29.12.03

"I'm dreaming of a white christmas..."
Afsakið netluleysið yfir hátíðina. Það hefur bara verið í nógu að snúast. Síðast þegar ég skrifaði þá höfðum við nýkeypt tréð okkar yndisfríða. Það hefur sko staðið sig vel. Ekki fellt eitt einasta barr. Skarta sýnu fegursta, enda hefur það útsýni yfir góðan hluta Árósa.
Á aðfangadag sungum við í messum, þremur messum. Sungum að sjálfsögðu eins og englar. 2 um daginn og 1 miðnæturmessa. Við snæddum önd sem Prumpulína var búin að steikja í 6 tíma! Þvílík snilld. Hún fann uppskriftina á netinu. Við tróðum eplum og sveskjum í rassgatið á öndinni og pipruðum og söltuðum hana. Inn í ofninn á ekkert of háan hita. Eftir 6 tíma var c.a. 1 ltr. af fitu kominn í skúffuna undir öndinni, en mikið rosalega var hún góð! Jömmí!
Við tókum því svo bara rólega, vöskuðum upp, ég lagaði mér espresso og svo var hafist handa við gjafirnar. Vissum eiginlega ekki hver ætti að lesa á pakkana, en það leystist nú og allt var opnað. Ég fékk fullt af fallegum gjöfum. Fullt af góðum og spennandi bókum, að sjálfsögðu eitt par af hlýjum sokkum (algjört must!), geisladiskinn með Lisu Ekdahl (hún er uppáhalds sænski kvk. trúbadorinn minn, bara fín), vel ilmandi sturtusápu ofl.ofl. Takk til ykkar allra!
Eftir ris a'la mand og gjafaupptekt þá fórum við í miðnæturmessuna. Ég fór að sjálfsögðu í mínum hátíðarfötum sem ég hafði verið í frá því kl. 18 og Þyri í sínu fínasta pússi. Að sjálfsögðu...en ekki í Danmörku. Danir eru ÓTRÚLEGA púkalegir þegar kemur að því að vera í "sparifötum". Þeir eiga örugglega EKKI spariföt. Það voru bara flestir í sínum gallabuxum oþh. Ekkert meira hátíðlegra en í venjulegri messu. Þetta fannst mér frekar púkalegt. En við sungum og gekk vel.
Jóladagur fór í að syngja messu og fara í hangikjötsveislu til vinafólks okkar. Mjög huggulegt og gaman.
Annar jóladagur fór í að syngja í messu (að sjálfsögðu) og snæða bestu sjávarréttarsúpu sem ég hef smakkað, með vinafólki okkar hér heima hjá okkur.
Á laugardaginn fórum við í heimsókn til ættingja okkar sem búa ekki langt frá Árósum (fórum til Horsens og Julesmynde) og áttum góðan dag með þeim.
Í dag, eftir að ég hafði sungið í messu, sváfum við :-) Úti var mígandi rigning. Notalegt að kúra sig inni.

Þar hafið þið það.
Áramótin framundan. Engin ræða með Dabba feita, engvir fréttaannálar, ekkert skaup, engin brenna, engin svið á Hlíðargötu 24, engvir ættingjar. Aftur á móti verður ræða með Margréti Þórhildi og huggulegheit með góðum vinum. Kannski einhverjir flugeldar í lofti og jafnvel skálað í freyðivíni...allavega munum við hafa það gott.
Vona bara að það rigni ekki eins og undanfarið.

21.12.03

Jólatréð í stofu stendur, stjörnuna glampar/vantar á
Gærdagurinn var stór dagur í mínu lífi. Afhverju það? Jú, ég keypti lifandi jólatré í 1.skipti á ævinni. Á Hlíðargötunni hefur aldrei verið lifandi jólatré síðan ég man eftir mér. Þar er sígrænt og óbarrfellandi plastjólatré. Mér finnst það samt alveg fallegt þegar ljósin eru komin á og allt draslið sem foreldrar mínir eru búnir að safna sín undanfarin búskaparár. Sögulegt jólatré. "Við verðum líka setja jólasveininn sem Daníel gerði í 3.bekk á tréð" og "Nei sko, þarna er jólakúlan sem pabbi þinn gaf okkur fyrstu jólin okkar, Maja mín." eru setningar sem falla þegar litla plasttréð er skreytt.
Tréð sem við keyptum í gær var "ást við fyrstu sín". Tréð stóð við innganginn að jólatrjáasölunni fyrir framan kirkjuna mína og það beinlínis kallaði á mig. Hæð þess er fullkomin í stofuna okkar og svo er það jafnþétt. Væri garanterað búið að höggva það í "skóginum" hans pabba...þeas hefði hann tímt því, það er svo fallegt.
Trénu var smokrað í net og svo fékk það salíbunu með Århus Sporveje heim. Nú prýðir það stofuna okkar ásamt 50 ljósum og nokkrum kúlum. Virkilega fallegt.

