30.5.03

Rasmus Klump hittir kínverskan frænda
Rasmus Klump hafði aldrei vitað að hann ætti frænda í Kína, en dag einn var hringt frá brautarstöðinni og honum var sagt að frændi hans væri nýkominn með lestinni. Rasmus flýtti sér af stað til að sækja hann.

28.5.03

Nóg
Það er alveg nóg að gera hjá mér þessa dagana. Á morgun mun innsetningin okkar Eyvinds verða sett upp í Ridehuset (já RIDEHUSET, gæti útlagst sem Reiðhöllin) og við erum búnir að keppast við að klára hana undanfarna daga. Við gerum hana í programmi sem heitir Max og verður þetta þannig að gestir og gangandi koma inn í lítið herbergi með einum hljóðnema í. Ef einhverjum dettur í hug að segja eitthvað þá mun það koma til baka mjög svo afbakað, afturábak, hraðar, seinna, ekki o.s.fr.v.

25.5.03

Sumar og sæla
Nú er sumarið komið og vonandi til að vera. 20 stiga hiti í dag og ég spjátra um berfættur í sandölunum mínum í blíðunni. Vonast til að ég þurfi ekki að fara í klæðameiri föt en stuttermaskyrtu og stuttbuxur þar sem eftir er sumars.

Eurovision kvöldið fór á annan veg en við ætluðum því annar helmingur gestanna lagðist í veikindi og hinn helmingurinn heima að hjúkra. Við sköturnar létum samt ekki deigan síga og hámuðum í okkar flatbökurnar ljúffengu. Þær voru ljúffengar þó svo að botnin væri úr spelti. Keppnin var eins og venjulega, enda er ekki annað hægt því þá er það ekki Eurovision keppni. Ótrúlegt að hafa keppni í músík sem maður heyrir hvergi nema í þessari keppni. Ég vitna í félaga minn frá Noregi, en hann sendi mér sms á meðan keppnin var í gangi, "minnst lélegasta lagið mun vinna".

Grín kvöldsins: "söngst þú með Eistunum?"

22.5.03

Upplifun
Áðan þá hringdi síminn og ég svaraði. Ég skildi ekki bofs í því hvað viðmælandi minn sagði. Hélt að þetta væri Nína Guðrún að segja eitthvað á bullmáli, því þetta var hástemmd stelpurödd. Neinei, þetta var ekki NG heldur voru þetta einhverjar stelpur að gera símaat! ÓGEÐSLEGA FYNDIÐ! Já mér fannst það því ég hef aldrei lent í dönsku símaati áður. Ég hélt að þetta væri ekki til lengur.

Í gær heyrði ég í 1. skipti á ævi minni í hundi gelta, inni í kirkju, á meðan organistinn spilaði útgöngumúsík. Sennilega í 1. og eina skipti á ævinni sem ég mun heyra það. Stórmerkilegt það!

Rektorinn í skólanum okkar Þyri sagði af sér í dag. Hann var í raun látinn segja af sér. Hann hafði víst voða slæmt minni og sagði eitt á einum stað og annað á þeim næsta og framkvæmdi svo það þriðja. Menn ekki sáttir við slíkt.

Ég tók próf í teori (tónfræði) í dag og gekk bara ágætlega. Einnig stóðst ég inntökupróf í teori-aðalfagslínuna.
Blóðgjöf
Ég gleymdi að segja frá gjöfinni sem við Þyri fengum bæði. Já, ég fékk líka ammælisgjöf, þó svo að ég eigi ekki afmæli fyrr en í lok júní.
Nína, Hilmar og Gunnar gáfu okkur nefnilega rúmföt sem heita því frábæra nafni "The Sleep of your Dreams" og bókina um hvað maður eigi að borða eftir því í hvaða blóðflokki maður er í. Nú verð ég bara að komast að því í hvaða flokki ég er í. Ætli mamma viti það? Ef svo er mamma, þá máttu alveg skrifa það í "Ískalt mat" :o)

20.5.03

"Þú ert bara Dani!"
Nú upplifum við Þyri okkur sem alvöru Dana. Við vorum nefnilega að fara með 1. tóma bjórkassann í endurvinnslu. Frá því maður kom hingað þá hefur maður undrast yfir þegar fólk er að kaupa heilan kassa af bjór, en nú erum við s.s. ein af þeim. Reyndar rann hann oní fleiri munna en okkar tveggja. Gestirnir í afmælinu þótti hann bara ágætur, sem betur fer, því annars hefðum við setið uppi með kassann ansi lengi.

