29.9.03

Þau sem fjölga mannkyninu
Eins og sjá má þá hef ég bætt við einum hlekk ykkur á vinstri hönd. Það eru þau Arnlaug og Ragnar Páll sem tengjast mínum sívinsæla vef. Þau eru að rækta barn og mun það spretta út í kringum áramót. Vegna þessara atburða eru allir heimafyrir á Fróni æstir í að sjá svokallaðar bumbumyndir. Þar sem Ragnar Páll er verðandi multimedia designer þá skellir hann bara upp einni síðu undir herlegheitin.

Var annars að koma af kóræfingu. Kórinn er að spá í að taka upp vísurnar mínar næsta haust. Góð hugmynd.

25.9.03

Nýjustu fréttir
Nú er Olla litla skólausa komin með nýja síðu. Þannig að hlekkurinn hennar, hér að vinstri hönd, ætti að fúnkera fínt. Haldið'ún Gróa hafi skó, þá held ég hún verði þvengjamjó, þegar hún fer að...já "að" hvað???

Annars hef ég ekkert að segja...nema kannski..."bróðir minn lenti í smá rugli þannig að hann bara flutti."

22.9.03

Ókunnugur gestur
HVER Í FJÁRANUM ER BOB!!!

21.9.03

Nautasteik í mallakút
Við fórum út að borða áðan. Vorum búin að þvælast með Ingibjörgu um bæinn, skoða Plakatmuseum og eitthvað skólaskip. Svo sáum við að á Argentíska veitingahúsinu Gaucho var tilboð á milli kl. 16 og 18. Steikur á hálfprís. Fínn staður. Við skelltum okkur bara á það. Mørbrad, kartöflur og grænmeti á 80 d.kr. er eitthvað sem maður slær ekki á hendinni á móti, sér í lagi þegar hamborgarinn á kaffihúsinu við hliðina kostar það sama.

Hekla spilaði leik í gær. Unnum 1-5. Enn og aftur skoraði ég ekki. Gaman samt að sprikla.

Annars urðu pizzurnar um daginn alveg frábærar. Verða betri og betri, þó svo við notum spelt í deigið. Notum aðferðina hans Huga Guðmunds. Bökum á hæsta hita á bökunarpappír og grind, ekki á plötu. Þurfa mun skemmri tíma og verða bara miklu betri. Osturinn undir og fá álegg. Amminamm hvað þær voru góðar. Við erum matargöt.

Söng í morgun í uppskerumessu (høstgudstjeneste). Bjóst jafnvel við að þeir myndu fórna Pálu Púrru á altarinu (ætli hún sé hrein mey?) eftir að ég sá hvernig kórinn var skreyttur (ekki sko kórinn sem syngur heldur fremsti hluti kirkjunnar), því að rétt fyrir framan altarið var stór heybaggi með kassa oná fullan af grænmeti. Svo var búið að raða fullt af grænmeti meðfram veggjunum í kórnum. Frekar svona "fórnarlegt" eitthvað. En gott að nútíminn er ennþá í sambandi við náttúruna og við erum minnt á hvaðan við fáum afurðirnar. Þetta sprettur jú ekki í kössunum í Føtex!
Smjattpattar sér byggðu bú. Þeir búa þar víst ennþá nú. Þeir fundu sér þar allt til alls áður en varði...

19.9.03

Ammæli
Ég hef líst því yfir að ég er sauður.
Þegar að afmælisdögum kemur þá er ég über-sauður. Man yfirleitt ekki eftir afmælisdögum, nema systkina minna, foreldra og Þyri...jú og Margrétar Þórhildar drottningar. Systir mín kær, varaþingmaður með meiru, gaf mér einu sinni afmælisdagatal þar sem hún var búin að merkja inn afmælisdaga flestra vina og vandamanna. Hellings vinna og góð gjöf.
Nema að í gær gleymdi ég enn einum afmælisdeginum. Hann Arnbjörn hringdi í mig á miðvikudaginn og sagði m.a. að hann væri nýbúinn að fá afmælisgjöf frá unnustu sinni. Ég spurði í fávisku minni hvenær hann ætti afmæli. Jú hann átti afmæli í gær, þ.e.a.s fimtudaginn 18.sept. Meira að segja stórafmæli, varð 30 ára. Svo hitti ég hann daginn eftir (í gær) á fótboltaæfingu.
Ég óskaði honum ekki til hamingju með afmælið fyrr en æfingin var búin, við búnir í sturtu, flestir búnir með einn øl og Ragnar Páll búinn að spyrja hvort ég hefði vitað að Arnbjörn ætti afmæli!!! SAUÐUR!!!
Eyddum kvöldinu svo í pylsu-köku-partý hjá Selmu og Róbert.

