27.2.03

Tónsmíðakennarar
Allir mínir tónsmíðakennarar sem ég hef haft (alls 4 stykki), eru með ístru. Reyndar hefur hr. "Klaage" (KarlAageRassmusen) ekkert svo stóra...en samt alveg í holdum.

25.2.03

Smekkleysa
Kórstjórinn sem stýrir Universitetskórnum, sem ég gaula með, hefur yfir að ráða þessari týpísku dönsku smekkleysu. Hann kemur með músík alveg æfingu eftir æfingu sem er svo hallærisleg að það hálfa væri nóg...en svo þykir sama manni verkið mitt vera spennandi!!! GÚLP!!! :o) Hann kom allavega með á síðustu æfingu einhvern þvílíkan hallærisgang eftir Gustav Holst að einn bassinn, og er í rauninni kollegi minn, gekk út af æfingu í hléi...sem og ég, en ég þurfti að fara að syngja á annari æfingu, ekki hann! Svo kom hann með einhverja djassstandardavellu áðan eftir einhvern Lindberg...held ég eigi meira að segja verk eftir hann á diski...og það var bara slæmt. En það þýðir ekkert yfir því að fást. Maður lætur sig nú hafa það fyrir ferð til Englands! ;o)

21.2.03

Ny graj
Já það er komin ný græja á heimilið. Myndbandstæki af Prosonic gerðinni! Einstaklega nett (gat sett það í körfuna á hjólinu mínu og hjólað með það úr Bilka) og straumlínulaga...afhverju ætli það sé??? Sennilega svo það taki ekki eins mikið vatn á sig þegar ég fer með það í sund.
En allavega, þá er þessi nýja græja alveg að standa sig. Gamla græjan...blessuð sé minning hennar...gafst upp í gærkveldi. Við sömburnar ætluðum að hafa það huggulegt og horfa á forkeppni Evróvisjón, sem við fengum senda á spólu frá Björgu og Erni. Takk enn og aftur kæru hjón! Frábært þetta fólk. Nema hvað að tækið gamla og góða gafst nú endanlega upp. Snéri bara bandinu við (þeas flækti spóluna) og við þurftum að toga heilmikið "tape" út til þess að laga dæmið. Þar að auki slökkti tækið alltaf á sér þegar spólan var byrjuð að spólast. Gæti verið að því hafi ekki litist vel á efnisval okkar? En ég held að tækið hafi nú alveg staðið sína plikt. Þyri var ekki nema...tja...eitthvað á milli 6-8 ára þegar foreldrar hennar fengu tækið austur á Reyðarfirði. Við munum tilkynna um útför þess síðar...blóm og kransar afþakkaðir.
Ég fór því og keypti nýtt á spott prís! Ekki nema 799.-kr! Nú erum við loksins komin með fleiri stöðvar en 14 til þess að flakka á milli. Já sko málið er þannig að við fundum sjónvarpið okkar sem við notum. Við fundum það í hjólageymslunni uppi í Skødstrup (þar sem við bjuggum fyrst þegar við komum til DK). Tækið fúnkerar "udmærket" (ómerkt?) nema að það er ekki hægt að skipta um stöðvar á því. Takkinn er eitthvað mis... og þegar maður ýtir á hann þá bara skiptir tækið um stöðvar alveg villt og galið, þannig að við verðum að skipta um stöðvar með myndbandstækinu. Sjónvarpið er af gerðinni Goldstar og er öruggleg ekki stærra en 21', en ekki kvarta ég, finnst þetta hið ágætasta tæki. Fæ reyndar soldinn hausverk þegar ég horfi á það, verð að nota lonníetturnar.
En! Nýja myndbandstækið hefur upp á að bjóða hvorki meira né minna en 80 stöðva minni. Við höfum bara ekki svo margar stöðvar...svo eru 40 stöðvar alveg nóg.

Jæja. Þá er ég búinn að romsa upp úr mér þessu með tækið og get farið að segja það sem ég vildi segja.
Eftir að ég hafði látið myndbandstækið nýja leita uppi allar stöðvar sem við höfum rétt á að horfa á, þó svo við höfum í rauninni ekki rétt á að horfa á sjónvarp yfir höfuð...en það er allt önnur saga, þá fórum við að kanna svona hinar og þessar nýjar stöðvar. Gaman að sjá allar þessar Evrópsku stöðvar. Tyrkneskar, Spænskar, Tékk-eðaeitthvaðþessháttar-neskar og Þýzkar. Svo duttum við inn á mynd með Richard Gere á einhverri spænskri stöð. Persónan var stödd í réttarsal, greinilega í einhverju Asíulandi því hann var með höfuðtól til þess að heyra ensku útgáfuna á því hvað allir voru að segja...jú,svo voru allir í salnum, nema Richard, af Asísku bergi brotnir. En það skondna við þessa senu var að allar persónurnar töluðu spænsku! Já, margt er skrýtið í henni Evrópu.19.2.03

Klám
Danir eru frumkvöðlar í klámiðninni. Þeir voru með þeim fyrstu til að gefa út klámblöð, svona "undercover" (undirheima) hjemmelavet klám (þennan fróðleik hef ég úr heimildarmynd sem ég sá, fljótlega eftir að ég flutti hingað, um danskt klám). Danskur almenningur er því mun umburðalyndari en t.d. íslendingar. Það sést vel á sjónvarpsefninu hérna. T.d. núna er spjallþáttur í gangi, sem kallast Line's (ekki "línur" heldur er þetta spjallþátturinn hennar Línu) og þar er hún Lína að spjalla við fyrrverandi og núverandi klámmyndaleikara. Þátturinn byrjaði kl. 21.55. Einhvernveginn hef ég ekki trú á að þetta gæti gerst á hinum norðurlöndunum. Afhverju ekki???

Mikið einstaklega er "Töframaðurinn frá Ríga" með þeim Possibillies-bræðrum alltaf góður diskur. Maður fær seint leið á honum.

Svei mér þá, ég held barasta að vorið sé ekki langt undan!

16.2.03

Flugpisserí
Nei, þetta er ekki pissusaga í líkingu við "Stefán á Möðrudal" pissusöguna ef þú hélst það. En málið er að ég stóð og hafði þvaglát núna fyrir nokkrum mínútum. Kl er um hálf sex á sunnudagseftirmiðdegi. Nema hvað að mér er litið upp (þrátt fyrir vandasamt verk) og út um þakgluggann, en efripartur hans nemur nokkurnveginn við ennið á mér þegar ég stend við þess iðju, og sé þá 2 þotur að fljúga yfir. Úti er heiðskírt svo að þær skyldu eftir tvær fallegar rákir á bláum himninum. Þegar þoturnar voru nýbúnar að krossast sá ég þá þriðju koma úr gagnstæðri átt. "Vá...3 þotur á flugi á því svæði sem ég sé út um gluggann" hugsaði ég með mér. En svo munaði næstum littlu að ég pissaði framhjá þegar ég sá þá FJÓRÐU fara í svipaða átt og fyrstu 2. Og þetta gerðist allt á meðan ég pissaði. Ég held að ég hafi aldrei upplifað annað eins pisserí!

15.2.03

Júróvisjón
Váááá...ég er að hlusta á forkeppni Eurovision keppninnar á netinu. En ég er töluvert svekktur yfir að geta ekki horft á keppnina, þó svo ég hafi Microsoft Media Player! Hey!!! Nú er þetta að detta út! Djöö*** maður, ég sem er orðinn svo spenntur....nottt!
Jæja, úr því að Björg er að taka þetta upp þá hætti ég bara að hlusta á þetta steingelda gaul...allavega er Kalli Olgeirs alveg að feta í farin spor, eins og hann er beztur í.
Ég gleymdi að segja frá því áðan að Þyri fékk með pósti pakka frá Íslandi í morgun. Og í pakkanum var bréf, myndbandssnælda og bók...bréfið var frá Björgu, myndbandssnældan innihélt upptöku úr Ríkissjónvarpinu af þáttum um fræga píanóleikara (kolólöglegt en hljómar spennó) og Hobbitann! JEIJ! Mér líður eins og ég hefi fæðst í Paradís, verið rekinn þaðann út en hleypt svo aftur inn vegna góðrar hegðunar og mikilla sjálfboðastarfa á vegum Rauða krossins og kirkjunnar. Ég er nefnilega sko búinn að lesa Hringadróttinssögu og er að lesa Sirlmerillinn (hún er frekar þungfær, mikill skafrenningur og ofankoma í þokkabót), nema hvað að ég hef aldrei lesið Hobbitann...ekki einu sinni á ensku í ensku 303! Þannig að ég hef fengið aftur inngöngu í þennan frábæra ævintýraheim J.R.R. Tolkiens. Júhú! Ég segi því "takk Björg og Örn!".
Úff...ég er búinn að skipta yfir á Rás2 þar sem að "sjónvarpið" fúnkerar illa í vélinni minni og ekki er Grétar Örvars að gera neitt gott! Vááá hvað þetta var lélegt lag!
En mikið asskoti eru þetta fínir kynnar! Ha! Bara fyndnir og allt.
Ingunn Gylfa enn að syngja í forkeppni. Hún hefur mjög sérstaka rödd, skemmtilega þunna og heillandi, og söng ansi gott lag þarna um árið...man ekkert hvað það hét...en það var anzi gott. En þetta lag er ekki að gera neitt sérstakt.
Jæja best að hætta að lýsa júróvisjón fyrir ykkur, þið eruð öruggleg hvort eð er að horfa ;o)Gestur og aðrir
Í fyrradag (fim.) kom Ragnar, frændi Þyri, í heimsókn til okkar. Hann var að sleppa frá Nígeríu og fannst tilvalið að kíkja til okkar áður en hann fór til Saudi-Arabíu. Ekki lítið furðulegir staðir sem maðurinn er að vinna á! Við fórum í bæinn á föstudaginn og settumst á kaffihús. Hann vildi endilega bjóða okkur út að borða, sem við höfðum ekkert á móti, og var kvöldi hið skemmtilegasta. Mikið spjallað um heima og geima. Allt frá ástandinu í Nígeríu til meinlætalífs dana. Gaman gaman.
Daginn eftir sátum við bara og röbbuðum og höfðum það náðugt.
í dag er Þyri eitthvað veik. Ekki nógu gott. Smá hiti og beinverkir. Ómögulegt að segja hvaða andsk... þetta er. Þannig að við förum ekkert í "húshitunina" hjá Eyvind og Siggu. En það kemur dagur eftir þennan dag!
Annars hef ég lítið að segja þannig ég þegi bara héðan í frá.

