22.7.02

fjallabaksleið syðri
í gær, sunnudag, fórum við sköturnar með gestum okkar kærum, á bimmanum fína sem þau leigja, í bíltúr upp um fjöll og firnindi....jújú hérna í danaveldi! við kíktum nefnilega á "hólana" sem eru hérna í kringum okkur og eru það hæstu punktar þessa flatlendis. þeir heita Ejer Bavnehøj, Yding Skovhøj og að sjálfsögðu Himmelbjerget. allir þessi hólar (fyrir utan Yding...) höfðu turna á toppnum, svona til að sjá aðeins betur yfir flötina. voða flott og merkilegt allt saman.
við kíktum líka á Horsens, Silkeborg og Skandeborg sem eru ósköp ágætir bæir.
þetta eru nú ekki langar veglengdir að rúlla þannig að við höfðum allveg tíma til að snæða nestið okkar og rölta um "fjöllin".
svo enduðum við daginn á mackies, sem er svona skyndibitamatsölustaður í miðbæ árósa. ágætis lummur og hamborgarar þar.

í dag er skýjað og skúrir annað slagið þannig að fólk ætlar að taka því rólega og skoða miðbæinn og sennilega einhverjar verzlanir með...gott að ég hef afsökun til að vera heima. ég á eftir að semja einn kafla í kórverkinu og er það fín afsökun.
bezt að hefjast handa!

19.7.02

...þann dag!...
nú er dagurinn runninn upp! dagurinn sem beðið hefur verið eftir! þessi eini sanni 19. júlí! dagurinn sem allaveganna 2 manneskjur hafa beðið eftir með meiri spenningi en eftir jólunum!
í dag koma nefnilega Björg og Örn og NÍNA GUÐRÚN!!! í heimsókn til okkar. Þyri er ekkert smá spennt. hún er búin að baka og er í skrifuðum orðum að taka til. ég veit ekki hvort hún hafi sofið nokkuð í nótt. það er ekkert lítið hlutverk að vera fyrirmynd og "frænkan".

en svona annars þá sá ég spider-man í gær. ég fór með skødstrup gæjunum (sem eru Róbert og Doddi). ágætis ræma þannig séð. hún allaveganna stóð undir væntingum. reyndar voru fyrstu "sveifla sér á húsum" atriðin ekki vel gerð. en þau voru mjög fín þegar hann var kominn í uniformið. svo voru náttúrulega svona vemmilegar senur inn á milli, en í hvaða amerískri bíómynd eru þær ekki. svo gat ég gubbað í síðustu senunni þegar hann sveiflaði sér upp á einhverja bygginguna og ameríski fáninn blakti við hún við hliðiná honum. ógeðslegt! en samt 4 hamborgararassar af fimm mögulegum.
17.7.02

árósar-vallekilda-árósar

mikið er gaman að hitta skemmtilegt og gott fólk. algjör sæla!