Ég keypti mér um daginn grænan sumarhatt. Mér finnst hann flottur, en Þyri er ekki alveg eins sátt.

Í gær fékk ég námsstyrk frá Cirius. Júhúúúú!

18.5.03

Pie
Þetta er það fyndnasta sem ég hef séð á netinu. Smellið einnig á "archives", á síðunni sem kemur upp, og veljið ykkur fleiri "sketsa".

17.5.03

Veislan
Í gærkvöldi var afmælisveisla hérna hjá okkur. Fögnuðum 25 árunum hennar Þyri. Þau sem komu voru Selma og Róbert, Sigrún og Skúli, Arnlaug og Ragnar Páll. Svo voru Guðný og Hjörtur, en þau komu á fimtudaginn. Gærdagurinn fór mest í að undirbúa matinn og ég svaf á meðan....ég þurfti nefnilega að vakna svo snemma til að syngja í messu, en þau hin sváfu áfram. Ég átti þetta inni. En ég hafði nú samt smá samviskubit, því gestirnir og Þyri gerðu þetta allt saman. Góðir gestir!
Veislan gekk bara vel fyrir sig. Mikið talað, sungið og hlegið. Skødstrup gengið ákvað að taka síðasta vagn heim kl. 03. Við hin fórum þá aðeins í bæinn, en vegna þreytu og leiðinda í bænum þá fórum við fljótlega heim aftur.

Þyri fékk "frábæra" gjöf, að hennar mati, frá systur sinni og hennar fjölskyldu. 2 myndbandssnældur með öllum "Pride & Prejudice" þáttunum. Ég er HIMINLIFANDI! :o) Nú get ég skríkt af kátínu með Þyri þegar presturinn og Lizzy og þau öll drekka te og gera handavinnu. Þyri finnst þetta meira að segja svo skemmtilegt að hún situr nú í skrifuðum orðum með Guðnýju og Hirti að horfa á þetta. Gjöfin hitti í mark!

14.5.03

Spenningur
Nú er sko afmælisundirbúningurinn í hámarki. Það þarf að kaupa ýmislegt áður en við getum tekið á móti fólki (sem minnir mig á að það þarf líka að skúra til að geta boðið fólki inn) nema hvað að mér finnst roooooosalega leiðinlegt að fara í búðir. Sem betur fer er þetta bara ein búð. Ef mig vantar eitthvað þá fer ég inni í mesta lagi 2 búðir og "drep svo bráðina". Smá undantekningar eru plötubúðir og eldhúsáhaldabúðir. Ég elska að skoða flott hönnuð eldhúsáhöld. Þá vitið þið það. Minn akkelisarhæll :o) En ég held nú samt að þessi ferð í Føtex verði allt í lagi því Þyri er búin að skrifa mjög ítarlegan lista, þannig að nú er bara að skella sér í musteri djöfulsins og drepadrepadrepa.

13.5.03

Fúga
Úff! Um þessar mundir er ég að reyna að setja saman smá umfjöllun um æfingu sem ég gerði í fúgusmíðum í Tónó á sínum tíma. Umfjöllunin á að vera á dönsku að sjálfsögðu. Það eru 3 ár síðan ég gerði þessa fúgu. Sjitt! Ég er nefnilega að sækja um að fá tónfræði líka sem aðalfag. Klára þá á næsta ári tónsmíðarnar og, ef allt gengur upp, hef nám í tónfræðum.
Bezt að koma sér að verki!


12.5.03

Kosningar
Nú er mín kæra systir orðin háttvirtur varaþingmaður í Norðausturlandskjördæmi! FRÁBÆRT! Ég vona að hún fái tækifæri til þess að prófa stól á þingi því hún er hörkutól.

