29.12.03

"I'm dreaming of a white christmas..."
Afsakið netluleysið yfir hátíðina. Það hefur bara verið í nógu að snúast. Síðast þegar ég skrifaði þá höfðum við nýkeypt tréð okkar yndisfríða. Það hefur sko staðið sig vel. Ekki fellt eitt einasta barr. Skarta sýnu fegursta, enda hefur það útsýni yfir góðan hluta Árósa.
Á aðfangadag sungum við í messum, þremur messum. Sungum að sjálfsögðu eins og englar. 2 um daginn og 1 miðnæturmessa. Við snæddum önd sem Prumpulína var búin að steikja í 6 tíma! Þvílík snilld. Hún fann uppskriftina á netinu. Við tróðum eplum og sveskjum í rassgatið á öndinni og pipruðum og söltuðum hana. Inn í ofninn á ekkert of háan hita. Eftir 6 tíma var c.a. 1 ltr. af fitu kominn í skúffuna undir öndinni, en mikið rosalega var hún góð! Jömmí!
Við tókum því svo bara rólega, vöskuðum upp, ég lagaði mér espresso og svo var hafist handa við gjafirnar. Vissum eiginlega ekki hver ætti að lesa á pakkana, en það leystist nú og allt var opnað. Ég fékk fullt af fallegum gjöfum. Fullt af góðum og spennandi bókum, að sjálfsögðu eitt par af hlýjum sokkum (algjört must!), geisladiskinn með Lisu Ekdahl (hún er uppáhalds sænski kvk. trúbadorinn minn, bara fín), vel ilmandi sturtusápu ofl.ofl. Takk til ykkar allra!
Eftir ris a'la mand og gjafaupptekt þá fórum við í miðnæturmessuna. Ég fór að sjálfsögðu í mínum hátíðarfötum sem ég hafði verið í frá því kl. 18 og Þyri í sínu fínasta pússi. Að sjálfsögðu...en ekki í Danmörku. Danir eru ÓTRÚLEGA púkalegir þegar kemur að því að vera í "sparifötum". Þeir eiga örugglega EKKI spariföt. Það voru bara flestir í sínum gallabuxum oþh. Ekkert meira hátíðlegra en í venjulegri messu. Þetta fannst mér frekar púkalegt. En við sungum og gekk vel.
Jóladagur fór í að syngja messu og fara í hangikjötsveislu til vinafólks okkar. Mjög huggulegt og gaman.
Annar jóladagur fór í að syngja í messu (að sjálfsögðu) og snæða bestu sjávarréttarsúpu sem ég hef smakkað, með vinafólki okkar hér heima hjá okkur.
Á laugardaginn fórum við í heimsókn til ættingja okkar sem búa ekki langt frá Árósum (fórum til Horsens og Julesmynde) og áttum góðan dag með þeim.
Í dag, eftir að ég hafði sungið í messu, sváfum við :-) Úti var mígandi rigning. Notalegt að kúra sig inni.

Þar hafið þið það.
Áramótin framundan. Engin ræða með Dabba feita, engvir fréttaannálar, ekkert skaup, engin brenna, engin svið á Hlíðargötu 24, engvir ættingjar. Aftur á móti verður ræða með Margréti Þórhildi og huggulegheit með góðum vinum. Kannski einhverjir flugeldar í lofti og jafnvel skálað í freyðivíni...allavega munum við hafa það gott.
Vona bara að það rigni ekki eins og undanfarið.

Engin ummæli: