29.12.03

"I'm dreaming of a white christmas..."
Afsakið netluleysið yfir hátíðina. Það hefur bara verið í nógu að snúast. Síðast þegar ég skrifaði þá höfðum við nýkeypt tréð okkar yndisfríða. Það hefur sko staðið sig vel. Ekki fellt eitt einasta barr. Skarta sýnu fegursta, enda hefur það útsýni yfir góðan hluta Árósa.
Á aðfangadag sungum við í messum, þremur messum. Sungum að sjálfsögðu eins og englar. 2 um daginn og 1 miðnæturmessa. Við snæddum önd sem Prumpulína var búin að steikja í 6 tíma! Þvílík snilld. Hún fann uppskriftina á netinu. Við tróðum eplum og sveskjum í rassgatið á öndinni og pipruðum og söltuðum hana. Inn í ofninn á ekkert of háan hita. Eftir 6 tíma var c.a. 1 ltr. af fitu kominn í skúffuna undir öndinni, en mikið rosalega var hún góð! Jömmí!
Við tókum því svo bara rólega, vöskuðum upp, ég lagaði mér espresso og svo var hafist handa við gjafirnar. Vissum eiginlega ekki hver ætti að lesa á pakkana, en það leystist nú og allt var opnað. Ég fékk fullt af fallegum gjöfum. Fullt af góðum og spennandi bókum, að sjálfsögðu eitt par af hlýjum sokkum (algjört must!), geisladiskinn með Lisu Ekdahl (hún er uppáhalds sænski kvk. trúbadorinn minn, bara fín), vel ilmandi sturtusápu ofl.ofl. Takk til ykkar allra!
Eftir ris a'la mand og gjafaupptekt þá fórum við í miðnæturmessuna. Ég fór að sjálfsögðu í mínum hátíðarfötum sem ég hafði verið í frá því kl. 18 og Þyri í sínu fínasta pússi. Að sjálfsögðu...en ekki í Danmörku. Danir eru ÓTRÚLEGA púkalegir þegar kemur að því að vera í "sparifötum". Þeir eiga örugglega EKKI spariföt. Það voru bara flestir í sínum gallabuxum oþh. Ekkert meira hátíðlegra en í venjulegri messu. Þetta fannst mér frekar púkalegt. En við sungum og gekk vel.
Jóladagur fór í að syngja messu og fara í hangikjötsveislu til vinafólks okkar. Mjög huggulegt og gaman.
Annar jóladagur fór í að syngja í messu (að sjálfsögðu) og snæða bestu sjávarréttarsúpu sem ég hef smakkað, með vinafólki okkar hér heima hjá okkur.
Á laugardaginn fórum við í heimsókn til ættingja okkar sem búa ekki langt frá Árósum (fórum til Horsens og Julesmynde) og áttum góðan dag með þeim.
Í dag, eftir að ég hafði sungið í messu, sváfum við :-) Úti var mígandi rigning. Notalegt að kúra sig inni.

Þar hafið þið það.
Áramótin framundan. Engin ræða með Dabba feita, engvir fréttaannálar, ekkert skaup, engin brenna, engin svið á Hlíðargötu 24, engvir ættingjar. Aftur á móti verður ræða með Margréti Þórhildi og huggulegheit með góðum vinum. Kannski einhverjir flugeldar í lofti og jafnvel skálað í freyðivíni...allavega munum við hafa það gott.
Vona bara að það rigni ekki eins og undanfarið.

21.12.03

Jólatréð í stofu stendur, stjörnuna glampar/vantar á
Gærdagurinn var stór dagur í mínu lífi. Afhverju það? Jú, ég keypti lifandi jólatré í 1.skipti á ævinni. Á Hlíðargötunni hefur aldrei verið lifandi jólatré síðan ég man eftir mér. Þar er sígrænt og óbarrfellandi plastjólatré. Mér finnst það samt alveg fallegt þegar ljósin eru komin á og allt draslið sem foreldrar mínir eru búnir að safna sín undanfarin búskaparár. Sögulegt jólatré. "Við verðum líka setja jólasveininn sem Daníel gerði í 3.bekk á tréð" og "Nei sko, þarna er jólakúlan sem pabbi þinn gaf okkur fyrstu jólin okkar, Maja mín." eru setningar sem falla þegar litla plasttréð er skreytt.
Tréð sem við keyptum í gær var "ást við fyrstu sín". Tréð stóð við innganginn að jólatrjáasölunni fyrir framan kirkjuna mína og það beinlínis kallaði á mig. Hæð þess er fullkomin í stofuna okkar og svo er það jafnþétt. Væri garanterað búið að höggva það í "skóginum" hans pabba...þeas hefði hann tímt því, það er svo fallegt.
Trénu var smokrað í net og svo fékk það salíbunu með Århus Sporveje heim. Nú prýðir það stofuna okkar ásamt 50 ljósum og nokkrum kúlum. Virkilega fallegt.

Það er ekki bara tréð sem fyllir mann af jólahug, onei. Mömmur okkar Þyri hafa líka séð um það. Við erum bæði búin að fá huggulega pakka með bragðgóðum smákökum, aukreitis við þær sem Þyri bakaði, þannig að við höfum ekki þörf á að baka meira. Takk mömmur og pabbar!

Ekki má gleyma öllum pökkunum og kortunum sem okkur hafa borist með póstinum. Allt að fyllast. Það stefnir í heljarinnar vinnu á afðfangadagskvöld við að opna þetta allt. Maður nær varla að gleypa í sig öndina og gúffa í sig grautnum á milli messa (...okok, messna, en bara fyrir þig Daníel!;-). Það eru nefnilega 3 messur sem við syngjum í á aðfangadag. En það verður bara fínt. Maður er allavega ekki að velta sér upp úr heimþrá á meðan. Allavega stefnir í að við munum hafa það verulega gott, hérna í Árósum, um jólin.

17.12.03

Jul, jul, strålende jul...
Á örfáum dögum hefur risíbúðin okkar breyst í jólarisíbúð. Þyri er búin að skreyta og gera voðalega huggulegt, eins og henni einni er lagið. Gyllti jólagrísinn frá Georg, sem Nína og Hilmar gáfu okkur, hangir í kvisti og einnig nokkrar negulstungnar mandarínur. Það lítur út fyrir að jólin verði barasta hin huggulegustu þrátt fyrir að þau verði haldin á danskri grundu.
Hef ekki orku í meira...þessi jólakort taka svo mikla orku að ég er orðinn rangeygður og vitlausari. Go' nat!

12.12.03

Julefrokost part II.
Í gær var julefrokost hjá Sct.Paulskirke sóknarnefnd...já hljómar ekki vel...en það var mjög gaman. Maður verður sko náttúrulega að átta sig á því að ef maður vill eitthvað gott með kaffinu eða bara góðan mat yfir höfuð þá er hann að finna í sóknarnefndum, eða allavega í kirkjum. Yfirleitt eru nefnilega eldri konur sem starfa fyrir sóknarnefndir þegar kemur að einhverju matarkyns og oftast nær eru þær brilliant kokkar. Maður gleymir t.d. ekki kökuhlaðborðinu hjá kvennfélaginu í Neskaupstað, með Dóru Marteins í broddi fylkingar...allavega í mínum augum, því hún sá sko til þess að hann Stebbi litli fengi eitthvað..., þegar maður var að spila fyrir gamla fólkið sem var líka að spila, á spil. Eitthvað sem maður gleymir aldrei. Við bræður spiluðum þó nokkrum sinnum. Gamla fólkið var reyndar svo niðursokkið í spilamennskuna að það þurfti að sussa á suma, og svo hófust umræður kannski, í miðju lagi, um hverra manna þessi drengir nú væru og ekki virkuðu heyrnatækin hjá öllum. En þetta var mjög gaman og eins og ég segi, alltaf eitthvað gott með kaffinu og nóg af því.
Ég var s.s. í gær í svona julefrokost þar sem tvær konur sáu um matinn. Það var greinilegt að þær höfðu gert svonalagað áður. Maturinn var frábær.
Á borðum var eftirfarandi (en NB þetta var borið fram í eftirfarandi röð, ekki allt sett á eitt hlaðborð...onei...heldur tók þetta langan tíma, c.a. frá 19.30-23.30! með leikjum og söng inn á milli) :
Fyrst var "hvít og rauð" marineruð síld með karrýsalati og marineruð steikt síld.
Næst kom steikt rauðsprettuflök (fyrir þá sem ekki þekkja þá eru þetta djúpsteikt flök með rasp utan á, örlítið stökk) með remúlaði.
Þar á eftir var svo borið á borð heit lifrarkæfa með beikoni og súrar gúrkur með, skinka með "ítölsku" baunasalati, svínasteik með puru og rauðkál með, kjúklingalæri og æbleflæsk (já, beikon og epli steikt saman á pönnu, er glettilega gott).
Sem "nattemad" (sem reyndist var aðeins í fyrra fallinu) voru rækjur og mayonais og sítrónur með ef maður vildi.
Svo voru bornir fram ostabakkar og kex og vínber.
Til að slútta þessu var svo ris a'la mand (ég fékk ekki möndluna, allavega ekki heila möndlu) með heitri kirsjuberjasósu og kaffi.
Ekki má gleyma að það var rúg,-og fransbrauð með öllum réttunum og gos, rauð,-og hvítvín og öl til að skola þessu niður með.
Sennilega var þetta flottasti julefrokostinn í ár...á einn eftir og hann er með tónskáldunum í deildinni, reikna ekki með svona fínheitum þar ;-)
Ég fór ekki svangur að sofa.

11.12.03

Amma sá afa káfa af ákafa á Samma
Þeir sem EKKI hafa lesið samhverfurnar á Baggalútur.is skulu smella hér.

10.12.03

Leiðinlegi pistillinn
Það sem gerist hjá mér þessa dagana er ekki mikið annað en músík, músík og svo einn og einn jólafrókostur...svo meiri músík. Frábært!

Það hefur verið heilmikil tónfræði törn síðastliðnar vikur. Ástæðan er sú að í staðin fyrir að hafa tíma í hverri viku þá höfum við nokkur seminar (hóptíma, námskeið?) um árið um eitthvað eitt ákveðið efni. Nú er það Schubert blessaður.
Ástæðan fyrir því að við fjöllum um Schubert er aðallega sú að kennarinn minn í tónsmíðum, Karl Aage Rasmussen, hefur notað síðasta ár í að fullgera óperu eftir Schubert, óperuna Sakontala. Schubert lifði ekki lengi blessaður, varð einvörðungu 31. árs, og hann skrifaði um það bil 1000 verk (fullkláruð þá, held ég) og hann byrjaði 15-16 ára að semja! Það hefur verið kannað hversu lengi það tæki atvinnu nótnaritara að hreinskrifa allar þær nótur sem Schubert hefur skrifað í verkin sín og það tæki hann c.a. 47 ár!
Jæja, yfir í óperuna aftur. S.s. Karl Aage hefur setið með afrit af handritum Schuberts með þessari ófullgerðu óperu. Söguna bakvið afhverju hann hefur gert það nenni ég ekki að fara með...ef þið hafið einhverja mótbárur þá vinsamlegast kvartið í athugasemdarkerfið hér að neðan.
Það sem hefur verið hans verk er að gera uppsetningarhæfa óperu úr aðeins 2.þáttum. Það hefur honum tekist. En þetta er meira en bara að hreinskrifa músík. Schubert samdi nefnilega rosalega hratt, eins og verkafjöldinn gefur til kynna, það er t.d. talið að það tók hann ekki meira en 3 mánuði að skrifa þessa 2 þætti (sem eru c.a. 400 bls. samtals). Þannig að Schubert skrifar bara út söngraddirnar með texta og svo einn og einn takt í hljóðfærunum, eiginlega bara minnismiða, því hann hefur haft alla þessa músík í hausnum, þurfti bara aðeins hjálp við að muna ef eitthvað sérstök hljómsetning átti að vera í þessum takti, eða hvernig mótív strengirnir áttu að spila.
Nú hefur Karl Aage klárað þetta og óperan er uppsetjanleg. Samkvæmt librettóinu ætti óperan að vera lengri, en 3.þáttur er bara svo lélegur textalega séð að það væri engum greiði gerður með að setja músík við hann, og það hefur Schubert greinilega þótt sjálfum...allavega hætti hann.
En nú höfum við í tónfræðideildinni fengið það verkefni að gera slíkt hið sama við vel valdar aríur úr þessari óperu. Þ.e.a.s við eigum að hljómsetja og hljóðfærasetja laglínu í Schubert-stíl. Hljómar ekki spennandi fyrir ykkur öll...en ég er mjög spenntur að sjá hvað kemur út úr þessu. Við erum náttúrulega búin að greina soldla glás af músík eftir hann og hlusta töluvert þannig að við vitum aðeins um hans tónamál.

Á föstudaginn síðasta var jólafrokost (kl.18.30!) í UNI-kórnum. Róleg samkunda eins og vanalega hjá þessum kór. Maturinn var fínn og við höfðum það verulega huggulegt, en það er bara eitthvað að partýgenunum þegar þessi hópur hittist. Góður hópur samt. Heimagerða lifrarkæfa Carstens (stjórnandinn) sló rækilega í gegn...amminamm...með stökku beikoni og rúgara...jömmí! Síldin var heldur ekkert slæm. Öllu skolað niður með "et par beger" og smá snafsadreitli.

Í gær voru svo tónleikar. 1.tónleikarnir í mínu lífi þar sem ég syng SÓLÓ! Ég fékk hlutverk Heródesar (Heróðes...muna að leggja áherslu á "ó-ið" og hafa mjúkt "r" sem liggur aftarlega í kokinu, ekki skrolla á því samt ;-) í verkinu eftir Distler. Á prógramminu var Hugo Distler: Die Weihnachtsgeschichte, Arvo Pärt: Sieben Magnificat-antifoner og Svend Nielsen: Kapitler..."fra tårnet ved verdens ende". Þetta gekk...en við brilleruðum ekki. Allt á síðasta snúningi. Vonandi verða tónleikarnir í Álaborg, í kvöld, betri.

Þá hafið þið lesið það sem á daga mína hefur drifið...nei gleymdi einu! Undanfarnar nætur hef ég vaknað svona um 5 leytið við hanagal! Aldrei heyrt í honum áður, en það er greinilegt að það er hani í hverfinu sem lætur snemma í sér heyra. 1. hélt ég að mig væri að dreyma, en nóttina á eftir ákvað ég að vakna aðeins og leggja við hlustir. Jújú, real hani var þarna á ferð! Gaman að því. Klöppum fyrir hananum.