12.2.03

Gleði

Í dag er ég kátur.
Leiðinlegt að segja afhverju.
Kennarinn minn hefur "sygemelt sig" í dag.
Leiðinlegt að gleðjast yfir slíku tilefni, en ég var EKKERT búinn að læra heima.
Afhverju?
Jú, t.d. þá fór ég upp í Skødstrup í gær að horfa á einhverja amríska sprengjuvitleysu. Hjónin Selbert eiga nefnilega heimabíó og við strákarnir hittumst þar í tilefni útstáelsis kærastann okkar sem eru saman í "saumaklúbb". Við höfðum því innstáelsi í staðinn. Voða gaman. En ég lærði ekkert.
2. ástæða fyrir því að ég var ekki búinn að læra?
Jú, á mánudaginn þá fórum við sömburnar í videoleit. Hið 18 ára gamla myndbandstæki sem við fengum frá Nínu og Hilmari gaf nánast upp öndina á sunnudagskvöldið. Ég þurfti að pota voða mikið með skrúfjárninu mínu til þess að ná spólunni út og undir rest þá þurfti ég að beita afli til þess að ná henni út. En það furðulega er að það virkar ennþá!!! Furðulegt. En þetta var ekki í 1. skipti sem ég hef þurft að taka tækið í sundur til þess að ná spólu út. Þannig að við ætlum bara að fjárfesta í ódýru tæki í BILKA...jafnvel.
3.ástæðan fyrir því að ég hef ekki lært neitt fyrir daginn í dag?
Við í matarklúbbnum fórum á skauta á sunnudaginn. Gaman! Ég steig á skauta í fyrsta skipti þann dag. Gekk bara sæmó. Allavega með heilar hendur og haus...svona eins heill og hann getur verið!

Þannig að það er nóg að gera í félagslífinu.

Í dag kom gagnrýni um tónleikana hjá Hljómeyki á sunnudaginn í Morgunblaðinu. Hljómaði bara ágætlega, samt svolítið furðuleg. Greinilega ekki vanur að skrifa svona gagnrýni. En nú er ég bara að tala útfrá hvernig hann byggði upp rýnina, ekki að ég hafi eitthvað verið mótfallinn því sem hann sagði. Alls ekki.

Lyktin af stólnum er að skána.

10.2.03

Díra-da-da-da-da-da!!!
Jibbíííí! Nú hefur Zoega fjölskyldan sýnt hvað í henni býr og reddað mér Todmobilelaginu. TUSIND TAK!!!

Frétti annars að tónleikarnir í gær hafi gengið bara ágætlega. Spurning hvort af útvörpun verður. Læt þá allavega í mér heyra ef svo verður.

Við keyptum okkur stól í dag á 90 d.kr. Voða fínn bara. Lyktar illa (smá svona raka-saggalykt einhver) en það mun vonandi skána við stöðuna við ofninn.

Þyri var að spila í Töfraflautunni í kvöld. Gekk bara vel. Söngvararnir misjafnir, en allir áttu sína góðu spretti sem og hljómsveitin. Í heild var þetta hin ágætasta skemmtan og salurinn í skólanum troðfullur (ég sat á gólfinu 1. klukkutímann...eða fram að hléi...0.5 tími eftir hlé).

