? Jú, hann fær svo mörgu komið í verk. Hann hefur t.d. skrifað slatta af tónverkum. Ég hef heyrt eitthvað af þeim, og er ekki aðdáandi. En góður kennari er hann. Hann hefur líka skrifað bækur, og ég mæli eindregið með að hver músíkunnandi lesi þær. Hann skrifar algjörlega á mannamáli (ef við teljum dönsku sem mannamál) sem allir geta skilið.
Kan man høre tiden og Har verden en klang eru bækur eftir Klaage með stuttum köflum um hin og þessi tónskáld. Aljgör skemmtilesning.
Önnur bók heitir Den kreative løgn og fjallar hún um kanadíska píanistann Glenn Gould. Einnig ágætis bók, en samt ekki fullgild ævisaga, en ágæt til að skyggnast inn í listamannsins heim.
Klaage skrifaði einnig einn kafla í GADs tónlistarsögubókina (aðal tónlistarsögu bókin hérna í DK). Heitir kaflinn "Musik i det 20. århundrede".
Í næstu viku mun Klaages nýjasta bók líta dagsins ljós. Er hún um tónskáldið og píanistann R. Schumann.
Hann hefur gert mynd um Carl Nielsen.
Hann hefur fyllt upp í eyðurnar á skissum Schuberts að óperunni Sakontola. Eitthvað sem Schubert kláraði ekki.
Hann hefur nýlega lokið við að endurgera sinfóníu eftir Schubert, sem hefur verið týnd eða Schubert ekki klárað, sem einhver annar reyndi á sínum tíma, en gerði bara hörmulega. Hann s.s. tók allt það burt sem ekki leit út fyrir að vera Schubert og setti inn það sem honum fannst vera meira Schubertistískt.
Og nýlega fékk hann tilboð um að skrifa ævisögu eins mesta píanista síðustu aldar, Sviatoslav Richter. Það finnst ekki nein ævisaga um hann ennþá. Klaage fær aðgang að persónulegur bréfum píanistans, sem lést 1997, og ýmsum öðrum heimildum. Svo mun hann taka viðtöl við samstarfsmenn Richters, þ.á.m Dietrich Fischer-Diskeau o.fl.
Ég dái þennan kennara minn.

6.3.04

Bernskuminning
Ég er einn af þeim sem man ósköp lítið frá bernskunni. Sumir muna heilmikið, t.d. þekki ég einn sem man eftir að hafa horft út um barnavagninn sinn, og hann var ekkert lengur en aðrir að vaxa upp úr slíkum farkosti. Svona langt aftur man ég ekki. En ég man þegar ég fór í pössun til Böddu móðursystur upp á Eiða. Man t.d. eftir þegar ég ætlaði að raka mig með sköfunni hans Kristjáns (þetta var svona gamaldags járnskafa með alvöru rakblaði) og skar mig í hökuna. Eftir það fékk ég bara að nota áhaldið til að maka á sig sápu; kallast það bursti?
Í þessari sömu dvöl minni hjá Böddu veiktist ég, ekki í fyrsta skipti hvað þá heldur í síðasta. Ég fékk í eyrun minnir mig og kvef og læti. Svo vaknaði ég einn morgunin og ég GAT EKKI OPNAÐ AUGUN! Ég man þegar ég kallaði á Böddu skelfingu lostinn "Badda, ég get ekki opnað augun, þau eru föst!" Hryllilegt fyrir lítinn gutta. Málað var að það var svo mikill gröftur í augunum að þau límdust aftur. Hún þurfti að koma með þvottapoka og þvo af mér gröftinn svo ég gæti opnað augun.
Þetta man ég eins og gerst hafi í gær...sem er svolítið sniðugt því þetta gerðist einmitt líka í gær! Ég var í svefnrofunum og ætlaði að opna aðeins annað augað til að líta á klukkuna, nema hvað að ég gat það ekki. Líf mitt spólaðist aftur um 22-23 ár á sekúndubroti. Það sem gerst hefur með mig er að ég fékk að sjálfsögðu kvef, AFTUR!, og í staðinn fyrir að allt jukkið fengi að fjúka út um nefið eða oní háls, þá safnaðist það saman í svokölluðum "skútum", ennisholur. Eitthversstaðar varð það að fara út og eru augun því tilvalinn útgönguleið. Gaman að þessu!
Ég fór að sjálfsögðu til læknis til að fá eitthvað við þessum andskota.
Læknirinn er sniðugur kall. Það nægði honum ekki að sjá að augun í mér voru/eru rauð og hvítan samsamar sér vel við brúna hluta augnanna (ég er með brún augu, þeir sem ekki eru með brún augu hafa ekki brúnan part í augunum). Onei. Hann varð nefnilega að stinga mig í puttann til að komast að því hvort ég væri með sýkingu. Ekkert vont, en bráðsniðugt! Lá í augum uppi. Sko. Ef um sýkingu er að ræða þá ætti að vera eggjahvítuefni (minnir mig) í blóðinu, og svo var í mínu tilfelli. Ég fékk góðann skammt af gleðipillunum pensilín eða öllu heldur Primcillin.
Nú er Primcillinið góða farið að virka og jukkið er byrjað að stífla mitt nef. Ég hlakka svo sannarlega til þegar ég get farið að finna pensilínangan þegar ég fer að pissa, þá er maður á batavegi.