á föstudaginn síðastliðinn tókum við s.s ferjuna frá Árósum til Kalundborg. veðrið var mjög fínt, sól og hlýindi. ferðin var fín. líktist í raun ekkert skipsferð, mikið frekar að vera í flugvél. sæti með háu baki og engin hreyfing á skipinu. ég svaf mestan partinn af leiðinni, enda fórum við á fætur kl. 0400 til að dreifa Jyllands Posten. ferðin tók um 2.5 tíma (en svona fyrir ykkur sem viljið leika þennan leik eftir okkur, þeas að fara með ferjunni, þá er hægt að taka hraðbátinn og hann fer þetta á mun skemmri tíma).
þegar í land var komið þá römbuðum við á veg 23, sem liggur til københavn. við nenntum ekki að skoða kalundborg neitt frekar svo við löggðum bara í'ann. en við ætluðum ekki að hjóla til stórborgarinnar heldur ætluðum við að stefna á smábæ nokkurn á norður sjálandi sem kallast vallekilde. ég segi hjóla! það er svo auðvelt hérna í danaveldi að hjóla. skitnir 30 km eru ekki neitt fyrir hraust fólk á góðum hjólum!
í vallekilde er lýðháskóli og er hann einn af þeim elztu hér í landi dana. við þennan skóla kennir maður nokkur sem Oddur heitir og á hann bóndabýli rétt hjá skólanum. hann á einnig húslíki á frakklandi og eyðir hann sumarfríinu sínu þar við að gera upp "slotið". þannig að hann leigir út húsið sitt hérna í danaveldi. þessa stundina eru heiðurshjónin og höfðingjarnir Sigrún og Baldvin með húsið á leigu. hjá þeim í heimsókn er dóttir Sigrúnar, hún Vala og á hún sjarmörinn Ásgeir sem son. einnig er dóttir Baldvins, hún Guðrún, hjá þeim. þó svo að allt þetta fólk og einn til, hún Ragga sem er frænka Baldvins, yrðu í húsinu þessa helgina þá þótti það nú ekki tiltökumál að bæta okkur skötunum í hópinn. þetta kallar maður sko höfðingja!
en jæja, áfram með ferðasöguna.
við beygðum fljótlega út af leið 23, sem er "hraðbraut", inn á Marguerit-leið sem liggur norður sjáland. svona fyrir þá sem vita ekki hvað Marguerit-leið er þá er danaveldi sundurskorið af hinum ýmsu vegum en svo er búið að velja þá vegi sem eru með sérlega fallegu umhverfi og þeir kallaðir Marguerit-leið. stórsniðugt hjá þeim baunum!
fljótlega eftir að við beygðum þá komum við að stórum búgarði og við heyrðum drynjandi poppmúsík koma frá stóru sviði sem var staðsett á túninu fyrir framan húsin. þessi búgarður er nú landbúnaðarsafn og sennilega lítið um búskap. við sveigðum inn á túnið og hlýddum á ungt fólk syngja hin og þessi popplög, á meðan við mauluðum nestið okkar og sóluðum okkur. góð stund það.
eftir nesti og sólbað (og eftir að allar flugurnar sem festu sig á okkur á leiðinni voru farnar af hendleggjum og fótum) þá héldum við áfram.
lítið gerðist á leiðinni. sólin hélt bara áfram að skína, við héldum áfram að svitna og safna flugum á áðurnefnda líkamsparta.
ekki gerðist það að sjálfu sér að við fundum vallekilde. við höfðum nefnilega frekar gróft kort frá Hertz bílaleigunni og ekki voru allir smávegir merktir inná það. en þetta tókst að lokum.
þegar í vallekilde var komið fundum við háskólann og í þann mund er við hjóluðum framhjá honum kom Baldvin keyrandi úr búðinni og vísaði okkur veginn að húsinu.
húsið er í "L" þannig að í einum hlutanum er nýlega innréttað íbúðarhús og svo gripahús í hinum hlutanum. allt í kring eru svo tún og engi. ótrúlega fallegt. algjör draumur listamannsins sem vill hafa næði við iðju sína. það er ekkert lítið sem mig langar til að kaupa þetta hús, það er nefnilega til sölu!!!
næstu dögum var svo eytt í að borða góðan mat, framreiddan af húsráðendum af mikilli list, sippa, húlla, "frisbí", hnit, borða meira, fara á ströndina og busla í sjónum (eftir að Völu og Guðrúnu hafði tekist að draga alla með sér í sjóinn), liggja í sólbaði, hreinskrifa nýja verkið, rabba saman langt fram á kvöld, skoða vallekilde og lýðháskólann. ekki má gleyma að lýsa honum.
til þess að komast inn í skólann þarftu ekki að hafa neitt sérstakt próf. það er frekar mikil hefð fyrir þessum skólum hér í danaveldi. fólk fer í þennan skóla til að t.d. hvíla sig á öðru námi, eða bara til að prófa eitthvað nýtt. ýmis námskeið eru í gangi á sumrin t.d. vefnaður, leirlist, listasaga o.fl. gæti verið gaman að fara á námskeið þarna yfir sumartímann. fallegt umhverfi og fallegur skóli. ég held að skólinn sé frá 1870 (1874 ef ég man rétt...sem er ekki líklegt) og er varla hægt að lýsa honum. ég sendi bara myndir til þeirra sem áhuga hafa, svona þegar þær koma úr framköllun.
við kíktum líka á kirkjuna sem Sigrún æfir sig í og leysir af í. Hún er GÖMUL. mig minnir að hún sé frá 1100 (ég vona að einhver leiðrétti mig fari ég með rangt mál!) og er voða týpísk, sæt, dönsk kirkja. Sigrún spilaði fyrir okkur á orgelið, sem er ekki nema c.a. 5-8 radda, en hljómar fallega.
við löggðum svo í'ann heim kl 1600 á sunnudaginn. við vorum nú mun skemur að hjóla til kalundborg en frá því vindurinn var okkur hagstæður og við ekki þreytt eftir blaðahlaupin. við nýttum því þann tíma sem við höfðum aukreitis til að skoða kalundborg aðeins. eins og flestar borgir hérna þá hefur kalundborg svona "Strik" í miðbænum. við hjóluðum eftir því (já það er löglegt því þetta er ekki göngugata) og fórum upp að kirkjunni.
við ákváðum að snæða kvöldmatinn í kalundborg, þar sem að allar búðir væru lokaðar þegar heim til ósa, kennda við á, kæmum.
aftur var siglingin góð og ekkert bjátaði á.