Það er ekki bara tréð sem fyllir mann af jólahug, onei. Mömmur okkar Þyri hafa líka séð um það. Við erum bæði búin að fá huggulega pakka með bragðgóðum smákökum, aukreitis við þær sem Þyri bakaði, þannig að við höfum ekki þörf á að baka meira. Takk mömmur og pabbar!

Ekki má gleyma öllum pökkunum og kortunum sem okkur hafa borist með póstinum. Allt að fyllast. Það stefnir í heljarinnar vinnu á afðfangadagskvöld við að opna þetta allt. Maður nær varla að gleypa í sig öndina og gúffa í sig grautnum á milli messa (...okok, messna, en bara fyrir þig Daníel!;-). Það eru nefnilega 3 messur sem við syngjum í á aðfangadag. En það verður bara fínt. Maður er allavega ekki að velta sér upp úr heimþrá á meðan. Allavega stefnir í að við munum hafa það verulega gott, hérna í Árósum, um jólin.

17.12.03

Jul, jul, strålende jul...
Á örfáum dögum hefur risíbúðin okkar breyst í jólarisíbúð. Þyri er búin að skreyta og gera voðalega huggulegt, eins og henni einni er lagið. Gyllti jólagrísinn frá Georg, sem Nína og Hilmar gáfu okkur, hangir í kvisti og einnig nokkrar negulstungnar mandarínur. Það lítur út fyrir að jólin verði barasta hin huggulegustu þrátt fyrir að þau verði haldin á danskri grundu.
Hef ekki orku í meira...þessi jólakort taka svo mikla orku að ég er orðinn rangeygður og vitlausari. Go' nat!

12.12.03

Julefrokost part II.
Í gær var julefrokost hjá Sct.Paulskirke sóknarnefnd...já hljómar ekki vel...en það var mjög gaman. Maður verður sko náttúrulega að átta sig á því að ef maður vill eitthvað gott með kaffinu eða bara góðan mat yfir höfuð þá er hann að finna í sóknarnefndum, eða allavega í kirkjum. Yfirleitt eru nefnilega eldri konur sem starfa fyrir sóknarnefndir þegar kemur að einhverju matarkyns og oftast nær eru þær brilliant kokkar. Maður gleymir t.d. ekki kökuhlaðborðinu hjá kvennfélaginu í Neskaupstað, með Dóru Marteins í broddi fylkingar...allavega í mínum augum, því hún sá sko til þess að hann Stebbi litli fengi eitthvað..., þegar maður var að spila fyrir gamla fólkið sem var líka að spila, á spil. Eitthvað sem maður gleymir aldrei. Við bræður spiluðum þó nokkrum sinnum. Gamla fólkið var reyndar svo niðursokkið í spilamennskuna að það þurfti að sussa á suma, og svo hófust umræður kannski, í miðju lagi, um hverra manna þessi drengir nú væru og ekki virkuðu heyrnatækin hjá öllum. En þetta var mjög gaman og eins og ég segi, alltaf eitthvað gott með kaffinu og nóg af því.
Ég var s.s. í gær í svona julefrokost þar sem tvær konur sáu um matinn. Það var greinilegt að þær höfðu gert svonalagað áður. Maturinn var frábær.
Á borðum var eftirfarandi (en NB þetta var borið fram í eftirfarandi röð, ekki allt sett á eitt hlaðborð...onei...heldur tók þetta langan tíma, c.a. frá 19.30-23.30! með leikjum og söng inn á milli) :
Fyrst var "hvít og rauð" marineruð síld með karrýsalati og marineruð steikt síld.
Næst kom steikt rauðsprettuflök (fyrir þá sem ekki þekkja þá eru þetta djúpsteikt flök með rasp utan á, örlítið stökk) með remúlaði.
Þar á eftir var svo borið á borð heit lifrarkæfa með beikoni og súrar gúrkur með, skinka með "ítölsku" baunasalati, svínasteik með puru og rauðkál með, kjúklingalæri og æbleflæsk (já, beikon og epli steikt saman á pönnu, er glettilega gott).
Sem "nattemad" (sem reyndist var aðeins í fyrra fallinu) voru rækjur og mayonais og sítrónur með ef maður vildi.
Svo voru bornir fram ostabakkar og kex og vínber.
Til að slútta þessu var svo ris a'la mand (ég fékk ekki möndluna, allavega ekki heila möndlu) með heitri kirsjuberjasósu og kaffi.
Ekki má gleyma að það var rúg,-og fransbrauð með öllum réttunum og gos, rauð,-og hvítvín og öl til að skola þessu niður með.
Sennilega var þetta flottasti julefrokostinn í ár...á einn eftir og hann er með tónskáldunum í deildinni, reikna ekki með svona fínheitum þar ;-)
Ég fór ekki svangur að sofa.