Annars fylgdist ég ekkert með kosningarbaráttunni og ég kaus heldur ekki, sem er náttúrulega skammarlegt, en ég hafði bara ekki áhuga. Lengra nær það ekki.

Í gær vorum við í "kosningarvöku" í Skødstrup. Grilluðum, drukkum hvítvín, spiluðum, sungum og gerðum allt annað en að fylgjast með kosningarsjónvarpinu (reyndar var Skúli mjög áhugasamur og var yfirleitt búinn að gera línu-og skífurit áður en tölvurnar í sjónvarpinu voru búnar að því). Það var mjög gaman hjá okkur. Vonum bara að fólk haldist í partýgírnum fram á föstudaginn því þá ætlum við að halda upp á 25 ára afmæli hennar Prumpulínu.

Nú er "H.Potter and the chamber of secrets" frá. Næsta er í sigtinu.

8.5.03

Ferð í kaupstaðinn
Við sköturnar fórum í bæjarferð í dag. Fór með hjólið mitt í viðgerð. Fórum svo á "Strøget" og VERZLUÐUM!!! Tvennar buxur á mig (sparis og buxur sem hægt er að renna skálmunum af við hné...sneðugt á interrailið) einn badminton spaði handa mér (sem heitir ekki "badmintonspade" á dönsku, heldur "ketcher") og ýmislegt annað smálegt. Þetta var virkilega árangurrík verzlunarferð, enda má ekki við öðru búast þegar ég tek mig til. Mér finnst nebbnilega leiðinlegt í búðum. Hvergi stólar og ég verð voða fljótt þreyttur á þessu öllu.

7.5.03

Morrk
Hvernig finnst ykkur það sem nafn á nýja gítarverkið mitt (7 gítarar og harmoníka, c.a. 8')? Morrk. Hver er ykkar upplifun á orðinu? Ef þið vitið hvort þetta orð þýði eitthvað ákveðið á einhverju máli þá endilega skiljið eftir skilaboð hér að neðan einnig ef þið hefið skoðun á þessu nafni.

Ég er ekki Kristur endurfæddur, sárin mín gróa nefnilega...gerðu hans það nokkuð???

5.5.03

Ég og Jesú
Það sem við mátarnir eigum nú sameiginlegt, fyrir utan mikla manngæsku, visku, hæfileika til að metta fjöldann (mér finnst gaman að elda), að eiga smið fyrir föður og Maríu sem móður, þá erum við báðir með sár í lófunum. Ég datt af hjóli í blíðunni í gær (sjá nánar hérna, þann 05-05-03) og bar fyrir mig lúkurnar. En nú er þetta allt í lagi því ég er kominn með spray plástur (það hef ég fram yfir Jesú ;o) í staðinn fyrir vondann venjulegan plástur sem má ekki blotna og vont er að taka af því hann límist aðeins á sárin.

Til að bæta aðeins við sárin og sálina þá var ég stunginn í handlegginn í morgun. Blóðprufa. En það er ekkert vont, bara gaman að sjá allt blóðið frussast í hylkið (læknirinn var ekki með svona sprautu, heldur dældi þessu beint í svona plastglas sem verður sent í rannsókn). Það á að kanna hvort ég sé með ofnæmi. Hvur veit. Mér finnst allavega ekki gaman að hafa kvef í 1.5 viku!

Í kvöld verður sýnt beint frá úrslitaleiknum í HM í snóker, á Eurosport. Júbbí! Snóker er besta sjónvarpsíþrótt sem til er. Lítill "völlur", ótrúleg innri spenna, ekki sefandi kliður frá áhangendum (best að sofna yfir enska boltanum t.d.) og algjörlega hasarlaus íþrótt (einvörðungu hægt að klekkja á mótstæðingnum í leiknum...reyndar er hægt að skylmast með kjuðunum en það gera menn ekki...ennþá).

