30.11.03

Frumflutningur
Jæja! Þá er búið að frumflytja nýjasta slagarann minn, Morrk, fyrir 7. gítara og harmóníku. Nú getið þið bara beðið eftir að þeir á MTV fara að spila myndbandið...allir í sundfötum og harmóníkuleikarinn dansar eggjandi dans...tja...eða...kannski ekki. En þetta gekk vel og ég er bara þokkalega ánægður. Svo var ágætlega mætt...þeas á svonatónleika mælikvarða...c.a. 45.
Allavega, Morrk rokkar feitt.

28.11.03

Heimsmeistarinn ÉG
Vildi bara láta ykkur vita að ég bý til bestasta lasagne í öllum HEIMINUM!
Annað var það ekki.
Eða jú!
Ég er bestastur í heiminum að semja músík, þ.e.a.s músíkina mína.
Þar með er það upptalið.
DonGiovanni
Þær breytingar sem Mozart gerði á óperunni Don Giovanni þegar hún var flutt í Vín, en óperan var frumflutt í Prag 29.október 1787 og sló rækilega í gegn, eru þó nokkrar og má segja að það sé allt önnur ópera sem hinir "léttmetiselskandi" Vínarbúar fengu að heyra í maí 1788. Breytingarnar eru eftirfarandi:
Don Ottavio, sem var sunginn af tenórnum Morelle, fékk nýja aríu í 1.þætti (nr.10a, Dalla sua pace), en aftur á móti var aríunni hans sleppt í 2.þætti (nr.21a, Per questo tue manine). Stjörnusópraninn Catarina Cavallieri, sem söng hlutverk Donnu Elviru, fékk auka aríu (með tilheyrandi samleiks sönglesi, "accompagnato-recitativ") í 2.þætti (nr. 21b, In Quali eccessi) og atriðinu með Zerlinu og Leoporello (nr.21a, Per questo tue manine) var bætt við. Svo var lokasextettnum sleppt!, þannig að óperan endar með dauða Don Giovannis, og hans inngöngu í helvíti, í d-moll.
Þar hafið þið það. Ef þið skilduð vilja lesa meira um þessar breytingar á óperunni (þó helst um yfirstrikun lokasextettsins) þá kíkið á þetta. Þaðan hef ég mínar heimildir.

23.11.03

Uppáhald
Þetta er frábær síða!

22.11.03

Hjá vinum
Þessa stundina er ég í heimsókn hjá Sigrúnu og Skúla. Þau buðu mér í heimsókn svona þar sem að ég er grasekkill þessa dagana...voru eitthvað hrædd um að ég myndi svelta (as if!). En ástæðan fyrir því að ég skrifa þetta þar, er sú að Sigrún bað mig um að sýna sér smá í sambandi við blogger-vefsíðu-viðhalds-kerfinu...orð sem ég heyri stundum Huga Þórðar nota, er nýlega búinn að fatta hvað það þýðir...og hér er hlekkur á síðuna þeirra (þessa nýju)

Á föstudaginn þá sá ég Don Giovanni í 1.skipti. Gaman. Sá Prag útgáfuna, þannig að spurning dagsins er:
"Hver er munurinn á Pragútgáfunni og Vínarútgáfunni á Don Giovanni eftir Mozart?"
Svör berist í athugasemdarkerfið hér að neðan.

13.11.03

Rass
Um daginn átti frændi minn, hann Adrian, afmæli. Hann varð 7 ára. Í tilefni af þeim merka atburði sendi ég honum geisladisk. Geisladisk með músík sem danska rappbarnastjarnan Razz flytur. Ég tók eiginlega smá séns með þessari gjöf, því ég hafði ekki hugmynd um hvort hann hefði áhuga á tónlist yfir höfuð, hvað þá dönsku barnarappi. En annað kom nú í ljós. Hann var það ánægður að hann sendi mér sjálfskrifaðan tölvupóst! Nú hlustar hann á hverju kvöldi á Razz rappa á dönsku og hefur ekki hugmynd um hvað hann er að segja. Sem betur fer segir hann ekki neitt ljótt, eins og "fuck your mother, rape your sister!" eða annan dónaskap. Hann heyrði jú að hann sagði "pleisteisjón" í einhverri strófunni. Það skilur hvert mannsbarn í vestrænum heimi.
Svo finnst honum svaka fyndið að rappstrákurinn heitir RASS!
Kickflipper high!