11.12.03

Amma sá afa káfa af ákafa á Samma
Þeir sem EKKI hafa lesið samhverfurnar á Baggalútur.is skulu smella hér.

10.12.03

Leiðinlegi pistillinn
Það sem gerist hjá mér þessa dagana er ekki mikið annað en músík, músík og svo einn og einn jólafrókostur...svo meiri músík. Frábært!

Það hefur verið heilmikil tónfræði törn síðastliðnar vikur. Ástæðan er sú að í staðin fyrir að hafa tíma í hverri viku þá höfum við nokkur seminar (hóptíma, námskeið?) um árið um eitthvað eitt ákveðið efni. Nú er það Schubert blessaður.
Ástæðan fyrir því að við fjöllum um Schubert er aðallega sú að kennarinn minn í tónsmíðum, Karl Aage Rasmussen, hefur notað síðasta ár í að fullgera óperu eftir Schubert, óperuna Sakontala. Schubert lifði ekki lengi blessaður, varð einvörðungu 31. árs, og hann skrifaði um það bil 1000 verk (fullkláruð þá, held ég) og hann byrjaði 15-16 ára að semja! Það hefur verið kannað hversu lengi það tæki atvinnu nótnaritara að hreinskrifa allar þær nótur sem Schubert hefur skrifað í verkin sín og það tæki hann c.a. 47 ár!
Jæja, yfir í óperuna aftur. S.s. Karl Aage hefur setið með afrit af handritum Schuberts með þessari ófullgerðu óperu. Söguna bakvið afhverju hann hefur gert það nenni ég ekki að fara með...ef þið hafið einhverja mótbárur þá vinsamlegast kvartið í athugasemdarkerfið hér að neðan.
Það sem hefur verið hans verk er að gera uppsetningarhæfa óperu úr aðeins 2.þáttum. Það hefur honum tekist. En þetta er meira en bara að hreinskrifa músík. Schubert samdi nefnilega rosalega hratt, eins og verkafjöldinn gefur til kynna, það er t.d. talið að það tók hann ekki meira en 3 mánuði að skrifa þessa 2 þætti (sem eru c.a. 400 bls. samtals). Þannig að Schubert skrifar bara út söngraddirnar með texta og svo einn og einn takt í hljóðfærunum, eiginlega bara minnismiða, því hann hefur haft alla þessa músík í hausnum, þurfti bara aðeins hjálp við að muna ef eitthvað sérstök hljómsetning átti að vera í þessum takti, eða hvernig mótív strengirnir áttu að spila.
Nú hefur Karl Aage klárað þetta og óperan er uppsetjanleg. Samkvæmt librettóinu ætti óperan að vera lengri, en 3.þáttur er bara svo lélegur textalega séð að það væri engum greiði gerður með að setja músík við hann, og það hefur Schubert greinilega þótt sjálfum...allavega hætti hann.
En nú höfum við í tónfræðideildinni fengið það verkefni að gera slíkt hið sama við vel valdar aríur úr þessari óperu. Þ.e.a.s við eigum að hljómsetja og hljóðfærasetja laglínu í Schubert-stíl. Hljómar ekki spennandi fyrir ykkur öll...en ég er mjög spenntur að sjá hvað kemur út úr þessu. Við erum náttúrulega búin að greina soldla glás af músík eftir hann og hlusta töluvert þannig að við vitum aðeins um hans tónamál.

