29.4.03

LJÓT SÍÐA!!!
Ég held að sumir ættu nú bara að líta í eigin barm, áður en þeir fara að básúna út að síðan mín sé ljót! Hann má nú eiga það að myndefnið er skrambi gott. En hann hefur ekki uppfært síðuna í laaaaaangaaaan tíma.
Prinsessur
Þær eru nauðsynlegar inn á hvert heimili og ég tel mig vera óskaplega heppinn með að hafa fundið hana PrumpulínuPrinsessu. Eða fann hún mig? Ég er allavega enginn prins, og átti bara gulan hest (úr plasti og á bláum hjólum). En Prumpulíus er ekki algalið nafn. Heldur ekki Gabríel.
Hver man eftir ævintýrinu um fólkið í Prumpulandi, sem var leiklesið í þáttunum Heimsendir?

Shlümpf!
Viðbrögð
Já, fólk hefur tekið vel við sér og kvittað af miklum móð. Takktakka!

Á sunnudaginn fórum við Eyvind Gulbrandsen, norskur strákur sem er einn af meðlimum í "tónskáldafjölskyldunni" hérna í Konsinu, á fund með Dokken02-skipuleggjendum. Dokken02 er einhverskonar fjöllistauppákoma, sem á að mynda brýr á milli listheimanna. Næsta Dokken á að vera í lok maí. Á fundinn mættu leikarar, tónlistarfólk, dansarar o.þ.h. lýður.
Við Eyvind höfum verið á kursus í DIEM í vetur hjá Wayne Siegel og erum að gera installation (innsetningu) í forriti sem heitir Max (þetta hefur kannski ekki mikið að segja fyrir þá sem ekki þekkja til, en upplýsingar samt ;o) Installationen á að ganga út á það að inni í myrkvuðu rými er hljóðnemi, sem á að vera baðaður í ljósgeisla (spotlight á ísl.???). Fólk á að segja eitthvað í hljóðnemann og út kemur eitthvað í líkingu við það sem fólk sagði, bara búið að meðhöndla það í þessu Max forriti. Við erum í raun að búa til hljóðfæri, sem fólk getur síðan "spilað" á, búið til "hljóðverk".
Þegar við mættum á þennan fund þá vissum við ekkert útá hvað þetta Dokken gekk. Það kom okkur ánægjulega á óvart að þarna ætti að vera eitthvað samstarf í gangi, því það er frekar einhæft að sitja bara inni með nótnapappír og láta svo hljóðfæraleikara spila.
Upp úr þessum fundi ákváðum við að reyna líka að setja saman smá band. Ætlum að bræða saman 3 tónskáld, sem kunna lítið á hljóðfæri, en hafa kannski annan (vonandi) hugsunarhátt en hljóðfæraleikarar og svo DJ. Út úr þessu ætti að koma eitthvað skemmtislegt...vonandi...
Ég er mjög spenntur yfir þessu. Loksins er maður að gera eitthvað í náinni samvinnu við aðra. "Spændende"...

Ég er kominn með meirihluta bragðskynsins aftur.

28.4.03

Til allra sem kíkja inn
Mér þætti voða vænt um að þið sem kíkið inn skrifið eitthvað í gestabókina. Ég hafði ekkert lítið fyrir að koma henni fyrir á þessa síðu ;o)
Vor
Nú er það langt liðið á vorið hérna að "hitameistararnir" (varmemesterene), eða húsverðirnir, eru farnir að keyra í hringi, á litlum traktor, um garðinn. Þeir eru að slá.

Ég er ennþá með kvef. Aðeins er farið að örla á bragðskyni. Að vera án bragðskyns er eins og að vera lifandi dauður...get ég ímyndað mér.

Þetta er fyndnasta stuttmynd, teiknimynd og tónlistarmyndband sem ég hef séð.
PolyTonalaty
Ég á mér ekkert líf. Ég er farinn að hljóma eins og stelpan í American Pie..."ones, in a bandcamp,..." , nema það hljómar "ég var í jarðarför, og....", hjá mér.
Aaaaaallavega, þá var ég í jarðarför um daginn. Frekar fjölmenn jarðarför. Hin látna var kona á miðjum aldri. Frekar grand útför. Prentaðuð bæklingur, með sálmunum og mynd af hinni látnu (N.B. tekin þegar hún var lifandi) og svo boð í erfisdrykkjuna. Drykkjan átti að fara fram á fínum veitingastað við höfnina. Og til að toppa þetta allt, þá var ég fenginn til þess að leiða söng við gröfina eftir moldun o.þ.h. Reyndar var ekki beðið sérstaklega um mig, en ég tók þetta að mér því þetta er vel launað.
Ég tók leigubíl upp í garð og beið svo eftir kistunni og fylgifiskum. Kistunni var svo ekið að gröfinni á einhverjum vagni og henni svo slakað niður í kaðli. Voðalega primitívt fannst mér. Svo var moldað og presturinn tilkynnti hvaða sálm ætti að syngja. Sem betur fer var þetta sálmur sem ég hafði sungið áður, þannig að ég þurfti ekki að lesa nótur, úr annarri bók, um leið. Ég stóð bara meðal allra hinna sem stóðu í sveig í kringum gröfina. Það voru um 30 manns þarna. Ég hóf upp mína miklu raust og hún fauk í öllu sínu veldi út í buskann. Það var rok! Enginn heyrði í mér, nema fólkið í meters radíus í kringum mig sem söng EKKI, og því var þessi síðasti sálmur sem sunginn var yfir blessaðri konunni, blessuð sé minning hennar, í svona c.a. 16 mismunandi tóntegundum (svona fyrir þá sem segja "já en það eru bara 12 tónar" þá voru líka kvarttónatóntegundir í loftinu ;o) Ég náttúrulega hélt mínu striki og söng sálminn í b-moll eins og ég hafði ákveðið með tónkvíslinni minni á leiðinni í leigubílnum.
Við skulum vona að konu greyið hafi ratað rétta leið, hvurt svo sem það er.

24.4.03

Hálsbólga
Ég er með króníska hálsbólgu, allavega fæ ég mjög títt hálsbólgu og kvef. Þetta er mjög pirrandi svo ekki sé meira sagt. Ef einhver lumar á einhverjum galdrabrögðum sem geta losað mig við hálsbólguna (annað en að hálshöggva mig) þá má sá hinn sami senda mér tölvupóst.

23.4.03

Það aldin út er sprungið
Í gær gerðist það. Trén urðu græn. Fólk fækkaði fötum vegna hitans. í gærkvöldi var 10 gráða hiti. Dejlige Danmark!
Páskarnir o.þ.h.
Á páskadag fórum við í hjólatúr. Fríður og mikill flokkur mætti hjá Arnlaugu og Ragnari Páli um 15.30 og svo var bara brunað upp í Skødstrup til Selmu og Róberts (þau komu ofan úr sveitinni til þess að hjóla með okkur uppeftir). Ferðin gekk vel fyrir utan að það sprakk á hjólinu hennar Selmu. Við guttarnir skiptumst þá bara á að reiða það á meðan Selma hljóp. Hún fór nú létt með það enda vanur langhlaupari.
Þegar í Skødstrup kom tók ilmurinn af kalkún, sem var að grillast af miklum móð í ofninum, á móti okkur. Við tróðum okkur í eldhúsið þeirra hjóna og gerðum það meðlæti sem uppá vantaði. Svo var sest að snæðingi og var það kröftugur snæðingur. Við stóðum öll á blístri. En einhvernveginn höfðu menn alveg pláss fyrir ávaxtasalat og ís....og tölum nú ekki um allan bjórinn.
Við spiluðum svo fram eftir kvöldi og nörtuðum í páskaeggin sem hjónin höfðu fengið frá Íslandi (þau eiga nú barn og eru með gest sem er nýkominn frá Íslandi). Nói er alltaf góður...þó svo að það sé til betra súkkulaði þá er Nói alltaf Nói.
Eftir frábært kvöld þá ætluðum við að hjóla heim, c.a. 15 km. Sumir höfðu fengið sér meiri bjór en aðrir (NB ég var ekki einn af þeim því ég þurfti að syngja morgunin eftir kl.10) og hittu því ekki alltaf á hjólastíginn. Þess má líka geta að þar sem að engin hús eru hérna í DK eru heldur ekki ljóstastaurar = KOLNIÐAMYRKUR! En við skiluðum okkur öll.