4.12.03

Krakkaskrattar
Ég var ALDREI hýddur í barnæsku, enda þurfti ekki til. Var einstaklega þægur og prúður krakki. En stundum held ég að kennarar og aðrir sem hafa eitthvað með börn að gera ættu að fá að ganga um með bambusprik (eða hamar eins og Viddi gerði þegar hann kenndi okkur dönsku :o) og nota á þessa krakka við tækfifæri. Það er reyndar vandræði að segja til um hvenær er tækifæri, en ég varð vitni að einu núna áðan á leiðinni í skólann.
Fyrir neðan penthousið mitt er svona skóladagheimili (held að það sé skóladagheimili) þar sem krakkarnir fá áframhaldandi ummönnun, eftir að skóla lýkur, af öðrum en foreldrum. Bráðnauðsynlegt í nútímasamfélagi þar sem að allir þurfa að keppast við að eiga aura til að geta keypt allt draslið handa krakkanum, því krakkinn er ekki ánægður nema að hann eigi allt það sem vinirnir eiga og helst aðeins meira til, og svo náttúruleg verða foreldrarnir að geta státað af því sama og nágranninn og eiga helst aðeins meira. Ég gekk framhjá þessu dagheimili á leiðinni í skólann (ákvað að ganga í skólann, ekki hjóla, þar sem ég hafði nægan tíma og það tekur ekki nema 5 mín að labba þetta ;o) Á lóðinni fyrir framan þetta "heimili" er leikvöllur og á leikvellinum var búið að planta risastórri kurlvél, til að kurla greinar. Það var búið að berstrípa trén og eftir stóðu haugar af greinum og klunnalega vaxin tré. Garðyrkjumennirnir voru byrjaðir að kurla. Það var greinilegt að krakkarnir máttu ekki vera úti vegna þessa skaðræðis tækis, og skil ég það vel, það hefði getað hakkað einn krakka eins auðveldlega og það var auðvelt fyrir garðyrkjumanninn að skola niður bjórnum með hádegismatnum (þetta var kurlvél af stærrigerðinni, verulega "pro"). Nema að það voru tveir guttar með hor að sniglast þarna í kringum. Fljótlega kom ungur maður og kallaði til þeirra að þeir ættu að koma inn. Strákarnir voru ekkert að sinna því. Héldu bara áfram að sniglast. Þá þurfti maðurinn að labba í átt til þeirra og öskra enn hærra (vélin olli töluverðri hávaðamengun) að þeir mættu ekki vera þarna. Öskraði þá ekki annar krakkaskrattinn "HOLD KÆFT!" upp í opið geðið á "barnapíunni".
Hvað gerði sá í uppeldishlutverkinu? Ekki neitt! Hann má ekkert gera, annað en að tala við börnin og reyna að útskýra að það er hættulegt að umgangast svona tæki og vinsamlegast (með blíðum rómi) að koma inn.
Ekki nema von að samfélagið er ekki betra en það er!
At vente
Jú nú bíðum við. Höfum reyndar gert það í 4 daga. Gleðilega aðventu öll sömul...mér láðist víst að óska ykkur þess þarna um daginn.
En vegna aðventunnar þá hafa danirnir yfirvinnu í "hygge"-deildinni. Maður eins og ég hefur gaman af að gjóa inn um glugga þegar myrkur er úti og ég á kvöldgöngu. Þetta er ekkert vandamál...er ekki ennþá búinn að læra að lesa af vörum eða þannig...mér finnst bara gaman að sjá hvernig fólk býr. Þetta kannast allir við...uuu...vona ég ;-)
Aaaalllavega, þá sér maður allsstaðar kerti og fólk í yfirtíð við að "hygge sig", þjóðaríþrótt dana eins og einhverjum varð á neddi/netli/bloggi.
En samhliða öllu þessu heimahuggeríi þá þykir tilvalið að hafa tónleika í kirkjum landsins. Gamla fólkið dustar af sér mesta rykið og fer í sparifötin...nei bíddu!...það gerist ekki í danmörku, fólk á EKKI spariföt...en allavega þá mætir gamlafólkið og örfáir aðrir slæðast með. Ég var t.d. á tónleikum á laugardaginn með Domkirke kantori (Dómkórinn) og splunku nýja drengjakórnum þeirra. Þegar drengirnir voru búnir að ryðja út úr sér jólalögunum, "Það aldin út er sprungið" var í double-tempo, þá fór stór hluti af públíkum. Varð að drífa sig heim að halda áfram að hygge...eða versla, þetta var jú kl.12 á laugardegi...en hafði ekki tíma til að heyra restina af tónleikunum. En gamlafólkið sat áfram!
Aaaalllavega (part II), þá voru tónleikar í gærkvöldi með Sct. Pauls kantori (Kór Heilags Páls) sem ég syng í. Þetta voru bestustu aðventutónleikar sem ég hef sungið. Prógrammið innhélt ekki nein hálfpoppuð jólalög í lokin, eins og svo vinsælt er, heldur hafði góða og fallega jólasálma í lokin ("Hvorledes skal jeg møde" í JSB (EKKI jazzballetskólibáru) raddsetningu, "En rose så jeg skyde" í "raddsetningu" Hugo Distlers, "Barn Jesu i en krybbe lå" eftir Gade og svo "Forunderligt at sige" eftir þjóðartónskáldið Carl Nielsen).
Áður en við sungum þessa sálma voru stærri verk flutt eins og t.d. "O tod, wie bitter bist du" e. Max Reger. Einnig voru 2 einsöngvarar úr kórnum sem sungu nokkra vel valda ópusa.
S.s. blandað prógram, en mjög fallegt og heilsteypt.
Ég held ég hafi aldrei upplifað eins mikla stemmningu í kórnum. Kórinn er lítill (c.a. 15) en hann hljómaði verulega vel. Söng sumt best á tónleikunum sjálfum. Kom verulega á óvart. Svo snæddum við "æbleskiver" (hefur ekkert með epli að gera...þetta er svona kúlulaga djúpsteikt kleinudeig, etið með flórsykri og sultu) og drukkum kaffi. Hyggehygge!
Ég gat ekki sofnað þegar ég kom heim, sökum spennu í taugakerfinu eftir tónleikana. Höfðum betur fengið okkur "julebryg"...

30.11.03

Frumflutningur
Jæja! Þá er búið að frumflytja nýjasta slagarann minn, Morrk, fyrir 7. gítara og harmóníku. Nú getið þið bara beðið eftir að þeir á MTV fara að spila myndbandið...allir í sundfötum og harmóníkuleikarinn dansar eggjandi dans...tja...eða...kannski ekki. En þetta gekk vel og ég er bara þokkalega ánægður. Svo var ágætlega mætt...þeas á svonatónleika mælikvarða...c.a. 45.
Allavega, Morrk rokkar feitt.

28.11.03

Heimsmeistarinn ÉG
Vildi bara láta ykkur vita að ég bý til bestasta lasagne í öllum HEIMINUM!
Annað var það ekki.
Eða jú!
Ég er bestastur í heiminum að semja músík, þ.e.a.s músíkina mína.
Þar með er það upptalið.
DonGiovanni
Þær breytingar sem Mozart gerði á óperunni Don Giovanni þegar hún var flutt í Vín, en óperan var frumflutt í Prag 29.október 1787 og sló rækilega í gegn, eru þó nokkrar og má segja að það sé allt önnur ópera sem hinir "léttmetiselskandi" Vínarbúar fengu að heyra í maí 1788. Breytingarnar eru eftirfarandi:
Don Ottavio, sem var sunginn af tenórnum Morelle, fékk nýja aríu í 1.þætti (nr.10a, Dalla sua pace), en aftur á móti var aríunni hans sleppt í 2.þætti (nr.21a, Per questo tue manine). Stjörnusópraninn Catarina Cavallieri, sem söng hlutverk Donnu Elviru, fékk auka aríu (með tilheyrandi samleiks sönglesi, "accompagnato-recitativ") í 2.þætti (nr. 21b, In Quali eccessi) og atriðinu með Zerlinu og Leoporello (nr.21a, Per questo tue manine) var bætt við. Svo var lokasextettnum sleppt!, þannig að óperan endar með dauða Don Giovannis, og hans inngöngu í helvíti, í d-moll.
Þar hafið þið það. Ef þið skilduð vilja lesa meira um þessar breytingar á óperunni (þó helst um yfirstrikun lokasextettsins) þá kíkið á þetta. Þaðan hef ég mínar heimildir.

23.11.03

Uppáhald
Þetta er frábær síða!

22.11.03

Hjá vinum
Þessa stundina er ég í heimsókn hjá Sigrúnu og Skúla. Þau buðu mér í heimsókn svona þar sem að ég er grasekkill þessa dagana...voru eitthvað hrædd um að ég myndi svelta (as if!). En ástæðan fyrir því að ég skrifa þetta þar, er sú að Sigrún bað mig um að sýna sér smá í sambandi við blogger-vefsíðu-viðhalds-kerfinu...orð sem ég heyri stundum Huga Þórðar nota, er nýlega búinn að fatta hvað það þýðir...og hér er hlekkur á síðuna þeirra (þessa nýju)

Á föstudaginn þá sá ég Don Giovanni í 1.skipti. Gaman. Sá Prag útgáfuna, þannig að spurning dagsins er:
"Hver er munurinn á Pragútgáfunni og Vínarútgáfunni á Don Giovanni eftir Mozart?"
Svör berist í athugasemdarkerfið hér að neðan.

13.11.03

Rass
Um daginn átti frændi minn, hann Adrian, afmæli. Hann varð 7 ára. Í tilefni af þeim merka atburði sendi ég honum geisladisk. Geisladisk með músík sem danska rappbarnastjarnan Razz flytur. Ég tók eiginlega smá séns með þessari gjöf, því ég hafði ekki hugmynd um hvort hann hefði áhuga á tónlist yfir höfuð, hvað þá dönsku barnarappi. En annað kom nú í ljós. Hann var það ánægður að hann sendi mér sjálfskrifaðan tölvupóst! Nú hlustar hann á hverju kvöldi á Razz rappa á dönsku og hefur ekki hugmynd um hvað hann er að segja. Sem betur fer segir hann ekki neitt ljótt, eins og "fuck your mother, rape your sister!" eða annan dónaskap. Hann heyrði jú að hann sagði "pleisteisjón" í einhverri strófunni. Það skilur hvert mannsbarn í vestrænum heimi.
Svo finnst honum svaka fyndið að rappstrákurinn heitir RASS!
Kickflipper high!

10.11.03

Hnakkatal
Ég syng í kór, UNI-kórnum, og í þeim kór syngur einnig stúlka sem heitir Merete. Merete er að læra listasögu og er mjög áhugasöm um nýja list. Við Merete búum í sömu götu þannig að við erum ávallt samfó heim af æfingum á mánudagskvöldum. Við tölum saman um tónlist yfirleitt, eða áhugaverðar kvikmyndir eða eitthvað annað skemmtilegt.
Í kvöld vorum við samfó, að vanda, og við vorum að ræða um tímarit sem hún er áskrifandi að. Innihald blaðsinr er útgáfa á geisladiskum. Í framhaldi af því sagði hún mér frá búð í København "...þar sem maður fær diskana í hnakkann."
Að fá eitthvað í hnakkann!?! Er maður þá sleginn aftan frá í hnakkann með baseball-kylfu? Neinei, þetta þýðir að maður fær eitthvað ódýrt, gerir reifarakaup, fyrir skít og kanil, fyrir smáura o.s.fr.v. Einhvernveginn sé ég fyrir mér aldraðann búðarmann með handfylli af geisladiskum, grítandi þeim á eftir viðskiptavinum sínum, því þeir eru bara svo ódýrir.
Danir eru brilli!

8.11.03

Hlekkir
Kæru vinir og velunnarar.
Ég vil benda ykkur á nýjann hlekk, hér vinstramegin á síðunni, sem mun leiða ykkur á nedduna hennar Ingibjargar Huldar, verðandi arkitekts og lífskúnstner. Hlekkur sá sem birtist í nafni hennar í þessum skrifum leiðir ykkur á hina síðuna hennar, sem er greinilega notuð í öðrum tilgangi en að koma hugsunum dagsdaglega á netið.

Einnig hefur hann Daníel Bjarnason, tónskáld og stjórnandi, hafið ritstörf hjá blogspot.com. Gluggið endilega á hann. Hann hefur t.d. upp á það skemmtilega orð "nettla" að bjóða. Það er hans íslenska útgáfa á "blogg" eða "nedda" eins og ég hef stundum kallað þetta. Verð ég að játa að "nettla" er ansi beittara og skemmtilegra orð. Sjáum hvað setur. Hlekkurinn á hann er einnig ykkur að vinstri hönd.

Góðar stundir.

5.11.03

Hreinn og beinn

cmajor
C major - the simplest key. You are content with
where you are now, you have what you need. Some
people are happy in C major, but it is up to
you to decide to push yourself further if you
want more from your life.


what key signature are you?
brought to you by Quizilla

4.11.03

MasterCard
Um daginn fékk ég sent bréf frá því ágæta fyrirtæki, MasterCard. Meðfylgjandi var 4 ára gamall sjálfskuldarábyrgðarsamningur sem varaþingmaðurinn systir mín hafði undirritað á sínum tíma. Á samninginn var búið að stimpla á 3 stöðum "Ógildur". Í bréfinu stóð, orðrétt "...Í ljósi viðskipta þinni hefur skjalið (sjálfskuldarábyrgðin) verið ógilt og að sinni er ekki óskað eftir nýrri tryggingu." Svo var þakkað fyrir viðskiptin og lýst yfir von um áframhaldandi ánægjuleg samskipti.
Ég varð frekar ringlaður. Var verið að meina að ég hafi stundað svo rosalega viðskipti að mínum samningi var rift við fyrirtækið, en samt vildu þau eiga ánægjuleg samskipti við mig! Ætlaði þá einhver starfsmaður bara að hringja og spjalla við mig, bara því ég hef upp á svo ánægjuleg samskipti að bjóða? Ég varð eiginlega bara reiður, því ég hef ALLTAF borgað það sem borga átti og það sem borga átti hefur yfirleitt verið lítið (nota ekki kortið nema þegar ég ferðast og þegar ég kaupi flugmiða). Svo var mér bara hent út á gaddinn án nokkurra viðvarana. Ég var farinn að sjá fyrir mér að einhver hafi komist yfir kortanúmerið og væri farinn að spreða í einhverja vitleysu og viðbjóð. Sá fyrir mér fyrirsögnina "Tónskáld (25) keypti aðgang að barnaklámi (6-12) í gegnum internetið" í Séð og Heyrt.
Svo hringdi ég í blessað fyrirtækið og fékk samband við afar ljúfraddaða stúlku sem kynnti sig almennilega og bauð fram þjónustu sína. Ég sagði henni frá þessu bréfi. Þá tjáði hún mér að samningurinn væri útrunninn og þar sem ég væri svo góður kúnni þá ÞARF ég ekki að hafa samning um sjálfskuldarábyrgð. Bíddubíddu, get ég þá eytt og eytt í vitleysu og enginn tekur ábyrgðina nema ég? "Já", sagði stúlkan með þjónustulundina. Á nokkrum sekúndum sá ég ALLA mín drauma rætast, ferðast um allan heiminn, kaupa Hammond (B-3 sko með Leslie) og flygil, fallegt hús með vinnuaðstöðu, ráða stúlkuna sem símadömu, LandCruiser í hlaðinu, arinn og gott safn af viský og snöfsum, flottu hnífapörin frá GeorgJensen (...já! mig langar soldið í þau!), stóran ísskáp og bað fyrir minnst tvær persónur. En jæja, ætli ég láti það ekki ógert, einhver yrði jú að borga þetta einhverntímann.

31.10.03

"Bubbi!!! Slökktu á græjunum þínum eða ég KVEIKI í þeim!!!!"
Um daginn sá ég að rokk öldungarnir í Deep Purple munu halda tónleika hér í DK. Svo þegar ég fór fram í hléi á tónleikum með sinfó þessarar borgar nú í kvöld sá ég að þeir munu halda tónleika í Árósum. Ég fór að planleggja tónleikaferð med det samme. Já, ég viðurkenni það alveg, ég er "gamall" Deep Purple aðdáandi en þó aðallega vegna þess að Jon Lord var, já VAR, meðlimur í þessari ágætu grúppu. Jon Lord spilar nefnilega á Hammond-orgvél og ég hef í gegnum tíðina verið mikill unnandi þessarar skemmtilegu blöndu sem Hammond-orgvélin og Leslie-hátalarinn "danna". Maður eyddi alveg nokkrum klukkutímum í að "pikka upp" og spila með Deep Purple-diskunum mínum á B-200 Hammondinn minn. En s.s. eftir að ég komst að því á heimasíðu þessarar annars ágætu hljómsveitar að Lordinn væri hættur þá nenni ég þessu ekki. Mér finnst alveg nóg að hafa heyrt ToTo spila án David Paich, nema að ég fari að safna tónleikum með gamlakallahljómsveitum sem hafa ekki gamla hljómborðsleikarann með....njééé!

En annars var ég að koma af sinfótónleikum. Spiluðu eitthvað verk eftir Poul Ruders, ágætt stykki. Svo spiluðu þau Dvorák fiðlukonsertinn, gerðu það ekkert vel og einleikarinn intoneraði illa og hafði enga útgeislun. Eftir hlé var svo Sinfoni Fantastique eftir Berlioz. Verkið var breakthru á sínum tíma en mér hundleiddist. Hef ekki sens fyrir svona breakthru verkum. Steinsofnaði t.d. þegar ég heyrði Vorblótið í fyrsta skipti...19 ára gamall...hehe...sem er reyndar ekki jafn góð saga og eins kollega míns af sínum fyrstu kynnum af því verki. Hann hafði nefnilega sem ungur drengur hlustað ansi oft á þetta verk. Nema hvað að þegar hann kom svo í tónlistarsögu í Tónlistarskóla Rvk. og heyrði verkið þá kannaðist hann ekkert við það. Þá hafði plötuspilarinn heima hjá honum verið stilltur á hraðari snúning (er svo ungur að ég man ekki hraðana...33.snúninga og eitthvað annað...) en ætlast var til. Miklu meira tjútt í því.

24.10.03

Platoon
Jæja, þá er Platoon búin. Sá allan tímann fyrir mér Charlie Sheen í "Hot Guns". Hef þá séð 2 myndir af Oliver Stone, svo ég viti, því við sáum JFK í gærkvöldi.
Næs að vera kominn með TvDanmark 1. Fann hana bara fyrir rælni þegar ég var að leyta að BBC FOOD. Fann því miður ekki BBC FOOD.
Já, það sem ég ætlaði að segja um myndina, annað en að hún væri fantafín, að mikið ROHOSALEGA var Adagioið hans "Samma Rakara"...hjéhjéhjéhjé...notað mikið! Sjitt! Það var í annarri hverri senu!!! Maður var eiginlega kominn með leið á því.
Hvað skal gera?
Nú er um tvennt að velja. Á ég að horfa á Platoon í imbanum (hef ALDREI séð hana) eða á ég að gera eitthvað af viti? Þyri myndi aldrei nenna að horfa á Platoon með mér þannig að ég er heitari fyrir því...hún myndi heldur aldrei hlaupa nakin með mér um hverfið...nei best að horfa bara á Platoon.
Ég ætlaði sko að fara á aarhusfilmfestival nema að það var "uppselt" (ekki hægt þegar það er frítt inn) þegar ég mætti áðan. Fúlt.
Ha' go weekend...og spis sandwich og kik på TV...danir eru svo frumlegir varðandi eigin tungumál.

23.10.03

Lágdeyða
Eitthvað er varaþingmaðurinn systir mín að derra sig yfir seinagangi í mér hérna á neddsíðunni. Ég er sko nefnilega trassi að eðlisfari en við bjuggum nú ekki meira en 16 ár saman þannig að hvernig ætti hún að vita það! Mér finnst alltaf best að gera hlutina á morgun sem hægt er að gera í dag...vandamálið er að það kemur dagur eftir næsta dag og svo víðara.

Í nótt dreymdi mig að ég væri á kóræfingu hjá Þorgerði. Þetta var rosalega raunverulegur draumur, nema hvað að ég man ekkert hvað við vorum að syngja. Þetta var síðasta æfingin fyrir einhverja tónleika og það var uppstilling í gangi. Ég fékk að halda mínum stað, sem er oftast nær lengst til hægri eða vinstri. Það er ekki nóg með að ég hafi oftast þann háttinn á þegar ég stend í kóruppstillingu heldur bara nánast alltaf í hópuppstillingu (fótboltaliðsmyndum oþh). Sálfræðingar geta örugglega fundið eitthvað út úr þessu.

Undanfarna daga hef ég verið að velta fyrir mér hvað verður um þá sem eru heimilislausir hérna í DK. Hér er nefnilega kuldi dauðans á nóttunni. Hjólaði niður í DIEM í morgun og mér leið eins og nýfrystri ýsu.

Kepptum síðasta leikinn okkar í deildinni á sunnudaginn. Töpuðum 11-2. Nágranni minn, þessi sem býr hinumeginn við þilið, sem er þynnra en pappi, og ég heyri hroturnar í honum og msn hljóðin úr tölvunni hans og við rumskum við vekjaraklukkuna þeirra....nei við heyrum ekkert annað, þau hljóta að vera vönuð/kaströtuð/geld bæði eða ekki hlynnt kynlífi fyrr en eftir giftingu....var í hinu liðinu. Skammarlegt. Hef sem betur fer ekki hitt hann síðan á sunnudaginn.

15.10.03

Haustfrí
Haustfríið stendur nú sem hæst. Öll skólabörn í fríi og bærinn er einn iðandi krakkaskari. Varla mögulegt að ganga með hjólið sitt og leikfimistöskuna með hnitspaða í niður strikið. Hef reynt það.

Fór í hnit í morgun með Anders. Var malaður svona c.a. ....ALLTAF! Vont að tapa.

Núna er Þyri að hitta asísku kollega sína úr konsinu. Þær heit Mínakó, Mímí og Múkí (skrifað eins og nöfnin eru borin fram..."Hvernig er hreindýrið borið fram?"...."Hreiiiindýýýýýr!") Mér finnst við hæfi að kalla prumpulínuna mína "Múrúrímí" í tilefni af vinkonuhópnum. Íslenskt en samt asíuskotið nafn. Vonum bara að hún komi ekki heim tjörguð og öll út í fiðri eins og þeir gerðu alltaf við þá skáeygðu í Lukku-Láka bókunum....hehemmm...neinei bara grín....mikiðgrín, mikiðgaman!...uuuu...jæja...ætli ég hætti ekki bara að segja kínverjabrandara...samt er "Nýbúagrín" þeirra Radíusbræðra alltaf jafn fyndið. Hvað kallarðu pólverja sem á 100 konur? Fjárhirði!...fattann'ekki...

8.10.03

Innflytjendur
Í gær fór ég á uppáhaldspöbbinn minn, Peter Gift, með hinum strákunum í tónsmíðadeildinni. Það er svo sem ekki frásögu færandi þar sem við gerum þetta annan hvern þriðjudag, eftir að við höfum snætt grískan mat og verið á seminari frá 16-19. Nema að í þetta skiptið komu inn einhverjir innflytjendur. Þeir töluðu hátt en voru ekki með nein önnur læti. Þegar þeir fóru út þá var barþernan ekki á barnum heldur var að safna saman glösum. Þá fannst einum þeirra vera alveg tilvalið að reyna að stela úr kassanum. Hann skaust innfyrir barborðið og opnaði kassann. Þá tók þernan eftir honum og henti honum út (hann var frekar mjór og aumingjalegur en hún stór og útlifaður danskur kvennmaður). Rosalega var þetta skrýtið. Það var eins og þeim þætti ekkert eðlilegra en að reyna að ræna.

2.10.03

Er Íslendingur hér?
Mér fannst þetta svo vel til fundið að ég ákvað að stela þessu af síðunni hennar Þóru.

You know you are from Iceland when...
...snow tires come standard on all your cars.
...you have gotten frostbitten and sunburned in the same week.
...you learned to drive a tractor before the training wheels were off your bike.
...Down South to you means Canada.
...birds chirping at 3am in July is normal.
...you have a passport to leave the island.
...you don't have a coughing fit from one sip of Brennivin.
...your idea of creative landscaping is a tree.
...wearing high heels and a skirt, and going out dancing is "normal" during a hurricane.
...you were unaware there is a legal drinking age.
...you decided to have a picnic this summer because it fell on a weekend.
...you enjoy driving in the winter because the potholes fill in with snow.
...your sexy lingerie is tube socks and a flannel nightie.
...headlines read "Cow born in Strútafjördur".
...at least once a year, a family members' kitchen doubles as a meat processing plant.
...at times, your second floor balcony doubles as a front door.
...you find 0 degrees a little chilly.
...you actually understand these jokes ;-)

Ég vaknaði seint í morgun. Öllu heldur ég átti að vera mættur í tíma þegar ég vaknaði. Ég stökk á fætur og í fötin, greiddi mér í flýti...eða nei annars, það var ekki í morgun...skellti í mig súrmjólk og geystist af stað á rauða fáknum niður í Musikhus. Þar er DIEM með aðsetur sitt og átti ég að vera í tíma þar. Bara littlum 30 mínútum of seinn. Það furðulega við þetta var að ég var að sofna nánast allan tímann. Var rangeygður af syfju. Ástæðan var sú að ég er vanur að sötra einn lítinn espresso á hverjum morgni. En ekki í morgun. Þessu varð að bæta úr þannig að eftir tímann fór ég á uppáhalds kaffihúsið mitt hér í borg, Altura-kaffe. Einn Macchiato kemur deginum af stað. Eftir bollan geng ég út og tek hjólið mitt úr lás, sé ég þá ekki plötu með Þursaflokknum standa úti í glugga og utan um hana var smá plast renningur sem á stóð á dönsku (hér á íslensku) "ekki hlusta alltaf á sömu plöturnar" eða eitthvað í þeim dúr. Þetta var s.s. auglýsing fyrir fyrirtækið sem er fyrir innan þennan glugga. Þetta þótti mér merkilegt því ég er nokkuð viss um að ekki nokkur einasti Dani hefur nokkurntímann hlustað á Þursaflokkin.

1.10.03

Danskur húmor
Alle børnene spiste mad, uden Bjarne, ham var Chilli con carne.

29.9.03

Þau sem fjölga mannkyninu
Eins og sjá má þá hef ég bætt við einum hlekk ykkur á vinstri hönd. Það eru þau Arnlaug og Ragnar Páll sem tengjast mínum sívinsæla vef. Þau eru að rækta barn og mun það spretta út í kringum áramót. Vegna þessara atburða eru allir heimafyrir á Fróni æstir í að sjá svokallaðar bumbumyndir. Þar sem Ragnar Páll er verðandi multimedia designer þá skellir hann bara upp einni síðu undir herlegheitin.

Var annars að koma af kóræfingu. Kórinn er að spá í að taka upp vísurnar mínar næsta haust. Góð hugmynd.

25.9.03

Nýjustu fréttir
Nú er Olla litla skólausa komin með nýja síðu. Þannig að hlekkurinn hennar, hér að vinstri hönd, ætti að fúnkera fínt. Haldið'ún Gróa hafi skó, þá held ég hún verði þvengjamjó, þegar hún fer að...já "að" hvað???

Annars hef ég ekkert að segja...nema kannski..."bróðir minn lenti í smá rugli þannig að hann bara flutti."

22.9.03

Ókunnugur gestur
HVER Í FJÁRANUM ER BOB!!!

21.9.03

Nautasteik í mallakút
Við fórum út að borða áðan. Vorum búin að þvælast með Ingibjörgu um bæinn, skoða Plakatmuseum og eitthvað skólaskip. Svo sáum við að á Argentíska veitingahúsinu Gaucho var tilboð á milli kl. 16 og 18. Steikur á hálfprís. Fínn staður. Við skelltum okkur bara á það. Mørbrad, kartöflur og grænmeti á 80 d.kr. er eitthvað sem maður slær ekki á hendinni á móti, sér í lagi þegar hamborgarinn á kaffihúsinu við hliðina kostar það sama.

Hekla spilaði leik í gær. Unnum 1-5. Enn og aftur skoraði ég ekki. Gaman samt að sprikla.

Annars urðu pizzurnar um daginn alveg frábærar. Verða betri og betri, þó svo við notum spelt í deigið. Notum aðferðina hans Huga Guðmunds. Bökum á hæsta hita á bökunarpappír og grind, ekki á plötu. Þurfa mun skemmri tíma og verða bara miklu betri. Osturinn undir og fá álegg. Amminamm hvað þær voru góðar. Við erum matargöt.

Söng í morgun í uppskerumessu (høstgudstjeneste). Bjóst jafnvel við að þeir myndu fórna Pálu Púrru á altarinu (ætli hún sé hrein mey?) eftir að ég sá hvernig kórinn var skreyttur (ekki sko kórinn sem syngur heldur fremsti hluti kirkjunnar), því að rétt fyrir framan altarið var stór heybaggi með kassa oná fullan af grænmeti. Svo var búið að raða fullt af grænmeti meðfram veggjunum í kórnum. Frekar svona "fórnarlegt" eitthvað. En gott að nútíminn er ennþá í sambandi við náttúruna og við erum minnt á hvaðan við fáum afurðirnar. Þetta sprettur jú ekki í kössunum í Føtex!
Smjattpattar sér byggðu bú. Þeir búa þar víst ennþá nú. Þeir fundu sér þar allt til alls áður en varði...

19.9.03

Ammæli
Ég hef líst því yfir að ég er sauður.
Þegar að afmælisdögum kemur þá er ég über-sauður. Man yfirleitt ekki eftir afmælisdögum, nema systkina minna, foreldra og Þyri...jú og Margrétar Þórhildar drottningar. Systir mín kær, varaþingmaður með meiru, gaf mér einu sinni afmælisdagatal þar sem hún var búin að merkja inn afmælisdaga flestra vina og vandamanna. Hellings vinna og góð gjöf.
Nema að í gær gleymdi ég enn einum afmælisdeginum. Hann Arnbjörn hringdi í mig á miðvikudaginn og sagði m.a. að hann væri nýbúinn að fá afmælisgjöf frá unnustu sinni. Ég spurði í fávisku minni hvenær hann ætti afmæli. Jú hann átti afmæli í gær, þ.e.a.s fimtudaginn 18.sept. Meira að segja stórafmæli, varð 30 ára. Svo hitti ég hann daginn eftir (í gær) á fótboltaæfingu.
Ég óskaði honum ekki til hamingju með afmælið fyrr en æfingin var búin, við búnir í sturtu, flestir búnir með einn øl og Ragnar Páll búinn að spyrja hvort ég hefði vitað að Arnbjörn ætti afmæli!!! SAUÐUR!!!
Eyddum kvöldinu svo í pylsu-köku-partý hjá Selmu og Róbert.

Jæja, nú er deigið orðið tilbúið til að fletjast út á fjöl og vera bakað svo í ofninum, sem flatbaka.