þessi helgi var alveg yndisleg í alla staði. við munum seint gleyma henni og þá aðallega vegna þess hve góðir gestgjafar og þau eru, Sigrún og Baldvin. eins og ég segi, gaman að hitta svona skemmtilegt og gott fólk. algjör sæla!

16.7.02

...
hvað það væri gott
að hlaupa um, berrassaður, niðri á strönd
í staðinn fyrir að sitja undir risinu, í stuttbuxum einum fata,
og svitna.

15.7.02

hæhó
þessa dagana er ég rosalega upptekinn við að hreinskrifa nýja verkið (en á nú samt eftir að semja "veturinn") þannig að ég skrifa lítið. ég mun því síðar meir stikla á stóru yfir það helsta. svo mun ferðasaga helgarinnar einnig líta dagsins ljós síðar.
en svona til að kæta lund enn frekar kíkið þá á þennan fulla djazzara :o)

12.7.02

"brandari" gærdagsins...
.:hvað ertu að gera um helgina?
.:ég er að fara til Sjálands.
.:núnú, að gera hvað?
.:Sjá land!

góða helgi! ;o)

11.7.02

ég biðst...
...forláts. ég bara hafði ekki tíma í gær til að skrifa smá neddu.
ástæðan er sú að við sköturnar hlussuðumst niður í form og fitness til að fara í intro tíma í pump (sama og bodypump heima á fróni). nú eru kroppar okkar vel út þandir eftir allt þetta pump. þetta eru svona æfingar með lóð á stöng. svo þarf náttúrulega að klína einhverri viðurstyggilegri músík inn í þetta. ég skil það ekki. það er ekki eins og nokkur maður reyni, eða geti, gert æfingar í takt við músíkina. þetta er svona týpísk "búmbúm" músík, sem er í flestum tilfellum illa gerð "cover" lög (gömul lög í "nýjum" búningi, nema hvað í dag hafa fáir popptónlistarmenn hugarflug til að sníða nýjan búning á lögin. nota frekar þann gamla og skíta hann út!!!)

manni er nú bara hætt að standa á sama. núna í morgun þegar ég var að drekka morgunkaffið og hlusta á útvarpið var verið að segja frá hvernig þrumuveðrið hafði farið með Jótland. slatti af húsum sem brunnu, eftir að eldingu sló niður í þau, og einn gaukurinn fékk í sig eldingu þegar hann stóð niður á bryggju með regnhlífina sína. hann slapp lifandi.

á morgun er stefnan tekin á sjáland (...sjálandinu góða!) og ætlum við í heimsókn til vinkonu okkar sem er þar stödd í heimsókn hjá mömmu sinni og fósturpabba. þau búa núna yfir sumartímann í bóndabæ sem einhver kunningi þeirra á og þar er nóg pláss. það er bara vonandi að veðrið leiki við okkur eins og undanfarið. við ætlum nefnilega að taka ferju héðan frá árósum til kalundborg og þaðan ætlum við svo að hjóla c.a. 40 km að bóndabænum. þannig að ég endurtek, það er eins gott að veðrið haldist gott!

þannig að við verðum ekki heima um helgina og aungvin nedda rituð. en þið fáið samt ítarlega ferðasögu þegar við komum heim (nákvæmar tölur yfir uppköst á ferjunni, hversu margar flugur við gleyptum á meðan við hjóluðum, hvernig við villtumst og hvernig það reddaðist og síðast en ekki síst hversu frábært veður það var! ;o)

9.7.02

brunnin brjóst og rassar!
þetta veður er nú alveg klikk! 30 stiga hiti og smá gola. við lágum sko í 2 tíma, sofandi,í grasagarðinum í dag. og við erum vel steikt!
fyrir rest gátum við ekki meir og fórum niður í bæ og fengum okkur ís. sukkerstokken ísinn klikkar ekki....með 2 bragðtegundum af kúluís, svo kemur soft ice (þessi venjulegi úr vél), þarnæst er einhverskonar "guffi" klínt á (er eins og innvolsið í negrakossunum), sletta af sultu og svo eitt stykki negrakoss (flødebolle)...ummmm...en svo er hægt að gera enn betur og fá sér århus vaffel!!! þá eru sko 3 kúlur og svo restin eins...til að torga því þarftu í raun að vera svangur.

við dóluðum okkur svo um bæjinn og höfðum það bara notalegt. settumst undir kirkjuvegg, dómkirkjuvegg...sem er rosalega hár, og lásum Harry Potter og Kristnihald undir Jökli (dómkirkjan er aðeins flottari en þessi sem Jón Prímus negldi fyrir, en við höfum ekki jafn flott útsýni!).

svo þýddi ekki annað en að grilla, úr því að veðrið lék svona við okkur. í þetta skiptið fór nú aðeins betri matur á grillið, kjúklíngabringur og grænmeti. smakkaðist bara anzi hreint ágætlega.
það er óskaplega næs að geta setið svona úti og snætt kvöldmatinn. maður fílar sig bara eins og dani. ég man að í minni heimasveit voru menn eitthvað klikk ef þeir sáust borða úti, allavegana höfðu menn orð á því ef einhver settist út í hádeginu og snæddi!

svo til að kóróna þetta allt er komið þrumuveður og rigning...en ennþá 20 stiga hiti. það er endalaust hægt að koma okkur íslendingunum á óvart!

í dag þá kláraðist annar kaflinn í nýja verkinu, þannig að það eru 2 eftir, vetrar-og vornótt. ætli þetta blessist nú ekki bara?
brjóst og berir rassar...
...í grasagarðinum okkar. já, nú er sko sumar! milli 25-30 stiga hiti og við ætlum að flatmaga í botanisk have í allan dag. erum reyndar búin að fara niður í "kons" að vinna, þannig að við erum búin að friða samviskuna svolítið.
bezt að skella smá sólarvörn á skallan og skella sér svo út. sjáumst niðr'í garði!

8.7.02

pylsur eru frá helvíti...
og ég mun aldrei, ég segi og meina ALDREI, eta slíkan kost aftur!
í dag var nefnilega hlýtt, en engin sól að ráði. við sköturnar ákváðum að fagna blíðunni og grilla okkur pylsur. núna er ég með í maganum! ég er asni! ég veit að pylsur fara illa í mallakútinn minn og flestra í minni fjöldskyldu. jæja, maður verður bara að harka þetta af sér, en svona til að lina þjáningar mína þá sýp ég á einum ísköldum Ceres...mmm...alltaf góður!

um daginn var ég að semja verk fyrir harmoníku. spilarinn á að segja sögu, mr. noisy(hr. hávær), og spila um leið. í sögunni hnerrar hr. hávær og það er hljóðritað "AAAATIIIIISCHOUUU!!!" á ensku. á íslandi hefði verið ritað "atsjú". vegna þessa mismunar þá fór ég að spá í þessum muni á milli landa með svona lagað. hver kannast ekki við "crash","gúlp", "gisp","gelt" og fleira í þeim dúr. ég man ekkert í augnablikinu, en það er slatti af svona orðum sem passar ekki við það sem heyrist. jú...ég get t.d. nenft "zzz" en það á að tákna að maður sé sofandi!!! hvenær heyrist svona hljóð þegar maður sefur??? ég get ekki sagt annað en að "þetta er stórfurðulegur kaupfélagsstjóri"!