19.4.03

Huggulegheit
Í tilefni dagsins snæddum við sköturnar á LaPampa og fórum svo í bíltúr :o)

17.4.03

Loksins, loksins!
Ég hef alltaf velt því fyrir mér þegar ég sit í IcelandAir vél á leið heim eða út, hver ræður hvað er spilað. Þetta er nefnilega MÚSÍK DAUÐANS! Einhver ógeðsleg poppmúsík í hljómsveitarbúningi. En nú verður vonandi gerð bót á þessu! Melabandið hefur gert samning við þessa dela. Gott mál.
Reyndar finnst mér, þegar ég lít á síðuna hjá þessu bandi, þau hafa flott og metnaðarfullt program. T.d. að spila WarRequiem eftir Britten er bara flott! Hérna er ekkert svona flutt. Bara það sem selur. Danir eru ofurseldir rytmmískri músík...það er satt! Stærsti hluti tónlistarnáms hér í landi er rytmískt tónlistarnám. Það er ekkert að því að mennta sig í djassmúsík, en að mennta sig í rokkmúsík er bara bull! Algjör þverstæða! Sitja í 5 ár í háskólanámi að læra spila gítarsóló eða einhverja afrómúsík er rugl!
Þjóðhöfðingjar
Ég frétti í morgun, í messunni, að ég hefði getað komið kveðjunni frá pabba til Möggu. Hún var víst stödd ásamt einhverjum parti af fjölskyldu sinni að spóka sig í Mindeparken, sem er bakgarður þeirra sem gista í Marselisborg slot ("sumarhús" kóngafjölskyldunnar) en er samt RISASTÓR garður.
Páskahátíð
Karl faðir minn og MaggaDrottning eiga afmæli. Til lykke!

Á næstu dögum mun ég setja persónulegt met í að syngja í messum. Fullt fullt af messum. Á föstudaginn langa verður síðan flutt smá móttetta eftir mig. Gaman að þau nenni.

Þessa dagana er ég að klára gítarstykki. Hef verið að velta fyrir mér nafni á verkið. Hvernig finnst ykkur "Morrk"? Ef einhver veit hvað það þýðir á einhverju tungumáli endilega látið mig vita. Ég er að vonast til að þetta sé frumsamið orð ;o)
Annars var bróðir minn kær að segja mér að enska orðabókin (veit ekki hvaða) hefði nýlega tekið inn nokkur ný orð úr HarryPotter bókunum. Veit ekki hvaða orð það eru. En svo sagði hann mér líka að það væru fleiri ný orð í bókinni úr fyrrnefndum HarryPotter bókum en úr Hringadróttinssögu! Merkilegt!
14.4.03

Kynjamunur
Þetta er sagður vera munurinn. Dæmi hver fyrir sig.

13.4.03

Að hafa kynferðismök
Við sköturnar vorum um daginn að eta grautinn okkar snemma dags...hehemm...og höfðum einhvern garganda í útvarpinu á meðan. Celin Dijon (eða hvernig svo sem það er skrifað) hóf upp raust sína og söng um það að hún hefði keyrt í alla nótt til þess að komast til hans, farið inn í herbergið hans og haft kynferðismök með honum (og spyr svo reyndar sakleysislega hvor það hafi ekki verið í lagi!). Við fórum að pæla í öllum þessum lögum sem fjalla um að "make love to you". Eitthvað væri nú sagt ef nýja lagið með Írafár fjallaði umbúðalaust um kynferðismök. Það væri allavega gaman ef einhver textahöfundurinn myndi bridda upp á slíku. Reyndar hafa margir íslenskir textagerðarmenn sagt þetta undir rós (og allavega ekki grófara en með að segja "sofa hjá þér í nótt") , en við viljum fá óþverran beint í andlitið!
Flugvélar
Nei, ég ætla ekki að skrifa meira um flug flugvéla yfir húsið mitt á meðan ég pissa, heldur nýja lag þeirra NýDanskra. Herra Jón.is býður upp á 2 útgáfur af þessu lagi og mér finnst þessi vera svo langt um flottari en þessi.

11.4.03

Nördinn ég!
Ég er orðinn rosa tölvunörd! Mér tókst að gera svona hlekki, sem þið sjáið ykkur á vinstri hönd. Ég fékk sent nokkur template frá vinum og vandamönnum, og fann út hvað ætti að gera. En mér finnst þetta ekki nógu gott hjá mér. T.d. mætti "HinirHversdags" vera undirstrikað og svo mættu hlekkirnir vera með minna letri (held ég geti reddað því) og svo mættu þeir standa þéttar saman. Svo mætti einhver fræða mig um hvar maður kemst yfir lista með öllum þessum skrítnu stöfum (í,ó,ú,ý,ö o.s.fr.v.). Ég sá að maður þarf að gera "&eitthvaðnúmer;" til þess að fá broddstafi og annað, en ég bara veit ekki hver hefur hvaða númer. Gæti þetta verið ASCII kerfið???
Ætli þetta komi ekki bara með kalda vatninu...

