15.5.06


Kaffihús
Síðan ég var krakki hef ég drukkið kaffi.
Þetta byrjaði allt saman með því að ég fékk stundum að dýfa sykurmola ofan í kaffið hjá Gyðu Marvins, þegar hún kom í spjall og kaffi til mömmu. Mér fannst þetta voðalega gott, og þykir reyndar ennþá.
Heima hjá mér er kaffið bara lagað í venjulegri kaffivél, nema þegar ein kaffivélin gaf upp öndina, því þá var lagað kaffi upp á gamla mátann. Það er þegar maður sýður vatn í katli og hellir því yfir kaffið (sem er í filter og í svona kaffitrekt, og það lekur beint ofan í brúsann).
Ég var iðinn við að laga kaffi heima hjá mér, og reyndar var það oft þannig að ég fór fyrstur á fætur og lagaði kaffi og tók til morgunmatinn.
Mér fannst lyktin af kaffinu best, og þykir enn. Að opna bláan Braga og hella kaffinu niður í kaffidósina var algjör nautn.
Þegar ég fluttist til Reykjavíkur og bjó á Háaleitisbrautinni þá var kaffivél þar líka, en hana nennti ég sjaldan að nota. Mér fannst einhvernveginn svo asnalegt að laga mér einn bolla í svona stórri vél, þannig að ég fékk mér pressukönnu.
Með þeim kaupum opnuðust augu mín því pressukannan þurfti jú grófmalaðra kaffi.
Sérvöruverslanir hafa mér alltaf þótt skemmtilegar, þannig að ég keypti þá mitt kaffi í kaffibúð (sennilega Te og Kaffi í Austurveri, á leiðinni heim frá Hamrahlíðinni).
En það sem að pressukönnukaffið hefur fram yfir kaffi lagað í venjulegri kaffivél er að vatnið er nægilega heitt þegar maður bruggar kaffið í pressukönnu. það á að vera á milli ca. 94-98 gráður þegar það blandast saman við kaffið, en má ekki vera sjóðandi. Þetta fær allt það bragð úr kaffinu sem gerir kaffi að góðum drykk.
En fljótlega fór ég að finna fyrir því að mér þótti ekkert sérlega gott að drekka svona mikið kaffi. Ég vildi frekar fá mér einn lítinn sterkan bolla, þannig að ég keypti mér svona litla könnu til að laga espressó í. Lærði samt með tímanum að þetta heitir mokka kaffi kanna. Espresso kemur bara úr vél sem hefur nægilega mikinn þrýsting til að laga alvöru espresso. Kem að því síðar.
Það tók mig langan tíma að búa til viðunandi kaffi í þessari könnu. Maður þarf að pressa kaffið örlítið ofan í hana og setja rétt magn af vatni og svo það mikilvægasta að hafa réttan hita á hellunni þegar maður lagar kaffið. Mikil stúdía sem mér þótti afar skemmtileg.
Mokkakaffið krefst þess að maður noti fínmalað kaffi. Ég sá að það var praktískara að kaupa bara heilar baunir og svo litla rafmagnskvörn, svo ég gæti bara malað þann gróf/fínleika sem ég ég vildi fá. Það leiddi af sér að ég notaði alltaf nýmalað kaffi, sem þýðir að kaffið varð mun betra en áður.
Í dag á ég 3 mokkakönnur í mismunandi stærðum. Svo er náttúrulega nauðsynlegt að eiga mjólkurkönnu sem maður getur hitað og strokkað mjólkina í.
Í dag á ég litla maskínu sem heitir Rancillio Silvia, og hún er endalaus uppspretta góðs kaffis.

En, afhverju er ég að þreyta ykkur með þessu?
Jú, mig langar að stofna lítið kaffihús. Þann draum hef ég haft lengi í maganum, en ég held jafnvel að ég láti til skara skríða innan fárra ára.
Þetta verður kaffihús með eðalkaffi, þar sem ég mun jafnvel sjálfur brenna baunirnar. Ef húsakynnin eru rétt staðsett þá er hef ég einnig áhuga á að geta boðið upp á mat, en afar einfaldan kaffihúsamatseðil. Ef um mat er að ræða þarf ég líka að geta boðið upp á vín og að sjálfsögðu góðan bjór. Helst innfluttann (belgískan og tékkneskan bjór).
Líst ykkur ekki vel á þetta?
Ef þið hafið gott nafn á huggulega kaffihúsið mitt (sem er NB ennþá draumur og verður ekki alveg að veruleika í bráð) þá skuluð þið endilega koma með það hérna í "ískalt mat".

Engin ummæli: