30.3.03

Vikan
Síðasta vika var tileinkuð Beethoven...blessuðum kallinum. Orðinn margs vísari um þann ágætis náunga og hans músík. Enduðum á að snæða saman í föstudaginn á Mamma's Pizza. Fékk mér í 1.skipti svona böku (kallast hálfmáni heima á Íslandi) með kjötsósu og spaghettí. Mjög gott, þótt ótrúlegt það hljómi!

Á þriðjudaginn var þá tók ég þátt í "steggjun" í 1.skipti á minni 24 að verða 25 ára ævi. Á dönsku (og sennilega þýzku) heitir þetta "polterabend". Ef einhver hefur skýringu á þessari nafngift, endilega sendið mér tölvupóst. En allavega þá var þetta bara ansi gaman. Við byrjuðum á að koma honum á óvart með því að dúkka upp í skóla einum þar sem hann ætlaði að spila hnit með bróður sínum. Þessi bróðir hans sá um að skipuleggja þetta allt. Nema hvað að þegar þeir ætluðu að fara að spila þá reyndist spaði bróður hans vera aðeins of götóttur. Svo þegar þeir voru á leið út þá stóðum við, c.a. 10 stk tónskáld (steggurinn er það líka, að nafni Jens Voigt) með skylmingarsverð og grímur (eins og notaðar eru í skylmingum) fyrir andlitunum. Hann náttúrulega vissi ekkert hverjir þetta voru og ætlaði bara að hjóla í burtu. Við náðum nú að fella hann af hjólinu og draga hann inn með okkur þar sem við tók 2 tíma skylmingarkennsla og mót. Allar græjur og læti. Mjög gaman. Mér gekk ekkert alltof vel, þrátt fyrir dygga þjónustu í hinum ýmsustu leynifélögum á yngri árum. En mér tókst nú samt að vinna einn leik.
Eftir skylmingarnar fórum við í Forum Hallen. Það er húsnæði og vinnuaðstaða móður Simons. Simon er tónskáld og mamma hans er myndlistarkona. Nóg pláss og skemmtilegt umhverfi. Hálf og heil listaverk og allt í drasli. Húsið er staðsett á vinnusvæði hér í borg. Þarna var búið að dekka borð þegar við komum og nóg til af veigum. Svo var bara stóru nautakjöti skellt á grill og ég sá um salat oþh. Við snæddum svo og smökkuðum ýmis rauðvín með. Smakkaðist allt vel.
Eftir snæðing máluðum við eitt stykki málverk svo handa steggnum. Við fengum hver okkar 2 liti og plast bleðil og svo máttu við velja úr ýmsum áhöldum til þess að mála með. Þetta var hin mesta skemmtan. Útkoman var náttúrulega litasúpa sem náði ekki að verða grá. Mun koma til með að prýða heimili Jens í komandi framtíð.

Í gær var svo árshátíð í skólanum. Skólinn fagnaði því með þeim hætti að hafa heilan dag fullan af músík í Musikhuset. Við sköturnar fórum á tónleika kl 19.30. Hlýddum á Mozart píanókonsert, Glazunov saxófónkonsert, forleikinn að Töfraflautunni og svo 9.sinfóníu Sjostakóvitsj. Svona "allt í lagi" tónleikar.

í dag söng ég í 2 messum og Sf. Hekla tapaði leik.24.3.03

Mr.B...ig
Síðan kl.09 til kl.16.30 í dag var ég innilokaður (þó með smá pásum og hádegismat inn á milli) í herbergi með 9 manns og var talað allan tímann um Ludwig van Beethoven og hlustað á nokkur síðustu verk hans (1.þátt 9.ómkviðunnar op.109, 1.þátt píanósónötu op.111 og 1.þátt strengjakvartetts op.135). Voða gaman...OG ÉG MEINA ÞAÐ!!! Þetta var mjög gaman. Í þetta munum við svo eyða næstu dögum í þessari viku.