jæja, nú er ég þreyttu, því dagurinn er orðinn 17 tímar hjá mér, og ég ætla að fara í háttinn. svona er að vakna kl. 0400 til að bera út :o)7.7.02

sunnudagar eru ágætir til hjólatúra.
danir hjóla mikið. þeim finnst gaman að hjóla. það er auðvelt að hjóla í danmörku...nema í Árósum!
alla mína ævi, eða allavega síðan ég vissi að það væru til fleiri lönd en Ísland og að maður kæmist ekki til þeirra með því að fara "meðfram fjallinu", þá hef ég lifað í þeirri trú að í danmörku væri s.s. svo auðvelt að hjóla vegna þess að þar eru aungvar brekkur. svo þegar ég flyst til þessa ágæta lands þá er raunin önnur, allavegana á svæðinu umhverfis mig. árósar eru nefnilega kallaðir "dönsku alparnir". vitiði afhverju? vegna þess að hér er smá hæð sem gengur upp af höfninni, og hún leynir töluvert á sér. en við sköturnar látum þetta ekki á okkur fá og hjólum oneftir og uppeftir eins og að drekka vatn...einn íslendingurinn sem er með mér í fótbolta sagði meira að segja um daginn "heyrðu! ég sá kærustuna þína í dag. hún var að hjóla UPP götuna mína" (sem er Ny Munkegade, svo er til Gammel Munkegade og það hlýtur að vera til bara Munkegade!) þessi gata ef nefnilega frekar brött og löng og til þess að komast heim til okkar úr bænum þarf að hjóla upp hana. þessi ágæti íslendingur sagðist aldrei hafa lagt í að hjóla UPP þessa götu.

en til að grobba sig aðeins meira þá hjóluðum við í dag svona c.a. 20 km! við hjóluðum nefnilega sem leið lá niður að strönd. til þess að fara að þessari strönd, sem er stærri en flestar aðrar í nágrenni árós, þá þarf að hjóla að Friheden og svo beygja þar niður að "ægissíðunni" (ótrúlega lík íslensku ægissíðunni í reykjavík) og hjóla framhjá marselisborg, sem er sumarbústaður möggu og co., og svo bara ansi lengi þar eftir inni í skógi.

allsstaðar voru danir að hafa það huggulegt ("hygge sig"). gamlar kellur með staf í annari hendi og sígarettuna í hinni að staulast með vinkonum sínum, ung pör að viðra börnin sín og jafnvel einhvern kjölturakka með, miðaldra hjónin í eins jogginggöllum að fá sér heilsubótagöngu (eftir ótæpilegt rauðvínssull og svínakjöt kvöldið áður, get ég ímyndað mér) og svo bara fólk eins og við sköturnar...ungt,glæsilegt og á framtíðina fyrir sér! ;o)
fullt af fólki var á ströndinni að borða ís eða pylsur og liggja í leti. sumir voru með nestispakka og kaffisopa og allir virtust njóta þess að vera til.

eftir þennan dag, sem NB var ekkert sérstaklega hlýr, er ég að pæla hvort ég hafi nokkurn tímann upplifað svona margt fólk að hafa það huggulegt og rólegt úti í náttúrunni. máské að ég hafi séð annað eins á skíðum í oddskarði, en er ekki viss. reyndar er hægt að segja að danir eru fleiri. hér í århus amt búa fleiri heldur en á Íslandi...en mér er sama.

þannig að endilega flykkjist nú með fjöldskylduna út í næstu náttúru (gæri verið garðurinn ykkar, skrúðgarður, eða hvað sem er) og hafið það notalegt. en hvað er ég að rausa...flestir sem gætu nokkurntímann komið til með að lesa þetta eru náttúruunnendur og blómabörn.... en það er sama, njótið þess allavegana að vera til!!! :-)
mikið er gaman að sjá svona fallegar myndir (skoðið model B200... svona elsku á ég ;).
Lifi Hamöndin!

6.7.02

eins og þið sjáið þá hef ég ekki nennt að læra meira í HTML kóðun. td þá eru aungvir tenglar á aðrar síður hér til hliðar né neitt um mig eða annað. ég veit ekki hvort ég eigi að nenna að læra þetta mál...aldrei að vita nema andinn komi yfir mig!

dagurinn í dag er búinn að vera ansi öflugur. til að byrja með þá var ég ræstur með þessum orðum "hey, klukkan er að verða 10!!!" og við áttum þvottatíma frá klukkan 9-11. ég stökk niður með þvottinn ( því ég er sá morgunglaði í sambandi okkar skatnanna :) í nýja IKEA pokanum okkar. sem betur fer var enginn búinn að taka vélarnar frá okkur.
eftir heilmikil þvottalæti þá drifum við okkur í "gymmið". rosalega er maður mikill aumingi!!! að taka sitthvort 10 kílóa lóðið og gera svona brjóstvöðvaæfingar (liggja á bekk og teygja hendleggina upp, láta svo handleggina síga til sitthvorrar hliðar og upp aftur) fór alveg með mig. ég gat varla skrifað nótur áðan!!
eftir sprikl komum við heim hungruð eins og úlfar. gleyptum í okkur kostinn. mmmm...það er svo gott að borða.
svo kláraði ég fyrsta hlutann að nýja verkinu. og ekki nema 3 eftir...fyrir mánaðarmót...tja það reddast!