10.11.03

Hnakkatal
Ég syng í kór, UNI-kórnum, og í þeim kór syngur einnig stúlka sem heitir Merete. Merete er að læra listasögu og er mjög áhugasöm um nýja list. Við Merete búum í sömu götu þannig að við erum ávallt samfó heim af æfingum á mánudagskvöldum. Við tölum saman um tónlist yfirleitt, eða áhugaverðar kvikmyndir eða eitthvað annað skemmtilegt.
Í kvöld vorum við samfó, að vanda, og við vorum að ræða um tímarit sem hún er áskrifandi að. Innihald blaðsinr er útgáfa á geisladiskum. Í framhaldi af því sagði hún mér frá búð í København "...þar sem maður fær diskana í hnakkann."
Að fá eitthvað í hnakkann!?! Er maður þá sleginn aftan frá í hnakkann með baseball-kylfu? Neinei, þetta þýðir að maður fær eitthvað ódýrt, gerir reifarakaup, fyrir skít og kanil, fyrir smáura o.s.fr.v. Einhvernveginn sé ég fyrir mér aldraðann búðarmann með handfylli af geisladiskum, grítandi þeim á eftir viðskiptavinum sínum, því þeir eru bara svo ódýrir.
Danir eru brilli!

8.11.03

Hlekkir
Kæru vinir og velunnarar.
Ég vil benda ykkur á nýjann hlekk, hér vinstramegin á síðunni, sem mun leiða ykkur á nedduna hennar Ingibjargar Huldar, verðandi arkitekts og lífskúnstner. Hlekkur sá sem birtist í nafni hennar í þessum skrifum leiðir ykkur á hina síðuna hennar, sem er greinilega notuð í öðrum tilgangi en að koma hugsunum dagsdaglega á netið.

Einnig hefur hann Daníel Bjarnason, tónskáld og stjórnandi, hafið ritstörf hjá blogspot.com. Gluggið endilega á hann. Hann hefur t.d. upp á það skemmtilega orð "nettla" að bjóða. Það er hans íslenska útgáfa á "blogg" eða "nedda" eins og ég hef stundum kallað þetta. Verð ég að játa að "nettla" er ansi beittara og skemmtilegra orð. Sjáum hvað setur. Hlekkurinn á hann er einnig ykkur að vinstri hönd.

Góðar stundir.

5.11.03

Hreinn og beinn

cmajor
C major - the simplest key. You are content with
where you are now, you have what you need. Some
people are happy in C major, but it is up to
you to decide to push yourself further if you
want more from your life.


what key signature are you?
brought to you by Quizilla

4.11.03

MasterCard
Um daginn fékk ég sent bréf frá því ágæta fyrirtæki, MasterCard. Meðfylgjandi var 4 ára gamall sjálfskuldarábyrgðarsamningur sem varaþingmaðurinn systir mín hafði undirritað á sínum tíma. Á samninginn var búið að stimpla á 3 stöðum "Ógildur". Í bréfinu stóð, orðrétt "...Í ljósi viðskipta þinni hefur skjalið (sjálfskuldarábyrgðin) verið ógilt og að sinni er ekki óskað eftir nýrri tryggingu." Svo var þakkað fyrir viðskiptin og lýst yfir von um áframhaldandi ánægjuleg samskipti.
Ég varð frekar ringlaður. Var verið að meina að ég hafi stundað svo rosalega viðskipti að mínum samningi var rift við fyrirtækið, en samt vildu þau eiga ánægjuleg samskipti við mig! Ætlaði þá einhver starfsmaður bara að hringja og spjalla við mig, bara því ég hef upp á svo ánægjuleg samskipti að bjóða? Ég varð eiginlega bara reiður, því ég hef ALLTAF borgað það sem borga átti og það sem borga átti hefur yfirleitt verið lítið (nota ekki kortið nema þegar ég ferðast og þegar ég kaupi flugmiða). Svo var mér bara hent út á gaddinn án nokkurra viðvarana. Ég var farinn að sjá fyrir mér að einhver hafi komist yfir kortanúmerið og væri farinn að spreða í einhverja vitleysu og viðbjóð. Sá fyrir mér fyrirsögnina "Tónskáld (25) keypti aðgang að barnaklámi (6-12) í gegnum internetið" í Séð og Heyrt.
Svo hringdi ég í blessað fyrirtækið og fékk samband við afar ljúfraddaða stúlku sem kynnti sig almennilega og bauð fram þjónustu sína. Ég sagði henni frá þessu bréfi. Þá tjáði hún mér að samningurinn væri útrunninn og þar sem ég væri svo góður kúnni þá ÞARF ég ekki að hafa samning um sjálfskuldarábyrgð. Bíddubíddu, get ég þá eytt og eytt í vitleysu og enginn tekur ábyrgðina nema ég? "Já", sagði stúlkan með þjónustulundina. Á nokkrum sekúndum sá ég ALLA mín drauma rætast, ferðast um allan heiminn, kaupa Hammond (B-3 sko með Leslie) og flygil, fallegt hús með vinnuaðstöðu, ráða stúlkuna sem símadömu, LandCruiser í hlaðinu, arinn og gott safn af viský og snöfsum, flottu hnífapörin frá GeorgJensen (...já! mig langar soldið í þau!), stóran ísskáp og bað fyrir minnst tvær persónur. En jæja, ætli ég láti það ekki ógert, einhver yrði jú að borga þetta einhverntímann.