28.8.03

Stúlkan
Og svo reyndi þriggja garða stúlkan barasta að misnota skáldið, þó hann lægi hálfdauður í rúminu! Ussusvei.

27.8.03

Haust
Mér finnst sem að haustið sé komið. Það hefur kólnað og vindurinn hljómar bara eitthvað svo haustlega. Svo fer skólinn líka að byrja.

Á mánudaginn verða tónleikar í Katolske Vor Frue Kirke. Þar verða vísurnar mínar sungnar af Århus Universitetskor. Þetta verða svona "voða seint" tónleikar. Hefjast kl.22.00.

Var að vakna. Gestirnir ennþá sofandi og Þyri líka...er samt búinn að fara í búð að kaupa eitthvað í morgunmatinn. Svefnpurrkur.

Var Björk ("hún Björk okkar") í Purrkur Pillnikk eða var hún bara í Tappa Tíkarass áður en hún fór í Sykurmolana? Ég er svo ungur að ég man svona lagað ekki. Systkini mín hlustuðu ekki á svona lagað. Þau hlustuðu á WHAM, DuranDuran, SAGA (aðallega In Transit plötuna), Men at Work og ekki má gleyma Queen (Daníel á allar LP og alla CD).
Ótrúlegt hvað maður verður fyrir miklum áhrifum af eldri systkinum. T.d. þá horfði Daníel alltaf á enska boltann. Ég sofnaði yfirleitt yfir enska boltanum. En hann hélt með Liverpool þannig að ég gerði það bara líka og geri enn ef ég er spurður. Hef reyndar ekki séð leik í enska boltanum ansi lengi og er "lige glad". Svanhvíti þótti lifur vond, mér þykir lifur vond...kannski líka af því að lifur ER VOND! Þau spiluðu á hljóðfæri, ég hermdi það eftir þeim. En hvað svo? Varð maður sjálfstæður? Allavega er ég mín eigin fyrirmynd í dag.

Er að lesa Heimsljós I. Stefnir í að verða besta Laxness bókin sem ég hef lesið. "Hún hafði nefnilega ekki kropp og þaðanaf síður líkama, hún hafði búk. Það var af henni lykt. Hún var einsog þrefaldur garður. Hann horfði á hana og hugsaði: getur verið að inst inst inni leynist sál?"

20.8.03

Nobbari
Ég hitti á Hilmar Þór Hilmarsson, módel 1977, og unnustu hans í BILKA ("Bilka, Bilka, Bilka ka'") áðan. Þá eru 3 Nobbarar hérna í Árósum að mínu viti. Ég, Hilmar og Stína (Þórstína).
Ástæðan fyrir veru minni í BILKA er sú að okkur skötubumbunum datt í hug að hjóla upp í BILKA í heilsubótarskyni og slá þar með 2 flugur í einu höggi og fjárfesta í 4.5 kg af þvottaefni á 50% afslætti. Þetta er sennilega pakki sem dugar fyrir eitt ár! HVEM KA'? BILKA KA' !!! :o)

17.8.03

Tap...
Við Heklumenn töpuðum 2-0 í dag...ég var kominn einn á móti markverðinum og hefði getað jafnað, en onei, ekki tókst það! Svo átti ég nú einhver fleiri skot að marki, en ekkert rataði inn. Nú er ég raddlaus því ég öskraði svo mikið. Þyri var spurð hvort ég væri mjög bældur heima fyrir.

Í næstu viku mun Austurglugginn, fréttaritið í Fjarðabyggð, innihalda grein um austfirska"bloggara"/neddugerðarmenn. Ég er einn af þeim, er fulltrúi erlendu deildarinnar. Gaman að vera í smá bandi við mína gömlu heimabyggð.

Í gær sátum við sköturnar ásamt góðum vinum í Botanisk Have frá kl.14 til 19! Ágætis veður og allir með nestispakka. Svo skundaði hersingin að Vilhelms Bergsøesvej 43 og snæddi aðkeyptar PizzaPerfect flatbökur og horfðum á snildina "Top Secret". Mikið rosalega er það góð mynd. Sjónblekkingar atriðin eru svo góð. Mæli með því að þið, lesendur góðir, leigið þessa mynd. Val Kilmer í aðalhlutverki.

Góð "pick-up" lína: "Hefurðu séð trekkjubíl spóla í smjöri?"

14.8.03

Mér finnst rigningin...
Í dag var ég minntur á hvernig rigning er. Ég hef ekki séð almennilega rigningu í 1.5 mánuð! Yndigt dufter Danmark um þessar mundir, hrein og fín.

Í dag svaraði ég spurningum frá blaðamanni á Austurglugganum í Neskaupstað. Í næsta tölublaði á að koma grein um norðfirska "bloggara". Ég er fulltrúi norðfirskra "bloggara" í útlöndum. Fróðlegt að sjá hvað hún sýður svo saman úr þessu. Vonandi fæ ég sent eintak, það væri nú það minnsta eftir alla þessa vinnu :o)

Mikið rohosalega er nýja Harry Potter bókin spennandi, maður kemst varla upp úr henni. Sem betur fer er hún löhöng, meira að njóta.

13.8.03

Green, green grass of home/Hassið í heimasveitinni
Rassmusi var mjög létt þegar greitt hafði verið úr misskilningnum. Þetta var alls ekki hans frændi heldur grísanna.
Gleðin var mikil þegar þeir hittu hvora aðra!

Til allrar hamingju fór frændinn bráðlega að sakna Kína, og dag einn gat Rassmus sagt glaðlega frá því að frændinn væri byrjaður að pakka niður. Rassmus var þegar farinn að skipuleggja heljarinnar afmælisveislu.
"Þetta er mjög leitt fyrir þá Jokum og Konráð (grísirnir)", sagði Pingo.
"O nei, þeir hafa skemmt sér konunglega", svaraði Rassmus. "Sem betur fer mun frændinn keyra með rútunni að brautarstöðinni, því vagninn hans þoldi ekki alveg að vera notaður sem leikfang."

"Góða ferð, elsku frændi, og skilaðu kveðjum heim til Kína", hrópuðu grísirnir þegar frændinn fór. Sem betur fer vissu þeir ekki hverju frændinn svaraði (mynd af frændanum að fara "pissesur" með ónýtan vagninn).