15.9.03

Hvað er...
grátt og duftkennt?
Svarið er álíka mikill skyndihlutur og Prumpulína mín rakst á í Føtexbæklingnum um daginn (Føtex er dönsk stórmarkaðskeðja, í fínni kantinum). Barnastartpakki! Þetta finnst okkur merkilegt. Hægt er að fá svona startpakka í IKEA, en þá er það ætlað fólki sem er nýflutt að heiman og á hvorki könnu né disk. Barnastartpakki inniheldur eina samfellu o.þ.h dót sem gott er að hafa ef maður skildi skyndilega eignast barn. "ÆÆÆ, ég á að eiga barn eftir nokkra daga! Sjitt hvað ég gleymdi því! Best að skjótast út í Føtex að kaupa barnastartpakkann."

Annars var Bryndís Zoega hjá okkur um helgina. Stórskemmtilega stúlkan sú. Fórum á Moesgård Museum með henni. Hittum þar fyrir "Mýrarmanninn" frá Grauballe. Hress að vanda. Hann er elsta varðveitta lík í heiminum. Merkilegt það. Fengum mjög fínan fyrirlestur um kappann.

Næstu helgi ætlar Ingibjörg Huld að mæta á svæðið. Hún er eins og Bryndís, einn af okkar stórfurðulegu en stórskemmtilegu vinum. Hlakka til.

11.9.03

NÆSTI!
Í gær fóru Nína og Hilmar. Frábær helgi með þeim.
Á morgun kemur fyrrv. sambýliskonan mín í heimsókn og verður fram á sunnudag. Hlökkum til því hún er með eindæmum skemmtileg.
Helgina eftir næstu kemur Ingibjörg Huld jafnvel í heimsókn.
Þetta er ekkert smá skemmtilegt. Gaman að fá svona marga skemmtilega gesti. Ætli maður leggist ekki bara í þunglyndi þegar líða tekur á skólaárið því ekki eru nein plön um fleiri gesti fyrr en næsta sumar. Þá hefur "gamla settið" einhver plön (HAHAHAHA þau með plön...nei ég meinti að þau hafa hugsað út í það að það gæti verið gaman að koma í heimsókn...svona einhverntímann...jafnvel..."sjáum hvað setur þegar nær dregur" ...etc.) um að kíkja hingað.

Ég er algjör sauður. Tók mig 25 ár að komast að því. Á þriðjudaginn átti ég að mæta í tónsmíðatíma kl.11. Ég mætti niður í skóla kl.08 til þess að prenta út nótur fyrir tímann og fór svo bara aftur heim (það átti sko að hefjast kennsla í herberginu með prentaranum kl.09 þannig að ég varð að klára að prenta fyrir það). Jæja. Svo mæti ég kl.11 og hitti kennarann minn og hann segist þurfa kaffi. Við töltum upp í kantinu, nema hvað að við hittum píanókennarann minn á leiðinni upp í kantinu. Ég heilsa bara og við höldum áfram. Tíminn gekk svo bara vel. En um kvöldið kíkti ég í "fílófaxið" mitt til þess að athuga hvenær ég ætti að mæta í píanótíma. Það hefði átt að vera kl.09.45 um morgunin!!! ÉG ER SAUÐUR!!!

8.9.03

Amminamminamm...nú næ ég þér amma mús...
Í gær var okkur bumbuskötunum boðið út að borða. Foreldrum Þyri, sem eru í heimsókn þessa dagana, þykir danskur matur svo góður að þau buðu okkur á Rådhus Café. Smørrebrøds Platte klikkar ekki og mæðgurnar fengu kálfasteik. Jömmí! Herlegheitunum skolað niður með øl og snafs. Gerist ekki danskara. Við ultum heim.

Í gærdag spiluðum við í SF.HEKLU leik og við unnum 1-5! Ég skoraði ekki...þannig að ég á "markvindilinn" ennþá í töskunni ;o)

6.9.03

Nýjir hlekkir
Hér til hliðar má sjá þá hlekki sem ég kýs að birta. Eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir þá hafa 2 hlekkir bæst í hópinn. Moldvarpan Hjörtur er kominn með síðu og Skødstrupbúarnir Sigrún & Skúli einnig. Óska ég þessum nýbökuðu síðueigendum hjartanlega til hamingju með nýja afkvæmið.

Heimsljós I að baki. Ekki allir fara á kirkjugarðsballið í haust sem hlökkuðu til þess í vor.

4.9.03

Festuge
Þessa dagana er Festuge í Árósum. Þetta er eins konar menningarnótt sem er teigð út í rúma eina viku. Bærinn er fullur af Indíánum að selja lopapeysur og spilandi á PANFLAUTUR! Ég HATA panflautur. Tja...eða...ég hata ekki panflautur ég hata meira músíkina sem oftast er spiluð á panflautur. Yfirleitt er þetta einhver sígild popplög og þeir spila með svona Karaoke undirspili. Hryllingur!
Svo er bærinn líka fullur af innflytjendum að selja Kebab. Þetta finnst danskinum vera ægilega heillandi og flykkist út á torgin til að drekka öl úr plastglösum og borða kebab.
Þetta er nú ekki alslæmt. Festugen hefur upp á helling af öðru að bjóða. T.d. voru tónleikar um daginn með kórnum mínum sem ég syng í. Gekk bara vel. Kirkjan er með langan eftirhljóm sem hentaði vel að verkinu mínu.
Svo fórum við sköturnar á alveg FRÁBÆRA tónleika í gær í Gran-teater. Þetta er dansteater. En nú var lifandi músík og dans. Ég hef aldrei farið á danssýningu áður. Fyrst spilaði Århus Sinfoniettan tvö verk eftir einhver tónskáld frá Asíu (Japan, Kína, Kórea...man það ekki því manni var ekki hleypt inn í salinn fyrr en á slaginu og svo voru ljósin dempuð um leið og maður settist, náði því ekki að lesa programmið). Verkin voru svona "allt í lagi". Hryllilegur hljómburður þarna inni. En svo kom að verkinu I Ching, eftir Per Nørgård, fyrir slagverk. Einleiksverk. Klikkað stykki. Ótrúlega vel spilað, drulluerfitt samt. Svo dönsuðu tveir Asískir dansarar við músíkin. Einstök upplifun. Mæli með að þið lesendur góðir nálgist þetta verk á CD. Hefur margsinnis verið innspilað. Þó er verkið "lífs" mun heillavænlegri kostur.
Eftir hlé var svo eitthvað stykki eftir einhvern Poul Rovsing Olsen. En dansinn var mjög svo flottur. Á sviðinu voru 7 kassar sem lágu á hliðinni. Ofan á kössunum sátu hljóðfæraleikararnir en inni í kössunum, sem voru ekki meira en rétt rúmlega 1 meter á hæð, voru dansararnir í einum göndli, hver í sínum kassa. Þar iðuðu þeir og lékur listir sínar í þrengslunum á meðan að tónlistarfólkið sat upprétt og spilaði músíkina. Stjórnandinn var svo með nóturnar dreifðar á gólfið í kringum sig. Ein senan var þannig að einn dansarinn var nakin (kvennkyns) og fór vel með nekt sína. Svo kveikti hún á kerti og gerði allskonar listir í kringum kertið sem hún hélt á. Reynið að ímynda ykkur hvernig það er að vera inni í kassa með kerti og þú að göndlast í kring. Ég væri búinn að brenna af mér bæði hárin á höfðinu og eflaust eitthvað fleira. En þetta gerði hún án þess að "barma" sér ;-)
Þannig að ég hef upplifað góða list á þessari festuge. Leyfi öðrum að láta sér það nægja að sötra bara bjór og eta kebab...

28.8.03

Stúlkan
Og svo reyndi þriggja garða stúlkan barasta að misnota skáldið, þó hann lægi hálfdauður í rúminu! Ussusvei.

27.8.03

Haust
Mér finnst sem að haustið sé komið. Það hefur kólnað og vindurinn hljómar bara eitthvað svo haustlega. Svo fer skólinn líka að byrja.

Á mánudaginn verða tónleikar í Katolske Vor Frue Kirke. Þar verða vísurnar mínar sungnar af Århus Universitetskor. Þetta verða svona "voða seint" tónleikar. Hefjast kl.22.00.

Var að vakna. Gestirnir ennþá sofandi og Þyri líka...er samt búinn að fara í búð að kaupa eitthvað í morgunmatinn. Svefnpurrkur.

Var Björk ("hún Björk okkar") í Purrkur Pillnikk eða var hún bara í Tappa Tíkarass áður en hún fór í Sykurmolana? Ég er svo ungur að ég man svona lagað ekki. Systkini mín hlustuðu ekki á svona lagað. Þau hlustuðu á WHAM, DuranDuran, SAGA (aðallega In Transit plötuna), Men at Work og ekki má gleyma Queen (Daníel á allar LP og alla CD).
Ótrúlegt hvað maður verður fyrir miklum áhrifum af eldri systkinum. T.d. þá horfði Daníel alltaf á enska boltann. Ég sofnaði yfirleitt yfir enska boltanum. En hann hélt með Liverpool þannig að ég gerði það bara líka og geri enn ef ég er spurður. Hef reyndar ekki séð leik í enska boltanum ansi lengi og er "lige glad". Svanhvíti þótti lifur vond, mér þykir lifur vond...kannski líka af því að lifur ER VOND! Þau spiluðu á hljóðfæri, ég hermdi það eftir þeim. En hvað svo? Varð maður sjálfstæður? Allavega er ég mín eigin fyrirmynd í dag.

Er að lesa Heimsljós I. Stefnir í að verða besta Laxness bókin sem ég hef lesið. "Hún hafði nefnilega ekki kropp og þaðanaf síður líkama, hún hafði búk. Það var af henni lykt. Hún var einsog þrefaldur garður. Hann horfði á hana og hugsaði: getur verið að inst inst inni leynist sál?"

20.8.03

Nobbari
Ég hitti á Hilmar Þór Hilmarsson, módel 1977, og unnustu hans í BILKA ("Bilka, Bilka, Bilka ka'") áðan. Þá eru 3 Nobbarar hérna í Árósum að mínu viti. Ég, Hilmar og Stína (Þórstína).
Ástæðan fyrir veru minni í BILKA er sú að okkur skötubumbunum datt í hug að hjóla upp í BILKA í heilsubótarskyni og slá þar með 2 flugur í einu höggi og fjárfesta í 4.5 kg af þvottaefni á 50% afslætti. Þetta er sennilega pakki sem dugar fyrir eitt ár! HVEM KA'? BILKA KA' !!! :o)

17.8.03

Tap...
Við Heklumenn töpuðum 2-0 í dag...ég var kominn einn á móti markverðinum og hefði getað jafnað, en onei, ekki tókst það! Svo átti ég nú einhver fleiri skot að marki, en ekkert rataði inn. Nú er ég raddlaus því ég öskraði svo mikið. Þyri var spurð hvort ég væri mjög bældur heima fyrir.

Í næstu viku mun Austurglugginn, fréttaritið í Fjarðabyggð, innihalda grein um austfirska"bloggara"/neddugerðarmenn. Ég er einn af þeim, er fulltrúi erlendu deildarinnar. Gaman að vera í smá bandi við mína gömlu heimabyggð.

Í gær sátum við sköturnar ásamt góðum vinum í Botanisk Have frá kl.14 til 19! Ágætis veður og allir með nestispakka. Svo skundaði hersingin að Vilhelms Bergsøesvej 43 og snæddi aðkeyptar PizzaPerfect flatbökur og horfðum á snildina "Top Secret". Mikið rosalega er það góð mynd. Sjónblekkingar atriðin eru svo góð. Mæli með því að þið, lesendur góðir, leigið þessa mynd. Val Kilmer í aðalhlutverki.

Góð "pick-up" lína: "Hefurðu séð trekkjubíl spóla í smjöri?"

14.8.03

Mér finnst rigningin...
Í dag var ég minntur á hvernig rigning er. Ég hef ekki séð almennilega rigningu í 1.5 mánuð! Yndigt dufter Danmark um þessar mundir, hrein og fín.

Í dag svaraði ég spurningum frá blaðamanni á Austurglugganum í Neskaupstað. Í næsta tölublaði á að koma grein um norðfirska "bloggara". Ég er fulltrúi norðfirskra "bloggara" í útlöndum. Fróðlegt að sjá hvað hún sýður svo saman úr þessu. Vonandi fæ ég sent eintak, það væri nú það minnsta eftir alla þessa vinnu :o)

Mikið rohosalega er nýja Harry Potter bókin spennandi, maður kemst varla upp úr henni. Sem betur fer er hún löhöng, meira að njóta.

13.8.03

Green, green grass of home/Hassið í heimasveitinni
Rassmusi var mjög létt þegar greitt hafði verið úr misskilningnum. Þetta var alls ekki hans frændi heldur grísanna.
Gleðin var mikil þegar þeir hittu hvora aðra!

Til allrar hamingju fór frændinn bráðlega að sakna Kína, og dag einn gat Rassmus sagt glaðlega frá því að frændinn væri byrjaður að pakka niður. Rassmus var þegar farinn að skipuleggja heljarinnar afmælisveislu.
"Þetta er mjög leitt fyrir þá Jokum og Konráð (grísirnir)", sagði Pingo.
"O nei, þeir hafa skemmt sér konunglega", svaraði Rassmus. "Sem betur fer mun frændinn keyra með rútunni að brautarstöðinni, því vagninn hans þoldi ekki alveg að vera notaður sem leikfang."

"Góða ferð, elsku frændi, og skilaðu kveðjum heim til Kína", hrópuðu grísirnir þegar frændinn fór. Sem betur fer vissu þeir ekki hverju frændinn svaraði (mynd af frændanum að fara "pissesur" með ónýtan vagninn).

11.7.03

Kann ekki alveg a takka herna i tessari itolsku tolvu tannig ad tad er engin fyrirsogn i dag ;o)

Vi hofum tad gott i landi hveitisins. Vid laerdum mjog fljott ad segja "Pane Intergrale"(heilhveitibraud). Maturinn er ohotrulega godur. Kaffid lika.
Erum buin ad kikja a Feneyjar, Verona, Florens, Cinque Terre(klikkad), Lucca(forum a ToTo tonleika tar. Kosy baer), Parma(vont karma i Parma...heheheheh...hehemmm...) og svo nokkra sma baei.
Erum a leid til Cortona, baerinn sem skrifad er um i bokinni "Hus i Toscana"( Thyri var ad gloggva sig i henni adur en vid loggdum af stad), og vid aetlum ad skoda Siena lika og kikja jafnvel i solbad vid vatn (ss slappa af, sma treytt a storborgarroltinu) og svo er tad bara Roma.

Skrifa jafnvel meira sidar...
Arrivaderci

29.6.03

InterRail
Jæja, nú er sunnudagurinn runninn upp og við Þyri tilbúin með nesti og nýja skó. Leggjum í'ann kl.15.30. Komum til Hamborg um 19 og sofum svo eina nótt í næturlest. Lendum í München um 07 (á mán) og tökum lest þaðan til Verona. Kíkjum aðeins á Verona, hittum Hófí vinkonu Þyri, förum til Feneyja með henni (hún býr þar) og skoðum okkur um í tvo daga (c.a.) Förum svo til Cinque Terre með henni og einni til (júhú! ég verð aldeilis í kvennafans!) og förum í göngtúra þar. Þá er ferðaplanið uppurið.
Ég segi því bara bless í bili og við látum nú kannski vita af okkur ef við rekumst inn á netkaffi (þar sem maður drekkur EKKI kaffi!)