3.5.03

Bernskuminningar
Þó svo titillinn á þessu bloggi hljómi eins og titill á leiðinlegu sönglagi sem Álftagerðisbræður gætu gert geysivinsælt (allavega í Skagafirði) þá er ekki svo. Onei. Ég var nefnilega að lesa á síðunni hennar "Ollu litlu skólausu"-Svalbaun-Zoega-systir fyrrv.sambýliskonu minnar (gamall og góður granni af Melunum og popplistakona með meiru. (Fyrir þá sem ekki vita hvar Melarnir eru þá er það svæði í Neskaupstað, Hlíðargatan aðallega, þar sem ég ólst upp. Þetta nafn er oftast nær ekki notað, en þegar karl faðir minn ólst upp þá var þetta svæði kallað "Melar" Hann ólst upp beint fyrir ofan húsið hennar Ollu Svalbaunar og það sem meira er, að móðir mín kær bjó stærsta hlutann af barnæsku og unglingsárum í sama húsi og karl faðir minn bjó í, bara innendanum)) um...um hvað? já ég las um söguna af pissudjúsnum. Hehehehehe...piss í Sinalco-flösku...heheheheh...já þá var gaman að lifa. Ég pissaði reyndar ekki í flöskuna, ég kom bara að Ingvari Konn & co. með flöskuna og þeir sögðust ætla að gefa nafna mínum Einari sopa. Hann "gleypti" við því.

En ég ætla að játa á mig hræðilega sök. Þessi sök hefur hvílt á mér síðan ég var 8 ára (eða svona c.a). Ég kveikti í Akurstúninu!!! Ég og aðrir guttar í götunni (meðal annar umræddur IngvarKonn) vorum að kveikja eld fyrir ofan smíðaverkstæðið hans Hjalla, svo henti einhver kveikjara í bálið. Svo sprakk hann og eldurinn breyddist út yfir eldstæðið. Fljótlega var allt Akurstúnið alelda...sáldrandi bálið...og splunkunýju trén sem gróðræktarfélagið var nýbúið að gróðursetja stiknuðu í eldhafinu. Ég eyddi næstu sumrum við að græða upp túnið fyrir ofan húsið heima. En sú vinna mun fljótlega verða grafin undir snjóflóðavarnargörðum sem á að byggja ofan við húsið okkar. Fúlt :o(

2.5.03

Stærð
Þar sem stærð þessarar síðu er farin að fara í taugarnar á mér, þá ætla ég að henda út nokkrum póstum frá síðasta ári innan skamms. Þannig að ef einhver skildi hafa þann furðulega áhuga á að vilja lesa þessa þvælu ALLA þá fær sá hinn sami c.a. 2 daga...það ætti að duga ;o)

1.5.03

Met
Áðan setti ég persónulegt met í snýtingum. Það kom svo mikið hor að ég varð að kíkja í spegil til að athuga hvort ég væri með innfallinn haus.

Annars lét ég hafa mig út í smá veðmál. Ég lofaði minni heittelskuðu að ég skildi lesa HarryPotter bækurnar ef hún myndi lesa Hringadróttinssögu. En ég kom sjálfum mér á óvart og henni og las fyrstu HarryPotter bókina. Var að klára hana. Hraðlestrarbók. Hún var mun betri en myndin. Mér fannst myndin alltof barnaleg, í raun báðar myndirnar, þó svo ég myndi ekki fara með barnið mitt á mynd númer tvö. Nú er bara að sjá hvort prinsessan standi við sinn hlut.
Tæknileg vandamál
Ég veit að síðan er svolítið lengi að hlaðast inn. Ég tel það vera vegna þess að ég hef ekki haft skjalasafnið (archives) virkt síðan ég byrjaði þetta rugl hérna í netheimum. Þ.a.l. er síðan ansi löng (stór). Ég veit ekki alveg hvernig ég á að losna við gömlu skrifin, en ég er byrjaður að vinna í því (eins og sjá má á vinstri hönd, fyrir ofan teljara).

Annars er ég ennþá með tárin í augun. Við sköturnar vorum að ljúka við að horfa á hina átakanlegu mynd "Crush". Það var ekki þurrt auga í stofunni, eins og Hilmar myndi segja ;o)