5.3.04

Tölvuvesen
Eitthvað var ég nú að kvarta yfir tölvuveseni um daginn, en nú er sem að makkinn minn hafi læknað sig sjálfur og nú get ég opnað hvaða síður sem er og allt í stakasta lagi! Húrra fyrir makkagerðarmanninum!!! Þess vegna held ég upp á daginn með því að skipta aftur yfir í Haloscanathugasemdakerfið góða, "...Ég á heima á Haloscan-athugasemdar-kerfis-landinu góóóða."

3.3.04

Raddleysi og annað
Síðasta vika var tileinkuð kóræfingum og tónleikum. Var nánast 24/7 gaulandi með hinum og þessum kórnum. Söng m.a. litlu messuna hans Rossini. Mjög fyndið verk. Virkilega geðklofalegt, einn kaflinn er Palestrina-stæling, annar er hlægilegur vals með stjörnutenórsaríu ívafi og svo finnur hann upp rokkið í enn einum. Verkið var flutt af kór, einsöngvurum, harmóníum og uppréttu píanói. Gaman að gaula þetta stykki.
Ég var náttúruleg bara rétt búinn að ná mér eftir kvefið, þannig að ég hefði kannski átt að fara mér aðeins hægar í hetjubassahlutverkinu. Á laugardaginn var nefnilega afmæli hjá henni Mitte, sem er einn af sambýlingunum. Okkur hinum var að sjálfsögðu boðið. Ég hélt mig í vatninu, en reykurinn klístraðist í hálsinn á mér og nú er ég aftur kominn í baráttuna við hor og eymsli. Bölvað vesen. Er búinn að fjárfesta í leysiefni kennt við Tullamore Dew sem var á tilboði í Super Best. Vona að það hjálpi aðeins til ;-)
Framundan? Kannski að semja smá...já, það gerist stundum...og syngja meira...það gerist oft!...já og svo er tónskáldaferð til Kjøbenhavn að heyra æfingu á nýju óperunni hans Bent Sørensen, Under Himlen, þarnæstu helgi. Júbbíí!

19.2.04

Vesen
Eitthvað er haloscan að stríða mér! Ég fæ ekki séð athugasemdakerfið og það tekur langan tíma að geta séð síðuna...bölvað. En þetta sést samt fínt í PC tölvum... Ef þið hafið einhver ráð, sendið mér vinsamlegast póst.