5.2.03

Barbara Ara gaf Ara Araba, í Írakabakarí, rabbarbara...spurðu Rabba bara
símtal:
x: hva!, eru gesti hjá þér?
y: nei það er bara einhver Arabi að tala í sjónvarpinu.
(Arabinn var Saddam okkar Hussein að segja frá hversu góður strákur hann væri!)

já, það fylgjast ekki allir með sko!

Powell átti stórleik í dag. Matlock var ekki svona góður. Ótrúlega fávitalegt.

Á tónleikana í Gautaborg mættu alls sjö! Flytjendur að ferðast frá Árósum, í vondu veðri, með rútu og ferju, í heilan dag, og það koma SJÖ á tónleikana! ÓTRÚLEG KYNNINGARSTARFSEMI!

Eitthvað eru menn ósáttir með STEF þessa dagana, allavega s.k.v. Tilverunni.is. Furðulegt! Kannski er eitthvað til í því að það komi mikið magn af aurum inn í STEF en of lítið út, en ég gleyp ekki við því fyrr en ég fæ sannanir. Powell ætti kannski að kanna þetta. Ætli menn verði ekki næst ósáttir við að skattarnir þeirra fari í bókasöfn, menntun, aðstöðu til þess að iðka íþróttir, almenningssamgöngur ofl.ofl. Allavega finnst mér vera kominn tími á það eins og listina...eða bara að fatta dæmið.

Mikið er fyndið að heyra dani reyna að syngja á íslensku! Nett sambland af finnsku og rússnesku...HAHAHA! Það verður spennandi að heyra hvernig þau ná þessu, þeas UNI-kórinn (sem er að æfa nýjasta kórverkið mitt).

Bakaríin (ekki þó Írakabakarí-in) eru farin að selja Fastelavnsboller. Fastelavn er s.s. í grenndinni, veit samt ekki hvenær. Fastelavn er annars svona ösku-bolludags mixtúra einhver. Ekki reyna að útskýra fyrir dönum hvernig bolludagurinn er á Íslandi...það kemur bara eitthvað sifjaspell út úr þeirri lýsingu, eða svo vitnað sé í einhvern stoltann íslendinginn "så boller børnene sine forældre i sengen...og alle boller hinanden..." osfrv.

Hey, það hefur enginn fundið Díradadadada lagið með Todmobile fyrir mig! sniffsniff :o( Kíkið nú í safnið ykkar eða hjá kunningjunum...maður veit aldrei hversu lélegur tónlistarsmekkur náungans getur verið :o)


2.2.03

markaregn
Í gær var 10 ára afmælismót hjá Sparkfjélaginu Heklu í innanhúsfótbolta. Mitt lið skoraði ekki jafn mörg mörk og allir hinir mótstæðingarnir... en gaman samt. Mér tókst að klúðra einu marki inn. Og þá meina ég KLÚÐRA einu marki inn. Ég tók sprett frá miðju (s.s. hægt skokk á annarra manna mælikvarða) og fékk sendingu. Ég stóð einn á móti tómu marki og átti bara eftir að pota tuðrunni á milli slánna. En þar sem ég var kominn á svo mikinn hraða þá steig ég yfir boltann og fór aðeins fram úr honum. Snarhemlaði ég því á línunni og beið eftir boltanum og ýtti aðeins á eftir honum inn fyrir marklínuna. Ótrúlegt hvað maður er lélegur miðað við að ég hef æft fótbolta í nokkuð mörg ár :o)

Nú er Þyri mín ásamt nokkrum öðrum nemendum úr konsinu að sigla á milli Frederikshavn og Gautaborgar. Þau eru að fara að spila á tónleikum þar í kvöld. Einhver seinkun er á þeim því að ferjan sem þau ætluðu með þótti ekki henta veðrinu sem er núna þannig að þau urðu að taka aðra ferju sem er stærri og hæggengari. Þannig að það má reikna með nokkrum sjóveikum hljóðfæraleikurum á tónleikum í Gautaborg í kvöld. Vona bara að þetta gangi allt saman vel.
Þau spiluðu tónleika hérna í Árósum í Músíkhúsinu (Musikhuset) á föstudagskveldið síðasta og gekk bara ágætlega. Verkin ekkert æðisleg en þau gerðu sitt besta.
Sama kvöld var óperusýning í stóra salnum. Den glade enke eða káta ekkjan eftir Lehár er á dagskránni. Þegar ég kom inn í anddyrið var eins og maður væri kominn á árshátíð eldriborgara. Eintómar fjólubláar lagningar. Reyndar leyndust aðeins yngra fólk þarna en meirihlutinn var yfir 60. Ég hef ekkert á móti eldriborgurum, síður en svo, en það segir mannir svolítið um efnisskrána þegar fjólubláu lagningarnar eru mættar. Reyndar er mér tjáð að þessi uppsetning sé ansi djörf, þannig að þetta gæti verið spennandi.