19.3.03

Gufusoðinn minnismiði
Á sunnudaginn komandi mun þessi dagskrá hljóma í viðtækjum ykkar ef stillt er á gömlu gufuna:

19:00 Myrkir músíkdagar 2003
Frá tónleikum sönghópsins Hljómeykis, 9. febrúar sl. Síðari hluti. Trú mín er aðeins týra eftir Jón Nordal. Fimm vísur um nóttina eftir Stefán Arason. Jubilate Deo eftir Óliver Kentish. Bernharður Wilkinson stjórnar.

Fyrri hluti þessara tónleika verða fluttir deginum áður á saman tíma.

Annars var ég í fyrsta tónsmíðatímanum í dag hjá nýjum kennara. Hann ber nafnið Hans Geforse (gæti verið eitthvað neðanmittisdæmi ef framburður er réttru. Nema að hann er Svíi, greyið, þannig að þetta hljómar ekki eins illa á sænsku) Hann stóð sig bara ágætlega. Næs náungi og hefur ýmislegt að segja. Tíminn fór reyndar bara í að sína honum hvað ég hef verið að gera oþh. En lofar samt ekki svo slæmu, þó svo hann komi ekki alveg í stað Bent Sørensen. Svo er Karl Aage kominn til baka eftir að hafa legið á sjúkrahúsi á Ítalíu. Hann var keyrður niður þar sem hann var í hjólatúr með vinkonu sinni. Hann var næstum dauður, höfuðkúpubrotnaði mjög illa, en þetta reddaðist víst allt saman. Hann á bara ekki eftir að heyra neitt á öðru eyra og helmingur andlits hans er lamaður...en hann er samur við sig elsku kallinn. Frábær náungi!

Við sköturnar erum annars á leið í matarboð til Sigrúnar og Skúla í Skødstrup (eins gott að Stebbi Pálma lesi þetta ekki upphát...HA HA HA!..."The Specialist" með Sylvester Stallone og Sharone Stone...HA HA HA!...ehemm...:o) Veðrið er fallegt og kvöldið lofar góðu í góðra vina hóp. Gaman að lifa og vera til í sólskini og dönsku vori!

15.3.03

Ny graj!!!
Jíbbíííí!!!! Í dag fjárfesti ég í hátölurum, magnara og geislaspilara. Þetta er nú farið að hljóma hérna inni í stofu...þvílíkur lúxus. Ég er glaður maður!

11.3.03

Nútíðin er trunta...
"Árið 1809 höfðu þrír hinna tignustu auðkýfinga í Vín, Rudolf erkihertogi, lærisveinn Beethovens, Lobkowitz fursti og Kinsky fursti, skuldbundið sig til að greiða honum [Beethoven] 4.000 gyllini á ári, að því einu tilskildu, að hann væri búsettur í Austurríki. "Þar sem allir vita," sögðu þeir, "að enginn maður getur helgað sig listinni, nema létt sé af honum öllum áhyggjum um öflun lífsnauðsynja sinna, og að aðeins þá er honum mögulegt að skapa þau verk, sem eru listinni til sóma, höfum vér undirritaðir tekið þá ákvörðun að firra Ludwig van Beethoven þessum áhyggjum og ryðja þannig úr vegi þeim hörmulegu hindrunum, sem annars gætu látið anda hans daprast flugið."
(Romain Rolland: Ævisaga Beethovens, bls. 40-41. Menningar-og fræðslusamband Alþýðu. Reykjavík 1940)

Reyndar stóðu þeir ekki alveg við sinn hlut þegar líða tók á árin. Greiðslan féll fljótlega niður. En afhverju þekkir maður enga svona gaura! Verð að drífa mig að kynnast einhverjum í aðlinum hérna sem á eitthvað "slot" og fullt af aurum :o)

10.3.03

Helgin og annað
Bjór er góður. Páskabjórinn er góður. Tuborg páskabjórinn er góður. Ég smakkaði hann á föstudaginn með Þyri, ArnBjörgu á öldurhúsi. Þetta var frumflutningur á páskabjórnum í ár. Ég ætla að smakka hann aftur.

Á sunnudaginn spilaði ég fótbolta. Það var gaman. Ég var inná lengi og sparkaði mikið í boltann. Það var drulla á vellinum, ég varð drullugur. Allir urðu drullugir. Við unnum ekki, en töpuðum heldur ekki. 2-2. Ekki sanngjarnt. Einhver sparkaði í löppina á mér. Veit ekki hver. Það er enn vont. Ég haltra með bólgna löpp. Samt var gaman.