Jæja, nú er deigið orðið tilbúið til að fletjast út á fjöl og vera bakað svo í ofninum, sem flatbaka.

15.9.03

Hvað er...
grátt og duftkennt?
Svarið er álíka mikill skyndihlutur og Prumpulína mín rakst á í Føtexbæklingnum um daginn (Føtex er dönsk stórmarkaðskeðja, í fínni kantinum). Barnastartpakki! Þetta finnst okkur merkilegt. Hægt er að fá svona startpakka í IKEA, en þá er það ætlað fólki sem er nýflutt að heiman og á hvorki könnu né disk. Barnastartpakki inniheldur eina samfellu o.þ.h dót sem gott er að hafa ef maður skildi skyndilega eignast barn. "ÆÆÆ, ég á að eiga barn eftir nokkra daga! Sjitt hvað ég gleymdi því! Best að skjótast út í Føtex að kaupa barnastartpakkann."

Annars var Bryndís Zoega hjá okkur um helgina. Stórskemmtilega stúlkan sú. Fórum á Moesgård Museum með henni. Hittum þar fyrir "Mýrarmanninn" frá Grauballe. Hress að vanda. Hann er elsta varðveitta lík í heiminum. Merkilegt það. Fengum mjög fínan fyrirlestur um kappann.

Næstu helgi ætlar Ingibjörg Huld að mæta á svæðið. Hún er eins og Bryndís, einn af okkar stórfurðulegu en stórskemmtilegu vinum. Hlakka til.

11.9.03

NÆSTI!
Í gær fóru Nína og Hilmar. Frábær helgi með þeim.
Á morgun kemur fyrrv. sambýliskonan mín í heimsókn og verður fram á sunnudag. Hlökkum til því hún er með eindæmum skemmtileg.
Helgina eftir næstu kemur Ingibjörg Huld jafnvel í heimsókn.
Þetta er ekkert smá skemmtilegt. Gaman að fá svona marga skemmtilega gesti. Ætli maður leggist ekki bara í þunglyndi þegar líða tekur á skólaárið því ekki eru nein plön um fleiri gesti fyrr en næsta sumar. Þá hefur "gamla settið" einhver plön (HAHAHAHA þau með plön...nei ég meinti að þau hafa hugsað út í það að það gæti verið gaman að koma í heimsókn...svona einhverntímann...jafnvel..."sjáum hvað setur þegar nær dregur" ...etc.) um að kíkja hingað.

Ég er algjör sauður. Tók mig 25 ár að komast að því. Á þriðjudaginn átti ég að mæta í tónsmíðatíma kl.11. Ég mætti niður í skóla kl.08 til þess að prenta út nótur fyrir tímann og fór svo bara aftur heim (það átti sko að hefjast kennsla í herberginu með prentaranum kl.09 þannig að ég varð að klára að prenta fyrir það). Jæja. Svo mæti ég kl.11 og hitti kennarann minn og hann segist þurfa kaffi. Við töltum upp í kantinu, nema hvað að við hittum píanókennarann minn á leiðinni upp í kantinu. Ég heilsa bara og við höldum áfram. Tíminn gekk svo bara vel. En um kvöldið kíkti ég í "fílófaxið" mitt til þess að athuga hvenær ég ætti að mæta í píanótíma. Það hefði átt að vera kl.09.45 um morgunin!!! ÉG ER SAUÐUR!!!

8.9.03

Amminamminamm...nú næ ég þér amma mús...
Í gær var okkur bumbuskötunum boðið út að borða. Foreldrum Þyri, sem eru í heimsókn þessa dagana, þykir danskur matur svo góður að þau buðu okkur á Rådhus Café. Smørrebrøds Platte klikkar ekki og mæðgurnar fengu kálfasteik. Jömmí! Herlegheitunum skolað niður með øl og snafs. Gerist ekki danskara. Við ultum heim.