í dag kom út sorgartilkynning. hinir sívinsælu smaladrengir eru hættir...í bili, bara spurning hversu langt bil það verður. við skulum því minnast þeirra með einnar mínútu þögn...........
júbbbííííí!!!! nú er allt í himnalagi. gleðigleðigleði....gleði líf mitt er....etc

5.7.02

jæja, loksins kom hann. dagurinn þurri!
í gær var matarboð hjá genginu í Skødstrup. þau grilluðu í svoleiðis mígandi rigningu að það hálfa hefði verið hellingur! en þetta tókst nú allt saman. ætli danskinum hafi ekki þótt við vera hlægileg?
við sköturnar komum með salatið, sálfræðingarnir Helga og Doddi með eftirréttinn, sem var ýmiskonar grillaðir ávextir með súkkulaði...namminamm....og aðalrétturinn kom frá klúbbhöldurunum Selmu og Róbert, en það var kalkúnn (þurrt þetta talkúm ;) á spjóti með grænmeti. það má svo ekki gleyma forréttinum en það var einhverskonar tómatsalat með beikoni og pasta ofl. allt rann þetta ljúflega niður með hinum ýmsu tegundum af hvítvínum. voðalega sumarlegt allt saman...nema veðrið!

þannig að ástæðan fyrir engri neddu í gær er tímaleysi.

mér var bent á einn svona neddugerðarmann í gær og hún þýðir allt yfir á íslensku. til að mynda þá kallar hún hringina síkátu, Cheerios, KÁTÍNUR!!! þetta er mesti brilli sem ég hef heyrt í langan tíma....fyrir utan lagið Mr. Bojangle með Robbie Williams!

en já, í dag er ss þurrt og veðrið í morgun var voðalega fallegt.

framlengið því deginum góða!

p.s. ég minni á að þann 18.des.verður myndin "Tveggja turna tal" frumsýnd (hringadróttinssaga part II)...ég hlakka svo til!!!

3.7.02

...og það rignir og rignir! huggulegt að búa í íbúð sem er undir súð þessa dagana. eintómur sumarbústaðafílíngur!

það er komið orð yfir bloggið. vinkona okkar skötuhjúanna kom með þá tillögu að kalla þetta að NEDDA (að blogga) hún setti saman "NET"+"SKRUDDA"= NEDDA :) þannig að nú mun ég í framtíðinni NEDDA á fullu og birta ykkur nýjustu NEDDU hvers dags. ef þið hafið aðrar hugmyndir, endilega látið þær flakka til mín.

út næsta árið munu bollur tvær (þó stendur önnur aðallega undir nafni) hlussast niður í FORM OG FITNESS, sem er gegnt "folkeregistrerinu", og reyna að sprikla og puða af sér allt aukaspek. við skötuhjúin erum nefnilega komin með árskort í áðurnefndri líkamsræktarstöð. einnig getum við farið í sundlaugina "SPANIEN" sem er gegnt "rutebilestadion" og baðað okkur fyrir sama kort. reyndar er laugin ísköld og enginn er heitipotturinn að ráði, en afturámóti er ágætis eimbað og sauna á staðnum. þannig að nú þýðir ekkert að væla!

heilbrigð sál í hraustum líkama...hver veit?

2.7.02

þá er kominn þriðjudagur og hann er oftast tileinkaður tónheyrn í mínu lífi. undanfarin 4 ár hef ég verið í tónheyrn á þri. og alltaf með magapínuna á mánudagskvöldum að æfa mig í fjölhryn, hinum ýmsu tegundum af 3 hljómum með viðbættum sjöundum af öllum gerðum og stærðum, atonal laglínum og margtmargt fleira. en....ahhh...það er sumarfrí og ég er EKKI í tónheyrn í dag :) húrra fyrir sumrinu.