25.6.03

Rassmus áhyggjufullur
"Mér finnst hann vera hinn ágætasti frændi" sagði Pingo, eftir vikudvöl frændans hjá Rassmus.
"Jú jú, en hann býr ekki hjá YKKUR!" svaraði Rassmus. "Hann lætur ekki af þessum furðulegu þjóðvenjum...hann er alltaf að sprengja kínverja."

Nokkrum dögum síðar hitti Rassmus grísastrákana Konráð og Jokum, sem voru hágrátandi.
"Afhverju eruð þið svona óhamingjusamir?" spurði Rassmus.
"Jú sko," snökktu þeir "frændi okkar frá Kína ætlaði að koma í heimsókn, en er ekki enn kominn!"
"Ooo jú, hann er löngu kominn" sagði Rassmus, "þarna er hann!"

Að borða Tapas-rétti er að verða mjög vinsælt hér í Danaveldi. Sökum þessa var grein í MetroExpress í dag um sögu Tapas.
Veitingahúsaeigandi nokkur, á Spáni, var orðinn ansi þreyttur á því að flugur sóttu mikið í vínglös gesta hans. Hann tók á það ráð að leggja brauðsneið ofan á glösin áður en flugurnar kæmust ofan í þau. Þetta svínvirkaði. Þetta sniðuga ráð breyddist síðan út um allan Spán. Síðan datt einhverjum snjöllum það í hug að leggja pylsusneið eða annað gómgæti ofan á brauðið svo gestirnir hefðu eitthvað að maula með. Upp frá því fór Tapas, sem þýðir "lok" á spænsku, að þróast yfir í að vera sjálfstæður réttur. Nú í dag eru Tapasbarir út um víða veröld og eru þeir geysivinsælir.

Í gær fórum við í mat til Siggu og Eyvinds. Júmmíí. Góður kjúlli og meððí. Þau eru skemmtilegir vínsvelgir sem kunna að gera góðan mat og eiga skemmtilegt bóka-, diska- og myndbandasafn.

Sigrún og Skúli lánuðu okkur 4 Friends/Venner/Vinir spólur. Stohórhættulegt efni!

Við förum á sunnudaginn á InterRail. Jeij!

18.6.03

18.júní
Mamma á afmæli í dag. Hún lengi lifif! Húrra,húrra, húrraaaaaa!!!!

17.6.03

"Hvernig gengur með frændann..."
"Ekkert sérstaklega vel", svaraði Rassmus áhyggjufullur. "Ég skil ekki neitt af því sem hann segir,- það hljómar allt eins og kínverska!
Og svo kann hann enga mannasiði...hugsið ykkur, hann borðar með PRJÓNUM!"

GLEÐILEGA ÞJÓÐHÁTÍÐ!

6.6.03

Þakkarkort
Kæra Björg Hilmarsdóttir.
Ég vil þakka þér kærlega fyrir vel þegna ábendingu föstudaginn 06-06-03 um c.a. 1300 að íslenskum tíma. Sniglabandið hefur ekkert breyststst síðan ég var að vinna í Kaupfélaginu eða í Sundlauginni. Þá voru föstudagarnir helgaðir rás 2 og Sniglabandinu. Nema að í Kaupfélaginu var ekki hægt að hlusta á útvarp, því járnabindingin í húsinu var svo þétt að útvarpsbylgjurnar villtust á leiðinni inn í húsið og rötuðu ekki í viðtækið. Ég fór þá bara inn á lager og setti útvarpið við lagerdyrnar og þá gat ég notið vitleysunnar í bandinu. Reyndar var þetta ekkert voða vel liðið af samstarfsmönnum mínum í Kaupfélaginu FRAM, en mér var slétt sama. Föstudagarnir voru HEILAGIR.
Svo þegar ég var kominn í sundlaugardjobbið þá voru samstarfsmenn mínir ekki á eitt sáttir, því þeir vildu heyra Bylgju ruslið.
En hvað um það, TAKKATAKKA Björg!
Skeggur með farangurinn
Þeir höfðu nýsleppt orðinu, þegar Skeggur kom gangandi með allan farangur frændans, bundinn við sig með spotta. (Farangurinn hékk nefnilega niður úr nokkrum blöðrum!)

"Hvernig gengur með kínverska frænda þinn?" spurgði Pingo, þegar frændinn hafði búið í nokkra daga heima hjá Rassmus.

Ég er nú bara orðinn nokkuð spenntur. Ég er nýbúinn með fjórðu bókina um Harry Potter (sammála þér Hildigunnur, hún er lang best af þeim, enn sem komið er) og hún skildi eftir mikið af spennandi efni fyrir næstu bók.

4.6.03

3.6.03

Pingo og Pelle
"Þeir hafa sennilega ekki enn fundið upp bílana þarna í Kína" sagði Pingo, þegar farartækið fór framhjá þeim á veginum.
"Og hvað hefur hann gert við farangurinn sinn?" spurði Pelle. "Þeir hafa kannski ekki heldur fundið upp ferðatöskuna?"

1.6.03

Klump að keyra frændanum frá Kína heim
Síðar kom það í ljós að frændinn hafði tekið sinn eigin vagn með frá Kína og hann vildi gjarnan keyra í honum frá lestarstöðinni heim til Rasmuss. Á leiðinni heim talaði frændinn heilmikið um fjölskylduna sína, heima í Kína, en Rasmuss skildi ekki neitt af því sem hann sagði.

Á laugardaginn keppti ég í fótbolta og við Heklumenn unnum. Ég skoraði ekki. Ég hef æft fótbolta síðan ég var 6 ára gamall og ég hef einu sinni, EINU SINNI, skorað mark svo ég muni. Það var með Boltafjélagi Norðfjarðar '96 (BN'96).
Síðan fórum við sköturnar niður í Botanisk Have og hittum Björgu og Arnbjörn og við grilluðum saman í góða veðrinu. Leiðinlegt að þau skuli vera að fara upp á skerið í sumar, en maður verður víst að gifta sig áður en maður byrjar að hrúga niður krökkum...allavega ætla þau að gifta sig í sumar, á Íslandi, og svo hrúga niður einu stykki krakka...eða svo.

Innsetningin okkar Eyvinds vakti bara ágætis lukku, svona þegar einhver þorði inn í tjaldið okkar. Ridehuset er stór geymur, og við vorum með smá tjald sem var algjörlega svart. Inni í tjaldinu var einn hljóðnemi sem hékk neðan úr loftinu og svo var "spotlight" á hljóðnemann þannig að það eina sem maður sá var hljóðneminn þegar inn í tjaldið var komið. Fólk þorði ekki í fyrstu að segja neitt skemmtislegt í nemann, en svo gerðum við þetta þannig að ég stóð inni í tjaldinu og byrjaði á að öskra/syngja/tala (helst íslensku)/taka viðtöl í hljóðnemann og Eyvind stjórnaði prógramminu. Eftir það fór fólk að fatta og við eignuðumst tvo aðdáendur sem fóru varla úr tjaldinu. Þeim þótti voða gaman að leika sér í þessu.

Á þessari mynd sjáið þið blokkina sem við búum í. Fyrir miðri mynd sjáið þið 5 raðir af "L"-laga blokkum við búum í röð nr.2 frá vinstri næstefsta blokk. Það er meira að segja hægt að sjá kvistinn okkar :o) Kíkið líka á heildarkortið yfir borgina.

30.5.03

Rasmus Klump hittir kínverskan frænda
Rasmus Klump hafði aldrei vitað að hann ætti frænda í Kína, en dag einn var hringt frá brautarstöðinni og honum var sagt að frændi hans væri nýkominn með lestinni. Rasmus flýtti sér af stað til að sækja hann.

28.5.03

Nóg
Það er alveg nóg að gera hjá mér þessa dagana. Á morgun mun innsetningin okkar Eyvinds verða sett upp í Ridehuset (já RIDEHUSET, gæti útlagst sem Reiðhöllin) og við erum búnir að keppast við að klára hana undanfarna daga. Við gerum hana í programmi sem heitir Max og verður þetta þannig að gestir og gangandi koma inn í lítið herbergi með einum hljóðnema í. Ef einhverjum dettur í hug að segja eitthvað þá mun það koma til baka mjög svo afbakað, afturábak, hraðar, seinna, ekki o.s.fr.v.

25.5.03

Sumar og sæla
Nú er sumarið komið og vonandi til að vera. 20 stiga hiti í dag og ég spjátra um berfættur í sandölunum mínum í blíðunni. Vonast til að ég þurfi ekki að fara í klæðameiri föt en stuttermaskyrtu og stuttbuxur þar sem eftir er sumars.

Eurovision kvöldið fór á annan veg en við ætluðum því annar helmingur gestanna lagðist í veikindi og hinn helmingurinn heima að hjúkra. Við sköturnar létum samt ekki deigan síga og hámuðum í okkar flatbökurnar ljúffengu. Þær voru ljúffengar þó svo að botnin væri úr spelti. Keppnin var eins og venjulega, enda er ekki annað hægt því þá er það ekki Eurovision keppni. Ótrúlegt að hafa keppni í músík sem maður heyrir hvergi nema í þessari keppni. Ég vitna í félaga minn frá Noregi, en hann sendi mér sms á meðan keppnin var í gangi, "minnst lélegasta lagið mun vinna".

Grín kvöldsins: "söngst þú með Eistunum?"

22.5.03

Upplifun
Áðan þá hringdi síminn og ég svaraði. Ég skildi ekki bofs í því hvað viðmælandi minn sagði. Hélt að þetta væri Nína Guðrún að segja eitthvað á bullmáli, því þetta var hástemmd stelpurödd. Neinei, þetta var ekki NG heldur voru þetta einhverjar stelpur að gera símaat! ÓGEÐSLEGA FYNDIÐ! Já mér fannst það því ég hef aldrei lent í dönsku símaati áður. Ég hélt að þetta væri ekki til lengur.

Í gær heyrði ég í 1. skipti á ævi minni í hundi gelta, inni í kirkju, á meðan organistinn spilaði útgöngumúsík. Sennilega í 1. og eina skipti á ævinni sem ég mun heyra það. Stórmerkilegt það!

Rektorinn í skólanum okkar Þyri sagði af sér í dag. Hann var í raun látinn segja af sér. Hann hafði víst voða slæmt minni og sagði eitt á einum stað og annað á þeim næsta og framkvæmdi svo það þriðja. Menn ekki sáttir við slíkt.

Ég tók próf í teori (tónfræði) í dag og gekk bara ágætlega. Einnig stóðst ég inntökupróf í teori-aðalfagslínuna.
Blóðgjöf
Ég gleymdi að segja frá gjöfinni sem við Þyri fengum bæði. Já, ég fékk líka ammælisgjöf, þó svo að ég eigi ekki afmæli fyrr en í lok júní.
Nína, Hilmar og Gunnar gáfu okkur nefnilega rúmföt sem heita því frábæra nafni "The Sleep of your Dreams" og bókina um hvað maður eigi að borða eftir því í hvaða blóðflokki maður er í. Nú verð ég bara að komast að því í hvaða flokki ég er í. Ætli mamma viti það? Ef svo er mamma, þá máttu alveg skrifa það í "Ískalt mat" :o)

20.5.03

"Þú ert bara Dani!"
Nú upplifum við Þyri okkur sem alvöru Dana. Við vorum nefnilega að fara með 1. tóma bjórkassann í endurvinnslu. Frá því maður kom hingað þá hefur maður undrast yfir þegar fólk er að kaupa heilan kassa af bjór, en nú erum við s.s. ein af þeim. Reyndar rann hann oní fleiri munna en okkar tveggja. Gestirnir í afmælinu þótti hann bara ágætur, sem betur fer, því annars hefðum við setið uppi með kassann ansi lengi.

Ég keypti mér um daginn grænan sumarhatt. Mér finnst hann flottur, en Þyri er ekki alveg eins sátt.

Í gær fékk ég námsstyrk frá Cirius. Júhúúúú!

18.5.03

Pie
Þetta er það fyndnasta sem ég hef séð á netinu. Smellið einnig á "archives", á síðunni sem kemur upp, og veljið ykkur fleiri "sketsa".

17.5.03

Veislan
Í gærkvöldi var afmælisveisla hérna hjá okkur. Fögnuðum 25 árunum hennar Þyri. Þau sem komu voru Selma og Róbert, Sigrún og Skúli, Arnlaug og Ragnar Páll. Svo voru Guðný og Hjörtur, en þau komu á fimtudaginn. Gærdagurinn fór mest í að undirbúa matinn og ég svaf á meðan....ég þurfti nefnilega að vakna svo snemma til að syngja í messu, en þau hin sváfu áfram. Ég átti þetta inni. En ég hafði nú samt smá samviskubit, því gestirnir og Þyri gerðu þetta allt saman. Góðir gestir!
Veislan gekk bara vel fyrir sig. Mikið talað, sungið og hlegið. Skødstrup gengið ákvað að taka síðasta vagn heim kl. 03. Við hin fórum þá aðeins í bæinn, en vegna þreytu og leiðinda í bænum þá fórum við fljótlega heim aftur.

Þyri fékk "frábæra" gjöf, að hennar mati, frá systur sinni og hennar fjölskyldu. 2 myndbandssnældur með öllum "Pride & Prejudice" þáttunum. Ég er HIMINLIFANDI! :o) Nú get ég skríkt af kátínu með Þyri þegar presturinn og Lizzy og þau öll drekka te og gera handavinnu. Þyri finnst þetta meira að segja svo skemmtilegt að hún situr nú í skrifuðum orðum með Guðnýju og Hirti að horfa á þetta. Gjöfin hitti í mark!

14.5.03

Spenningur
Nú er sko afmælisundirbúningurinn í hámarki. Það þarf að kaupa ýmislegt áður en við getum tekið á móti fólki (sem minnir mig á að það þarf líka að skúra til að geta boðið fólki inn) nema hvað að mér finnst roooooosalega leiðinlegt að fara í búðir. Sem betur fer er þetta bara ein búð. Ef mig vantar eitthvað þá fer ég inni í mesta lagi 2 búðir og "drep svo bráðina". Smá undantekningar eru plötubúðir og eldhúsáhaldabúðir. Ég elska að skoða flott hönnuð eldhúsáhöld. Þá vitið þið það. Minn akkelisarhæll :o) En ég held nú samt að þessi ferð í Føtex verði allt í lagi því Þyri er búin að skrifa mjög ítarlegan lista, þannig að nú er bara að skella sér í musteri djöfulsins og drepadrepadrepa.

13.5.03

Fúga
Úff! Um þessar mundir er ég að reyna að setja saman smá umfjöllun um æfingu sem ég gerði í fúgusmíðum í Tónó á sínum tíma. Umfjöllunin á að vera á dönsku að sjálfsögðu. Það eru 3 ár síðan ég gerði þessa fúgu. Sjitt! Ég er nefnilega að sækja um að fá tónfræði líka sem aðalfag. Klára þá á næsta ári tónsmíðarnar og, ef allt gengur upp, hef nám í tónfræðum.
Bezt að koma sér að verki!


12.5.03

Kosningar
Nú er mín kæra systir orðin háttvirtur varaþingmaður í Norðausturlandskjördæmi! FRÁBÆRT! Ég vona að hún fái tækifæri til þess að prófa stól á þingi því hún er hörkutól.

Annars fylgdist ég ekkert með kosningarbaráttunni og ég kaus heldur ekki, sem er náttúrulega skammarlegt, en ég hafði bara ekki áhuga. Lengra nær það ekki.

Í gær vorum við í "kosningarvöku" í Skødstrup. Grilluðum, drukkum hvítvín, spiluðum, sungum og gerðum allt annað en að fylgjast með kosningarsjónvarpinu (reyndar var Skúli mjög áhugasamur og var yfirleitt búinn að gera línu-og skífurit áður en tölvurnar í sjónvarpinu voru búnar að því). Það var mjög gaman hjá okkur. Vonum bara að fólk haldist í partýgírnum fram á föstudaginn því þá ætlum við að halda upp á 25 ára afmæli hennar Prumpulínu.

Nú er "H.Potter and the chamber of secrets" frá. Næsta er í sigtinu.

8.5.03

Ferð í kaupstaðinn
Við sköturnar fórum í bæjarferð í dag. Fór með hjólið mitt í viðgerð. Fórum svo á "Strøget" og VERZLUÐUM!!! Tvennar buxur á mig (sparis og buxur sem hægt er að renna skálmunum af við hné...sneðugt á interrailið) einn badminton spaði handa mér (sem heitir ekki "badmintonspade" á dönsku, heldur "ketcher") og ýmislegt annað smálegt. Þetta var virkilega árangurrík verzlunarferð, enda má ekki við öðru búast þegar ég tek mig til. Mér finnst nebbnilega leiðinlegt í búðum. Hvergi stólar og ég verð voða fljótt þreyttur á þessu öllu.

7.5.03

Morrk
Hvernig finnst ykkur það sem nafn á nýja gítarverkið mitt (7 gítarar og harmoníka, c.a. 8')? Morrk. Hver er ykkar upplifun á orðinu? Ef þið vitið hvort þetta orð þýði eitthvað ákveðið á einhverju máli þá endilega skiljið eftir skilaboð hér að neðan einnig ef þið hefið skoðun á þessu nafni.

Ég er ekki Kristur endurfæddur, sárin mín gróa nefnilega...gerðu hans það nokkuð???

5.5.03

Ég og Jesú
Það sem við mátarnir eigum nú sameiginlegt, fyrir utan mikla manngæsku, visku, hæfileika til að metta fjöldann (mér finnst gaman að elda), að eiga smið fyrir föður og Maríu sem móður, þá erum við báðir með sár í lófunum. Ég datt af hjóli í blíðunni í gær (sjá nánar hérna, þann 05-05-03) og bar fyrir mig lúkurnar. En nú er þetta allt í lagi því ég er kominn með spray plástur (það hef ég fram yfir Jesú ;o) í staðinn fyrir vondann venjulegan plástur sem má ekki blotna og vont er að taka af því hann límist aðeins á sárin.

Til að bæta aðeins við sárin og sálina þá var ég stunginn í handlegginn í morgun. Blóðprufa. En það er ekkert vont, bara gaman að sjá allt blóðið frussast í hylkið (læknirinn var ekki með svona sprautu, heldur dældi þessu beint í svona plastglas sem verður sent í rannsókn). Það á að kanna hvort ég sé með ofnæmi. Hvur veit. Mér finnst allavega ekki gaman að hafa kvef í 1.5 viku!

Í kvöld verður sýnt beint frá úrslitaleiknum í HM í snóker, á Eurosport. Júbbí! Snóker er besta sjónvarpsíþrótt sem til er. Lítill "völlur", ótrúleg innri spenna, ekki sefandi kliður frá áhangendum (best að sofna yfir enska boltanum t.d.) og algjörlega hasarlaus íþrótt (einvörðungu hægt að klekkja á mótstæðingnum í leiknum...reyndar er hægt að skylmast með kjuðunum en það gera menn ekki...ennþá).

3.5.03

Bernskuminningar
Þó svo titillinn á þessu bloggi hljómi eins og titill á leiðinlegu sönglagi sem Álftagerðisbræður gætu gert geysivinsælt (allavega í Skagafirði) þá er ekki svo. Onei. Ég var nefnilega að lesa á síðunni hennar "Ollu litlu skólausu"-Svalbaun-Zoega-systir fyrrv.sambýliskonu minnar (gamall og góður granni af Melunum og popplistakona með meiru. (Fyrir þá sem ekki vita hvar Melarnir eru þá er það svæði í Neskaupstað, Hlíðargatan aðallega, þar sem ég ólst upp. Þetta nafn er oftast nær ekki notað, en þegar karl faðir minn ólst upp þá var þetta svæði kallað "Melar" Hann ólst upp beint fyrir ofan húsið hennar Ollu Svalbaunar og það sem meira er, að móðir mín kær bjó stærsta hlutann af barnæsku og unglingsárum í sama húsi og karl faðir minn bjó í, bara innendanum)) um...um hvað? já ég las um söguna af pissudjúsnum. Hehehehehe...piss í Sinalco-flösku...heheheheh...já þá var gaman að lifa. Ég pissaði reyndar ekki í flöskuna, ég kom bara að Ingvari Konn & co. með flöskuna og þeir sögðust ætla að gefa nafna mínum Einari sopa. Hann "gleypti" við því.

En ég ætla að játa á mig hræðilega sök. Þessi sök hefur hvílt á mér síðan ég var 8 ára (eða svona c.a). Ég kveikti í Akurstúninu!!! Ég og aðrir guttar í götunni (meðal annar umræddur IngvarKonn) vorum að kveikja eld fyrir ofan smíðaverkstæðið hans Hjalla, svo henti einhver kveikjara í bálið. Svo sprakk hann og eldurinn breyddist út yfir eldstæðið. Fljótlega var allt Akurstúnið alelda...sáldrandi bálið...og splunkunýju trén sem gróðræktarfélagið var nýbúið að gróðursetja stiknuðu í eldhafinu. Ég eyddi næstu sumrum við að græða upp túnið fyrir ofan húsið heima. En sú vinna mun fljótlega verða grafin undir snjóflóðavarnargörðum sem á að byggja ofan við húsið okkar. Fúlt :o(

2.5.03

Stærð
Þar sem stærð þessarar síðu er farin að fara í taugarnar á mér, þá ætla ég að henda út nokkrum póstum frá síðasta ári innan skamms. Þannig að ef einhver skildi hafa þann furðulega áhuga á að vilja lesa þessa þvælu ALLA þá fær sá hinn sami c.a. 2 daga...það ætti að duga ;o)

1.5.03

Met
Áðan setti ég persónulegt met í snýtingum. Það kom svo mikið hor að ég varð að kíkja í spegil til að athuga hvort ég væri með innfallinn haus.

Annars lét ég hafa mig út í smá veðmál. Ég lofaði minni heittelskuðu að ég skildi lesa HarryPotter bækurnar ef hún myndi lesa Hringadróttinssögu. En ég kom sjálfum mér á óvart og henni og las fyrstu HarryPotter bókina. Var að klára hana. Hraðlestrarbók. Hún var mun betri en myndin. Mér fannst myndin alltof barnaleg, í raun báðar myndirnar, þó svo ég myndi ekki fara með barnið mitt á mynd númer tvö. Nú er bara að sjá hvort prinsessan standi við sinn hlut.
Tæknileg vandamál
Ég veit að síðan er svolítið lengi að hlaðast inn. Ég tel það vera vegna þess að ég hef ekki haft skjalasafnið (archives) virkt síðan ég byrjaði þetta rugl hérna í netheimum. Þ.a.l. er síðan ansi löng (stór). Ég veit ekki alveg hvernig ég á að losna við gömlu skrifin, en ég er byrjaður að vinna í því (eins og sjá má á vinstri hönd, fyrir ofan teljara).

Annars er ég ennþá með tárin í augun. Við sköturnar vorum að ljúka við að horfa á hina átakanlegu mynd "Crush". Það var ekki þurrt auga í stofunni, eins og Hilmar myndi segja ;o)

29.4.03

LJÓT SÍÐA!!!
Ég held að sumir ættu nú bara að líta í eigin barm, áður en þeir fara að básúna út að síðan mín sé ljót! Hann má nú eiga það að myndefnið er skrambi gott. En hann hefur ekki uppfært síðuna í laaaaaangaaaan tíma.
Prinsessur
Þær eru nauðsynlegar inn á hvert heimili og ég tel mig vera óskaplega heppinn með að hafa fundið hana PrumpulínuPrinsessu. Eða fann hún mig? Ég er allavega enginn prins, og átti bara gulan hest (úr plasti og á bláum hjólum). En Prumpulíus er ekki algalið nafn. Heldur ekki Gabríel.
Hver man eftir ævintýrinu um fólkið í Prumpulandi, sem var leiklesið í þáttunum Heimsendir?

Shlümpf!
Viðbrögð
Já, fólk hefur tekið vel við sér og kvittað af miklum móð. Takktakka!

Á sunnudaginn fórum við Eyvind Gulbrandsen, norskur strákur sem er einn af meðlimum í "tónskáldafjölskyldunni" hérna í Konsinu, á fund með Dokken02-skipuleggjendum. Dokken02 er einhverskonar fjöllistauppákoma, sem á að mynda brýr á milli listheimanna. Næsta Dokken á að vera í lok maí. Á fundinn mættu leikarar, tónlistarfólk, dansarar o.þ.h. lýður.
Við Eyvind höfum verið á kursus í DIEM í vetur hjá Wayne Siegel og erum að gera installation (innsetningu) í forriti sem heitir Max (þetta hefur kannski ekki mikið að segja fyrir þá sem ekki þekkja til, en upplýsingar samt ;o) Installationen á að ganga út á það að inni í myrkvuðu rými er hljóðnemi, sem á að vera baðaður í ljósgeisla (spotlight á ísl.???). Fólk á að segja eitthvað í hljóðnemann og út kemur eitthvað í líkingu við það sem fólk sagði, bara búið að meðhöndla það í þessu Max forriti. Við erum í raun að búa til hljóðfæri, sem fólk getur síðan "spilað" á, búið til "hljóðverk".
Þegar við mættum á þennan fund þá vissum við ekkert útá hvað þetta Dokken gekk. Það kom okkur ánægjulega á óvart að þarna ætti að vera eitthvað samstarf í gangi, því það er frekar einhæft að sitja bara inni með nótnapappír og láta svo hljóðfæraleikara spila.
Upp úr þessum fundi ákváðum við að reyna líka að setja saman smá band. Ætlum að bræða saman 3 tónskáld, sem kunna lítið á hljóðfæri, en hafa kannski annan (vonandi) hugsunarhátt en hljóðfæraleikarar og svo DJ. Út úr þessu ætti að koma eitthvað skemmtislegt...vonandi...
Ég er mjög spenntur yfir þessu. Loksins er maður að gera eitthvað í náinni samvinnu við aðra. "Spændende"...

Ég er kominn með meirihluta bragðskynsins aftur.

28.4.03

Til allra sem kíkja inn
Mér þætti voða vænt um að þið sem kíkið inn skrifið eitthvað í gestabókina. Ég hafði ekkert lítið fyrir að koma henni fyrir á þessa síðu ;o)
Vor
Nú er það langt liðið á vorið hérna að "hitameistararnir" (varmemesterene), eða húsverðirnir, eru farnir að keyra í hringi, á litlum traktor, um garðinn. Þeir eru að slá.

Ég er ennþá með kvef. Aðeins er farið að örla á bragðskyni. Að vera án bragðskyns er eins og að vera lifandi dauður...get ég ímyndað mér.

Þetta er fyndnasta stuttmynd, teiknimynd og tónlistarmyndband sem ég hef séð.
PolyTonalaty
Ég á mér ekkert líf. Ég er farinn að hljóma eins og stelpan í American Pie..."ones, in a bandcamp,..." , nema það hljómar "ég var í jarðarför, og....", hjá mér.
Aaaaaallavega, þá var ég í jarðarför um daginn. Frekar fjölmenn jarðarför. Hin látna var kona á miðjum aldri. Frekar grand útför. Prentaðuð bæklingur, með sálmunum og mynd af hinni látnu (N.B. tekin þegar hún var lifandi) og svo boð í erfisdrykkjuna. Drykkjan átti að fara fram á fínum veitingastað við höfnina. Og til að toppa þetta allt, þá var ég fenginn til þess að leiða söng við gröfina eftir moldun o.þ.h. Reyndar var ekki beðið sérstaklega um mig, en ég tók þetta að mér því þetta er vel launað.
Ég tók leigubíl upp í garð og beið svo eftir kistunni og fylgifiskum. Kistunni var svo ekið að gröfinni á einhverjum vagni og henni svo slakað niður í kaðli. Voðalega primitívt fannst mér. Svo var moldað og presturinn tilkynnti hvaða sálm ætti að syngja. Sem betur fer var þetta sálmur sem ég hafði sungið áður, þannig að ég þurfti ekki að lesa nótur, úr annarri bók, um leið. Ég stóð bara meðal allra hinna sem stóðu í sveig í kringum gröfina. Það voru um 30 manns þarna. Ég hóf upp mína miklu raust og hún fauk í öllu sínu veldi út í buskann. Það var rok! Enginn heyrði í mér, nema fólkið í meters radíus í kringum mig sem söng EKKI, og því var þessi síðasti sálmur sem sunginn var yfir blessaðri konunni, blessuð sé minning hennar, í svona c.a. 16 mismunandi tóntegundum (svona fyrir þá sem segja "já en það eru bara 12 tónar" þá voru líka kvarttónatóntegundir í loftinu ;o) Ég náttúrulega hélt mínu striki og söng sálminn í b-moll eins og ég hafði ákveðið með tónkvíslinni minni á leiðinni í leigubílnum.
Við skulum vona að konu greyið hafi ratað rétta leið, hvurt svo sem það er.

24.4.03

Hálsbólga
Ég er með króníska hálsbólgu, allavega fæ ég mjög títt hálsbólgu og kvef. Þetta er mjög pirrandi svo ekki sé meira sagt. Ef einhver lumar á einhverjum galdrabrögðum sem geta losað mig við hálsbólguna (annað en að hálshöggva mig) þá má sá hinn sami senda mér tölvupóst.

23.4.03

Það aldin út er sprungið
Í gær gerðist það. Trén urðu græn. Fólk fækkaði fötum vegna hitans. í gærkvöldi var 10 gráða hiti. Dejlige Danmark!
Páskarnir o.þ.h.
Á páskadag fórum við í hjólatúr. Fríður og mikill flokkur mætti hjá Arnlaugu og Ragnari Páli um 15.30 og svo var bara brunað upp í Skødstrup til Selmu og Róberts (þau komu ofan úr sveitinni til þess að hjóla með okkur uppeftir). Ferðin gekk vel fyrir utan að það sprakk á hjólinu hennar Selmu. Við guttarnir skiptumst þá bara á að reiða það á meðan Selma hljóp. Hún fór nú létt með það enda vanur langhlaupari.
Þegar í Skødstrup kom tók ilmurinn af kalkún, sem var að grillast af miklum móð í ofninum, á móti okkur. Við tróðum okkur í eldhúsið þeirra hjóna og gerðum það meðlæti sem uppá vantaði. Svo var sest að snæðingi og var það kröftugur snæðingur. Við stóðum öll á blístri. En einhvernveginn höfðu menn alveg pláss fyrir ávaxtasalat og ís....og tölum nú ekki um allan bjórinn.
Við spiluðum svo fram eftir kvöldi og nörtuðum í páskaeggin sem hjónin höfðu fengið frá Íslandi (þau eiga nú barn og eru með gest sem er nýkominn frá Íslandi). Nói er alltaf góður...þó svo að það sé til betra súkkulaði þá er Nói alltaf Nói.
Eftir frábært kvöld þá ætluðum við að hjóla heim, c.a. 15 km. Sumir höfðu fengið sér meiri bjór en aðrir (NB ég var ekki einn af þeim því ég þurfti að syngja morgunin eftir kl.10) og hittu því ekki alltaf á hjólastíginn. Þess má líka geta að þar sem að engin hús eru hérna í DK eru heldur ekki ljóstastaurar = KOLNIÐAMYRKUR! En við skiluðum okkur öll.

19.4.03

Huggulegheit
Í tilefni dagsins snæddum við sköturnar á LaPampa og fórum svo í bíltúr :o)

17.4.03

Loksins, loksins!
Ég hef alltaf velt því fyrir mér þegar ég sit í IcelandAir vél á leið heim eða út, hver ræður hvað er spilað. Þetta er nefnilega MÚSÍK DAUÐANS! Einhver ógeðsleg poppmúsík í hljómsveitarbúningi. En nú verður vonandi gerð bót á þessu! Melabandið hefur gert samning við þessa dela. Gott mál.
Reyndar finnst mér, þegar ég lít á síðuna hjá þessu bandi, þau hafa flott og metnaðarfullt program. T.d. að spila WarRequiem eftir Britten er bara flott! Hérna er ekkert svona flutt. Bara það sem selur. Danir eru ofurseldir rytmmískri músík...það er satt! Stærsti hluti tónlistarnáms hér í landi er rytmískt tónlistarnám. Það er ekkert að því að mennta sig í djassmúsík, en að mennta sig í rokkmúsík er bara bull! Algjör þverstæða! Sitja í 5 ár í háskólanámi að læra spila gítarsóló eða einhverja afrómúsík er rugl!
Þjóðhöfðingjar
Ég frétti í morgun, í messunni, að ég hefði getað komið kveðjunni frá pabba til Möggu. Hún var víst stödd ásamt einhverjum parti af fjölskyldu sinni að spóka sig í Mindeparken, sem er bakgarður þeirra sem gista í Marselisborg slot ("sumarhús" kóngafjölskyldunnar) en er samt RISASTÓR garður.
Páskahátíð
Karl faðir minn og MaggaDrottning eiga afmæli. Til lykke!

Á næstu dögum mun ég setja persónulegt met í að syngja í messum. Fullt fullt af messum. Á föstudaginn langa verður síðan flutt smá móttetta eftir mig. Gaman að þau nenni.

Þessa dagana er ég að klára gítarstykki. Hef verið að velta fyrir mér nafni á verkið. Hvernig finnst ykkur "Morrk"? Ef einhver veit hvað það þýðir á einhverju tungumáli endilega látið mig vita. Ég er að vonast til að þetta sé frumsamið orð ;o)
Annars var bróðir minn kær að segja mér að enska orðabókin (veit ekki hvaða) hefði nýlega tekið inn nokkur ný orð úr HarryPotter bókunum. Veit ekki hvaða orð það eru. En svo sagði hann mér líka að það væru fleiri ný orð í bókinni úr fyrrnefndum HarryPotter bókum en úr Hringadróttinssögu! Merkilegt!
14.4.03

Kynjamunur
Þetta er sagður vera munurinn. Dæmi hver fyrir sig.

13.4.03

Að hafa kynferðismök
Við sköturnar vorum um daginn að eta grautinn okkar snemma dags...hehemm...og höfðum einhvern garganda í útvarpinu á meðan. Celin Dijon (eða hvernig svo sem það er skrifað) hóf upp raust sína og söng um það að hún hefði keyrt í alla nótt til þess að komast til hans, farið inn í herbergið hans og haft kynferðismök með honum (og spyr svo reyndar sakleysislega hvor það hafi ekki verið í lagi!). Við fórum að pæla í öllum þessum lögum sem fjalla um að "make love to you". Eitthvað væri nú sagt ef nýja lagið með Írafár fjallaði umbúðalaust um kynferðismök. Það væri allavega gaman ef einhver textahöfundurinn myndi bridda upp á slíku. Reyndar hafa margir íslenskir textagerðarmenn sagt þetta undir rós (og allavega ekki grófara en með að segja "sofa hjá þér í nótt") , en við viljum fá óþverran beint í andlitið!
Flugvélar
Nei, ég ætla ekki að skrifa meira um flug flugvéla yfir húsið mitt á meðan ég pissa, heldur nýja lag þeirra NýDanskra. Herra Jón.is býður upp á 2 útgáfur af þessu lagi og mér finnst þessi vera svo langt um flottari en þessi.

11.4.03

Nördinn ég!
Ég er orðinn rosa tölvunörd! Mér tókst að gera svona hlekki, sem þið sjáið ykkur á vinstri hönd. Ég fékk sent nokkur template frá vinum og vandamönnum, og fann út hvað ætti að gera. En mér finnst þetta ekki nógu gott hjá mér. T.d. mætti "HinirHversdags" vera undirstrikað og svo mættu hlekkirnir vera með minna letri (held ég geti reddað því) og svo mættu þeir standa þéttar saman. Svo mætti einhver fræða mig um hvar maður kemst yfir lista með öllum þessum skrítnu stöfum (í,ó,ú,ý,ö o.s.fr.v.). Ég sá að maður þarf að gera "&eitthvaðnúmer;" til þess að fá broddstafi og annað, en ég bara veit ekki hver hefur hvaða númer. Gæti þetta verið ASCII kerfið???
Ætli þetta komi ekki bara með kalda vatninu...

10.4.03

Fjölmiðlar...
...eru það ógeðslegasta sem hægt er að hugsa sér...sumir allavega!
Ég skrifaði um það í gær að ég hefði sungið við útför á syni þessa fræga fótbolta gaurs. Nema hvað að í dag er mynd af honum á forsíðu B.T. og líka á Ekstra Bladet. Og á EkstraBladet er mynd af honum að bera kistuna úr líkbílnum! Þetta er bara ógeðsleg fréttamennska! Hvað kemur það þjóðinni við að hann hafi verið að missa nýfæddan son sinn? Ok, það er svo sem í lagi að skrifa smá grein um það, en að birta mynda af honum þar sem hann heldur á kistunni, einn síns liðs, út úr líkbílnum er algjörlega siðlaust. Mér er nokk sama um að einhverjir ljósmyndarar taki myndir af frægum konum sem eru berbrjósta að baða sig, eða einhverjum frægum að reykja sígarettu. En svona vinnubrögð ættu að vera bönnuð!

9.4.03

Útför
Í dag söng ég við útför á 22 daga gömlu barni. Erfið athöfn, svona miðað við að þetta er vinna. Kippi mér yfirleitt ekki upp við jarðarfarir, þeas þegar ég er að syngja. Maður setur sig ekkert inn í málin, hlustar ekki á ræðuna og horfi ekki á kistuna borna út. En það er annað þegar kistan er svona lítil. Þetta var víst sonur eins úr landsliði þeirra dana (þessi sköllótti, skapbráði Tøfting). Svo báru foreldrarnir og tvö eldri systkini kistuna út. Kirkjan var full af blómum. Hér tíðkast að leggja blómvendina á gólfið endilangt, eftir miðri kirkjunni. Blómaröðin náði frá dyrum og inn að kistu.

í dag snjóaði aðeins.

6.4.03

Stórborgin
Þá er ég kominn heim úr sollinum í København. Fór á mið. og kom á lau. (í gær). Ég hélt ég væri að fara á voða gagnlegt námskeið í hljóðdreifingu (dreifa hljóðum í 8 hátalara sem er stillt upp í kringum mann) en þetta var ekkert svo gagnlegt í raun. Fékk enga kennslu í forritum sem gera þetta, en aftur á móti þá lærði ég smá....SMÁ!... á mixer. Ég hef aldrei þurft að nota mixer hingað til.
En ljósi punkturinn í þessu er að það var voða gott að hitta góða vini. Hugi og Hanna alltaf jafn gestrisin og gaman að hitta Guðnýju.
Í þessari ferð minni tókst mér að sofna á ótrúlegustu stöðum. Ég lagði mig t.d. í kirkju sem stendur við Strikið. Var að bíða eftir Kantor Guðnýju og var voða þreyttur eitthvað. Svo tókst mér að sofna í stúdíóinu, á gólfinu, á meðan einhver var að mixa eitthvað rafverk.
Í Höfn þá hittum við Hugi Kjartan Ólafs, formann tónskáldasambands Íslands, og fyrrv. kennara okkar. Hann bauð okkur fínt út að borða og við fórum svo og fengum okkur nokkra drykki. Gaman að hitta hann. Fékk ýmsar fréttir að heiman úr tónlistarlífinu og líka að kynnast aðeins starfinu í kringum tónskáldafélagið. Nokkuð garanterað að við Hugi mætum í það þegar við erum hættir í námi ;o)
Námskeiðið endaði svo með tónleikum á lau. Sumir mixuðu sitt eigið verk og aðrir eftir einhverja aðra (þar á meðal ég þar sem ég á ekkert nýlegt rafverk). Ágætis tónleikar og allt gekk bara vel.
Mikið rosalega er maður orðinn mikill Árósabúi. Stórborgin er stór! Mikið af fólki og maður verður fljótt þreyttur. Þetta er náttúrulega allt öðruvísi þegar maður á heima þarna því þá kann maður á þetta allt. Getur forðast fjölfarnar leiðir og nýtt sér hjólið sitt. En ég væri nú samt alveg til í að búa í soldið stærri borg...hvur veit hvað gerist í framtíðinni?

1.4.03

Íþróttir
Ég er ekki mikill afreksmaður innan þess geira, þrátt fyrir mikla ástundun að mínu mati. Ég hef t.d. æft fótbolta síðan ég var 6 ára gamall, með smá hléi á milli 18-23, fór oft á skíði, spilaði hnit, snóker og borðtennis. En ég var í raun aldrei góður í neinu af þessu. Ekki græt ég það. Hafði aftur á móti mjög gaman af þessu öllu.
Þú ert kannski farin(n) að velta fyrir þér hvað ég er að meina með þessu? Jú sko, ég var að horfa á sjónvarpið mitt góða, þetta sem við fundum í geymslunni uppi í Skødstrup, þetta 21' Goldstar, eðal sjónvarp, og ég fann ekkert skemmtilegt að horfa á. Þar sem við erum nú komin með nýtt videotæki þá höfum við c.a. 40 stöðvar...og það var ekkert áhugavert á einni þeirra! Allavega, þá datt mér í hug að fylgjast aðeins með einhverjum sænskum íshokkí leik. Þvílík og önnur eins íþrótt! Þeir eru á SKAUTUM! Að eltast við einhvern ínku-pínku-ponsu-lítinn pökk, sem er ekki stærri en...tja...veit nú ekki alveg hvað...segjum bara túnfisksdós. Svo eru þeir með einhverjar geðveikar hlífar og hjálma sem gerir þeim erfitt fyrir með fínar hreyfingar, og nota kylfu til þess að ýta pökknum á undan sér. Mörkin er agnarsmá og völlurinn þéttskipaður af leikmönnum. Þetta er sennilega ERFIÐASTA íþrótt sem til er! Það er nú nógu erfitt að vera BARA á skautum! Ég hefði aldrei náð að fá að vera með á æfingu einu sinni, ef það hefði verið íshokkílið heima á Nesi.
"...ríf úr þér tennurnar..."
í gær fór ég til tannlæknis. Var búinn að bíða eftir tíma í c.a. mánuð. Ég fór til tannlæknis síðast í desember heima í Neskaupstað. Tannlæknirinn minn þar ætlaði að gera við 3 tennur, og vildi taka um 30.000 kr fyrir það! Ég held hann sé ekkert að okra, svona er þetta bara. Nema hvað að ég kannaði málið og fékk að vita að tannlæknar í DK eru víst aðeins ódýrari...en geta líka verið fúskarar! Þannig að ég ætlaði aðeins að bíða með þetta, lét gera við eina skemmd og fékk að halda röntgenmyndunum. Voða fínt.
Jæja. Ég fór s.s. til dansksksks... tannlæknis í gær. Var búinn að fá meðmæli með honum frá stelpu sem ég er að syngja með í kór. Það eina sem ég hafði sem grunnskilyrði var að hann (tannlæknirinn) yrði að vera kvennkyns. Ég hef mikla trú á hinu kyninu og tel að þær séu vandvirkari og blíðari en við karlmenn...svona í heildina! Viti menn! Ég hef aldrei farið til betri tannlæknis! Hún skoðaði myndirnar og spurði um endajaxlana oþh svo sagðist hún ekkert vilja gera! Júhú og jeje! Hún sagði að tannlæknar væru misjafnlega "agressívir" og þetta þýddi ekki að minn fyrrv. tannsi sé einhver asni. Hún sagðist vilja bíða og fá mig aftur í skoðun eftir 0.5 ár. Sagði að það væri engin ástæða til þess að draga upp borinn...og þið getið ekki ýmindað ykkur hvað mér leið vel við að heyra það. "Því geng ég um og gæti þess að..." hugsa vel um tennurnar!

Nú kom íslenski varmemesteren (húsvörðurinn) til þess að laga "lekandann" í klósettinu okkar. Það átti það til að halda alltaf áfram að sturta niður, fyllti ekki vatnskassan aftur. Það getur verið dýrt hérna í DK. Vatn er munaðarvara...kannski ekki eins og í Eþíópíu, en það er dýrara hér en á Íslandi. Þannig að nú ættum við að geta sofið rótt.

30.3.03

Vikan
Síðasta vika var tileinkuð Beethoven...blessuðum kallinum. Orðinn margs vísari um þann ágætis náunga og hans músík. Enduðum á að snæða saman í föstudaginn á Mamma's Pizza. Fékk mér í 1.skipti svona böku (kallast hálfmáni heima á Íslandi) með kjötsósu og spaghettí. Mjög gott, þótt ótrúlegt það hljómi!

Á þriðjudaginn var þá tók ég þátt í "steggjun" í 1.skipti á minni 24 að verða 25 ára ævi. Á dönsku (og sennilega þýzku) heitir þetta "polterabend". Ef einhver hefur skýringu á þessari nafngift, endilega sendið mér tölvupóst. En allavega þá var þetta bara ansi gaman. Við byrjuðum á að koma honum á óvart með því að dúkka upp í skóla einum þar sem hann ætlaði að spila hnit með bróður sínum. Þessi bróðir hans sá um að skipuleggja þetta allt. Nema hvað að þegar þeir ætluðu að fara að spila þá reyndist spaði bróður hans vera aðeins of götóttur. Svo þegar þeir voru á leið út þá stóðum við, c.a. 10 stk tónskáld (steggurinn er það líka, að nafni Jens Voigt) með skylmingarsverð og grímur (eins og notaðar eru í skylmingum) fyrir andlitunum. Hann náttúrulega vissi ekkert hverjir þetta voru og ætlaði bara að hjóla í burtu. Við náðum nú að fella hann af hjólinu og draga hann inn með okkur þar sem við tók 2 tíma skylmingarkennsla og mót. Allar græjur og læti. Mjög gaman. Mér gekk ekkert alltof vel, þrátt fyrir dygga þjónustu í hinum ýmsustu leynifélögum á yngri árum. En mér tókst nú samt að vinna einn leik.
Eftir skylmingarnar fórum við í Forum Hallen. Það er húsnæði og vinnuaðstaða móður Simons. Simon er tónskáld og mamma hans er myndlistarkona. Nóg pláss og skemmtilegt umhverfi. Hálf og heil listaverk og allt í drasli. Húsið er staðsett á vinnusvæði hér í borg. Þarna var búið að dekka borð þegar við komum og nóg til af veigum. Svo var bara stóru nautakjöti skellt á grill og ég sá um salat oþh. Við snæddum svo og smökkuðum ýmis rauðvín með. Smakkaðist allt vel.
Eftir snæðing máluðum við eitt stykki málverk svo handa steggnum. Við fengum hver okkar 2 liti og plast bleðil og svo máttu við velja úr ýmsum áhöldum til þess að mála með. Þetta var hin mesta skemmtan. Útkoman var náttúrulega litasúpa sem náði ekki að verða grá. Mun koma til með að prýða heimili Jens í komandi framtíð.

Í gær var svo árshátíð í skólanum. Skólinn fagnaði því með þeim hætti að hafa heilan dag fullan af músík í Musikhuset. Við sköturnar fórum á tónleika kl 19.30. Hlýddum á Mozart píanókonsert, Glazunov saxófónkonsert, forleikinn að Töfraflautunni og svo 9.sinfóníu Sjostakóvitsj. Svona "allt í lagi" tónleikar.

í dag söng ég í 2 messum og Sf. Hekla tapaði leik.24.3.03

Mr.B...ig
Síðan kl.09 til kl.16.30 í dag var ég innilokaður (þó með smá pásum og hádegismat inn á milli) í herbergi með 9 manns og var talað allan tímann um Ludwig van Beethoven og hlustað á nokkur síðustu verk hans (1.þátt 9.ómkviðunnar op.109, 1.þátt píanósónötu op.111 og 1.þátt strengjakvartetts op.135). Voða gaman...OG ÉG MEINA ÞAÐ!!! Þetta var mjög gaman. Í þetta munum við svo eyða næstu dögum í þessari viku.

19.3.03

Gufusoðinn minnismiði
Á sunnudaginn komandi mun þessi dagskrá hljóma í viðtækjum ykkar ef stillt er á gömlu gufuna:

19:00 Myrkir músíkdagar 2003
Frá tónleikum sönghópsins Hljómeykis, 9. febrúar sl. Síðari hluti. Trú mín er aðeins týra eftir Jón Nordal. Fimm vísur um nóttina eftir Stefán Arason. Jubilate Deo eftir Óliver Kentish. Bernharður Wilkinson stjórnar.

Fyrri hluti þessara tónleika verða fluttir deginum áður á saman tíma.

Annars var ég í fyrsta tónsmíðatímanum í dag hjá nýjum kennara. Hann ber nafnið Hans Geforse (gæti verið eitthvað neðanmittisdæmi ef framburður er réttru. Nema að hann er Svíi, greyið, þannig að þetta hljómar ekki eins illa á sænsku) Hann stóð sig bara ágætlega. Næs náungi og hefur ýmislegt að segja. Tíminn fór reyndar bara í að sína honum hvað ég hef verið að gera oþh. En lofar samt ekki svo slæmu, þó svo hann komi ekki alveg í stað Bent Sørensen. Svo er Karl Aage kominn til baka eftir að hafa legið á sjúkrahúsi á Ítalíu. Hann var keyrður niður þar sem hann var í hjólatúr með vinkonu sinni. Hann var næstum dauður, höfuðkúpubrotnaði mjög illa, en þetta reddaðist víst allt saman. Hann á bara ekki eftir að heyra neitt á öðru eyra og helmingur andlits hans er lamaður...en hann er samur við sig elsku kallinn. Frábær náungi!

Við sköturnar erum annars á leið í matarboð til Sigrúnar og Skúla í Skødstrup (eins gott að Stebbi Pálma lesi þetta ekki upphát...HA HA HA!..."The Specialist" með Sylvester Stallone og Sharone Stone...HA HA HA!...ehemm...:o) Veðrið er fallegt og kvöldið lofar góðu í góðra vina hóp. Gaman að lifa og vera til í sólskini og dönsku vori!

15.3.03

Ny graj!!!
Jíbbíííí!!!! Í dag fjárfesti ég í hátölurum, magnara og geislaspilara. Þetta er nú farið að hljóma hérna inni í stofu...þvílíkur lúxus. Ég er glaður maður!

11.3.03

Nútíðin er trunta...
"Árið 1809 höfðu þrír hinna tignustu auðkýfinga í Vín, Rudolf erkihertogi, lærisveinn Beethovens, Lobkowitz fursti og Kinsky fursti, skuldbundið sig til að greiða honum [Beethoven] 4.000 gyllini á ári, að því einu tilskildu, að hann væri búsettur í Austurríki. "Þar sem allir vita," sögðu þeir, "að enginn maður getur helgað sig listinni, nema létt sé af honum öllum áhyggjum um öflun lífsnauðsynja sinna, og að aðeins þá er honum mögulegt að skapa þau verk, sem eru listinni til sóma, höfum vér undirritaðir tekið þá ákvörðun að firra Ludwig van Beethoven þessum áhyggjum og ryðja þannig úr vegi þeim hörmulegu hindrunum, sem annars gætu látið anda hans daprast flugið."
(Romain Rolland: Ævisaga Beethovens, bls. 40-41. Menningar-og fræðslusamband Alþýðu. Reykjavík 1940)

Reyndar stóðu þeir ekki alveg við sinn hlut þegar líða tók á árin. Greiðslan féll fljótlega niður. En afhverju þekkir maður enga svona gaura! Verð að drífa mig að kynnast einhverjum í aðlinum hérna sem á eitthvað "slot" og fullt af aurum :o)

10.3.03

Helgin og annað
Bjór er góður. Páskabjórinn er góður. Tuborg páskabjórinn er góður. Ég smakkaði hann á föstudaginn með Þyri, ArnBjörgu á öldurhúsi. Þetta var frumflutningur á páskabjórnum í ár. Ég ætla að smakka hann aftur.

Á sunnudaginn spilaði ég fótbolta. Það var gaman. Ég var inná lengi og sparkaði mikið í boltann. Það var drulla á vellinum, ég varð drullugur. Allir urðu drullugir. Við unnum ekki, en töpuðum heldur ekki. 2-2. Ekki sanngjarnt. Einhver sparkaði í löppina á mér. Veit ekki hver. Það er enn vont. Ég haltra með bólgna löpp. Samt var gaman.

Við fórum á tónleika. Kórtónleika. Kórinn heitir Gaya. Það var gaman á tónleikum. Þau sungu Bach kórala (þó svo að kóralarnir séu í útrýmingarhættu) og bland við annað. T.d. Bragms mótettur, Reger, Schönberg og Wolf. Góður kór. Flott músík. Gott kvöld.

Eru gamlar danskar konur öðruvísi en annað fólk? Svar: Já. Þær raula á strætóstoppistöðum. Gefa öðrum farþegum skiptimiðann sinn. Sitja úti í garði allt sumarið og drekka kaffi og prjóna. Þær eiga kápu. Sumar eiga líka skrýtnar húfur. Fara í kirkju. Þær fara í Føtex og kaupa bjór (eitthvað sem aðrar gamlar konur gera ekki). Þær eru hin beztu skinn...sem og aðrar gamlar konur og minnkar.

6.3.03

Vinnubúðir
Á síðastliðinn mánu.- og þriðjudag voru vinnubúðir (workshop) hjá okkur í tónsmíðadeildinni. Við fengum 2 æfingar með sinfóníuhljómsveit borgarinnar og spiluðu þau verk eða verkadrög eftir okkur. Það gekk fínt. Mjög lærdómsríkt og skilaði miklu.

í gærkvöldi vorum við sköturnar bæði að "performera". Þyri að spila á tónleikum í skólanum (spilaði 2 prelúdíurogfúgur eftir Sjostakóvits) og ég að syngja með kórnum mínum í "Musikgudstjeneste". Heppnaðist þetta allt með ágætum. Sigrún og Skúli komu og hlustuðu á Þyri og kíktu svo aðeins við, á leiðinni heim, hingað upp í risið. Gaman það.

Annars er ógeðslega kalt.

3.3.03

Ýmislegt
Já það hefur sko ýmislegt gerst síðan ég reit hér síðast.
Um helgina var t.d. saumaklúbbsdjamm hjá Þyri og hinum með-limum klúbbsins. Voða gaman. Mér fannst þá alveg tilvalið að við karlmennirnir hittumst upp í Skødstrup. Ég bauð okkur í eldhúsið hjá Skúla, sem býr í Skødstrup ásamt Sigrúnu sem er líka í kvennaklúbbnum, til þess að elda mat handa okkur (þ.e.a.s. ég eldaði) og svo fórum við með matinn yfir götuna til Róberts, því hann var heima að "passa" (þó svo maður passi ekki sitt eigið barn!) Lindu sem var lasin og móðirin var að skemmta sér með hinum stelpunum. Við eyddum svo kvöldinu hjá Róberti við spjall og huggulegheit. Því meður gátum við ekki allir verið þarna því Arnbjörn greyið var lasinn.
Af saumaklúbbsdjamminu er það að frétta að það mun líða langur tími þar til þær vilja fara aftur í núdistasundtíma í Spanien. Þær héldu þegar þær löggðu (lögðu???) að stað að þetta væri bara svona venjulegur sundtími nema að boðið væri upp á hlaðborð við sundlaugina og að það væri einhversskonar ilmolía í sánunni o.þ.h. (man ekki hvað þessir tímar eru kallaðir). Nema hvað að þegar þær mættu þá var þeim sagt að í þetta skiptið væri nektartími líka, en þær mættu vera í sundfötum! Þær voru þær einu í á svæðinu sem nýttu sér þann rétt! Það fannst þeim ekkert sérstakt. Eldri menn með ístru að sína sig á sprellanum og eldri konur að viðra tepokana. Svo kom formaður núdistaklúbbsins og sagði að þetta væri í raun nektartími og benti þeim á að fara úr sunbolunum. Það tóku þær ekki í mál. Fóru upp úr og kíktu á hlaðborðið. Þótti ekki geðslegt...og höfðu sumar á orði að boðið hefði verið upp á "typpapasta" :-D En þær höfðu bara gaman að þessu eftir á og skemmtu sér svo vel það sem eftir lifði af kvöldinu...

Jæja, nú er kóræfing að byrja. "Ég hringi síðar!!!"

27.2.03

Tónsmíðakennarar
Allir mínir tónsmíðakennarar sem ég hef haft (alls 4 stykki), eru með ístru. Reyndar hefur hr. "Klaage" (KarlAageRassmusen) ekkert svo stóra...en samt alveg í holdum.

25.2.03

Smekkleysa
Kórstjórinn sem stýrir Universitetskórnum, sem ég gaula með, hefur yfir að ráða þessari týpísku dönsku smekkleysu. Hann kemur með músík alveg æfingu eftir æfingu sem er svo hallærisleg að það hálfa væri nóg...en svo þykir sama manni verkið mitt vera spennandi!!! GÚLP!!! :o) Hann kom allavega með á síðustu æfingu einhvern þvílíkan hallærisgang eftir Gustav Holst að einn bassinn, og er í rauninni kollegi minn, gekk út af æfingu í hléi...sem og ég, en ég þurfti að fara að syngja á annari æfingu, ekki hann! Svo kom hann með einhverja djassstandardavellu áðan eftir einhvern Lindberg...held ég eigi meira að segja verk eftir hann á diski...og það var bara slæmt. En það þýðir ekkert yfir því að fást. Maður lætur sig nú hafa það fyrir ferð til Englands! ;o)

21.2.03

Ny graj
Já það er komin ný græja á heimilið. Myndbandstæki af Prosonic gerðinni! Einstaklega nett (gat sett það í körfuna á hjólinu mínu og hjólað með það úr Bilka) og straumlínulaga...afhverju ætli það sé??? Sennilega svo það taki ekki eins mikið vatn á sig þegar ég fer með það í sund.
En allavega, þá er þessi nýja græja alveg að standa sig. Gamla græjan...blessuð sé minning hennar...gafst upp í gærkveldi. Við sömburnar ætluðum að hafa það huggulegt og horfa á forkeppni Evróvisjón, sem við fengum senda á spólu frá Björgu og Erni. Takk enn og aftur kæru hjón! Frábært þetta fólk. Nema hvað að tækið gamla og góða gafst nú endanlega upp. Snéri bara bandinu við (þeas flækti spóluna) og við þurftum að toga heilmikið "tape" út til þess að laga dæmið. Þar að auki slökkti tækið alltaf á sér þegar spólan var byrjuð að spólast. Gæti verið að því hafi ekki litist vel á efnisval okkar? En ég held að tækið hafi nú alveg staðið sína plikt. Þyri var ekki nema...tja...eitthvað á milli 6-8 ára þegar foreldrar hennar fengu tækið austur á Reyðarfirði. Við munum tilkynna um útför þess síðar...blóm og kransar afþakkaðir.
Ég fór því og keypti nýtt á spott prís! Ekki nema 799.-kr! Nú erum við loksins komin með fleiri stöðvar en 14 til þess að flakka á milli. Já sko málið er þannig að við fundum sjónvarpið okkar sem við notum. Við fundum það í hjólageymslunni uppi í Skødstrup (þar sem við bjuggum fyrst þegar við komum til DK). Tækið fúnkerar "udmærket" (ómerkt?) nema að það er ekki hægt að skipta um stöðvar á því. Takkinn er eitthvað mis... og þegar maður ýtir á hann þá bara skiptir tækið um stöðvar alveg villt og galið, þannig að við verðum að skipta um stöðvar með myndbandstækinu. Sjónvarpið er af gerðinni Goldstar og er öruggleg ekki stærra en 21', en ekki kvarta ég, finnst þetta hið ágætasta tæki. Fæ reyndar soldinn hausverk þegar ég horfi á það, verð að nota lonníetturnar.
En! Nýja myndbandstækið hefur upp á að bjóða hvorki meira né minna en 80 stöðva minni. Við höfum bara ekki svo margar stöðvar...svo eru 40 stöðvar alveg nóg.

Jæja. Þá er ég búinn að romsa upp úr mér þessu með tækið og get farið að segja það sem ég vildi segja.
Eftir að ég hafði látið myndbandstækið nýja leita uppi allar stöðvar sem við höfum rétt á að horfa á, þó svo við höfum í rauninni ekki rétt á að horfa á sjónvarp yfir höfuð...en það er allt önnur saga, þá fórum við að kanna svona hinar og þessar nýjar stöðvar. Gaman að sjá allar þessar Evrópsku stöðvar. Tyrkneskar, Spænskar, Tékk-eðaeitthvaðþessháttar-neskar og Þýzkar. Svo duttum við inn á mynd með Richard Gere á einhverri spænskri stöð. Persónan var stödd í réttarsal, greinilega í einhverju Asíulandi því hann var með höfuðtól til þess að heyra ensku útgáfuna á því hvað allir voru að segja...jú,svo voru allir í salnum, nema Richard, af Asísku bergi brotnir. En það skondna við þessa senu var að allar persónurnar töluðu spænsku! Já, margt er skrýtið í henni Evrópu.