Í gærdag spiluðum við í SF.HEKLU leik og við unnum 1-5! Ég skoraði ekki...þannig að ég á "markvindilinn" ennþá í töskunni ;o)

6.9.03

Nýjir hlekkir
Hér til hliðar má sjá þá hlekki sem ég kýs að birta. Eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir þá hafa 2 hlekkir bæst í hópinn. Moldvarpan Hjörtur er kominn með síðu og Skødstrupbúarnir Sigrún & Skúli einnig. Óska ég þessum nýbökuðu síðueigendum hjartanlega til hamingju með nýja afkvæmið.

Heimsljós I að baki. Ekki allir fara á kirkjugarðsballið í haust sem hlökkuðu til þess í vor.

4.9.03

Festuge
Þessa dagana er Festuge í Árósum. Þetta er eins konar menningarnótt sem er teigð út í rúma eina viku. Bærinn er fullur af Indíánum að selja lopapeysur og spilandi á PANFLAUTUR! Ég HATA panflautur. Tja...eða...ég hata ekki panflautur ég hata meira músíkina sem oftast er spiluð á panflautur. Yfirleitt er þetta einhver sígild popplög og þeir spila með svona Karaoke undirspili. Hryllingur!
Svo er bærinn líka fullur af innflytjendum að selja Kebab. Þetta finnst danskinum vera ægilega heillandi og flykkist út á torgin til að drekka öl úr plastglösum og borða kebab.
Þetta er nú ekki alslæmt. Festugen hefur upp á helling af öðru að bjóða. T.d. voru tónleikar um daginn með kórnum mínum sem ég syng í. Gekk bara vel. Kirkjan er með langan eftirhljóm sem hentaði vel að verkinu mínu.
Svo fórum við sköturnar á alveg FRÁBÆRA tónleika í gær í Gran-teater. Þetta er dansteater. En nú var lifandi músík og dans. Ég hef aldrei farið á danssýningu áður. Fyrst spilaði Århus Sinfoniettan tvö verk eftir einhver tónskáld frá Asíu (Japan, Kína, Kórea...man það ekki því manni var ekki hleypt inn í salinn fyrr en á slaginu og svo voru ljósin dempuð um leið og maður settist, náði því ekki að lesa programmið). Verkin voru svona "allt í lagi". Hryllilegur hljómburður þarna inni. En svo kom að verkinu I Ching, eftir Per Nørgård, fyrir slagverk. Einleiksverk. Klikkað stykki. Ótrúlega vel spilað, drulluerfitt samt. Svo dönsuðu tveir Asískir dansarar við músíkin. Einstök upplifun. Mæli með að þið lesendur góðir nálgist þetta verk á CD. Hefur margsinnis verið innspilað. Þó er verkið "lífs" mun heillavænlegri kostur.
Eftir hlé var svo eitthvað stykki eftir einhvern Poul Rovsing Olsen. En dansinn var mjög svo flottur. Á sviðinu voru 7 kassar sem lágu á hliðinni. Ofan á kössunum sátu hljóðfæraleikararnir en inni í kössunum, sem voru ekki meira en rétt rúmlega 1 meter á hæð, voru dansararnir í einum göndli, hver í sínum kassa. Þar iðuðu þeir og lékur listir sínar í þrengslunum á meðan að tónlistarfólkið sat upprétt og spilaði músíkina. Stjórnandinn var svo með nóturnar dreifðar á gólfið í kringum sig. Ein senan var þannig að einn dansarinn var nakin (kvennkyns) og fór vel með nekt sína. Svo kveikti hún á kerti og gerði allskonar listir í kringum kertið sem hún hélt á. Reynið að ímynda ykkur hvernig það er að vera inni í kassa með kerti og þú að göndlast í kring. Ég væri búinn að brenna af mér bæði hárin á höfðinu og eflaust eitthvað fleira. En þetta gerði hún án þess að "barma" sér ;-)
Þannig að ég hef upplifað góða list á þessari festuge. Leyfi öðrum að láta sér það nægja að sötra bara bjór og eta kebab...