Á föstudaginn síðasta var jólafrokost (kl.18.30!) í UNI-kórnum. Róleg samkunda eins og vanalega hjá þessum kór. Maturinn var fínn og við höfðum það verulega huggulegt, en það er bara eitthvað að partýgenunum þegar þessi hópur hittist. Góður hópur samt. Heimagerða lifrarkæfa Carstens (stjórnandinn) sló rækilega í gegn...amminamm...með stökku beikoni og rúgara...jömmí! Síldin var heldur ekkert slæm. Öllu skolað niður með "et par beger" og smá snafsadreitli.

Í gær voru svo tónleikar. 1.tónleikarnir í mínu lífi þar sem ég syng SÓLÓ! Ég fékk hlutverk Heródesar (Heróðes...muna að leggja áherslu á "ó-ið" og hafa mjúkt "r" sem liggur aftarlega í kokinu, ekki skrolla á því samt ;-) í verkinu eftir Distler. Á prógramminu var Hugo Distler: Die Weihnachtsgeschichte, Arvo Pärt: Sieben Magnificat-antifoner og Svend Nielsen: Kapitler..."fra tårnet ved verdens ende". Þetta gekk...en við brilleruðum ekki. Allt á síðasta snúningi. Vonandi verða tónleikarnir í Álaborg, í kvöld, betri.

Þá hafið þið lesið það sem á daga mína hefur drifið...nei gleymdi einu! Undanfarnar nætur hef ég vaknað svona um 5 leytið við hanagal! Aldrei heyrt í honum áður, en það er greinilegt að það er hani í hverfinu sem lætur snemma í sér heyra. 1. hélt ég að mig væri að dreyma, en nóttina á eftir ákvað ég að vakna aðeins og leggja við hlustir. Jújú, real hani var þarna á ferð! Gaman að því. Klöppum fyrir hananum.