17.2.04

Pestagemlingur!
Ég er pestagemlingur, eða svo sagði pabbi minn alltaf. Ég fæ oft kvef. Er ennþá með háls- og nefkirtlana, því læknarnir segja að það muni ekki breyta neinu við að fjarlægja þá. Þessa stundina líður mér svo illa af kvefinu að ég get ekki sofið...HELVÍTIS RASSGAT! segi ég nú bara.

16.2.04

"Mjer langar..."
Það hefur ekki verið minn vani að ganga um og langa í föt. Ég er einn af þeim sem lét móður sína kaupa föt á sig töluvert fram eftir aldri (veit að við erum allavega tveir í þeim klúbbi). Nema hvað að þegar ég fluttist að heiman þá varð ég að standa í þessu sjálfur, með misgóðum árangri. Ég hafði ekki neina sérstaka skoðun á þessum spjörum, bara að þær væru hreinar og heilar. Fljótlega eftir að ég fluttist að heiman þá kynntist ég smekkmanneskju mikilli, Þyri. Hún hefur gott auga fyrir útliti ýmiskonar, er t.d. snillingur að innrétta og sjá fyrir sér liti oþh, eitthvað sem ég er herfilegur í. Hún tók því nokkurn veginn við af móður minni í þessum kaupum, nema hvað að nú var það ég sem kom með tillögur og hennar að samþykkja eður ei.
Nú er ég aftur orðinn einn í þessum bransa. Sem betur fer býr Þyri ennþá í sömu borg þannig að ég get ráðfært mig við einhvern. Nema að mér varð litið inn í Helly Hansen verslun um daginn, með það í huga að skoða úlpur. Fann þar þessa líka fínu úlpu, svört með stórri hettu (hefur langað í úlpu, sem er hlý og góð og með hettu, í langan tíma) sem er á útsölu. Átti að kosta 2500 dkr en er á 1700 dkr. Þannig að þessa dagana geng ég um og spökulera hvort maður eigi að kaupa sér úlpu. Stórmerkileg upplifun fyrir mig.
Maður er gjörsamlega orðinn fangi neysluþjóðfélagsins.

14.2.04

Hr. Snilli
Í þó nokkur ár hef ég þekkt náunga einn sem á örskömmum tíma breyttist úr littlum mjóróma gutta í ekkert svo stóran djúpradda karlmann. Drengurinn ber koparlitað hár sitt með stolti, og hann var aldrei kallaður "gulrótin" af bekkjarfélögum. Þessi drengur er allra manna HUGljúfi og er öðlingur heim að sækja. Hann er einnig afbragðs kokkur. Hann spilar af miklum móð á píanó, þá aðallega jazzmúsík og er hann virkilega sleipur á því sviðinu. T.d. var sagt við hann þegar hann sótti inn í FÍH tónlistarskólann, í jazzdeild, að hingað kæmu menn sem vildu læra jazz, en ekki þeir sem kynnu hann nú þegar.
Við félagarnir höfum gert ýmislegt saman. T.d. sáum við um músík í kristilegu leikriti í heimabæ okkar. Hann spilaði á píanó og ég á trompet. Hann hefur verið mér stoð og stytta í öllum þeim tölvumálum sem ég hef tekið mér fyrir hendur; hann hjálpaði okkur með mac-ann sem foreldrar mínir keyptu, hann sá um að kaupa stærri harðdisk í hann, hann kenndi mér helling á tölvuna og gaf mér ýmis forrit, hann "keypti" fyrir mig mína fyrstu tölvu (fékk fínan afslátt í appleumboðinu því hann vann þar), hann hjálpaði mér að kaupa mína aðra tölvu (þá sem ég á núna), hann hefur alltaf reddað málunum þegar eitthvað er að maskínunni. Hann er s.s. tölvusnillingur og drengur góður. Ef hann væri söluvara þá ætti hann að vera til á öllum heimilum.
Mig hefur lengi langað að skrifa um hann smásögur, því þeir hlutir sem honum hefur tekist að gera í sínu lífi er ótrúlegir. Hver kannast t.d ekki við söguna um Frugga Roðrarson, eða þegar hann skreið inn um gluggan heima hjá sér með vöffludeigið úr vinnunni, eða þegar hann spjallaði heillengi við "þá heittelskuðu" en komst svo að því eftir nokkara mínútur að það var ekki hún, eða þegar hann dreifði þvottinum sínum á Miklubrautina, ógleymanlegur sketch þegar hann kom með rifjárnið í hljómfræði, reyndi að faðma átrúnaðargoðið sitt sem var með snertifælni á háu stigi, eða þegar hann veggfóðraði eldhúsið með sveppasúpu. Já þetta er ótrúlegur drengur.
Þegar þið eruð búin að lesa þennan pistil þá vil ég biðja ykkur um að hrópa hátt (megið líka ímynda ykkur) "Hugi Þórðarson lengi lifi...HÚRRA-HÚRRA-HÚRRAAAAAA!!!"
p.s. stúlkur, hann er á lausu.

8.2.04

Tintin
Í gær (lau.) fór ég á heimildarmyndina "Tintin et moi" eftir Anders Østergaard. Myndin var sýnd í Øst for paradis, sem er svona bíó sem sýnir allskonar myndir, ekki bara Hollywood metsölu/léttfroðumyndir. Virkilega fín mynd. Tinni ferðaðist út um allan heim, en Hergé sat heima og teiknaði. Ótrúlegt hvað hann sökkti sér í nákvæmnis vinnu. Svo er líka heilmikil pólitík í Tinnabókunum sem maður vissi ekki um. Mæli eindregið með myndinni, hvort sem um er að ræða Tinna aðdáanda eður ei.
Ég las aldrei Tinnabækurnar sem krakki. Nennti því ekki. Fannst þær svo fjarlægar, en samt of raunverulegar. Las frekar myndabækur á við Goðheimar og Fjögur fræknu. Las samt í rauninni ekkert mikið af myndabókum. Ekki einu sinni Andrés.
Til að halda upp á góða mynd, þá fór ég á McDonalds til að snæða kvöldmat (ef mat skildi kalla). Langaði svo að prófa þennan nýja hamborgara,Big Tasty. Mikið var hann ekki góður. Mæli ekki með honum, hvort sem um er að ræða svín eður ei.