í dag er aðeins skárra veður en hefur verið undanfarið. allaveganna í morgun kl 0500 að staðartíma (Árósar í danaveldi) náði sólin að rífa sig fram úr rúminu með okkur blaðberunum og skína aðeins á andlit okkar sem aðeins hafa tapað lit undanfarið. það er himneskt að vakna svona snemma og sjá allt vera að fara í gang. fólk að fara í vinnuna, strætó að fara sinn fyrsta rúnt, ilmurinn af gróðrinum er ferskur eftir næturregnið og einn og einn djammari á leiðinni heim í háttinn. magnaðir þessi morgnar. en svo er það besta eftir. koma heim, teygja aðeins á skönkunum eftir hlaup upp og niðu tröppurnar, fara í bað og leggjast svo aftur upp í rúm.....himneskt!

ég var að spyrja félaga minn sem er mikið inni í tölvubransanum, köllum hann bara MacÍslands, hvað "blogg" þýðir. hann segir að það sé ekkert gott orð yfir þetta. en merking orðsins er "að skrifa-dagbók-og-birta-hana-á-netinu"...ekki gott orð það...hann kom með orð eins og "netbók", sem er anzi ágætt orð, eða "netdagbók" sem er líka ágætt. en íslendingurinn ég er ekki alveg sáttur við þetta. við eigum jú nýyrði eins og "tölva", "þyrla", "vasareiknir", "peysa" (var það ekki annars bara eitthvað mis....?) ofl ofl.
ég er meira að segja það mikill íslendingu að ég sætti mig ekki við danska sálmatexta. maður les textann og hann rímar þannig. kem með dæmi úr agnus dei þeirra dana : "...miskundelig, forbarm du dig." þarna ríma "...lig" og "dig". nema hvað þeir segja: "...lig"=lí og "dig"= dæj!!!! þegar ég spurði söngfélaga minn afhverju þetta væri svona þá var svarið: " tja...það er svo erfitt að láta þetta ríma". jájá...á íslendingurinn ég að trúa slíkri vitleysu! annar hver maður á íslandi getur (og hefur) hnoðað saman einhverri vitleysu í einhverjum ströngum ljóðhætti og það rímar allt saman, innrím,útrím,framrím og ég veit ekki hvað. svo er meira að segja hægt að lesa sum ljóðin afturábak og þá ríma þau líka (en hefur álíka mikið innihald eins og þegar maður les það eðlilega). en jæja...danskurinn er ágætur. þeir eru fyndnir og búa til gott smurbrauð!1.7.02

LOKSIN,LOKSINS!!!
áðan þá kláraði ég smá grunn að verkinu sem ég er með í smíðum þessa dagana (tja...öllu heldur þennan mánuðinn). nú er bara að hraða sér áfram með verkið! ég á að skila þessu í byrjun ágúst og það er meira en mikið eftir :-/
ótrúlegt hvað tilviljanir eru tilviljunarkenndar....ég var að spá í að semja nokkra madrigala með texta um árstíðir. gera einn um vorið og annan um veturinn og þriðja um haustið og sleppa síðan sumrinu þar sem að það kemur ekki allsstaðar í heiminum , t.d. á Íslandinu góða.
nú jæja, ég þurfti því að finna texta. og viti menn! ég datt niðrá svo brilliant ljóð eftir Sigurð Óskar Pálsson, Borgfirðing með fleiru, í hans fyrstu og einu ljóðabók. 5 ljóð um nóttina og engin sumarnótt....húrra fyrir ljóðagerðarmanninum...húrra....húrra...nú ét ég þig amma mús....
allaveganna, þá vil ég þakka mömmu og pabba fyrir að senda mér bókina hans Sigurðar hingað út! takkatakka
þá er ég byrjaður að "blogga"! er þetta sniðugt? er þetta bara fyrir athyglissjúka unglinga og síbernsk partýdýr (frá Síberíu...eða er það sýbernsk???) ? eftir nokkrar vangaveltur þá hef ég komist að þeirri niðurstöðu að þetta er sniðugt þegar maður býr í útlöndum og fólk tímir ekki að hringja eða nennir ekki, eða kann ekki, að skrifa tölvupóst.
þannig að, þeir sem áhuga hafa: værsgo!, aðrir: eyðið tímanum í annað!