10.4.03

Fjölmiðlar...
...eru það ógeðslegasta sem hægt er að hugsa sér...sumir allavega!
Ég skrifaði um það í gær að ég hefði sungið við útför á syni þessa fræga fótbolta gaurs. Nema hvað að í dag er mynd af honum á forsíðu B.T. og líka á Ekstra Bladet. Og á EkstraBladet er mynd af honum að bera kistuna úr líkbílnum! Þetta er bara ógeðsleg fréttamennska! Hvað kemur það þjóðinni við að hann hafi verið að missa nýfæddan son sinn? Ok, það er svo sem í lagi að skrifa smá grein um það, en að birta mynda af honum þar sem hann heldur á kistunni, einn síns liðs, út úr líkbílnum er algjörlega siðlaust. Mér er nokk sama um að einhverjir ljósmyndarar taki myndir af frægum konum sem eru berbrjósta að baða sig, eða einhverjum frægum að reykja sígarettu. En svona vinnubrögð ættu að vera bönnuð!

9.4.03

Útför
Í dag söng ég við útför á 22 daga gömlu barni. Erfið athöfn, svona miðað við að þetta er vinna. Kippi mér yfirleitt ekki upp við jarðarfarir, þeas þegar ég er að syngja. Maður setur sig ekkert inn í málin, hlustar ekki á ræðuna og horfi ekki á kistuna borna út. En það er annað þegar kistan er svona lítil. Þetta var víst sonur eins úr landsliði þeirra dana (þessi sköllótti, skapbráði Tøfting). Svo báru foreldrarnir og tvö eldri systkini kistuna út. Kirkjan var full af blómum. Hér tíðkast að leggja blómvendina á gólfið endilangt, eftir miðri kirkjunni. Blómaröðin náði frá dyrum og inn að kistu.

í dag snjóaði aðeins.

6.4.03

Stórborgin
Þá er ég kominn heim úr sollinum í København. Fór á mið. og kom á lau. (í gær). Ég hélt ég væri að fara á voða gagnlegt námskeið í hljóðdreifingu (dreifa hljóðum í 8 hátalara sem er stillt upp í kringum mann) en þetta var ekkert svo gagnlegt í raun. Fékk enga kennslu í forritum sem gera þetta, en aftur á móti þá lærði ég smá....SMÁ!... á mixer. Ég hef aldrei þurft að nota mixer hingað til.
En ljósi punkturinn í þessu er að það var voða gott að hitta góða vini. Hugi og Hanna alltaf jafn gestrisin og gaman að hitta Guðnýju.
Í þessari ferð minni tókst mér að sofna á ótrúlegustu stöðum. Ég lagði mig t.d. í kirkju sem stendur við Strikið. Var að bíða eftir Kantor Guðnýju og var voða þreyttur eitthvað. Svo tókst mér að sofna í stúdíóinu, á gólfinu, á meðan einhver var að mixa eitthvað rafverk.
Í Höfn þá hittum við Hugi Kjartan Ólafs, formann tónskáldasambands Íslands, og fyrrv. kennara okkar. Hann bauð okkur fínt út að borða og við fórum svo og fengum okkur nokkra drykki. Gaman að hitta hann. Fékk ýmsar fréttir að heiman úr tónlistarlífinu og líka að kynnast aðeins starfinu í kringum tónskáldafélagið. Nokkuð garanterað að við Hugi mætum í það þegar við erum hættir í námi ;o)
Námskeiðið endaði svo með tónleikum á lau. Sumir mixuðu sitt eigið verk og aðrir eftir einhverja aðra (þar á meðal ég þar sem ég á ekkert nýlegt rafverk). Ágætis tónleikar og allt gekk bara vel.
Mikið rosalega er maður orðinn mikill Árósabúi. Stórborgin er stór! Mikið af fólki og maður verður fljótt þreyttur. Þetta er náttúrulega allt öðruvísi þegar maður á heima þarna því þá kann maður á þetta allt. Getur forðast fjölfarnar leiðir og nýtt sér hjólið sitt. En ég væri nú samt alveg til í að búa í soldið stærri borg...hvur veit hvað gerist í framtíðinni?

1.4.03

Íþróttir
Ég er ekki mikill afreksmaður innan þess geira, þrátt fyrir mikla ástundun að mínu mati. Ég hef t.d. æft fótbolta síðan ég var 6 ára gamall, með smá hléi á milli 18-23, fór oft á skíði, spilaði hnit, snóker og borðtennis. En ég var í raun aldrei góður í neinu af þessu. Ekki græt ég það. Hafði aftur á móti mjög gaman af þessu öllu.
Þú ert kannski farin(n) að velta fyrir þér hvað ég er að meina með þessu? Jú sko, ég var að horfa á sjónvarpið mitt góða, þetta sem við fundum í geymslunni uppi í Skødstrup, þetta 21' Goldstar, eðal sjónvarp, og ég fann ekkert skemmtilegt að horfa á. Þar sem við erum nú komin með nýtt videotæki þá höfum við c.a. 40 stöðvar...og það var ekkert áhugavert á einni þeirra! Allavega, þá datt mér í hug að fylgjast aðeins með einhverjum sænskum íshokkí leik. Þvílík og önnur eins íþrótt! Þeir eru á SKAUTUM! Að eltast við einhvern ínku-pínku-ponsu-lítinn pökk, sem er ekki stærri en...tja...veit nú ekki alveg hvað...segjum bara túnfisksdós. Svo eru þeir með einhverjar geðveikar hlífar og hjálma sem gerir þeim erfitt fyrir með fínar hreyfingar, og nota kylfu til þess að ýta pökknum á undan sér. Mörkin er agnarsmá og völlurinn þéttskipaður af leikmönnum. Þetta er sennilega ERFIÐASTA íþrótt sem til er! Það er nú nógu erfitt að vera BARA á skautum! Ég hefði aldrei náð að fá að vera með á æfingu einu sinni, ef það hefði verið íshokkílið heima á Nesi.
"...ríf úr þér tennurnar..."
í gær fór ég til tannlæknis. Var búinn að bíða eftir tíma í c.a. mánuð. Ég fór til tannlæknis síðast í desember heima í Neskaupstað. Tannlæknirinn minn þar ætlaði að gera við 3 tennur, og vildi taka um 30.000 kr fyrir það! Ég held hann sé ekkert að okra, svona er þetta bara. Nema hvað að ég kannaði málið og fékk að vita að tannlæknar í DK eru víst aðeins ódýrari...en geta líka verið fúskarar! Þannig að ég ætlaði aðeins að bíða með þetta, lét gera við eina skemmd og fékk að halda röntgenmyndunum. Voða fínt.
Jæja. Ég fór s.s. til dansksksks... tannlæknis í gær. Var búinn að fá meðmæli með honum frá stelpu sem ég er að syngja með í kór. Það eina sem ég hafði sem grunnskilyrði var að hann (tannlæknirinn) yrði að vera kvennkyns. Ég hef mikla trú á hinu kyninu og tel að þær séu vandvirkari og blíðari en við karlmenn...svona í heildina! Viti menn! Ég hef aldrei farið til betri tannlæknis! Hún skoðaði myndirnar og spurði um endajaxlana oþh svo sagðist hún ekkert vilja gera! Júhú og jeje! Hún sagði að tannlæknar væru misjafnlega "agressívir" og þetta þýddi ekki að minn fyrrv. tannsi sé einhver asni. Hún sagðist vilja bíða og fá mig aftur í skoðun eftir 0.5 ár. Sagði að það væri engin ástæða til þess að draga upp borinn...og þið getið ekki ýmindað ykkur hvað mér leið vel við að heyra það. "Því geng ég um og gæti þess að..." hugsa vel um tennurnar!

Nú kom íslenski varmemesteren (húsvörðurinn) til þess að laga "lekandann" í klósettinu okkar. Það átti það til að halda alltaf áfram að sturta niður, fyllti ekki vatnskassan aftur. Það getur verið dýrt hérna í DK. Vatn er munaðarvara...kannski ekki eins og í Eþíópíu, en það er dýrara hér en á Íslandi. Þannig að nú ættum við að geta sofið rótt.