4.12.03

Krakkaskrattar
Ég var ALDREI hýddur í barnæsku, enda þurfti ekki til. Var einstaklega þægur og prúður krakki. En stundum held ég að kennarar og aðrir sem hafa eitthvað með börn að gera ættu að fá að ganga um með bambusprik (eða hamar eins og Viddi gerði þegar hann kenndi okkur dönsku :o) og nota á þessa krakka við tækfifæri. Það er reyndar vandræði að segja til um hvenær er tækifæri, en ég varð vitni að einu núna áðan á leiðinni í skólann.
Fyrir neðan penthousið mitt er svona skóladagheimili (held að það sé skóladagheimili) þar sem krakkarnir fá áframhaldandi ummönnun, eftir að skóla lýkur, af öðrum en foreldrum. Bráðnauðsynlegt í nútímasamfélagi þar sem að allir þurfa að keppast við að eiga aura til að geta keypt allt draslið handa krakkanum, því krakkinn er ekki ánægður nema að hann eigi allt það sem vinirnir eiga og helst aðeins meira til, og svo náttúruleg verða foreldrarnir að geta státað af því sama og nágranninn og eiga helst aðeins meira. Ég gekk framhjá þessu dagheimili á leiðinni í skólann (ákvað að ganga í skólann, ekki hjóla, þar sem ég hafði nægan tíma og það tekur ekki nema 5 mín að labba þetta ;o) Á lóðinni fyrir framan þetta "heimili" er leikvöllur og á leikvellinum var búið að planta risastórri kurlvél, til að kurla greinar. Það var búið að berstrípa trén og eftir stóðu haugar af greinum og klunnalega vaxin tré. Garðyrkjumennirnir voru byrjaðir að kurla. Það var greinilegt að krakkarnir máttu ekki vera úti vegna þessa skaðræðis tækis, og skil ég það vel, það hefði getað hakkað einn krakka eins auðveldlega og það var auðvelt fyrir garðyrkjumanninn að skola niður bjórnum með hádegismatnum (þetta var kurlvél af stærrigerðinni, verulega "pro"). Nema að það voru tveir guttar með hor að sniglast þarna í kringum. Fljótlega kom ungur maður og kallaði til þeirra að þeir ættu að koma inn. Strákarnir voru ekkert að sinna því. Héldu bara áfram að sniglast. Þá þurfti maðurinn að labba í átt til þeirra og öskra enn hærra (vélin olli töluverðri hávaðamengun) að þeir mættu ekki vera þarna. Öskraði þá ekki annar krakkaskrattinn "HOLD KÆFT!" upp í opið geðið á "barnapíunni".
Hvað gerði sá í uppeldishlutverkinu? Ekki neitt! Hann má ekkert gera, annað en að tala við börnin og reyna að útskýra að það er hættulegt að umgangast svona tæki og vinsamlegast (með blíðum rómi) að koma inn.
Ekki nema von að samfélagið er ekki betra en það er!
At vente
Jú nú bíðum við. Höfum reyndar gert það í 4 daga. Gleðilega aðventu öll sömul...mér láðist víst að óska ykkur þess þarna um daginn.
En vegna aðventunnar þá hafa danirnir yfirvinnu í "hygge"-deildinni. Maður eins og ég hefur gaman af að gjóa inn um glugga þegar myrkur er úti og ég á kvöldgöngu. Þetta er ekkert vandamál...er ekki ennþá búinn að læra að lesa af vörum eða þannig...mér finnst bara gaman að sjá hvernig fólk býr. Þetta kannast allir við...uuu...vona ég ;-)
Aaaalllavega, þá sér maður allsstaðar kerti og fólk í yfirtíð við að "hygge sig", þjóðaríþrótt dana eins og einhverjum varð á neddi/netli/bloggi.
En samhliða öllu þessu heimahuggeríi þá þykir tilvalið að hafa tónleika í kirkjum landsins. Gamla fólkið dustar af sér mesta rykið og fer í sparifötin...nei bíddu!...það gerist ekki í danmörku, fólk á EKKI spariföt...en allavega þá mætir gamlafólkið og örfáir aðrir slæðast með. Ég var t.d. á tónleikum á laugardaginn með Domkirke kantori (Dómkórinn) og splunku nýja drengjakórnum þeirra. Þegar drengirnir voru búnir að ryðja út úr sér jólalögunum, "Það aldin út er sprungið" var í double-tempo, þá fór stór hluti af públíkum. Varð að drífa sig heim að halda áfram að hygge...eða versla, þetta var jú kl.12 á laugardegi...en hafði ekki tíma til að heyra restina af tónleikunum. En gamlafólkið sat áfram!
Aaaalllavega (part II), þá voru tónleikar í gærkvöldi með Sct. Pauls kantori (Kór Heilags Páls) sem ég syng í. Þetta voru bestustu aðventutónleikar sem ég hef sungið. Prógrammið innhélt ekki nein hálfpoppuð jólalög í lokin, eins og svo vinsælt er, heldur hafði góða og fallega jólasálma í lokin ("Hvorledes skal jeg møde" í JSB (EKKI jazzballetskólibáru) raddsetningu, "En rose så jeg skyde" í "raddsetningu" Hugo Distlers, "Barn Jesu i en krybbe lå" eftir Gade og svo "Forunderligt at sige" eftir þjóðartónskáldið Carl Nielsen).
Áður en við sungum þessa sálma voru stærri verk flutt eins og t.d. "O tod, wie bitter bist du" e. Max Reger. Einnig voru 2 einsöngvarar úr kórnum sem sungu nokkra vel valda ópusa.
S.s. blandað prógram, en mjög fallegt og heilsteypt.
Ég held ég hafi aldrei upplifað eins mikla stemmningu í kórnum. Kórinn er lítill (c.a. 15) en hann hljómaði verulega vel. Söng sumt best á tónleikunum sjálfum. Kom verulega á óvart. Svo snæddum við "æbleskiver" (hefur ekkert með epli að gera...þetta er svona kúlulaga djúpsteikt kleinudeig, etið með flórsykri og sultu) og drukkum kaffi. Hyggehygge!
Ég gat ekki sofnað þegar ég kom heim, sökum spennu í taugakerfinu eftir tónleikana. Höfðum betur fengið okkur "julebryg"...