3.2.04

Garganistar
Fyrir þá sem vita ekki hvað ég tala um, þá eru þetta organistar. Flestir þeirra eru stórskrítnir, á mjög fallegan og skemmtilegan hátt. Þeir eru oftast nær nördar. Þeir eru í flestum tilvikum vel að sér í tónfræðigreinum eins og hljómfræði og kontrapunkti. Þeir æfa sig mikið (einir að sjálfsögðu) og þeir fara í ferðalög til að skoða orgel.
Ég hef verið þeirrar gæfu njótandi að hafa kynnst nokkrum organistum í gegnum tíðina. Nokkrir þeirra eru fullmenntaðir og sumir eru enn í námi. Sómafólk. Í rauninni gæti ég skrifað LANGAN lista yfir alla þá organista sem ég þekki.
Einn er sá organisti sem ég hef haft töluverð samskipti við undanfarið, en það er organistinn í Sct.Pauls kirkju. Hann heitir Thomas. Afhverju hef ég haft samskipti við hann? Jú, ég syng í kirkjukórnum hans. Thomas er duglegur organisti. Hann vinnur vinnuna sína mjög vel og spilar líka mjög vel. Hann reynir að stjórna kórnum eins vel og hann getur, þó hann hefi ekki mikla reynslu í kórstjórn. Hann hefur stór plön, við ætlum nefnilega að syngja Jóhannesar Passíuna um páskana. FRÁBÆRT músíkverk það eftir J.(azzballet)S.(kóla) B(áru)ach (eins og Tryggvi komst að orði).
Thomas er ógiftur, snyrtilegur, grannur, Audi og einbýlishús-eigandi. Hann er einnig feiminn. Tekur góðan tíma í að móta það sem hann ætlar að segja. Ég held að hann sé í raun málhaltur - stam eða eitthvað slíkt. En hann felur það vel. Þegir frekar.
Í dag var guðsþjónusta á elliheimili rétt hjá kirkjunni. Ég átti að leiða safnaðarsöng við meðleik Thomasar á píanó af gerðinni HELLAS (hefur EINHVER heyrt getið um þessa píanótegund fyr???). Við hittumst fyrir framan kirkjuna og löbbuðum oneftir.
Við náum vel saman, eigum álíka erfitt með að mynda setningar.
Á leiðinni niður í elliheimili rekur hann augun í 25 aur og þarnæst í 50 aur. Við fund þennan verður hann himinlifandi. Skælbrosir eins og krakki sem fær gotterí. Ég samgleðst honum. Hann segir mér að hann finni oft smáaura, enda leitar hann eftir þeim þegar hann gengur um gangstéttir bæjarins. "Ha?" sagði ég, "horfiru virkilega á gangstéttina þegar þú er að labba á milli staða?". Svo sagðist hann gera. Hann sagði að sér þætti mjög gaman að finna smáaura á götunni. Hann sagðist meira að segja henda annað slagið frá sér 5 krónum (c.a. 70 ísl.kr) því fólki þætti svo gaman að finna slíkt. "HA? Hendirðu frá þér femkroner til að gleðja aðra?" "Jámm", sagðann og hélt áfram að vera glaður yfir fundi sínum.
Alla leiðina frá fundarstaðnum hélt hann á sínum 75 aurum og hringlaði þeim í lófa sínum, og líka á bakaleiðinni upp í kirkju. Hann sýndi meira að segja prestinum fund sinn.
Þetta var skemmtilegur göngutúr með Hr. Thomas, organista og smámyntauppsafnara, á blautum og gráum þriðjudegi.

2.2.04

Fluttur
Á föstudaginn flutti ég niður í miðbæ. Húrra, ég er kominn í póstnúmer 8000! (101 okkar Árósarbúa). Kominn með hillur og skáp úr IKEA og nokkra kassa sem liggja á gólfinu og bíða eftir að verða "uppteknir". Einnig er ég búinn að leggja "skeiðvellinum" í geymsluna og fá lánað rúm frá Ragnari Páli og Arnlaugu.
Herbergið er í svokölluðu bofællesskab (sambýli). Sambýlingarnir eru vænstu grey. Allir danir (greyin) og það mun örugglega taka þau nokkurn tíma þar til þau fatta húmorinn minn...held meira að segja að einn þeirra, leigusalinn minn, muni aldrei fatta hann. Hann er á leið til USA þannig að hann þarf ekki að kveljast lengi.
Hér hef ég ubegrænset internet, þvottavél og þurrkara, afnot af DVD og sjónvarpi, ágætis eldhús, PÍANÓ!, þaksvalir sem fúnkera vel í sólinni á sumrin, stóra stofu með borðstofuborði, allt innifalið í leigunni. Ágætis kostur.
En það sem kemur mér mest á óvart er að vatnið hérna er MIKLU betra heldur en uppi á hæðinni (þar sem Vilh.Bergsøesvej liggur). Merkilegt. Hér þarf ég allavega ekki að sýja það, eins og ég þurfti að gera með Brita könnunni góðu. Kaffið er meira að segja fínt úr þessu vatni.
Þeir sem þurfa að fá nákvæma adressu, geta sent mér tölvupóst.

30.1.04

Svar
Þar sem enginn hefur gefið svar um fúguna góðu, en ég fékk aftur á móti mjög fint svar um DNA og RNA, þá ætla ég að uppljóstra úr hvaða stykki þetta er. Verkið heitir Variations on Theme by Frank Bridge, Op10, og ef eftir B. "okkar" Britten. Fyrir ykkur nerðlana sem lesið þetta þá mæli ég eindragið með að heyra þessa sérstæðu fúgu.

Á miðvikudaginn fór ég á Ævintýri Hoffmanns (eftir Offenbach, samin 1881) hérna í músíkhúsinu. LEIÐINLEG ópera! Plottið var EKKERT, hvorki fyndið né dramatískt. Söngvarar og hljómsveit stóðu sig þokkalega, þannig að þetta var ekki þeim að kenna hversu leiðinleg óperan var. Músíkin var svona la-la músík sem maður leggur ekkert svakalega mikið eyrun við, hún bara er þarna: "Æ já, við þurfum víst líka tónlist svo söngvararnir geti komið þessu FRÁBÆRA librettói (texti óperunnar) á framfæri" hafa þeir örugglega hugsað á sínum tíma. Það voru í mestalagi 2 "aríur" sem rifu mann upp úr algjörum leiða í hálfgerðan leiða og þ.a.m var hin fræga "Báta/gondóla-aría" (hórurnar eru að fara úr hóruhúsinu, sem er staðsett í Feneyjum, og hóran sem Hoffmann elskar syngur dúett við aðra). Sviðsetningin var ekkert æði og búningarnir voru hefðbundnir (fínir galakjólar í bland við smókinga og leðurfrakka). Þeim tókst ekki einu sinni að gera hóruhúsasenuna spennandi. Ég man þegar ég heyrði Cosi fan tutti heima í óperunni þá voru allavega búningarnir eftirminnilegir (sönkonurnar voru í bíkíní allan tímann!).
Geng út frá að næsta ópera sem ég heyri, Under Himlen eftir minn fyrrv. kennara Bent Sørensen, verði mun áhugaverðari. Það á að frumflytja hana í Kongelige Teater þann 15.marz og við (tónskáldadeildin hérna í Árósum) fáum að koma frítt á general-generalprufu. Bíð spenntur.

27.1.04

Ískalt mat
Þar sem að ég var orðinn ANSI pirraður á gamla athugasemdakerfinu þá skifti ég því út fyrir nýtt. Þannig að gömlu skrifin ykkar, lesendur góðir, heyra sögunni til og munu því einvörðungu vera varðveitt í minnum okkar. Blessuð sé minning þeirra.

Hefur engin svör við síðustu spurningu?
Hver er þá munurinn á DNA og RNA í frumum heilkjörnunga?

25.1.04

Húsráð
Flest húsráð sem ég hef heyrt innihalda notkun á tannkremi á einn eða annan hátt. Tannkrem á frunsur, kaffibletti, túss, stórar graftrarbólur á kynfærum...eða var það eitthvað annað?...en hér kemur eitt húsráð sem inniheldur ekki tannkrem og virkar.
Ef þið fáið kertavax í klæðnað eða dúka o.þ.h., leggið dagblað yfir svæðið og strauið yfir með heitu straujárni. SVÍNVIRKAR!

Hvaða tónskáld hefur samið algjörlega einradda fúgu, en þó með mörgum "röddum", og hvert er heiti verksins? (ég hef ákveðið strengjaverk í huga...)

23.1.04

Óhemju löngun í veraldlegt drasl!
Ef einhver veit um svona c.a. 319 þús.kr. sem hann veit ekki hvað á að gera við, þá get ég alveg komið að liði. Mig langar nefnilega í nýja tölvu, PowerBook G4,17" SuperDrive. Þá vitið þið það...

Vill annars benda á ansi skemmtilegan penna, Jónas Sen, sem ég er búinn að bæta við í HversDags listann minn. Sótsvartur húmor í bland við ýmsan fróðleik og kvikindisskap. Maður sem liggur ekki á sínum skoðunum. Fær þó ekki alveg fullt hús þar sem síðan hans er einstaklega ljót, fölfjólublá með laxableikuívafi, en það er víst innihaldið "som bliver".

Ég óska Tryggva til hamingju með tónlistarverðlaunin og góða frammistöðu í hinni sívinsælu tónlistargetraun minni (sjá netlu 18.01.04).
Næsta spurning er eftirfarandi:
Hver samdi annan píanókonsert sinn árið 1957 og hverjum var hann tileinkaður? Konsertinn er í þremur köflum, er í F-dúr og hefur opus númerið 102.