Við fórum á tónleika. Kórtónleika. Kórinn heitir Gaya. Það var gaman á tónleikum. Þau sungu Bach kórala (þó svo að kóralarnir séu í útrýmingarhættu) og bland við annað. T.d. Bragms mótettur, Reger, Schönberg og Wolf. Góður kór. Flott músík. Gott kvöld.

Eru gamlar danskar konur öðruvísi en annað fólk? Svar: Já. Þær raula á strætóstoppistöðum. Gefa öðrum farþegum skiptimiðann sinn. Sitja úti í garði allt sumarið og drekka kaffi og prjóna. Þær eiga kápu. Sumar eiga líka skrýtnar húfur. Fara í kirkju. Þær fara í Føtex og kaupa bjór (eitthvað sem aðrar gamlar konur gera ekki). Þær eru hin beztu skinn...sem og aðrar gamlar konur og minnkar.

6.3.03

Vinnubúðir
Á síðastliðinn mánu.- og þriðjudag voru vinnubúðir (workshop) hjá okkur í tónsmíðadeildinni. Við fengum 2 æfingar með sinfóníuhljómsveit borgarinnar og spiluðu þau verk eða verkadrög eftir okkur. Það gekk fínt. Mjög lærdómsríkt og skilaði miklu.

í gærkvöldi vorum við sköturnar bæði að "performera". Þyri að spila á tónleikum í skólanum (spilaði 2 prelúdíurogfúgur eftir Sjostakóvits) og ég að syngja með kórnum mínum í "Musikgudstjeneste". Heppnaðist þetta allt með ágætum. Sigrún og Skúli komu og hlustuðu á Þyri og kíktu svo aðeins við, á leiðinni heim, hingað upp í risið. Gaman það.

Annars er ógeðslega kalt.

3.3.03

Ýmislegt
Já það hefur sko ýmislegt gerst síðan ég reit hér síðast.
Um helgina var t.d. saumaklúbbsdjamm hjá Þyri og hinum með-limum klúbbsins. Voða gaman. Mér fannst þá alveg tilvalið að við karlmennirnir hittumst upp í Skødstrup. Ég bauð okkur í eldhúsið hjá Skúla, sem býr í Skødstrup ásamt Sigrúnu sem er líka í kvennaklúbbnum, til þess að elda mat handa okkur (þ.e.a.s. ég eldaði) og svo fórum við með matinn yfir götuna til Róberts, því hann var heima að "passa" (þó svo maður passi ekki sitt eigið barn!) Lindu sem var lasin og móðirin var að skemmta sér með hinum stelpunum. Við eyddum svo kvöldinu hjá Róberti við spjall og huggulegheit. Því meður gátum við ekki allir verið þarna því Arnbjörn greyið var lasinn.
Af saumaklúbbsdjamminu er það að frétta að það mun líða langur tími þar til þær vilja fara aftur í núdistasundtíma í Spanien. Þær héldu þegar þær löggðu (lögðu???) að stað að þetta væri bara svona venjulegur sundtími nema að boðið væri upp á hlaðborð við sundlaugina og að það væri einhversskonar ilmolía í sánunni o.þ.h. (man ekki hvað þessir tímar eru kallaðir). Nema hvað að þegar þær mættu þá var þeim sagt að í þetta skiptið væri nektartími líka, en þær mættu vera í sundfötum! Þær voru þær einu í á svæðinu sem nýttu sér þann rétt! Það fannst þeim ekkert sérstakt. Eldri menn með ístru að sína sig á sprellanum og eldri konur að viðra tepokana. Svo kom formaður núdistaklúbbsins og sagði að þetta væri í raun nektartími og benti þeim á að fara úr sunbolunum. Það tóku þær ekki í mál. Fóru upp úr og kíktu á hlaðborðið. Þótti ekki geðslegt...og höfðu sumar á orði að boðið hefði verið upp á "typpapasta" :-D En þær höfðu bara gaman að þessu eftir á og skemmtu sér svo vel það sem eftir lifði af kvöldinu...

Jæja, nú er kóræfing að byrja. "Ég hringi síðar!!!"