18.1.04

Skid og ingenting!
Í gær fórum við Þyri í Kvickly og fjárfestum í nótum. Það hljómar svolítið furðulega fyrir þá sem þekkja til í dönskum súpermarkaðaheimi. Kvickly er eins konar Hagkaup. Ekki eins fínt og Føtex (Nýkaups lignende) né heldur eins ódýrt og Netto (Bónus lignende). En s.s. við keyptum okkur nótur í Kvickly og ekki nóg með það heldur var þetta líka hlægilegt verð! Ég keypti mér alla píanótónlist eftir Beethoven á 199 d.kr. og alla píanótónlist eftir Grieg og Brahms á 198 d.kr! FÁRÁNLEGT! Bækurnar eru reyndar gefnar út af Könemann (þessi sem hefur það að markmiðið að framleiða ódýrari nótur en það kostar að ljósrita aðrar útgáfur) en mér er sama. Gott til að nota í greiningar og til að glamra á síðkvöldum. Reifarakaup.

Ég er að fara á óperu á eftir. Krakkarnir í skólanum eru að setja upp óperu eftir Benjamin Britten. Þetta er gamanópera (opera buffo) í 3.þáttum við texta eftir Eric Crozier. Var frumsýnd á sínum tíma í Glyndebourne árið 1947. Og nú kemur spurning dagsins (svör berist í "athugasemdarkerfið" hér að neðan): Hvað heitir óperan, hvert er nafn aðalpersónunnar og hvernig myndi nafn aðalpersónunnar áðurnefndu útleggjast á íslensku?

10.1.04

Völvuspá Baggalúts: Míms sýnir
Þetta er það fyndnasta sem ég hef lesið á nýju ári:

Hjartaknúsarinn Hallbjörn Hjartarson getur barn með hinni dökklokkuðu Leoncie - sannast með því spádómar Inka um hinn tónlistarlega and-krist, sem getið er í fornum handritum:

Paroz II. 27-30: "Og sjá hinn ómstríði mun koma úr norðri og færa tónlistarmenningu heimsbyggðarinnar allrar niður á áður óþekkt plan lágkúru. Tvær áttundir glatast að eilífu."


Hér getið þið lesið alla völvuspána.

5.1.04

Á batavegi
Sökum góðra batakveðja (kveðjur, kveðjur, kveðjum, kveðja?...allavega takk þið öll), hvítlauks, sólhatts, lýsis og inniveru er ég að hrista af mér þennan kverkaskít. Vona að ég verði nógu hraustur til að hjálpa vinum okkar að flytja á miðvikudaginn. Frábært að byrja árið á svona aumingjaskap. Vona bara að ég hafi tekið þetta út fyrir árið í þetta skiptið.

Fengum annars Sigrúnu og Skúla í mat áðan. Ég eldaði mitt heimsfræga lasagne og hafði nóg af hvítlauk. Jömmí...þó ég segi sjálfur frá!

Jæja, best að vinda sér í bólið og klára Bettý...þeas klára að lesa bókina "Bettý". Las Mýrina um daginn. Ansi grípandi tímaeyðsla. Hef aldrei nennt að lesa svona glæpasögur, en þetta er auðlesið efni sem heldur manni við lesturinn.

flemm, flemm, flemm!

3.1.04

Háramót og annað
Nýja árinu var tekið fagnandi og með glæsibrag hérna í Árósum. Íslenska lambalærið var gott, heimagerði ísinn var BARA mjög góður og ræða drottningar fór fyrir ofan garð og neðan. Flugeldakakan sem við Róbert keyptum var sú flottasta í hverfinu, þó svo að hún hefði verið á 50% afslætti.

Í dag er ég veikur. Hiti og hálsbólga, þannig að ég nenni ekki að skrifa meira. Snít!